Færsluflokkur: Tónlist

Jan Dismas Zelenka

Dresden var um aldir höfuðborg Saxlands og mikil menningarmiðstöð. Borgin skartaði einstaklega glæsilegum borgarkjarna í barokk- og rokkokóstíl, þar sátu kjörfurstar og síðar konungar Saxlands sem studdu dyggilega við menningarlíf borgarinnar. Frá tímum Ágústusar I kjörfursta höfðu laðast til borgarinnar framúrskarandi tónlistarmenn, arkitektar og málarar og borgin var miðstöð æðri menntunar og verkfræði auk lista.

Þangað kom Jan Zelenka, um það bil þrítugur að aldri, sem bassaleikari við konunglegu hljómsveit borgarinnar. Hann var fæddur og uppalinn í litlu sveitaþorpi í Bæheimi, Louňovice (nú í Tékklandi), sonur organista og skólameistara. Lítið er vitað um æsku hans, en ætlað er að hann hafi numið tónlist í Jesúítaskóla í Prag fyrir komuna til Dresden. Í Dresden var hann í háborg tónlistar þessa tíma. Þar starfaði ein allra fremsta hljómsveit Evrópu, tónlist gerjaðist og þaðan bárust um álfuna straumar og stefnur. Zelenka ávann sér virðingu, hann aðstoðaði um árabil hoftónlistarstjórann, en hlaut sjálfur ekki þá stöðu. Hins vegar var hann skipaður kirkjutónlistarstjóri hirðarinnar 1735. Johann Sebastian Bach var skipaður í sömu stöðu ári síðar við hlið Zelenka, Bach og hann þekktust og var Zelenka eitt af uppáhaldstónskáldum Bach. Sjálfur bjó Bach í Leipzig, sem ekki er langt frá Dresden og var einnig í ríki Saxlandskonungs. Aðdáendur Bach ættu hiklaust að kynna sér verk Zelenka, sem gefa þeim ríkari sýn í tónlistararf þessa tíma.

Zelenka kvæntist ekki og lítið vitað um hans persónulega líf. Tónlist hans er fyrst og fremst kirkjuleg og hann hefur verið trúaður. Hann var skírður millinafni guðspjallamanns, Lúkas, en tók sjálfur upp þess í stað nafnið Dismas. Dismas er óvenjulegt biblíunafn en það nafn er í síðari tíma guðspjöllum gefið öðrum ræningjanna tveggja sem dæmdir voru og krossfestir með Jesú. Barrabas var hinn, en Dismas var sá sem iðraðist. Engar heimildir höfum við fyrir því af hverju Jan Lukas tók þessa óvenjulegu ákvörðun. Engin mynd er heldur varðveitt af tónskáldinu, svo vitað sé. Trúarvissu tónskáldsins má skynja í tónlist hans. Eitt sitt stærsta og glæsilegasta verk, Missa Votiva, samdi hann 1739, eftir áralöng erfið veikindi, hann hafði heitið sér því að semja stórbrotna messu ef hann skyldi ná heilsu. Ýmsir hafa borið verkið saman við Sálumessu Mozarts, þar sem þau bæði bera vitni hverfulleika lífs og í verkunum báðum skiptast á dularfullir kaflar þrungnir trega við lotningarfulla lofsöngva. Á meðan greina má vissa örvæntingu í verki Mozarts virðist Zelenka hins vegar leggja meira traust á almættið. Það er meira sem er heillandi við tónlist Zelenka, hún líkist vissulega á margan hátt verkum samtímamannanna Bach og Handel, en er samt öðruvísi og sérstök, annar hrynjandi, sem kannski endurspeglar tékkneska upprunan, ekki sams konar formfesta og hjá þýsku meisturunum en tónmálið svo einstaklega ljóðrænt og hrífandi. Ýmsir lýsa því sem svo að hann noti tónmyndir af svipaðri sköpunar- og frásagnargleði eins og synfónisk tónskáld löngu síðar. Zelenka lést 1745, 66 ára að aldri. Hann hafði á seinustu árum sínum, sem betur fer, safnað saman og skipulagt nótnasafn sitt, sem var varðveitt tryggilega eftir hans daga. Einum of tryggilega næstum því, því fáir komust til að skoða verkin næstu 200 árin. Á seinustu árum hafa menn uppgötvað þennan fjársjóð og heillast af meistaraverkum Jan Zelenka. Eitt það glæsilegasta, áðurnefnd Missa Votiva, verður flutt í fyrsta sinn á Íslandi næsta sunnudag 20. mars og miðvikudag 23. mars í Fella- og Hólakirkju, af Söngsveitinni Fílharmóníu og Bachsveitinni í Skálholti. Komið með í tímaferðalag og kynnist af eigin raun verðskulduðum meistara!

dresden


Stoppar x-Æ varamannahringavitleysuna?

Allt stefnir í að Besti flokkurinn fái nokkra fulltrúa í Borgarstjórn Reykjavíkur, með stefnuskrá sem er undarleg blanda af gríni og alvöru. Hér er eitt mál sem þessi nýi flokkur getur lagt til, sé einhver alvara að baki háði hans um að ætla að “hjálpa vinum sínum að fá góð störf”. En kannski eru þetta ekki nein vísvitandi öfugmæli, og kannski finnst BF liðum bara sjálfsagt mál að taka þátt í þessu, og borga þannig vara-varafulltrúmum sínum laun (úr vasa okkar kjósenda og skattgreiðenda).

En ef þið vilijð hrista aðeins upp í kerfinu og sýna lit: Stöðvið þá hringavitleysu að verið sé að kalla inn varamenn í Borgarstjórn í nokkrar mínútur!

Þessi hefði hefur skapast í Borgarstjórn, ekki veit ég á hversu löngum tíma, að varamenn séu kallaðir inn til að “leysa af” aðalmenn, jafnvel bara í fáeinar mínútur.

Meira HÉR


Heimsljósi gríðarvel tekið! Ekki missa af í kvöld!

'Bravó' hróp fylltu kirkjuna eftir lokatóninn í Heimsljósi Tryggva M. Baldvinssonar, sem við frumfluttum sl. sunnudagskvöld. Yndislegt tónverk sem greinilega hitti tónleikagesti í hjartastað!

Kórinn stóð sig bara held ég mjög vel sem og hljómsveit og einsöngvarar.  Tónleikarnir verða endurteknir í kvöld, þriðjudagskvöld, kl. 20. Miðar seldir við innganginn. Ekki missa af einstöku tónverki!


Eins og músikölsk upplifun af að fljúga yfir Eyjafjallajökul!

jokull6

Þar sem jökulinn ber við loft

 

Þetta eru upphafslínur í alveg hreint mögnuðu tónverki eftir Tryggva M. Baldvinsson sem kórinn minn Söngsveitin Fílharmónía frumflytur á tónleikum um helgina. Línurnar eru líkast til kunnuglegar, þetta eru fleyg orð úr Heimsljósi Halldórs Laxness, en Tryggvi semur verk sitt við texta úr bókmenntaverki Nóbelskáldsins. Satt best að segja tekst honum alveg frábærlega vel að fanga fegurðina og ljóðrænar tilfinningar úr sögunni og varpa í nýja vídd tónlistarinnar.

Kórinn leitaði til Tryggva fyrir meir en tveimur árum síðan, til að falast eftir nýju verki að flytja á afmælisári kórsins sem fagnar nú 50 ára afmæli. Hann hefur unnið að þesu verkefni jafnt og þétt og hefur verið gaman að fá fregnir af því hvernig það þróaðist. Afraksturinn liggur nú fyrir, 45 mínútna verk í sex köflum sem við flytjum sem sagt á sunnudagskvöld og þriðjudagskvöld í Langholtskirkju.

Fyrsta æfing með 30 manna hljómsveit í gærkvöldi var mikil upplifun fyrir alla þátttakendur, að heyra í fyrsta skipti allt smella saman, 70 manna kór, einsöngvarana tvo og 30 manna hljómsveit sem Tryggvi leikur sér listilega að. Þetta er ýkjulaust með því skemmtilegasta sem ég hef gert með kór og allur hópurinn fullur eftirvæntingar. Var mikið klappað fyrir tónskáldinu, þegar lokatóninn var sleginn af, en hann sat spenntur út í sal að upplifa verk sitt lifna við.

Ýmsir vinir virðast smeykir við að fara á tónleika og hlusta á "nútímaverk". "Er þetta ekkert þungt?" er spurt. Ég vil nú fullyrða að allir hrífist með sem sitjast og hlusta! Ef þú nýtur þess að lesa fallegar bækur, að horfa á jökul baðaðan í sólskini, að hlusta á brimrót, horfa á sólsetrið, liggja uppá Esju og fylgjast með skýjunum, m.ö.o. ef þú nýtur fegurðarinnar í kringum okkur, þá mun þetta verk smjúga inn í hug og hjarta! Eins og ég skrifaði vinnufélögum: "Íslenska verkið er ekkert svona nútíma-torf, heldur meira eins og músikölsk upplifun af að fljúga yfir Eyjafjallajökul!"

Sem bónus flytjum við fyrir hlé valda kafla úr nokkrum af okkar uppáhaldsverkum, úr þeim aragrúa stórra kórverka sem kórinn hefur flutt á ferli sínum. Þetta er svona 'Best of' konfektblanda, gæsahúðarframkallandi kórkaflar eftir stóru meistarana, sem hrífa alla með, m.a. upphafið úr Carmina Burana, Hallelúja-kaflinn úr Messias og kafli úr Þýsku sálumessunni eftir Brahms. Að hlusta á öflugan gæðakór flytja þessi stykki í frábærri akústík Langholtskirkju er betra en nokkuð THX Surround bíókerfi!

plakat_700 


Uppfinningamaðurinn Michael Jackson

Listamaðurinn og skemmtikrafturinn Michael Jackson lést langt fyrir aldur fram í liðinni viku. Aðrir munu rifja upp hans merka tónlistarferil og á köflum ansi dapurlega líf. Ljóst er að Michael var hæfileikaríkur og lagði sig fram í starfi sínu og var geysimikill fagmaður.

Fáir vita að Michael Jackson er skráður uppfinningamaður á bandarísku einkaleyfi. Einkaleyfið er númer 5,255,452 og var útgefið 1993 og verndar uppfinningu sem Jackson er einn þriggja uppfinningamanna að, nánar tiltekið sérstaka skó sem hægt er að krækja í gólf til að halla sér framfyrir sig.  Á netinu er vísað til einkaleyfisins af einkaleyfanördum sem "Moonwalking" einkaleyfi Michael Jacksons. En eins og aðdáendur poppstjörnunnar sálugu vita er tungldansinn allt annar hlutur og þarf enga slíka töfraskó í slíkt. Uppfinningin var hins vegar örugglega notuð í myndbandinu við lagið "Smooth Criminal".

 

Einkaleyfið er ekki lengur í gildi enda ólíklegt að þessir skór hafi verið fjöldaframleiddir. Eins og sést á neðangreindum myndum úr einkaleyfinu er uppfinningin sára einföld, rauf í hæl skónna getur krækst í nagla eða tappa í gólfi, sem þarf að vera búið að koma fyrir á sviðinu þar sem nota á skónna.

Einkaleyfið má skoða í heild sinni á aðgengilegum einkaleyfavef Goggle.

Einkaleyfi Michael Jackson

jackson2.jpg

jackson1.jpg

jackson3.jpg

 


Ekki missa af þessu! - Þrusu 'sánd' á lokaæfingu

Bach+Mozart_250Generalæfing var í morgun, laugardag, fyrir tónleikana sem verða á morgun sunnudag og miðvikudag, í Langholtskirkju kl 20 báða daga.

Þetta er eitthvað sem unnendur stórra kórverka mega ekki að láta fram hjá sér fara, en líka þeir sem lítið þekkja klassíska tónlist munu njóta þess að kynnast voldugum og tilfinningaríkum tónaheimi þessara mögnuðu meistara!

85 manna gæðakór í fantaformi, 28 manna hljómsveit með fólki úr fremstu röðum og fjórir einvala einsöngvarar af ungu kynslóðinni. Sjá nánari upplýsingar í fyrri færslu. og á heimasíðu kórsins.

Bach-Mozart


Tveir meistarar - gæsahúð fyrir kórunnendur!

Ég má til með að auglýsa á þessum vettvangi tónleika Söngsveitarinnar Fílharmóníu, en pistlahöfundur syngur sjálfur í þeim kór. Á tónleikunum verða flutt glæsileg verk eftir tvo stærstu meistara tónlistarsögunnar, Sálumessa Mozarts og messa í g-moll eftir Johann Sebastian Bach.

Tónleikarnir eru sunnudaginn 22. mars og miðvikudaginn 25. mars, kl. 20 báða daga, í Langholtskirkju.

Sálumessuna þekkja margir, en að þessu sinni verður flutt önnur útgáfa en sú sem oftast og raunar nær alltaf er flutt, sem er sú útgáfa sem nemandi Mozarts, Franz Xavier Süssmayr, lauk eftir að tónskáldið andaðist. Í 200 ár hafa tónlistarfræðingar og unnendur deilt um ágæti viðbóta Süssmayr, en auðvitað er ósanngjarnt að bera Süssmayr eða nokkurn annan mann saman við sjálfan Mozart.  Fáein tónskáld hafa, sérstaklega á síðustu áratugum, endurgert fullvinnslu Sálumessunnar, þ.e. tekið verkið eins og Mozart sjálfur skildi við það  og fyllt upp í eyðurnar. Sú útgáfa sem Fílharmónía nú flytur var kláruð árið 1982 af Duncan Druce, breskum fiðluleikara og tónskáldi, og hefur vakið verðskuldaða athygli.

Fáir almennir tónlistarunnendur gera sér grein fyrir hversu stór hluti verksins var ófrágenginn þegar Mozart kvaddi. Sérstaklega átti eftir að ganga frá mikið af hljóðfæraröddunum, en Druce hafði tilfinnanlega fundið fyrir því að raddsetning Süssmayr var víða varfærnisleg og einföld. Þá fundust löngu eftir tíma Mozarts og Süssmayr vísbendingar og fyrstu hendingar af Amen fúgu sem ekki er að finna í Süssmayr útgáfunni, en Druce kláraði og bætti í sína útgáfu, og þannig má segja að hún sé fullgerðari en Süssmayr.

Okkur vitanlega er þetta í fyrsta skipti sem þessi útgáfa Sálumessunnar heyrist hér á landi. Kórinn telur nú 85 manns en á tónleikunum leikur auk þess 28 manna hljómsveit og einvalalið söngvara syngur einsöngshlutverk.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband