Færsluflokkur: Umhverfismál

Aðgengi

Átti erindi síðasta föstudag í verslun Símans í Kringlunni. Kom á bílnum á leið úr vinnu og lagði í drungalegu bílastæðahúsinu. Tók mig svo ca. 3-4 mínútur að labba frá bílnum að næsta inngangi, framhjá nokkrum búðum, upp rúllustigann, framhjá fleiri búðum og að búð símans.

Þetta er mjög svipaður tími og tekur venjulega að fara frá bílnum og að búð á Laugavegi. Þá finn ég yfirleitt bílastæði á Hverfisgötu, en frá Hverfisgötu og uppá Laugaveg er svona álíka langt og frá Jack&Jones í Kringlunni og í búð Símans. Með öðrum orðum mjööög stutt.

Skil ekki þetta meinta vandamál.

Þegar Laugavegur hefur verið opinn fyrir bílaumferð hef ég sjaldan keyrt þar niður um miðjan dag þegar verslanir eru opnar. Umferðin gengur of hægt og flest bílastæði eru alltaf full. Auðvelt er hins vegar að finna stæði á Hverfisgötu eða Skúlagötu. A.m.k. þegar ég á erindi á Laugaveg.

Strikið í Kaupmannahöfn var gert að göngugötu 1962, í tilraunaskyni. Sjálfsagt voru einhverjir búðaeigendur mótfallnir því.


mbl.is Opið fyrir umferð á Laugaveginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Vestfirðingar málhaltir?

Horfði á frétt í vikunni í Kastljósi af reiðu suður-Vestfirðingunum sem gengu af fundi með innanríkisráðherra, af því hann vill ekki leggja veg eins og þeir vilja. Í fréttinni var svo talað við tvo bæjarstjóra héraðsins sem lýstu því hversu skelfilegt þetta yrði fyrir héraðið, íbúar sumra byggðakjarnanna þyrftu nú að fara yfir 8 heiðar á leið sinni suðu til höfuðborgarinnar. (Þeim myndi fækka niður í sex ef íbúarnir fengju draumaveginn sinn.) Fram kom líka að framkvæmdir og skipulag hafi tafist vegna málaferla við landeigendur, svo tafir eru alls ekki eingöngu stjórnvöldum að kenna. Samt er nú látið eins og ráðherrann ætli eins síns liðs að flæma alla íbúa af svæðinu með handónýtum vegi.

Margt var ekki sagt í fréttinni. Ekki var minnst á hversu hátt þessir umræddu "hálendisvegir" liggja yfir sjávarmáli. (Þeir fara víst upp í 160 metra hæð, svolítið láglent hálendi það.) Ekki var talað um hvernig fyrirhugað vegstæði nýs vegar yfir hálsana væri í samanburði við gamla veginn sem nú er, hvort komist verði hjá bröttum brekkum og kröppum beygjum, ekkert var minnst á vegalengdir, þ.e. hvort einhverju munar í nýjum vegi yfir hálsana tvo eða strandvegi, ekki var minnst á snjóalög á svæðinu og hvort gamli vegurinn sem nú er sé oft ófær á veturna. Sem sagt, engar upplýsingar sem gætu hjálpað manni að taka afstöðu í málinu!

Hvað varð um það að menn færi rök fyrir máli sínu? Tíni til upplýsingar, staðreyndir og röksemdir. En grenji ekki bara og berjist fyrir sínu með frekjunni einni saman. Eru Vestfirðingar nokkuð málhaltir? Eða voru þeir bara TÁKNMYND Íslendinga í dag, sem kunna ekki að hlusta og tala saman og komast að skynsamlegri og málefnalegri niðurstöðu. 

 Horft út Djúpafjörð, af Hjallahálsi.


Vantar í fréttina - tveggja mánaða eyðing!

Fréttin er ónákvæmt þýdd, tölurnar lýsa skógareyðingu tveggja mánaða, borið saman við sömu tvo mánuði í fyrra. Gúgglið orðin: amazon deforestation 593, þá finnið þið fréttir á ensku um þessar sömu mælingar.
mbl.is Eyðing regnskóganna sexfaldast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nöfn hústökumanna

Það er gott að þetta brýna mál komist aftur á dagskrá. Töluvert var rætt fyrir tæpu ári um auð hús í miðborginni, en í skýrslu slökkviliðsstjóra frá mars 2008 kom fram að 57 hús stóðu auð að öllu leyti eða að hluta. Í apríl í fyrra var lögð fram samantekt á fundi skipulagsráðs borgarinnar þar sem kom fram að  37 hús voru auð í miðborginni. Þar stóð að fyrirhugað væri að rífa 18 þessara húsa og að gera ætti upp tíu. Níu hús voru sögð standa auð vegna eigendabreytinga. 17 húsanna sem tilgreind voru í samantektinni voru í eigu þriggja félaga: Samson Properties (5 hús), ÁF-húsa ehf. (5 hús) og Festa ehf. (7 hús).

Fleiri fyrirtæki mætti nefna, svo sem Stafna á milli ehf. sem töluvert var í fréttum 2006-07. Áhugasamir geta gúglað.

Eru þetta ekki hústökumennirnir sem þarf að varast?

Hvernig eru ástand og horfur húsanna 57 nú?


mbl.is Götuvirki hústökufólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sjálffæðandi maskínur"

Þetta hugtak, "sjálffæðandi maskína" kemur fyrir í kvikmyndinni Draumalandið, er notað um virkjunariðnaðinn, sem svo má kalla. Hlutverk virkjunariðnaðarins er ekki bara að búa til næga orku fyrir Íslendinga og íslenskt atvinnulíf heldur er eiginlegt hlutverk maskínunnar einmitt eins og nafnið gefur til kynna - að virkja. Maskínan heldur þannig ótrauð áfram að virkja meira og meira, annars stöðvast hún. Maskínan fæðir sjálfa sig því ekki vill hún svelta.

skrímsli

Stór hópur manna og kvenna hafa hlotið til þess góða menntun að finna og kanna nýja virkjunarkosti, hanna virkjanir og byggja virkjanir. Þetta eru skemmtileg, krefjandi og vel launuð störf. Skiljanlega vill þetta fólk halda störfum sínum, það viljum við öll.

Þess vegna segir ekki Landsvirkjun eftir Kárahnjúka, "Jæja, er þetta orðið gott?" og Orkuveitan segir ekki heldur, eftir opnun Hellisheiðarvirkjunar "Já nú skulum við aðeins kynna okkur betur undirstöðufræði um háhitasvæði og virkjanir þeirra", heldur er hafist handa og teiknuð drög að 3-4 háhitavirkjunum til viðbótar. "ÁFRAM  - EKKERT STOPP, eins og einn flokkurinn orðaði það um árið.

En svona maskínur eru víðar. Nærtækasta dæmið er íslenski útrásar-bankaiðnaðurinn. Þetta myndskeið úr fréttaþætti RÚV 'Í brennidepli' er frá 2004 og lýsir hinum tápmiklu og duglegu útrásarmönnum sem þá höfðu þegar haslað sér völl í bestu og dýrustu hverfum Lundúna og flugu heim til eyjunnar á einkaþotum, sem átti eftir að fjölga.

Hvar stæðum við nú, ef menn hefðu hægt á ferðinni 2004? Staldrað við og hugsað:

"Ættum við kannski að einbeita okkur að þeim fyrirtækjum sem við erum nú búnir að kaupa, sjá til að þau skili raunverulegum arði og greiða niður þær miklu skuldir sem á okkur hvíla vegna kaupanna?"

Já hver veit. En þetta gerðist auðvitað ekki. Maskínan var alltof gráðug og hélt áfram, vildi meira og meira. Fleiri hundruð ungra og duglegra bankamanna, lögfræðinga og viðskiptajöfra átti allt sitt undir að haldið yrði áfram og keypt meira og meira. Það var beinlínis grundvöllurinn að þeim fáránlega arði sem bankarnir skiluðu ár eftir ár. Og hver vildi vera án þess?

Þriðju maskínuna mætti nefna, en það er verktaka-byggingamaskínan, sem óx hratt og dafnaði hér á síðustu árum. Þegar fasteignaverð rauk upp var orðið mjög arðbært að byggja. Byggingafyrirtæki stækkuðu og stækkuðu, þau þrýstu á að fá nýjar lóðir, ný hverfi og breytt skipulag - meira byggingarmagn, hærri hús, fleiri íbúðir. Maskínan mátti ekki svelta. Fáir spurðu, "Er þetta ekki nóg í bili?" "Þurfum við öll þessi hús?"

Stjórnmálamenn og skipulagsyfivöld voru þannig í mjög krefjandi hlutverki, að gæta þess að okkar nærsamfélag og skipulag byggðar væri eins og við teljum best, en ekki bara sem arðvænlegast fyrir byggingariðnaðinn.

Hið skuggalega var að sveitarfélögin voru í afar óeðlilegu samlífi með byggingamaskínunni, því sveitarfélögin höluðu inn milljarða á milljarða ofan á lóðasölu, og sveitarfélög fá aldrei nóg af peningum. (Íbúar sveitarfálaganna græddu hins vegar alls ekki á hinu háa lóðaverði, það bara hækkaði húsnæðisverð enn meira, sem íbúarnir þurftu á endanum að borga.) 

Ef maskínurnar vaxa og stækka eftirlitslaust verða þær hálfgerð skrímsli. Það er meðal annars hlutverk stjórnmálamanna að gæta að heildarhagsmunum samfélagsins alls og halda maskínunum í skefjum.

Þess vegna viljum við ekki að stjórnmálamenn séu á spenanum hjá maskínunum. Hvernig getum við treyst því að þeir láti ekki undan frekum kröfum þeirra? Að þeir beiti eðlilegu aðhaldi og hugsi um heildarhagsmuni þegar þeir skarast á við hagsmuni maskínanna sem stutt hafa stjórnmálamennina? Getum við treyst stjórnmálamönnum til að taka ákvarðanir sem gætu skaðað hagsmuni maskínanna?

Útrásar-bankamaskínan styrkti Sjálfstæðisflokkinn mjög hraustlega, eins og altalað er. 

Byggingarfyrirtækið Eykt var stærsti styrktaraðili Framsóknarflokksins 2006, með fimm milljóna styrk. Verkefnalisti Eyktar sýnir að fyrirtækið var mjög umsvifamikið og hefur unnið fjölda stórra framkvæmda fyrir hið opinbera. Eykt er með á sínum snærum eitt af fjölmörgum hálf- eða óbyggðum draugagötuhverfum stór-Reykjavíkursvæðisins, í hlíðum Helgafells í Mosfellsbæ. En slík hverfi eru æði mörg um allt höfuðborgarsvæðið og raunar víðar, sem sýnir að þessi maskína óx eftirlitslaust.


mbl.is Framsókn opnar bókhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumalandið mitt

Sá Draumalandið fyrir skemmstu. Mögnuð ádeila. Rifjaði upp dýrmætar minningar úr ferð minni á virkjunarsvæði Kárahnjúka sumarið 2006. Við ferðafélagarnir gáfum okkur góðan tíma til að skoða svæðið, gistum tvær nætur í bændagistingu í Hrafnkelsdal og höfðum þannig heilan dag til að fara um, bæði keyrandi og gangandi, og kynnast með eigin augum þessum tröllauknu framkvæmdum og ekki síst svæðinu sem fórnað var.

Fyrst lá leiðin að virkjunarsvæðinu. Mannvirkin voru á sama tíma heillandi og ógnvænleg. Þetta er óumdeilanlega verkfræðilegt stórvirki, manngert landslag í sjálfu sér.

Kárahnjúkastífla

Þetta var um verslunarmannahelgi og fjöldi fólks lagði leið sína á svæðið, en flestir létu sér nægja að stoppa á útsýnisstæði sem útbúið var austan við stífluna, en þar voru upplýsingaskilti og sást vel yfir nyrsta hluta svæðisins sem átti eftir að verða lónið. 

upplýsingaskilti

En við höfðum meiri áhuga á svæðinu sunnar, nær jöklinum, svæðinu sem ekki sást frá útsýnisstæðinu. Við keyrðum aftur yfir brúnna frægu (þá sem hafði farið á bólakaf dagana áður) og héldum suður eftir grófum slóða. Lögðum svo og gengum í átt að Kringilsánni, en við vildum sjá Kringilsárfoss, sem einnig var nefndur Töfrafoss, og jafnvel komast yfir í Kringilsárrana.

Þetta var sérstök tilfinning að upplifa svæðið. Hátt uppi, nálægt jökulrönd Vatnajökuls í þvílíkri gróðursæld, sól og bliðskaparveðri. Vitandi að þetta land átti eftir að hverfa. Land, sem sumir stjórnmálamenn létu hafa eftir sér að væri nú "ekkert sérstakt", eins og rifjað er upp í kvikmyndinni.

Lækur

Á leið okkar í leit að Kringilsárfossi. Þetta land er nú undir Hálslóni.

Við fundum fossinn og áðum. Þetta var tilkomumikill foss og allt landlagið um kring. Eitt sem vakti athygli var hvað gróðurinn í fossúðanum var grálitaður, en fossinn úðaði fíngerðum leirúða yfir lyngið, sem sýndi þvílíkt magn af aur berst með jökulsánum og fyllir nú hægt og rólega botn lónsins.

Kringilsá

Kringilsá neðan við Töfrafoss. Horfið.

Töfrafoss

Við gengum niður með ánni, að kláfnum yfir í Kringilsárrana, sem hagleiksmaðurinn Guðmundur á Vaði setti upp, vitandi að hann myndi aðeins gagnast í fáein ár, en nú er hann á 50-75 metra dýpi að ég hygg (fer eftir árstíð og yfirborðshæð lónsins).

klafur2

kláfur

 

Þetta var ógleymanleg ferð og sérstök tilfinning að ganga um land sem yrði ekki til ári síðar, og er nú, tæpum þremur árum síðar, horfið. Var þessi fórn þess virði?  (Fyrir umdeilanlegan ágóða, sem okkur tókst svo á síðasta ári að tapa margfalt í efnahagshruninu.) Mín skoðun var staðföst eftir þessa ferð og hefur ekki breyst.

Ég hvet alla til að sjá kvikmyndina Draumalandið og munum að baráttunni fyrir landinu okkar er langt í frá lokið.

Lítill foss sem rennur í Kringilsá

í Kringilsárrana

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband