Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

spurningar til séra Arnar Bárðar

Jesús ögraði samtíð sinni og kom stöðugt á óvart. Hann er merkasta persóna mannkynssögunnar og sú eina sem vert er að hafa að altækri fyrirmynd.

Nú er í tísku að sparka í þessa fyrirmynd. Þeim fjölgar sem sækja í eftirlíkingar af kirkjulegum athöfnum í nafni trúleysis eða heiðindóms. Þeim fjölgar sem vanvirða heitin sem unnin voru við skírnina þegar lífsvegurinn var markaður. Ísland veður [sic] ekki betra samfélag á heiðnum, guðlausum grunni. Tilraun um slíkt þjóðskipulag var reynd í tvígang á liðinni öld í Evrópu og líka í Asíu en með skelfilegum árangri. 

Þessi orð sagði séra Örn Bárður Jónsson, prestur í Neskirkju, í predikun í morgun 19. janúar. Orð hans vekja upp ýmsar spurningar.

Hvaða athafnir er Örn Bárður að tala um sem "eftirlíkingar" kirkjulegra athafna? Er hann að tala um borgaralegar fermingar á vegum félagsins Siðmennt? Borgaralegar hjónavígslur? Nafngjafarveislur?

Hefur Örn Bárður verður viðstaddur borgaralega fermingu? Veit hann um hvað hann er að tala??

Borgarleg ferming líkist frekar hátíðlegri útskriftarathöfn eftir námskeið, en þeirri trúarjátningu sem ferming Þjóðkirkjunnar er. 

Telur Örn Bárður að þeir unglingar sem vilja ekki, eða eru ekki reiðubúin, að fermast kirkjulega séu að svíkja heit? Unnu börnin sjálf skírnarheit þegar þau voru ómálga ausin vatni? Er þessi skoðun sérans hans prívatskoðun, eða er þetta svona samkvæmt guðfræði Þjóðkirkjunnar?

Við skulum ekki fara út í nasisma-tenginguna. 

Það er leitt að sjá Örn Bárð vera með svona skæting í aðrar lífsskoðanir en þá sem hann predikar. 

ornbardur

Séra Örn Bárður Jónsson. Ríkiskirkjuprestinn skortir umburðarlyndi fyrir öðrum lífsskoðunum. 

 


Brynjar Níelsson ruglar

Brynjar Níelsson Alþingismaður og hæstaréttarlögmaður hefur tekið að sér að verja kristni gegn meintum árásum og ágangi trúlausra. Brynjari ferst þetta ekki vel úr hendi.

Brynjar nálgast málið eins og verjandi í dómstól. Hann tekur alfarið stöðu með sjónarmiðum öðru megin í rökræðum kirkjusinna og veraldlega þenkjandi fólks og neitar að horfa hlutlægt á málið. Það finnst mér slæmt fyrir þingmann, enda efast ég um að allir kjósendur hans taki undir íhaldssöm og illa rökstudd sjónarmið hans.

Kryfjum seinasta útspil Brynjars sem má lesa hér: Svar Til Sigurðar Hólm.

Í hvert sinn sem ég tjái mig um kristna trú og kristindóm rjúka æðstuprestar Vantrúar og Siðmenntar til og senda mér bréf. 

Ætli það sé ekki af því að í hvert sem Brynjar tjáir sig um kristna trú ræðst á aðrar lífsskoðanir og fer með rangfærslur og bull.

Það virðast margir halda að í trúfrelsi felist að stjórnvöld verði að gæta jafnræðis milli trúarbragða ...

Já það halda það margir! Stjórnvöld í trúfrjálsu ríki eiga ekki að hampa einni trú umfram aðra eða einhver einn Guð sé sannur og réttur, eða einhver ein tiltekin trú á æðri máttarvöld.

... og því megi ekki fræða nemendur um kristin fræði umfram önnur trúarfræði eða lífsskoðanir. 

eeehh ... Nei. Ég þekki engan sem er á móti því að fræða börn um trúarbrögð og "kristin fræði", ekki heldur kannast ég við að neinn hafi viljað sérstakan kvóta á fræðslu um kristindóm, að hún megi alls ekki vera meiri en um einhver önnur trúarbrögð. En margir telja að gera verði greinarmun á fræðslu og trúboði. 

Það er því ekkert að því að skólabörn séu frædd um kristni og kristindóm í kirkjum og skólum.  Í mínum huga er það beinlínis skylda ...

Af hverju vill Brynjar að börn séu frædd um kristni í kirkjum? Er það ekki pínu eins og að fræða börn um stjórnmál á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Valhöll?

Hvað skyldi Sigurðar kalla kennslu um helstu stjórnmálastefnur og lífskoðanir? Trúboð eða innrætingu?

Því verður Sigurður að svara, en það hlýtur að fara eftir því hver fræðir, hvort sá hafi hlutlausa afstöðu til kennsluefnisins. Hvað myndi Brynjar kalla kennslu um samkennd og mannkærleik í sósíaldemókratískri hugmyndafæði, kennda af Össuri Skarphéðinssyni á skrifstofu Samfylkingarinnar?

Hér á landi er ríkisvaldið ekki að skipta sér af trúarskoðunum fólks.

JÚ! A.m.k. einn þingmaður, Brynjar Níelsson, vill að öll börn fái sérstaka fræðslu um tiltekna trúarskoðun í kirkjum landsins!

Ríkisvaldið bannar ekki skoðanir og boðar ekki skoðanir öðruvísi en fram kemur í lögum.

Brynjari finnst í lagi að boða tiltekna skoðun, ef lögin segja það. Verðum við nú ekki að geta rökstutt að eitthvað sé í eðli sínu rétt, sanngjarnt og skynsamt, án þess bara að segja "lögin segja það". Hljómar pínu eins og "pabbi segir það"

Ég hef aldrei sagt að forsenda fyrir æðruleysi, kærleika og fyrirgefningu sé kristin trú

En þú hefur sagt að ef kristin trú hverfur sé hætt við að þessi gildi glatist. Ertu þá ekki að segja að þessi siðferðisgildi séu háð kristinni trú?

Sorrý, Brynjar. Ef þú værir að verja mig í Hæstarétti vona ég að þú rökstyðji mál þitt betur en þetta. 

 

 

 


Þingmaður berst gegn veraldlegu samfélagi

Í Tyrklandi er íslam ríkjandi trú. Ríkisvaldið á þó að heita veraldlegt, en það var tyrkneski leiðtoginn mikli, Mústafa Kemal Atatürk sem barðist fyrir því að af-trúvæða samfélagið í Tyrklandi, nútímavæða landið og gera ríkisvaldið alfarið veraldlegt. 

Um þetta hafa þó aldrei allir verið á eitt sáttir og hefur nú hið síðari ár Tyrkland sveiflast aðeins í hina áttina undir stjórn leiðtoga sem er hallari undir trú og trúarlegt kennivald en fyrirrennarar hans.

Það er forvitnilegt fyrir okkur sem höfum áhuga á því að ræða að hversu miklu leyti samfélagið eigi að byggja á trú, trúarlegum gildum og trúarlegu kennivaldi, að heyra umræðu um sama mál í öðru samfélagi.

Þessari bloggsíðu hefur borist þýðing á forvitnilegu erindi sem íhaldssamur þingmaður flutti í mosku í úthverfi Ankara á Nýársdag. Hann heldur því fram að siferðisviðmið muni breytast ef trúin missir vægi og að slík óheillaþróun stuðli að upplausn.

Gefum Bairam Haahr Níl Zahin orðið:

mullah 

Það gerist ekkert að sjálfu sér í mannlegu samfélagi. Það er eitthvað sem mótar menningu, listsköpun, vísindin og lögin. Í okkar samfélagi er það ekki síst trú á Guð og múslimska arfleifð. Það er að mínu áliti mikil gæfa að múslimsk trú hefur verið ráðandi þáttur í lífi okkar. 

Með aukinni upplýsingatækni má segja að hver og einn einstaklingur sé orðinn fjölmiðill. Það er auðvelt að skjóta úr launsátri og rægja aðra með nútímatækni. Trúin, moskan og múslimsk gildi eru ekki undanskilin rægingarherferð af þessu tagi. Í raun hafa margir beitt sér af alefli með þessi vopn í hendi gegn múslimskri trú og moskunni. Þeir halda því fram að trúin sé blekking og hindurvitni og í raun ekkert annað en leifar af frumstæðri hugsun sem þekkingin afhjúpi.

Þetta er ekkert nýtt og hægt er að nefna marga heimspekinga og hugsuði, eins og þeir kölluðu sig, sem síðustu 200 árin eða svo hafa spáð því, að dagar múslimskrar trúar væru taldir. Þessar framtíðarspár reyndust ekki réttar. Það er nefnilega svo, eins og Síg Ürb Orhan Ei Narzin múlla, sagði í útvarpserindi  fyrir rúmlega 30 árum, að þeir menn, sem af miklum móði veitast að því, sem þeir telja blekkingar, eru sjálfir hrapallega blekktir.

Því er enn haldið fram að þekking og vísindi fari ekki saman við trú og íslam. Þetta séu andstæður og trúin sé því ekkert annað en hindurvitni og hleypidómar sem samræmist ekki heilbrigðri skynsemi.  Vísindin og þekkingin hafi sannað að sköpunarsagan í upphafsriti Kóransins sé markleysa.

Það er fráleitt að reyna að gera sköpunarsöguna að markleysu, og þar með Kóraninn allan, með því að leggja á hana raunvísindalegan mælikvarða. 

Höfum við einhverja ástæðu til að ætla að múslimsk trú og múslimsk gildi verði ekki áfram ráðandi þáttur í lífi okkar? Hefur eitthvað breyst og þurfum við að hafa einhverjar áhyggjur? Já, það hefur ýmislegt breyst og við þurfum að hafa áhyggjur

Þótt frá upplýsingaröld hafi verið til menn sem hafa talið trú blekkingu, sem vísindin og þekkingin myndu eyða, eru það nýmæli, a.m.k. hér á landi, að stofnuð hafi verið félög, beinlínis í þeim tilgangi að berjast gegn Íslam. Með nýrri upplýsingatækni er auðveldara að láta til sín taka og hafa meðlimir í þessum félögum látið einskis ófreistað í ófrægingarherferð sinni gegn múslimskri trú, moskunni og múslimskum gildum. En það sorglega er, sem full ástæða er til að hafa áhyggjur af, að málflutningur þessi hefur fengið að hluta til undirtektir hjá stjórnvöldum.

Í grunnskólalögum segir meðal annars að starfshættir grunnskóla skuli mótast af  múslímskri arfleifð tyrkneskrar menningar. Í aðalnámskrá er lögð sérstök áhersla á menningarlæsi. Þrátt fyrir þessi lagafyrirmæli og markmið í námskrá hefur verið þrengt verulega að kennslu í múslímskum fræðum í skólum og moskunni alfarið úthýst úr skólum landsins.

Trú er ekki bara trúin á Guð, skapara himins og jarðar. Hún er ekki síst menning, siðferðisviðmið og samfélagsmótandi gildi og hefðir. Múslimsk trú og múslimsk gildi hafa gert okkur að þeirri þjóð, sem við erum, og mótað samfélag okkar, sem við erum stolt af.

Þegar stjórnvöld leitast við að aftrúvæða þjóðina er stuðlað að upplausn samfélagsins og afmenningu þess. Það gerist ekki á einni nóttu en þegar heilu kynslóðirnar fá takmarkaða fræðslu í íslam og finna jafnvel helst fyrir neikvæðni í garð íslamstrúar mun það ekki eingöngu hafa áhrif á menningu og takmarka menningarlæsi, heldur munu siðferðisviðmið breytast og múslimsk gildi þynnast út. Æðruleysið, kærleikurinn og fyrirgefningin eru okkur nefnilega ekki í öllum tilvikum í blóð borin.

Múslimskt fólk getur ekki horft sljóum augum á þessa hættulegu þróun í samfélaginu. Það þarf að spyrna við fótum og taka slaginn með æðruleysið og kærleikann að vopni. Það er eins í þessu og öllu öðru, við tryggjum ekki eftirá. Ég efast ekki um að allt það ágæta fólk, sem lætur sig íslam og moskuna varða, og allir þeir foreldrar og uppalendur, sem vilja ala börn sín upp í múslimskri trú og gildum, vilja leggja sitt af mörkum til að sporna við þeirri óheillaþróun sem ég lýsti hér áðan. 

 

Lengri útgáfu af erindinu má finna HÉR 


Blóðugar rifnar Biblíur

Róttækir múslimar á Íslandi mótmæltu kirkjubyggingum á Íslandi með því að dreifa blóðugum kindahausum á kirkjulóð og blóðugum sundurrifnum biblíum.

Nei.

Þetta hefur ekki komið fram í fréttum. Það hefur enginn ásakað múslima um þetta, eða neitt annað heldur. Ég man ekki eftir einni einustu frétt um að múslimar hér á landi hafi neitt abbast uppá önnur trúarbrögð eða aðra Íslendinga yfirleitt.

Hins vegar hafa innfæddir fordómafullir íslenskir aumingjar sýnt fádæma dónaskap og lítisvirðingu gagnvart íslenskum múslimum. Hafi þeir skömm fyrir, Óskar Bjarnason og vitorðsmenn hans. 


Meinlegur misskilningur séra Sigríðar

Séra Sigríður Guðmarsdóttir mætti í útvarpsviðtal í gærmorgun til að gagnrýna hugmynd sem vakið hefur athygli, um að stofna nýtt trúfélag, Læknavísindakirkjuna, í þeim tilgangi að láta sóknargjöld sem félagið fengi frá ríkinu renna til heilbrigðisþjónustu.

Sigríður fann margt að þessari hugmynd og sagði hana bæði neyðarlega og einfeldningslega. Henni tókst að færa rök fyrir því að hugmyndin gerði lítið úr lífsskoðunarfélaginu Siðmennt.

Ég held að séra Sigríður hafi viljandi verið að misskilja hugmyndina. Hugmyndin er ekki komin fram vegna þess að fólk finni hjá sér einlæga þörf á nýju trúfélagi. Hugmyndin er komin fram vegna þess að margt fólk finnur ekki þörf fyrir trúfélög, fyrir sig og sitt líf. Þess vegna finnst fólki ekki að ríkið eigi að fjármagna trúfélög eins og hverja aðra almannaþjónustu með því að greiða sóknargjöld til trúfélaga án þess að innheimta slík gjöld sérstaklega frá þeim sem skráðir eru í félögin. 

Fólki finnst asnalegt og það fyrirkomulag að ríkisjóður greiði sóknargjöld til allra mögulegra trúfélaga, beint úr ríkissjóði eins og hver önnur ríkisútgjöld. (Ríkið innheimtir ekki sérstaklega þessi gjöld frá þeim sem eru í trúfélögum gagnstætt við það sem oft er haldið fram heldur er þetta fé tekið af almennum tekjum ríkissjóðs.) 

Trúfélög eru í eðli sínu ekki almannaþjónusta sem hið opinbera, ríki og sveitarfélög, eiga að fjármagna . Í trúfrjálsu landi á ríkisvaldið ekki að leitast við að styrkja trúfélög, sem eru grundvölluð á trúarkenningum sem alls ekki allir fallast á. Það breytir engu þó svo lögin heimili nú lífsskoðunarfélögum að fá sambærilega viðurkenningu og skráð trúfélög. Það breytir heldur engu þó svo margt í starf trúfélaga geti talist gott og þarft starf. Margs konar félög vinna gott starf, hjálparsveitir, góðgerðafélög, kórar og íþróttafélög, án þess að ríkið haldi þeim uppi og greiði félagsgjöld fyrir meðlimi félaganna beint úr ríkissjóði.  Svona félög, líkt og trúfélög og lífsskoðunarfélög, eru frjáls félagasamtök sem ríkið á ekki að fjármagna.

Hugmyndin um Læknavísindakirkjuna snýst um það að fólk vill ekki að almennir skattar sem við greiðum í ríkissjóð fari í að greiða sóknargjöld til Þjóðkirkjunnar, Votta Jehóva, Krossins, o.fl. trúfélaga, eins og gert er í dag.

Ef ríkið og ríkisstofnunin Þjóðkirkjan ætla að fela sig á bakvið þann útúrsnúning að ríkið innheimti sóknargjöld, þá eiga þeir sem ekki eru í trúfélagi að fá að sleppa því að greiða þann "skatt" - eða - fá að ráðstafa þessu "innheimta" gjaldi til hvaða (trú)félags sem er, jafnvel trúfélags sem er stofnað utan um trú og traust á læknavísindum og heilbrigðisþjónustu.

sera


Systur, mæður og dætur

Erna og Hulda eru systur. Erna á tvö börn. Hulda gat ekki eignast börn án aðstoðar. Hún fékk gjafaegg frá systur sinni. Eggið var frjóvgað í glasafrjóvgun með sæðisfrumum frá Hrafni, manni Huldu. Hulda er nú ólétt af sínu fyrsta barni. Hún og Hrafn eru að vonum himinlifandi enda búin að reyna lengi að eignast barn og nú gat systir hennar hjálpað þeim að láta drauminn rætast. Líffræðilega verður barnið barn Ernu og Hrafns, en auðvitað er barnið hennar Huldu. Þær systur ræddu þetta vel og vandlega og fengu ráðgjöf fagfólks.

 sisters2

Erna og Hulda 

 

Sigrún og Ragnheiður eru systur. Vegna sjúkdóms getur Sigrún ekki gengið með barn, en hún er með heilbrigðar eggfrumur. Ragnheiður bauðst til að gerast staðgöngumóðir fyrir systur sína. Egg úr Sigrúnu var frjóvgað með sæði Stefáns, manns Sigrúnar. Nú bíða Stefán og Sigrún spennt eftir sínu fyrsta barni. En það er Ragnheiður sem gengu með barnið.

 systur1

Sigrún og Ragnheiður 

 

Hulda og Ragnheiður eru sem sagt báðar óléttar. í hvorugu tilfelli er barnið orðið til úr þeirra eigin kynfrumu. Hulda gengur með barn sem er getið úr eggfrumu systur sinnar og Ragnheiður gengur líka með barn sem er getið úr eggfrumu systur sinnar. Bæði ófæddu börnin eru jafnskyld mæðrunum sem ganga með þau.

Barn Huldu er að sjálfsögðu barn hennar, þó hún hafi fengið kynfrumu annars staðar frá. Hún naut bara aðstoðar systur sinnar til að barnið yrði til.

En hvað með barnið sem Ragnheiður gengur með? Auðvitað verður það barn Sigrúnar og Stefáns, eftir að það fæðist. Um það eru þau öll sammála, Ragnheiður, Sigrún og Stefán. En þangað til? Getur það verið hluti af líkama Ragnheiðar, en samt ekki hennar barn? 

Ég vil meina að við getum ekki litið svo á að ófætt barn í móðurkviði sé ekki barn móðurinnar sem gengur með það. Uppruni kynfrumna breytir því ekki. 

Dæmin hér að ofan sýna að við lítum öðruvísi á kringumstæður, jafnvel þó svo tæknilega, þ.e. líffræðilega séu dæmin alveg eins. 

Er það þá huglægt hver sé móðir barns, þegar móðir gengur með barn sem er ekki úr hennar eigin kynfrumu?

Ég spurði konu, í umræðu um málefnið, hvort hún gæti hugsað sér að ganga með barn fyrir aðra konu, ef hún sjálf hefði getið barnið með manni sínum. Hún kvað það af og frá, fannst það satt að segja fráleit spurning. Henni fannst algjör grundvallarmunur á því að ganga með eigið barn og að ganga með annarrar konu barn.

Orðrétt sagði viðmælandi minn:

 

Snýst ekki umræðan um að egg og sæði sem staðgöngumóðirin á ekkert í séu sett saman í glasi og komið fyrir í legi hennar og hún afhendi síðan kynforeldrum barnið aftur þegar hún er búin að baka það? [...]
það er engin ástæða til að flækja umræðuna með einhverjum hugleyðingum um hvort maður geti pantað eina frænku frá systur sinni til að eiga sjálf eða hvað það var... það er ekki staðgöngumæðrun, það er ættleiðing... og MILLJÓN sinnum flóknara...

 

Er þessi munur fyrir hendi? Er hann jafn mikill og við höldum? Er hann milljón-faldur??

Fyrstu staðgöngumæður lögðu til eigin egg, voru bæði egggjafar og staðgöngumæður. Svo líffræðilega voru þær að ganga með eigið barn. (Þetta er kallað traditional surrogacy, en er miklu óalgengara nú en hinsegin staðganga, gestational surrogacy.) Og eins og lýst er í dæmunum hér að ofan, þá er barn sem staðgöngumóðir gengur með úr annarrar konu eggi tæknilega (líffræðilega) alveg eins og barn sem kona gengur með, sem þegið hefur gjafaegg. Í fyrra tilvikinu líta margir svo á að móðirin, sú sem gengur með barnið sé alls ekki móðir þess, heldur "bara" staðgöngumóðir, sem sé eitthvað allt annað.

Ég er sjálfur mjög hugsi yfir þessu sjónarmiði, sem ég held reyndar að sé algengt og þessi ofangreindi viðmælandi sem ég vitna í er alls ekki ein um að halda á lofti, að það sé grundvallarmunur á því að búa til og ganga með eigið barn, og að "hýsa" annarra manna barn. Ég vona að dæmin hér að ofan sýni fólki að munurinn er kannski fyrst og fremst í huganum á okkur.

Ég sé t.d. alls ekki að það sé neinn grundvallarmunur á staðgöngu-meðgöngu og því þegar kona sem verður óviljandi ólétt ákveður að halda meðgöngu áfram til að gefa frá sér barnið til ættleiðingar. Í báðum tilvikum veit konan, á seinni helming meðgöngunnar að hún muni ekki ala barnið eftir fæðingu. Barnið verður ekki hennar. En ég held því fram að það sé hennar á meðgöngunni, óháð uppruna eggfrumunnar. (þetta sjónarmið útilokar ekki staðgöngumeðgöngur og er raunar lagt til grundvallar t.d. í Bretlandi, þar sem staðgöngumóðirin getur ekki endanlega gefið frá sér barnið, lagalega, fyrr en eftir fæðingu. Hún er að gefa frá sér sitt barn.)

Ég held að við eigum að velta þessum málum vel fyrir okkur í umræðu um fyrirbærið staðgöngumæðrun.

newborn

Hennar eigið barn? 


Með annars barn í móðurkviði??

Nokkur umræða hefur nú aftur sprottið upp um staðgöngumæðrun. Greinar um málið hafa birst á vefritunum knuz.is og skodun.is:

Að leigja leg eins og geymsluskápa

Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni

Að gefa líffæri eins og varahluti - hugleiðing um staðgöngumæðrun

Mér finnst þó besta greinin um málið sem ég hef rekist á á íslensku þessi hér, sem er næstum þriggja ára, eftir Ástríði Stefánsdóttur:

Álitamál tengd staðgöngumæðrun

Eins og ég skrifaði um í síðasta pistli hefur mér fundist rökstuðningur gegn staðgöngumæðrun á köflum ósannfærandi. En þetta er engu að síður vandasamt og viðkvæmt umfjöllunarefni, sem ég er ekki reiðubúinn að styðja skilyrðislaust.

Í Bretlandi hefur staðgöngumæðrun verið leyfð. Bretar hafa þó gætt vel að einu mikilvægu skilyrði sem ekki hefur verið nægilega rætt hér: Staðgöngumóðirin hefur full yfirráð yfir sínum líkama meðan á meðgöngunni stendur. Dómstólar taka ekki til greina bindandi samninga um að staðgöngumóður beri að afhenda barn. (Sjá t.d. hér: www.gov.uk/rights-for-surrogate-mothers)

Þetta fyrirkomulag gerir staðgöngumæðrun alls ekki ómögulega. Það er mjög fátítt að staðgöngumóðir skiptir um skoðun. (Það gæti líka gest en er alveg örugglega mjög fátítt, að þegarnir sem bíða eftir ófæddu barninu snúist hugur. Við komum aldrei algjörlega í veg fyrir þess háttar vanda, ekki frekar en þegar börn verða til með hefðbundnum hætti. Það þarf bara að vera klárt hver er réttur hvers, og að réttur barnsins sé í fyrirrúmi.)

Í mínum huga er þetta algjört lykilatriði - ófætt barn ER barn þeirrar móður sem gengur með það. Annað er að mínu mati siðferðislega óverjandi.

Sumir hafa líkt staðgöngumæðrun við líffæragjöf. Þetta eru þó eðlísólík fyrirbæri þó sumt sé svipað. EN jafnvel þó ég hafi samþykkt að gefa annað nýrað úr mér til náins ættingja, þá er það mitt nýra alveg þangað til læknar hafa fjarlægt það. Ef mér snýst hugur daginn fyrir fyrirhugaða aðgerð þá er það vissulega mjög bagalegt fyrir marga en ég hef til þess óumdeildan rétt, það kæmi aldrei lögregla heim til mín til að taka mig með valdi uppá spítala í nýrnabrottnám.

Ég ræð yfir mínum líkama. Punktur.

Fóstur er hluti af líkama konu. Uppruni kynfrumna breytir því ekki neitt. Þetta skilyrði verður að liggja til grundvallar allri umræðu um staðgöngumæðrun. Annars erum við komin á háskalegar brautir. 

 

baby 


Veik "þrýstings"rök gegn staðgöngumæðrun

Þau rök heyrast furðulega oft sem ein helstu rök gegn staðgöngumæðrun, að ef staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni yrði leyfð þá gætu konur orðið fyrir svo miklum þrýstingi að gerast staðgöngumæður fyrir systur eða nánar vinkonur sem óskuðu eftir slíkri þjónustu. Rökin eru sem sé að vegna þessa þrýstings myndu kannski sumar konur taka slíkt að sér án þess að vera raunverulega sáttar við það.

Þetta er ekki sterk rök.

Konur  (og karlar) verða fyrir alls konar þrýstingi. Kona sem á kærasta verður fyrir miklum þrýsting ef hann biður hana að giftast sér. Er víst að hún geti staðist þann þrýsting? Segir hún 'já' bara til að þóknast kærastanum?

Kona sem á mann sem langar í börn getur orðið fyrir miklum þrýstingi frá honum að eignast barn. Getur verið að hún láti undan þeim þrýstingi og verði ólétt vegna óska mannsins?

Hvað með konu sem á systur sem er um það bil að verða gjaldþrota og missa íbúðina sína og biður systurina um aðstoð, verður sú kona fyrir miklum þrýstingi?

Kona sem yrði spurð hvort hún gæti gerst staðgöngumóðir yrði ekkert fyrir meiri þrýstingi en í fólk í ýmsum öðrum aðstæðum sem spurt er um erfiða hluti. Það eru ekki alvöru rök gegn staðgöngumæðrun, að þessi "þrýstingur" yrði svo óbærilegur að konur myndu samþykkja slíka bón gegn eigin sannfæringu. 

Ég tel sjálfur önnur rök miklu veigameiri. Þau helstu eru þau, að það er að mínu mati ekki hægt að aðskilja (lögfræðilega, siðferðilega) fóstur í móðurkviði og móður þess. Við lítum svo á flest að fóstur sé ekki orðið að sjálfstæðum einstaklingi snemma á meðgöngu, móðir og fóstur er ein manneskja, einn líkami, með vísi að öðrum einstaklingi.

Umræða um staðgöngumæðrun og undirbúningur að hugsanlegri löggjöf um slíkt ætti að taka mið af því.

 


Þjóðkirkjan hefur EKKI tekið skýra afstöðu með hjónabandi samkynhneigðra

Ótal sinnum síðustu daga og vikur hef ég séð Biskup Íslands endurtaka þau orð, að Þjóðkirkjan hafi tekið "skýra afstöðu með samkynhneigðum, réttindabaráttu þeirra, fjölskyldum og hjónabandi" (t.d. hér á heimasíðu Biskupsstofu.)

Þjóðkirkjan sem stofnun hefur alls ekki tekið "skýra afstöðu" með hjónabandi samkynhneigðra. Þjóðkirkjan leyfir starfsmönnum sínum, prestum kirkjunnar, að vera á móti hjónaböndum samkynhneigðra og heimilar prestunum að sýna slíka andstöðu í verki í starfi sínu með því að neita samkynhneigðum um hjónavígslu.  

Þetta er kallað að prestar hafi "samviskufrelsi" til að vera mótfallnir hjónabandi samkynhneigðra.

Það er í mínum huga Orwellskt "Newspeak" - öfugmæli - hjá Biskupi, að segja að kirkjan hafi tekið skýra afstöðu með hjónabandi samkynhneigðra, þegar sannleikurinn er sá að kirkjan hefur alls ekki gert það!

Franklin Graham gæti eflaust orðið fínasti Þjóðkirkjuprestur. Maðurinn er elskulegur, sanntrúaður og góður predikari. Hann er vissulega mikið á móti hjónabandi samkynhneigðra, en það er engin fyrirstaða gegn því að vera Þjóðkirkjuprestur. Þjóðkirkjuprestar mega vera á móti hjónaböndum samkynhneigðra og mega neita samkynhneigðum um þjónustu.

Þetta er svona pínu svipað eins og ef bandarískt rútufyrirtæki árið 1963 hefði sagt: "Við höfum tekið skýra afstöðu með blökkumönnum og réttindabaráttu þeirra", en gefið bílstjórum sínum "samviskufrelsi" til að neita að aka með svarta farþega.


mbl.is „Hver einstaklingur er dýrmætur í augum Guðs“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefum Franklin Graham sjálfdautt kjöt

Trúboðinn og boðberi Guðs orðs Franklin Graham mætti í Kastljós í kvöld. Elskulegur og kurteis svaraði hann spurningum Þóru Arnórsdóttur, sem helst vildi bara ræða við hann um homma og lesbíur.

Graham útskýrði að hann væri ekkert að lýsa sínum persónulegu prívatskoðunum, heldur bara vilja Guðs og Hans orðum. Biblían hefði að geyma orð Guðs, og hún væri óskeikul.

Í þessum efnum fylgir Franklin Graham játningum íslensku Þjóðkirkjunnar, sem segja m.a. 

Þjóðkirkjan viðurkennir heilaga ritningu Gamla og Nýja testamentisins sem orð Guðs  

 

Já þær eru margar reglurnar sem Guð leggur okkur með orðum sínum. Meðal annars þetta:

5. Mós 14.3-21:

Hrein fæða og óhrein
3Þú skalt ekki eta neitt viðbjóðslegt. 4Þetta eru dýrin sem þið megið eta: naut, sauðfé, geitur, 5hirtir, skógargeitur, dádýr, steingeitur, fjallageitur, antílópur og gemsur.
6Þið megið eta öll dýr sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra. 7En þessi dýr, sem jórtra og hafa alklofnar klaufir, megið þið ekki eta: úlfalda, héra og stökkhéra því að þau jórtra að vísu en hafa ekki klaufir. Þau skulu vera ykkur óhrein, 8einnig villisvínið því að það hefur klaufir en jórtrar ekki. Það skal vera ykkur óhreint. Þið megið hvorki leggja ykkur kjöt þessara dýra til munns né snerta hræ þeirra.
9Af lagardýrum megið þið neyta alls sem hefur ugga og hreistur. 10En þið megið ekki eta neitt sem hvorki hefur ugga né hreistur. Það skal vera ykkur óhreint.
11Alla hreina fugla megið þið eta. 12En þetta eru fuglarnir sem þið megið ekki eta: örninn, gammurinn, skegggammurinn, 13gleðan, ýmsar fálkategundir,14hrafnakynið, 15strúturinn, uglan, mávurinn, haukakynið, 16hornuglan, náttuglan, snæuglan, 17pelíkaninn, hrægammurinn, súlan, 18storkurinn, lóukynið, herfuglinn og leðurblakan.
19Öll vængjuð skordýr skulu vera ykkur óhrein, þau má ekki eta. 20En alla hreina fugla má eta.

21Þið megið ekki eta neitt sjálfdautt. Þú mátt gefa það aðkomumanni í borgum þínum að eta eða þú getur selt það aðkomumanni. En þú ert Drottni, Guði þínum, helgaður lýður. 


mbl.is Ber virðingu fyrir samkynhneigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband