Færsluflokkur: Íþróttir

Ísland styður Pútín og Rússa

Mörg lönd kjósa að senda Rússum skilaboð með því að senda ekki æðstu þjóðhöfðingja á Vetrarólympíuleikana í Sochi sem haldnir eru í þessum mánuði. Þetta er vegna þess hvernig þróun í ýmsum mannréttindamálum virðist beinlínis fara afturábak í Rússlandi um þessar mundir.

Ísland  tekur skref í hina áttina og sendir Rússum og ekki síst Forsetanum skýr skilaboð um stuðning. 

Mér sýnist á gúggli og leit á ágætri heimasíðu Forsetaembættisins að núverandi Forseti Íslands hafi aldrei áður sótt vetrarólympíuleika, ekki 1998, 2002, 2006 eða 2010.

En núna árið 2014 ætlar Forsetinn að heiðra gestgjafana í Sochi með nærveru sinni og forsetafrúarinnar. Tveir ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands munu einnig sækja leikana fyrir Íslands hönd.

Þetta mun vonandi hafa jákvæð áhrif á samband okkar við Rússland, en Forseti Íslands hefur oft lýst því í ræðu og riti að Rússland og Kína séu mikilvægar vinaþjóðir Íslands, nú og í framtíðinni. Forsetinn hefur mótandi áhrif á utanríkisstefnu núverandi ríkisstjórnar og er fulltrúi okkar víða á erlendri grund. 

 

Herra Pútín - Ísland styður þig, við erum bandamenn Rússlands!

 op1

op2

 
op3 
 
op4

 


Ertu ekki Íslendingur?!

Fór að skokka í kvöld stuttan hring í Laugardalnum. Á göngustígnum austan við Grasagarðinn, nálægt Álfheimum, stöðvaði mig maður og spurði mig til vegar, en hann var að leita að Fram vellinum, með rúmlega hálffullt bjórglas í hendi og nokkur í maga, af fasi hans að dæma. Líklega hefur hann hitað upp fyrir leikinn í Ölveri í Glæsibæ.

Ég hugsaði með mér að það væri nú munur ef menn gætu hellt í sig öli við hlið vallarins eða á bar í stúkunni sjáfri, eins og fótboltafélögin vilja, þá þyrfti þessi maður ekki að ganga allan Laugardalinn á enda og eiga á hættu að týnast eða að skvettist úr glasinu. 

Hann þakkaði mér kærlega fyrir leiðbeiningar en spurði svo nokkuð hvumsa, Af hverju ertu í svona bol? Er þetta ekki tyrkneskur bolur? Af hverju ertu í tyrkneskum bol? Ertu ekki Íslendingur, ha?

Jú mikið rétt, ég var með tyrkneska fánann á maganum. Keypti bolinn í Tyrklandsferð fyrir 6 árum og nota hann til að skokka í. Skemmtilega eldrauður og fáninn er myndrænn og flottur.

En ég var lagður af stað og svaraði ekki manninum. Hefði auðvitað getað sagt honum að ég væri hálfur Tyrki og hefði búið í Tyrklandi til 5 ára aldurs, eða að konan mín væri tyrknesk og börnin mín með tvöfalt ríkisfang.

En af hverju ætti ég svo sem að þurfa að réttlæta fyrir þessum manni í hvaða fatnaði ég hleyp?? Hvort sem ég er Tyrki eða ekki? 

Öl er innri maður er sagt. Það er sannleikskorn í því. Menn eru hömlulausari, ófeimnari við að láta í ljós tilfinningar, skoðanir, og fordóma. Er sérstök þörf á að ýta undir það á knattspurnuleikjum?

 

 

tyrkland

Bolurinn sem stuðaði öl- og fótboltaunnandann.


Hvað eiga kirkjan, KR, Oddfellow og Flugfreyjufélagið sameiginlegt?

Í sjálfu sér ekki neitt. En frá mínum sjónarhóli séð eiga öll þessi félög þó það sameiginlegt að ég er ekki félagi í þeim. Það þýðir ekki að ég sé neitt á móti þeim, síður en svo, ég bara á ekki samleið með þeim af ýmsum ástæðum og þarf auðvitað ekkert að afsaka það, frekar en að ég þurfi að skýra af hverju ég er ekki í ballett eða frímerkjaklúbbi. Ég held meira að segja að þetta séu allt góð og gegn félög sem vinna gott starf. En sem sagt, ég er ekki félagi í þeim og borga þ.a.l. ekki til þeirra félagsgjöld. Nema til kirkjunnar. Ríkið innheimtir af mér safnaðargjald þó svo ég sé ekki í neinum kirkjusöfnuði. Dálítið spes. Safnaðargjaldið mitt rennur beint í ríkissjóð, sem m.a. borgar laun biskups. Ég hefði frekar kosið að þetta félagsgjald gengi til félags sem ég sjálfur kýs að vera félagi í, svo sem til kórsins míns, RKÍ, Amnesty, Ferðafélagsins, eða annars félags, af þeim sem ég er félagi í og greiði gjöld til. En svona er þetta.

Má ekki fara að breyta þessu?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband