Ólafur, Þóra og stóra ESB-samsærið

Sú kenning lifir góðu lífi meðal að minnsta kosti lítils hóps harðra ESB-andstæðinga og stuðningsmanna Ólafs Ragnars að verði Þóra Arnórsdóttir kosinn forseti muni ríkisstjórn geta þröngvað Íslandi inn í Evrópusambandið gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Kenningin kann að hljóma fjarstæðukennd, en er einhvern veginn svona:

Eftir að aðildarviðræðum við ESB er lokið og samningur liggur fyrir er gert ráð fyrir að samningurinn verði settur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er í fullu samræmi við þingsályktunina sem meirihluti Alþingis samþykkti 2009 og fól ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ályktunin var svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.

Ótti þeirra vænisjúku er að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki „bindandi“ og því geti meirihluti Alþingis sniðgengið hana og samþykkt samninginn, í trássi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Rökin eru þau að þjóðaratkvæðagreiðsla lögfesti ekki samninginn og að Alþingi þurfi að leiða hann í lög. Svo er jafnvel bent á að núverandi þingmeirihluti hafi ekki viljað samþykkja tillögu um að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði „bindandi“. (Horft er framhjá því að sú tillaga fól í sér að breyta skyldi stjórnarskrá áður en þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin, og menn geta svo ímyndað sér hvort núverandi stjórnarandstöðuflokkar myndu vera fljótir til að samþykkja breytingar á stjórnarskrá - tillagan gekk þannig í raun ekki út á að tryggja að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu yrði virt, heldur út á það að fresta því að meirihluti þjóðarinnar fengi að segja hug sinn um þetta mál.)

Síðasti hlekkurinn í þessari samsæriskenningu er sú að Þóra Arnórsdóttir myndi skilyrðislaust skrifa uppá þess háttar lög sem sniðgengju útkomu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, vilja meirihluta þjóðarinnar. Þar með hefðu landráðamennirnir í Samfylkingunni selt Ísland í hendur Brusselveldinu sem horfi löngunaraugum til okkar dýrmætu auðlinda. Til að þessi dómsdagsspá rætist ekki þurfi að tryggja að fulltrúi fólksins, hin fórnfúsa rödd þjóðarinnar, „síðasta stoppistöðin“ (að eigin sögn), Ólafur Ragnar Grímsson, verði áfram forseti.

Það er hálf dapurlegt að vita til þess að hluti þjóðarinnar telji fulltrúa sína á Alþingi þannig innréttaða að þeir myndu sniðganga niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og leiða í lög samning sem hefði verið hafnað af meirihluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, og að slík ákvörðun sem sneri lýðræðinu algjörlega á hvolf gæti yfir höfuð staðist.

Langsótt? Já  Vænisjúkt? Já.

En hér kemur það virkilega dapurlega í þessari sögu. Sitjandi forseti Íslands tekur undir þessar vænisjúku samsæriskenningar og beinlínis elur á þeim. Forseti Íslands tortryggir Alþingi, fulltrúaþing Íslands og elur á samsæriskenningu sem beinlínis gerir ráð fyrir að Alþingi myndi hafa að engu lýðræði og vilja meirihluta þjóðarinnar, en setur sjálfan sig í annan og sérstakan gæðaflokk göfuglyndis og óeigingirni. Þetta kemur fram í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins, þar sem Ólafur Ragnar segir:

Síðan hefur verið mjög á reiki hvort sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem Alþingi myndi samþykkja varðandi Evrópusambandi yrði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla eða hinn endanlegi dómur. Sumir hafa haldið því fram að eðli málsins samkvæmt yrði það að vera ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla og svo yrði að koma í ljós hvort Alþingi myndi fylgja henni.

HVERJIR hafa sagt þetta, Ólafur Ragnar? Stuðningsmenn þínir á Útvarpi Sögu? Eiríkur Stefánsson eða Páll Vilhjálmsson? Trúir ÞÚ þessu sjálfur, eða ert þú bara að höfða til þeirra sem þessu trúa?

Þetta er í raun með ólíkindum. Forsetinn elur á tortryggni og lepur upp vænisýkina beint af spjallvefjum og bloggsíðum, samsæriskenningarnar um að umheimurinn sitji í launsátri um okkur, og svikarar og landráðamenn bíði færis að framselja fullveldið og fjallkonuna. Ólafur lýsir algjöru vantrausti á Alþingi og ásakar ríkisstjórn um að vera reiðubúna til að þröngva landinu inn í Evrópusambandið gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Hann nærir átök, flokkadrætti, skotgrafnahernað og þann sundirlyndisfjanda sem hefur eitrað alltof mikið alla samfélagsumræðu síðustu misseri.

Allt til að ná endurkjöri.

Viljum við þannig forseta?

 

Í Guðanna bænum, skiptum um Forseta.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvers vegna er ykkur ESB sinnum og Samfylkingarhækjum svona annt um að hrekja af ykkur slíðruorðið og ráðast gegn forsetanum?  Fyrir mér er það möguleg staðfesting á að eitthvað sé til í áhyggjum meirihluta Íslendinga. 

Það er eitthvað svo ógeðfellt við ykkur og yfirlætislegt, rætið og undirförult að ég skil vel að þið vekið tortryggni hjá flestum. 

Jón Steinar Ragnarsson, 29.5.2012 kl. 09:53

2 identicon

Einar karl síðuritari. Þetta átrúnaðargoð þitt hún Jóhanna sagði að þjóðaratkvæðagreiðslan um ESB yrði ,,,ráðgefandi,,,.

Aðalstarfsmaður Evrópusambandsins á Íslandi hefir aðeins eitt markmið, það er að troða þjóð sinni inní þetta ESB-klíkuveldi,þessi starfsmaður er reyndar um þessar mundir einnig forsætisráðherra Íslands og heitir Jóhanna Sigurðardóttir flugfreyja með meiru,og hennar tími er reyndar löngu,löngu liðinn.

Ég skammast mín svo svakalega að hafa verið plataður til að kjósa þessa ríkisstjórn og biðst afsökunar á því.(ég ber ábyrgð)

Þóra Arnórsdóttir ritaði grein í DV að mig minnir 1997 um kosti þess að við ættum að ganga inní þetta ESB-klíkuveldi,sjá tímarit.is.

Númi (IP-tala skráð) 29.5.2012 kl. 10:13

3 Smámynd: Snorri Hansson

Við höfum raunverulega ástæðu til þess að vantreysta ykkur.

Snorri Hansson, 29.5.2012 kl. 13:55

4 Smámynd: Einar Karl

Jón Steinar og og Snorri, um hverja eru þið að tala? Ég einn skrifa þennan pistil, og ég er ekki fulltrúi neins hóps eða flokks.

Jón Steinar Ragnarsson, ertu að tala til mín með þessum lýsingarorðum (ógeðfellt, rætið, undirförult ...) ?

Af hverju ertu með svona dónaskap í minn garð? Af því þú hefur ekkert málefnanlegt að segja?

Einar Karl, 29.5.2012 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband