Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Á að banna kaþólsku kirkjuna?

Páfinn á ekki sjö dagana sæla. Hann er borinn þungum sökum og virðist líklegt að hann sjálfur hafi tekið beinan þátt í þagga niður og breiða yfir alvarleg atvik af þeim langa lista af níðingsverkum sem virðist vella uppúr skúmaskotum kaþólsku kirkjunnar.

Það er mín skoðun að hér séu orsakatengsl við hið brengluðu viðhorf stofnunarinnar til kynlífs og mannfólksins sem kynvera. Hvers konar menn ákveða á unga aldri að læra til prests í kaþólsku kirkjunni og ætla sér ævilangt skírlífi? Getur verið að í þeim hópi séu hlutsfallslega margir sem eru haldnir ýmsum kynferðislegum komplexum og sálarflækjum?

[...]

Meira á síðunni www.bloggheimar.is/einarkarl.


Eigandi RÚV kvartar undan bjórauglýsingum

Ekkert Grolsch léttöl fæst út í búð og hefur ekki fengist lengi. Þetta er staðfest í frétt í Fréttablaðinu í morgun og á visir.is. Eins og ég skrifaði um í nýlegri færslu er þetta öl auglýst grimmt í þætti á Rás 2 Ríkisútvarpsins, Litlu hafmeyjunni, sem sérstaklega virðist ætlað að höfða til ungs fólks.

Framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar, sem flytur inn ölið og áfengan bjór undir sama nafni og í nákvæmlega eins umbúðum, segir í fréttinni í morgun að léttölið eigi að vera til í búðunum en "það gæti verið uppselt", bætir svo við "Grolsch-léttöl hefur ekki verið til í mjög langan tíma [!] og síðan bjuggum við til léttöl og eigum von á meiru".

Þetta gæti ekki verið skýrara... eða þannig. Hvenær var Grolsch léttöl síðast til? Er það hvergi til í heiminum nema á Íslandi, þar sem Ölgerðarmenn bjuggu til nokkrar flöskur?

Það er svo sem ekki nema von að framkvæmdastjóranum verði orða vant, ölgerðarmenn og heildsalar hafa stundað þennan leik árum saman án þess að mikið sé fett útí það fingur, að auglýsa bjór og klína svo léttölsstimpli á auglýsinguna, þó svo allir átti sig á hvaða hugrenningar auglýsingarnar eigi að vekja.

Látum vera að Ölgerðin reyni öll trix í bókinni til að selja vöru sína sem mest. En að RÚV skuli gagnrýnislaust taka þátt í slíkum leik er dapurt.

RÚV hefur undanfarið hamrað á því í auglýsingum að við öll 330.000 Íslendingar séum eigendur Ríkisútvarpsins. Ég undirritaður eigandi RÚV vill mótmæla því að bjór sé auglýstur í útvarpinu og sérstaklega finnst mér miður að það sé gert í útvarpsþáttum fyrir unglinga.

Ég á jafn mikið í RÚV og þú, Audi-Palli!


Hvað kostar að reykja?

Eftir skattahækkun á áfengi og tóbak verður algeng bjórdós komin upp í 287 kr. Það þýðir að sá sem drekkur kippu á dag þarf að greiða fyrir mjöðinn ríflega 628.000 krónur.

Þessi tala finnst kannski flestum litlu máli skipta. Hver þarf að þamba heila kippu af bjór á hverjum degi ársins? En þegar kemur að tóbaki bregður svo við að fjölmiðlar reikna út og segja frá því hversu mikið kosti að reykja heilan pakka af sígarettum á hverjum einasta degi. Kostnaður af því er sannanlega skuggalega hár, eða um 290.000 kr á ári. Það þarf sem sagt ein þokkaleg mánaðarlaun, eftir skatta, til að standa undir  slíkri tóbaksneyslu.

reykingamaðurÞað þykir greinilega ofureðlilegt að reykja 20 sígarettur á sólarhring, meira en eina á hverri einustu vakandi klukkustund, allan ársins hring. Hvernig stendur á því að slík óhófsneysla sé talin eðlilegt viðmið fyrir tóbaksneyslu? Á meðan er sá sem drekkur bjórkippu á dag talinn illa haldinn af alkóhólisma og í bráðri þörf á aðstoð.

Er eðlilegt að vera svo illa haldinn af tóbaksfíkn að maður þurfi að reykja á hverri klukkustund, alla daga vikunnar, allan ársins hring?

Nú skilst mér að eftir skattahækkunina kosti hver sígaretta 40-45 kr. stykkið.  Veit ekki alveg hvort mér finnist það mikið eða lítið. Helmingi ódýrara en lítið súkkulaðistykki. Miklu ódýrara en 700 kr bjórglas á krá.

Þeir sem reykja öðru hvoru 1-2 sígarettur að kvöldi til, eða sem svarar 2 til 3 pakka á mánuði, eyða þannig um 24.000 kr yfir árið, 2.000 kr á mánuði.

Er ekki einfaldlega málið að með frábærri markaðssetningu alla 20. öldina hafa tóbaksfyrirtæki komið því í kollinn á okkur að það sé bara eðlilegt að vera haldin tóbaksfíkn, og selt tóbakið í handhægum umbúðum sem hægt er að ganga með á sér til að svala fíkninni öllum stundum, bókstaflega?

Ég held bara að það sé alls ekki eðlilegt, frekar en gengdarlaust óhóf í öðrum lífsnautnum.

 


100% heimska - gervivísindi og peningaplokk

Veit ekki með ykkur, ég gat ekki annað en brosað að viðtali við knattspyrnukappa úr KR í Fréttablaðinu sem nota sk. "Lifewave" plástra. Þar má lesa eftirfarandi:

Þetta er í rauninni bara vísindi og ekkert annað. Þetta byggir á gömlu austurlensku fræðunum um nálastungupunkta og orkubrautir líkamans. Með því að setja plástrana á ákveðna punkta er verið að örva rafsegulsvið líkamans. Þetta er ný tækni og plástrarnir koma í staðinn fyrir nálarnar.

Þetta er lokað kerfi. Það eru engin efni, krem eða lyf sem fara inn í líkamann sjálfan heldur eingöngu tíðni. Þessi tíðni verður til við sambland sykurs, súrefnis og blöndu af amínósýrum sem eru inni í plástrinum. Það er í raun og veru bara hómópata-remedíur. Þetta eru náttúruleg efni.

Þessi speki vellur upp úr fyrirliða KR og kynningarfulltrúa Lifewave-plástrana. Af tillitsemi við þá nafngreini ég þá ekki hér. Á vefnum má enn fremur lesa að plástrarnir byggja að auki á nanótækni.

Ef það reynist arða af vitglóru í þessu skal ég borða borðstofuborðið mitt.

Lifwave


Lobbýismi á Íslandi - talsmenn erlendra stórfyrirtækja

pillumaður"Lobbýismi" er það þegar hagsmunaaðilar reyna að koma sínum sjónarmiðum og hagsmunum á framfæri við stjórnvöld. Fyrirbærið er sérstaklega þekkt frá Bandaríkjunum, þar sem heil atvinnugrein þrífst á þessari iðju. Í sjálfu sér ekki óeðlilegt ef þess er gætt að hagsmunagæsla sé fyrir opnum tjöldum.

Í Íslandi er 'lobbýismi' ekki eins þróaður og vestanhafs en þekkist auðvitað. Hugtakið kemur oft í hugann þegar ég les greinar eftir framkvæmdastjóra Samtakanna Frumtök - Samtök framleiðenda frumlyfja. Samtökin eru með skrifstofu í Borgartúni, 7 manna stjórn skipuð Íslendingum og að því er virðist a.m.k. einn starfsmann.

Hið skondna er að það eru engir framleiðendur frumlyfja á Íslandi. Eitt íslenskt fyrirtæki á aðild að samtökunum, Íslensk Erfðagreining. Það fyrirtæki gerir margt spennandi, en mörg ár eru í það að ÍE framleiði lyf. Hin aðildarfyrirtækin eru stór erlend lyfjafyrirtæki, svosem GlaxoSmithkline, Pfizer, Novartis, o.fl. Félagið fer svo sem ekkert í grafgötur með það að einn tilgangur þess er "að gæta hagsmuna framleiðenda frumlyfja á Íslandi". Þeir hagsmunir eru náttúrulega að selja sem mest af sinni vöru á sem bestu verði!

Allt gott um þessi fyrirtæki að segja í sjálfu sér, samt pínu skondið að þau reki skrifstofu hér á landi til að gæta sinna hagsmuna, undir þessu íslenska nafni, eins og um sé að ræða hefðbundið íslenskt félag.

Væri svona svipað og ef bílaframleiðendur, Toyota, Volkswagen, Ford, o.fl. myndi reka hér lobbýismaskrifstofu sem "íslenskt" félag, Félag bifreiðaframleiðenda, og leyfa kannski Arctic Trucks að vera með!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband