Færsluflokkur: Kjaramál

57% hærri greiðslubyrði - samt ódýrara

Ríkisstjórnin núverandi hefur á stefnuskrá sinni að "afnema" verðtryggingu, og vill að sem flestir lántakendur húsnæðislána geti breytt verðtryggðum lánum sínum í óverðtryggð.

Nú hafa óverðtryggð lán staðið húsnæðiskaupendum til boða síðustu misseri og eru víst töluvert vinsælli hjá bönkum en verðtryggð lán.

Ég prófaði að reikna út hvernig lán myndu koma út hjá mínum viðskiptabanka, Íslandsbanka, 20 milljón króna lán, verðtryggt annars vegar og óverðtryggt hins vegar. 

 

Óverðtryggt lán

Sé lánið tekið sem jafngreiðslulán er mánaðarleg endurgreiðsla 134.487 kr

7.70% vextir eru fastir til þriggja ára, en eftir það breytilegir. Þeir eru í boði fyrir 70% af fasteignamati, vilji kaupandi hærra lánshlutfall eru vextir hærri (8.6%) fyrir umfram lánið. Það eru líka í boði lán með breytilegum vöxtum strax frá upphafi, sem nú eru 6.75%, þá er mánaðarleg greiðslubyrði 120.606 kr.

 

Verðtryggt lán

Verðtryggt lán ber 3.95% nafnvexti, sem bankinn má endurskoða að 5 árum liðnum og þá eru þeir breytilegir. Mánaðarleg endurgreiðsla byrjar í 83.724 kr. Meðalgreiðsla fyrstu 12 mán. miðað við 4.6% verðbólgu er 85.327 kr.

Greiðslubyrði óverðtryggðu lánanna fyrsta árið er því 57.6% eða 41.3% hærri, eftir því hvort valið er lánið með föstum vöxtum til þriggja ára eða með breytilegum vöxtum strax frá upphafi.

 

Hvort er ódýrara?

Síðustu 18 mánuði hefur verðbólga að meðaltali verið 4.6%, það þýðir að heildarvextir á verðtryggðu láni eru í raun 8.6%. Það eru umtalsvert hærri vextir en á óverðtryggðu lánunum. Óverðtryggðu lánin eru því ódýrari. Munurinn í dag á þessum lánum að ofan er 0.9% eða 1,85%. Sá vaxtamunur jafngildir á 20 milljón króna láni ca. 180.000 kr eða 370.000 kr á ári, eftir því hvort tekið er lánið með 7.70% eða 6.75% vöxtum. (Munurinn er í raun aðeins meiri, því verðbæturnar (sem ég vil kalla hluta heildarvaxta) bætast við höfuðstól í hverjum mánuði, og því bætast að auki við vaxtavextir.) 

Þannig er verðtryggða lánið dýrara sem nemur 15-35.000 kr á mánuði, þó svo greiðslubyrðin á mánuði sé 35-50.000 kr lægri!

 

Af hverju er greiðslubyrði svona miklu lægri á verðtryggða láninu?

Af því í raun ertu að taka lán með (í dag) 8.60% vöxtum, en þú borgar bara tæplega helming vaxtanna jafnóðum, hinn rúmlegi helmingurinn bætist við höfuðstólinn - þú ert að taka viðbótarlán í hverjum mánuði fyrir helming heildar vaxtagreiðslunnar!

 

Eru óverðtryggð lán "varasöm"?

Þau eru varasöm ef þú ræður illa við að greiðslubyrðin gæti hækkað t.d. um 20-40%, ef almennt vaxtastig hefur hækkað eða ef verðbólga er veruleg þegar bankinn endurskoðar vexti. Þá gæti 120 þúsund króna afborgunin skyndilega hækkað í 150.000 kr á mánuði.

En ef þú ræður við hærri greiðslubyrði OG hefur auk þess svigrúm til að ráða við umtalsverða hækkun á greiðslubyrði þá eru óverðtryggðu lánin ótvírætt hagstæðari í dag. 

 

Verða óverðtryggðu lánin alltaf hagstæðari?

Það er ómögulegt að segja. Ef verðbólga skyldi detta niður í t.d. 2-2.5% þá eru heildarvextir verðtryggða lánsins komnir niður í 6-6.5%.  En ef verðbólga helst stöðug í slíkum tölum er líklegt að óverðtryggðu vextirnir myndu smám saman lækka líka. (Og það er undantekning í sögu lýðveldisins að verðbólga sé svo lág.)

 

Eru einhverjir kostir við verðtryggð lán?

Já vissulega. Lánin hafa tvo kosti. Í fyrsta lagi er greiðslubyrði lægri en fyrir óvertryggðu lánin, og munar þar umtalsverðu. Ef þú vilt fá sem mest að láni með sem lægsta greiðslubyrði er verðtryggt lán betri kostur. (En það þýðir að þú ert að bæta við lánið í hverjum mánuði, þú færð í raun samtals mun meira lánað, í lengri tíma og borgar þar af leiðandi hærri upphæð í vexti, fyrir utan það að vextirnir sjálfir eru hærri.)

Verðtryggða lánið hefur í öðru lagi þann kost að greiðslubyrði sveiflast mun minna en hún gæti gert í tilviki óverðtryggðs láns. Ef það kemur langvarandi aukin verðbólga með t.d. 5-7% verðbólgu hækkar greiðslubyrðin lítið (þó svo vissulega hækkar höfuðstóllinn). En bankinn gæti tekið uppá því að hækka vexti á óverðtryggða láninu þínu úr t.d. 6.75% í 9.5%. Það þýðir að greiðslubyrðin gæti skyndilega hækkað um 40-50%, segjum úr 120.000 kr á mánuði í 170.000 kr á mánuði.

 

Verðtryggð lán hafa vissulega kosti, en þeir eru dýru verði keyptir. 


Hvað gera þeir sem FREKAR vilja verðtryggt en óverðtryggt??

... eins og þingmaðurinn Karl Garðarsson, og eflaust fleiri, sem vilja frekar lægri greiðslubyrði sem fylgja verðtryggðum lánum, þó svo heildarkostnaður við þau lán sé hærri (fyrst og fremst vegna þess að hver króna er lánuð til lengri tíma, og þess vegna bætast við meiri vextir)

 

Hér er endurbirt grein frá því fyrir kosningar:

Framsóknarmaður vildi frekar verðtryggt lán!

Karl Garðarsson skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann kvartar undan því að verðbætur hafi bæst við verðtryggða lánið hans síðustu mánaðarmót. Af því tilefni skrifaði ég komment við grein hans:

Já en Karl, þér stóð til boða óverðtryggt lán! Þú sagðir sjálfur frá því í grein 15. febrúar sl. En þú vildir það ekki, því það var “of dýrt”. Þú vildir ekki borga alla vextina jafnóðum, heldur KAUST SJÁLFUR að taka verðtryggt lán, en þannig borgarðu í raun bara hluta vaxtanna núna (sjálfa nafnvextina) en geymir hluta vaxtanna (verðbæturnar) til síðari tíma. Þannig virka verðtryggð lán og hafa alltaf gert. Þú hlýtur að vita það?

Vissulega eru breytingarnar á höfuðstólnum sveiflukenndar, en það gerir lítið til, því afborgunin er nánast sú sama milli mánaða. Þennan síðasta mánuð hækkaði vissulega vísitalan þó nokkuð, en miklu minna tvo mánuðina á undan, Hvað hækkaði lánið þitt mikið fyrir 2 mánuðum, eða 3 mánuðum síðan? Fyrir nokkrum mánuðum lækkaði raunar vísitalan, og þá lækkaði lánið þitt! En þú skrifaðir ekki blaðagrein um það.

Ég hreinlega botna ekkert í því hvað þið Framsóknarmenn viljið. Viltu “banna” verðtryggð lán? (Það er samt ekki í stefnu xB, er það?) En verða þá ekki allir að taka óverðtryggð lán, sem þú sjálfur vildir EKKI taka!

Þú hefðir líka getað tekið lægra lán, og keypt aðeins ódýrara húsnæði. En það hefði verið mjög óíslenskt. Mjög ó-framsóknarlegt.

Þessa grein skrifaði ég í febrúar handa þér og öðrum Framsóknarmönnum, sem hafa ekkert lært:

Fjármálaráð til Framsóknarmanns

 


mbl.is Varar við afnámi verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstætt trúfélag eða ríkisstofnun? - Eða hvoru tveggja?

Þjóðkirkjan skilgreinir sig með mismunandi hætti allt eftir tilefni og samhengi. Þegar gagnrýnt er að kirkjan njóti óeðlilegs stuðnings frá ríkinu og talað fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju leggja talsmenn kirkjunnar áherslu á að Þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag, nánast eins og hvert annað trúfélag, nema með sérstaka samninga við ríkið.

En þegar talið berst að því hvort ekki skuli klippa alveg á tengsl ríkis og kirkju og gagnrýnt að eitt trúfélag - í trúfrjálsi ríki - hafi sérstök tengsl við ríkið og njóti verndar og stuðnings ríkisvaldsins, þá er gert lítið úr trúfélagshlutverkinu og talað um kirkjuna sem einhverskonar þjónustustofnun. Hvað er Þjóðkirkjan, í eigin augum?

 

Þjóðkirkjan er opin, lýðræðisleg almannahreyfing sem heldur uppi þjónustu og mannræktarstarfi um land allt.

 

(úr ályktun aukakirkjuþings í gær, 1. september. Í ályktuninni er hvorki minnst á að kirkjan sé sjálfstæð né trúfélag.)

 

Þjóðkirkjan er frjálst og sjálfstætt trúfélag.

 

(Frá heimasíðu Þjóðkirkjunnar, undir fyrirsögninni 'Hvað er Þjóðkirkjan'?)

Þjóðkirkjan er stofnun sem hefur á að skipa vel menntuðu fagfólki um land allt, sem er til þjónustu reiðubúið hvenær sem er, fyrir allan landslýð hverrar trúar eða trúfélags sem hann telst til.

 

(Agnes Sigurðardóttir, í bréfi til kjörmanna fyrir biskupskosningar 2012) 

 

Kirkjan er sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu ... Þegar nær er skoðað, þá er kirkjan sjálfstætt trúfélag að lögum, en með samninga við ríkið á ýmsum sviðum eins og gildir um fjölmörg frjáls félög. Spurningin um aðskilnað ríkis og kirkju er því tímaskekkja ...

(úr pistli séra Gunnlaugs Stefánssonar á tru.is frá 19.10.2010)  

 

Gengur þetta tvennt upp, annars vegar að vera trúfélag sem er grundvallað á mjög ákveðnum trúarkenningum, ritum og trúarjátningum, og að vera ríkisrekin þjónustustofnun sem býður öllum þjónustu, óháð trú og trúfélagsaðilld? Nú vil ég alls ekki gera lítið úr þessari þjónustu kirkjunnar, en minni á að fjölmargir vilja ekki þiggja slíka þjónustu trúfélags eða greiða fyrir hana með sköttum.   

 

Þjóðkirkjan - sjálfstætt trúfélag, ríkisstofnun, eða hvoru tveggja?

 
mbl.is Ákvæði um þjóðkirkju verði í stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraði snigilsins

Samkvæmt tillögunum, sem forsetinn er að undirbúa, mun hátekjufólk greiða að minnsta kosti saman [sic] skatthlutfall og það fólk, sem er með meðaltekjur.

 

Það er naumast að byltingarandinn hefur gagntekið háttvirtan Forsetann og fylgismenn hans! Alltént skref í rétta átt að nú skuli hátekjufólk með yfir 10 milljónir íslenskar á mánuði greiða að minnsta kosti sama skatthlutfall og meðatekjufólk.

Auðvitað eru Repúblikanar á móti því, í þeirra hugum á ríka fólkið að fá greiða áfram lægra skatthlutfall en meðaltekjufólkið!

Fyrr frýs í helvíti en að ríkt fólk í Bandaríkjunum verði látið greiða hærri skatta en meðaltekjufólkið. 


mbl.is Obama undirbýr hátekjuskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um sóknargjöld

Gott mál að innanríkisráðherra sé að skoða þetta sjálfsagða sanngirnismál. Fólki er frjálst að trúa - eða trúa ekki. Það getur ekki talist eðlilegt í nútímasamfélagi að ríkið styrki í stórum stíl tiltekna trú á yfirnáttúruleg fyrirbæri, jafnvel þó svo í nafni þeirrar trúar sé rekin ýmiskonar falleg og gagnleg samfélagsþjónust

 Í svari ráðherra við fyrirspurn varaþingmannsins segir m.a.

stjórnvöld styrki enn fremur eiginleg trúfélög beint með innheimtu sóknargjalda en veraldleg lífsskoðunarfélög, sem vilja veita sömu þjónustu til sinna félagsmanna, fái engan stuðning.

Blessuð sóknargjöldin já. Þau eru jú ekki innheimt sem slík, heldur hluti tekjuskatts og hafa verið síðan staðgreiðslukerfi var komið á. Það er ekki innheimt sérstakt sóknargjald, trúfélög fá einfaldlega greidd sóknargjöld úr ríkissjóði í hlutfalli við sóknarbörn, án tillits til þess hvort þau sóknarbörn greiði tekjuskatt eða ekki.Nú má vera að þegar tekjuskattsprósentan var ákvörðuð við innleiðingu staðgreiðslukerfisins hafi tiltekinn hluti hennar verið hugsaður sem sóknargjöldin, en það breytir því ekki að sóknargjöldin eru einfaldlega greidd úr rikissjóði. Með sama hætti mætti segja að greidd séu skólagjöld í grunnskóla, þau séu einfaldlega innheimt sem hluti tekjuskatts.

Ef ríkið vill áfram veita trúfélögum þessa þjónustu, að "innheimta" sóknargjöld í gegnum skattkerfið má það svo sem gera það, en í guðanna bænum, ekki innheimta líka sóknargjöld af þeim sem ekki eru í neinni sókn og standa utan allra trúfélaga.

Meira um þetta hér: Ég styð Krossinn


mbl.is Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki?

Sat og fletti Viðskiptablaðinu. Leiðarahöfundur blaðsins telur að birting álagningarskrár sé með öllu óréttlætanleg og að henni skuli hætta strax. "Þetta ógeðfellda skipulag grefur líka undan sátt í samfélaginu", segir ritstjórinn. Nokkrum línum neðar segir hann þó að það sé sjálfsagt að birta upplýsingar um tekjur og eignir athafnamanna. En blaðið telur óþarft að birta þessar tölur fyrir "venjulegt fólk". Hver skuli flokka fólk í áhugavert "athafnafólk" og "venjulegt" fólk er ekki sagt.

Hvenær urðu tekjur og skattar svona mikið feimnismál?  Ég held að í gamla daga hafi þetta alls ekki verið svona. Enda má auðveldlega áætla a.m.k. gróflega tekjur hefðbundinna launastétta, t.d. bænda útfrá fjölda skepna sem þeir halda, sjómanna út frá aflatölum o.s.fr. 

Það má minna ritstjóra Viðskiptablaðsins á að venjulegt fólk hefur litlu að leyna þegar kemur að tekjum og sköttum. Venjulegt fólk (sem fæst les Viðskiptablaðið) fær laun samkvæmt kjarasamningum og þeim getur hver sem er flett upp á netinu. Hugtakið "launaleynd" (sem þekktist varla fyrr en fyrir ca. 25 árum) gagnast auðvitað fyrst og fremst þeim efnaðri. Launataxtar láglaunafólks eru öllum aðgengilegir.

Ég skal fúslega gangast við því að ég hef flett aðeins í víðfrægu Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Mér finnst forvitnilegt að fylgjast með launaþróun vel launaðra og áhugavert að sjá t.d. hvað fyrirtæki sem ýmist urðu nýverið gjaldþrota, eru í umsjá banka, eða í einhverju undarlegu eignarhaldslimbói hafa efni á að greiða rausnarleg laun - olíufélög, fjölmiðlar, tryggingafélög, fjármálafyrirtæki, verslanakeðjur, svo nokkur dæmi séu nefnd. Einnig gaman að sjá hvað hin ýmsu ohf. gera vel við yfirmenn.

Pistilinn hér að neðan skrifaði ég fyrir tveimur árum, endurbirti fyrir ári og rétt að gera enn aftur.

SUS hætt að mótmæla birtingu álagningarskráa?

Aldrei þessu vant heyrist ekki bofs í ungum Sjálfstæðismönnum út af birtingu álagningarskráa. Hér áður fyrr mættu ungliðarnir galvaskir og mótmæltu á Skattstofunni og kom jafnvel til handalögmála þegar hugsjónahetjurnar ungu reyndu að stöðva menn frá því að skoða skrárnar.Þegar leitað er á netinu sést að að það var reyndar lítið um mótbárur í fyrra, en 2007 var skrafað og skrifað um birtingu skattupplýsinganna, meðal annars má lesa hugleiðingar bloggarans Stefáns Friðriks í bloggkrækju við frétt frá 2007 um skattakónginn Hreiðar Már: “Hættum að snuðra í einkamálum annarra“.

Í fréttinni frá 2007 kom fram að Hreiðar Már hafi greitt á árinu 2006 rétt um 400 milljónir í skatta, og þá væntanlega haldið eftir í eigin vasa eftir skatta nálægt 600 milljónum. Nú tveimur árum síðar var Hreiðar Már enn á ný skattakóngur, en greiddi þó “ekki nema” 157 milljónir í skatta á síðasta ári, sem þýðir að meðaltekjur á mánuði voru um 35 milljónir.Aðrir tekjuháir einstaklingar á árinu 2008 eru nefndir í þessari frétt, þar sem fram kemur að á árinu 2008 voru yfir 270 manns í fjármálakerfinu með yfir eina milljón á mánuði, þar af voru 73 einstaklingar með meiri en þrjár milljónir á mánuði. Við getum gefið okkur að líklega um 90% af þessum einstaklingum voru að vinna hjá fyrirtækjum sem fóru á hausinn á því sama ári og fjölmargir þessa einstaklinga voru eflaust með enn hærri tekjur á árunum 2007 og 2008.

Það er gott að SUS hafi nú vit á því að þegja og blaðra ekki um að “þetta komi okkur ekkert við“.Þetta kemur okkur við. Þetta kom okkur líka við 2007 og 2008. Eins og komið hefur í ljós var íslenska bankakerfið ein stór spilaborgósjálfbærlánabólumylla. Þessi ofurlaun voru greidd með sýndarhagnaði og lánsfé. Þegar bankarnir hrundu tóku þeir með sér Seðlabanka Íslands í fallinu og íslenska ríkið og allt íslenskt samfélag er stórlaskað eftir. Allir þurfa að líða fyrir hrun bankanna og íslensks hagkerfis, ekki síst þeir sem minnst hafa á milli handanna.Hvert fóru allir peningarnir? Spurningin brennur á vörum okkar, sem og fjölmargra breskra og hollenskra sparifjáreigenda.Hluti fjárins fór í að greiða hópi fólks fáránleg laun, upp undir 100-föld lágmarkslaun.

Þeir sem eiga heima í skúffu tekjublöð Frjálsar verslunar frá síðustu árum geta dundað sér við að leggja saman heildartekjur launahæstu bankastjóra og bankaeigenda 2004-2008. Niðurstaðan er væntanlega fleiri tugir ef ekki hundruð milljarða launagreiðslur til 100 launahæstu útrásar- og bankamanna.Áttu þau skilið þessi laun? Svari hver fyrir sig.

Voru þessar launagreiðslur bara einkamál á milli viðkomandi launþega og fyrirtækja? 

 


NEI þýðir að Ísland verður fátækara

Hvað þýðir það ef NEI verður ofan á?

Ísland verður fátækara. Og leiðinlegra. Og einangraðra.

Við munum eyða dýrmætri orku í þetta mál næstu árin, orku sem gæti nýst í uppbyggingu og framfarir.

Það verður líklegra en ella, að fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur tapist í hendur erlendra lánadrottna.

Ef NEI verður ofan á, þýðir það að meirihluti landsmanna hefur ekki skilið hvernig Nýi Landsbankinn var búinn til úr þeim gamla, hvernig innistæður Íslendinga voru teknar út úr þrotabúinu (ekki úr ríkissjóði!) þrotabúi sem sumir vilja svo láta Bretum og Hollendingum eftir, þegar við erum búin að taka það sem okkur hentar.

Nei þýðir stöðnun.

Nei þýðir að hér ríkir stjórnlagakreppa, Ísland er land sem ekki er hægt að semja við, því enginn veit hver ræður. Ekki er hægt að treysta loforðum og samþykktum lýðræðislega kjörins meirihluta Alþingis.

Nei þýðir afturför.

Ég segi - fyrir framtíðina. Fyrir Ísland. Fyrir samvinnu þjóða.


Til ykkar sem viljið hafna Icesave

Ég legg það til að þið takið upphæð sem samsvarar öllum þeim peningum sem þið áttuð í banka 6. okt 2008, á launareikningum, sparireikningum, fermingarpeninga barnanna og sparifé afa og ömmu, ásamt þeim launagreiðslum sem þið fenguð næstu mánuðina á eftir frá launagreiðendum ykkar sem gátu greitt laun vegna þess að þeirra peningainninstæður voru tryggðar, að þið takið þessa peninga og skilið þeim í þrotabú gömlu íslensku bankanna.

Svo gerið þið kröfur í íslenska innlánstryggingasjóðinn og eftir atvikum gömlu bankanna og farið í SÖMU RÖÐ og þið viljið að breskir og hollenskir viðskiptavinir Landsbankans skulu standa í, og þeirra ríkissstjórnir fyrir þeirra hönd.

Nema að að rök ykkar byggi fyrst og fremst á þjóðrembingi og að hver þjóð skuli fyrst og fremst hugsa um eigið rassgat og að við "eigum ekki að greiða skuldir óreiðumanna" - nema það sem þeir skulduðu okkur og vinum okkar og fjölskyldum. Við erum búin að greiða þær skuldir, við gerðum það strax.


Staðgöngumóðir á Vestfjörðum: "Ætla að kaupa íbúð á Akureyri"

Diljá Daníelsdóttir er ung einhleyp móðir á Bíldudal, sem býr í leiguíbúð og hefur unnið í fiskvinnslu síðan hún kláraði grunnskóla. Nú er hins vegar hagur hennar að vænkast þar sem hún ber barn undir belti fyrir hjón í Reykjavík, Áslák, lögfræðing hjá skilanefnd og konu hans Véfríði, mannauðsstjóra.

Meira HÉR


Hvar eru "efnislegu svörin", Lilja?

Ég las yfirlýsingu Lilju Mósesd, Atla og Ásmundar Einars, sem þáu gáfu sér vegna hjásetunnar við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Fátt konkret kemur fram í henni sem snertir fjárlagagerðina, nema að þau telja að hugmyndir sínar hafi ekki fengist ræddar, um tekjuöflun og “róttæka endurskoðun á niðurskurði innan velferðarkerfisins” (minni niðurskurð). Einu raunverulegu hugmyndirnar um breytta tekjuöflun snúa að tillögum Lilju um samtíma skattlagningu séreignarlífeyrissparnaðar. Þessar hugmyndir komu þó fram fyrr eins og flestir muna, Sjálfstæðismenn lögðu þær til fyrir meira en ári. Ég vænti þess að stjórnvöld hafi skoðað þær þá. (Sakna þess þó að hafa aldrei séð greinargóða úttekt og útskýringu frá stjórnvöldum af hverju leiðin henti ekki. Það bara hlýtur að hafa verið gert fyrir ári. Eða hvað?  Sjálfur er ég á því að breyting í þessa veru sé líkast til alls ekki sniðug.)

Samflokksmaður þrenningarinnar, Árni Þór Sigurðsson, lagði fram ansi ítarlegt andsvar við yfirlýsingunni, þar sem hann gerir heiðarlega tilraun til að svara gagnrýni þremenningana málefnanlega.  Lilja svaraði  í fyrradag að orð hans kæmu sér “á óvart” en sagði jafnframt að þau myndu svara efnislegaá morgun“, þ.e. í gær, miðvikudag. Ég hef ekki séð þessi efnislegu svör enn.

Fjölmiðlar mættu ganga á eftir þeim.

Meira HÉR


mbl.is Lilja maður ársins á Útvarpi Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband