Færsluflokkur: Matur og drykkur

Dauðastríð hvala þolir ekki dagsljósið

Sjávarútvegsráðherra og fiskistofustjóri vilja ekki opinbera niðurstöðu rannsókna á dauðatíma hvala sem veiddir eru, en þetta hefur verið rannsakað á yfirstandandi hvalavertíð. Ráherrann svaraði fyrirspurn um þetta á Alþingi. Hér er frétt um málið á visir.is.

Margir andstæðingar hvalveiða beita meðal annars þeirri röksemd fyrir afstöðu sinni að erfitt sé að taka af lífi hval á skjótan og mannúðlegan hátt. Leynd ráðherrans styrkir þeirra málsstað, því ef rannsóknirnar myndu sýna að hvalirnir væru aflífaðir hratt og vel myndi þeim upplýsingum varla verið haldið leyndum.

Stæði fólki á sama ef nautgripir væru drepnir þannig í sláturhúsum að það tæki frá nokkrum mínútum og upp í hálftíma* að drepast?  Þetta er hvoru tveggja stór spendýr, með nokkuð álíka taugaþroska og tilfinningar.

 LMazzuca_Fin_Whale

Langreyður 

naut

Naut 

*Þetta er ágiskun, þar sem tölum um raunverulegan dauðatíma er haldið leyndum. 


2.898 kr fyrir eitt dýr

Ég las hjá Dr. Gunna að eitt stykki lífrænt ræktaður kjúklingur innfluttur frá Danmörku kosti í Fjarðarkaup 2.898 kr.

Er það svo voðalega mikið? Kjúklingurinn vegur ca. 1.2 kg. Þetta er ekki tiltakanlega dýrara en annað kjöt. (Mér persónulega stendur á sama hvort kjúklingurinn uppfylli alla staðla til að teljast "lífrænn", ég vil fyrst og fremst að dýrið búi við viðunandi aðstæður, eins og t.d. kýr og sauðfé.

Af hverju finnst okkur að kjúklingakjöt eigi að vera ódýrt?

Gerum okkur grein fyrir að kjúklingur er ódýr eingöngu vegna þess að búið er að hámarka hagkvæmni í ræktun kjúklinga, sem gerir aðstæður dýranna og meðhöndlun alla ömurlega. Þeir lifa mjög þröngt alla ævi, gangandi um í eigin skít, þeir eru ofaldir og eiginlega vanskapaðir fullvaxnir, farið er með þá eins og dauða hluti meðan þeir eru enn á lífi, þegar þeir eru færðir til slátrunar er þeim bókstaflega hrúgað í kassa, menn grípa þá hvernig sem er, í vængi, fætur, í akkorði.

Þannig er hægt að framleiða kjúkling ódýrt.

Meðan við lokum augum fyrir þessu og höldum áfram að kaupa "venjulegan" kjúkling erum við að styðja svona verksmiðjuframleiðslu á dýrum. 

 

chicken2

Berum virðingu fyrir dýrum, líka hænsfuglum. 

 

 

 

 


Óttuðust neytendur írskt smjör?

Nei.

Neytendur óttuðust alls ekki írska smjörið. Umræðan var ekki um það. Mér vitanlega er Guðni Ágústsson, sérlegur lobbýisti íslenskra mjólkurframleiðenda (MS og tengdra félaga) eini maðurinn sem hefur haldið því fram að írska smjörið væri öðruvísi og verra en íslenskt smjör.

Írskt smjör þykir einstök gæðavara og er selt m.a. til Bandaríkjanna, enda bíta írskar kýr gras á eyjunni grænu, á meðan kynsystur þeirra vestanhafs fá kornfóður. Í sumum amerískum uppskriftum er sérstaklega tekið fram að nota skal "Irish Butter"!(Sjá m.a. umræðu hér.)   

Íslenskum neytendum, og ekki síður fjölmiðlum, fannst forvitnilegt að MS ætlaði sér að lauma útlensku smjöri í sinn rjóma, þegar íslensk landbúnaðarpólitík hefur alla tíð gengið út á að ekki megi flytja inn mjólkurvörur svo sem smjör og mjólk, nema í algjörum undantekningum.

Það er sérstakt að það sé stundum í lagi að flytja inn útlenskt gæðasmjör, en að það sé í höndum MS að ákvarða það. 

KerryGold_Irish_Butter 



Gefum Franklin Graham sjálfdautt kjöt

Trúboðinn og boðberi Guðs orðs Franklin Graham mætti í Kastljós í kvöld. Elskulegur og kurteis svaraði hann spurningum Þóru Arnórsdóttur, sem helst vildi bara ræða við hann um homma og lesbíur.

Graham útskýrði að hann væri ekkert að lýsa sínum persónulegu prívatskoðunum, heldur bara vilja Guðs og Hans orðum. Biblían hefði að geyma orð Guðs, og hún væri óskeikul.

Í þessum efnum fylgir Franklin Graham játningum íslensku Þjóðkirkjunnar, sem segja m.a. 

Þjóðkirkjan viðurkennir heilaga ritningu Gamla og Nýja testamentisins sem orð Guðs  

 

Já þær eru margar reglurnar sem Guð leggur okkur með orðum sínum. Meðal annars þetta:

5. Mós 14.3-21:

Hrein fæða og óhrein
3Þú skalt ekki eta neitt viðbjóðslegt. 4Þetta eru dýrin sem þið megið eta: naut, sauðfé, geitur, 5hirtir, skógargeitur, dádýr, steingeitur, fjallageitur, antílópur og gemsur.
6Þið megið eta öll dýr sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra. 7En þessi dýr, sem jórtra og hafa alklofnar klaufir, megið þið ekki eta: úlfalda, héra og stökkhéra því að þau jórtra að vísu en hafa ekki klaufir. Þau skulu vera ykkur óhrein, 8einnig villisvínið því að það hefur klaufir en jórtrar ekki. Það skal vera ykkur óhreint. Þið megið hvorki leggja ykkur kjöt þessara dýra til munns né snerta hræ þeirra.
9Af lagardýrum megið þið neyta alls sem hefur ugga og hreistur. 10En þið megið ekki eta neitt sem hvorki hefur ugga né hreistur. Það skal vera ykkur óhreint.
11Alla hreina fugla megið þið eta. 12En þetta eru fuglarnir sem þið megið ekki eta: örninn, gammurinn, skegggammurinn, 13gleðan, ýmsar fálkategundir,14hrafnakynið, 15strúturinn, uglan, mávurinn, haukakynið, 16hornuglan, náttuglan, snæuglan, 17pelíkaninn, hrægammurinn, súlan, 18storkurinn, lóukynið, herfuglinn og leðurblakan.
19Öll vængjuð skordýr skulu vera ykkur óhrein, þau má ekki eta. 20En alla hreina fugla má eta.

21Þið megið ekki eta neitt sjálfdautt. Þú mátt gefa það aðkomumanni í borgum þínum að eta eða þú getur selt það aðkomumanni. En þú ert Drottni, Guði þínum, helgaður lýður. 


mbl.is Ber virðingu fyrir samkynhneigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra loft

Tek eftir því að búið er að viðra út óloft héðan af bloggsvæðinu. Mikið var. Menn verða að kunna að skiptast á skoðunum án dónaskaps og hortugheita. Það er ekki öllum gefið.

Eigandi RÚV kvartar undan bjórauglýsingum

Ekkert Grolsch léttöl fæst út í búð og hefur ekki fengist lengi. Þetta er staðfest í frétt í Fréttablaðinu í morgun og á visir.is. Eins og ég skrifaði um í nýlegri færslu er þetta öl auglýst grimmt í þætti á Rás 2 Ríkisútvarpsins, Litlu hafmeyjunni, sem sérstaklega virðist ætlað að höfða til ungs fólks.

Framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar, sem flytur inn ölið og áfengan bjór undir sama nafni og í nákvæmlega eins umbúðum, segir í fréttinni í morgun að léttölið eigi að vera til í búðunum en "það gæti verið uppselt", bætir svo við "Grolsch-léttöl hefur ekki verið til í mjög langan tíma [!] og síðan bjuggum við til léttöl og eigum von á meiru".

Þetta gæti ekki verið skýrara... eða þannig. Hvenær var Grolsch léttöl síðast til? Er það hvergi til í heiminum nema á Íslandi, þar sem Ölgerðarmenn bjuggu til nokkrar flöskur?

Það er svo sem ekki nema von að framkvæmdastjóranum verði orða vant, ölgerðarmenn og heildsalar hafa stundað þennan leik árum saman án þess að mikið sé fett útí það fingur, að auglýsa bjór og klína svo léttölsstimpli á auglýsinguna, þó svo allir átti sig á hvaða hugrenningar auglýsingarnar eigi að vekja.

Látum vera að Ölgerðin reyni öll trix í bókinni til að selja vöru sína sem mest. En að RÚV skuli gagnrýnislaust taka þátt í slíkum leik er dapurt.

RÚV hefur undanfarið hamrað á því í auglýsingum að við öll 330.000 Íslendingar séum eigendur Ríkisútvarpsins. Ég undirritaður eigandi RÚV vill mótmæla því að bjór sé auglýstur í útvarpinu og sérstaklega finnst mér miður að það sé gert í útvarpsþáttum fyrir unglinga.

Ég á jafn mikið í RÚV og þú, Audi-Palli!


Hvar fæst Grolsch léttöl??

Grolsch léttölHlustaði á skemmtilegan þátt á Rás 2 Ríkisútvarpsins í hringferð minni um landinu, Litlu hafmeyjuna. Endurtekið var kynnt að þátturinn er í boði Grolsch léttöls. Það er þakkarvert, annars væri væntanlega bara þögn í útvarpinu ef ekki kæmi til gæska ölsalans.

Í þakklætisskyni langaði mig að kaupa þetta góða léttöl sem býður upp á útvarpsþáttinn, en ég hef hvergi komið auga á það í búðum. Vita einhverjir blogglesendur hvar kaupa má Grolsch léttöl?  (Samkvæmt heildsala er það flutt inn.)

Kannski kaupi ég bara áfengan Grolsch bjór í staðinn, þó svo það hafi ábyggilega ekki verið meiningin með kostun þáttanna í ríkisfjölmiðlinum, enda með öllu óheimilt að auglýsa áfengi í útvarpi. 

Ekki færi ríkisfjölmiðillinn að fara í kringum þau lög, allra síst í þætti sem virðist beint til unglinga??


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband