Þjóðkirkjan, sértrúarsöfnuðir og bókstafstrú

Þjóðkirkjan hefur heldur betur lent í mótvindi vegna þess að hún (ýmsir söfnuðir hennar og prestar) er í samkrulli með öðrum trúfélögum að halda trúarhátíð í næsta mánuði þar sem aðalgestur er bókstafstrúaður bandarískur predikari sem hefur talað oft og mikið gegn mannréttindum samkynhneigðra.

Ameríkaninn, og margir íslenskir sértrúarsöfnuðir, byggja afstöðu sína til samkynhneigðar og margvíslegra annarra mála á tvöþúsund ára gömlum fornritum frá botni Miðjarðarhafs. 

Sértrúarsöfnuðirnir trúa því að fornritin, Biblían, sé heilagur óskeikull sannleikur, orð Guðs almáttugs, tjáð í gegnum þá sem rituðu biblíuna.

Biblían í heild sinni er hins vegar kolómögulegur leiðarvísir fyrir líf okkar og lélegur kompás fyrir margvísleg siðferðisleg mál. Það er hægt að finna í Biblíunni alls konar vitleysu, strangar reglur um hitt og þetta, og boðorð um að dauðarefsingar skuli fylgja ýmsum yfirsjónum sem okkur þykja ekki tiltökumál í dag. Enda þurfa prestar Þjóðkirkjunnar fimm ára háskólanám til að geta skilið og túlkað Biblíuna fyrir okkur óbreytta.

En Þjóðkirkjan getur ekki komið hreint fram og sagt, "Þetta er vitleysa! Það Á EKKI að taka Biblíuna bókstaflega! Það er vitlaust, það er órökrétt, og það getur verið beinlínis hættulegt."

Því samkvæmt kenningum þeim sem Þjóðkirkjan aðhyllist og játningum hennar er Biblían annað og meira en fornrit, hún er "heilagt orð", orð Guðs

Þess vegna er Þjóðkirkjan í eilífum vanda þegar kemur að sértrúarsöfnuðum, því hún á í basli með að lýsa því yfir skýrt og skorinort að bókstafstrúaðir sértrúarsöfnuðir séu á villigötum.

Ég skil satt að segja ekki HVAÐ það er sem Þjóðkirkjan sér jákvætt við þetta samstarf við sértrúarsöfnuði. Aðhyllist Þjóðkirkjan sömu grunngildi til mannlegs samfélags og þessir söfnuðir?

Ekki hefur Þjóðkirkjan mér vitanlega tekið þátt í íslensku trúboðs-sjónvarpsstöðinni Ómega. Á þeirri stöð eru oft og iðulega sýndir svona bandarískir sjónvarpspredikarar, eins og Franklin Graham. Svona predikanir ganga út á einskonar múgsefjun, að ná fólki helst í einhverskonar trans. Er það andlega heilbrigt og hollt?

Þetta sagði einn gestur á fyrri svona hátíð á Íslandi:

... við hjónin fórum á þessa hátíð Vonar fyrir ca. 20 árum síðan þegar við vorum í Kristkirkjunni. Það sem var mjög áberandi var þessi múgsefjun sem minnti einna helst á rokktónleika og peningaplokkið í kjölfarið. Eftir á að hyggja held ég að svona samkomur séu vel útfærð viðskiptahugmynd.

(komment við þennan pistil)

 

Til hvers er leikurinn gerður?  Hvert er Þjóðkirkjan að fara með þessu?

Kannski er tími kominn til að Þjókirkjan endurskoði kenningar sínar, ef hún vill kalla sig ÞJÓÐ-kirkju. Kannski ætti hún að gerast almenn andleg heilsubótarstofnun þar sem hægt að sækja frið og ró og næra sálina, en sleppa því að boða einhverja tiltekna trú á heimsendaspá, syndafórn og guðleg fornrit.

Hinn valkosturinn er að Þjóðkirkjan gerist sjálfstætt trúfélag, eins og hún segist vera en er ekki, og að ríkisrekstri Þjóðkirkjunnar verði hætt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Reyndar hefur amk einn prsestur ríkiskirkjunnar (hún María Ágústsdóttir) verið með þætti á Ómega.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 10.8.2013 kl. 21:07

2 Smámynd: Einar Karl

Nú nú. Já það eru nú ýmsir innan Þjóðkirkjunnar sem taka bókstafinn býsna hátíðlega. Skilin eru ekki skörp á milli okkar "líberal" Þjóðkirkju og annarra trúfélaga sem í daglega tali eru kölluð sértrúarsöfnuðir. (sem er svolítið skondið orð - Þjóðkirkjutrú er normið, hin "almenna" trú, frávik eru "sértrú".)

Einar Karl, 11.8.2013 kl. 00:11

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

sæll Einar Karl.Ég sé að þú vitnar í mín orð og gef ég þér vinsamlegt leyfi til þess.það er rétt að peningaplokk er ekki gott og reyndar held ég að það standi einhversstaðar í lögum að ekki sé leyfilegt að nota trú eða annað til að hafa peninga út úr fólki.það er líka fullt af heilurum og spámönnum og kellingum sem nota sér fólk sem er annaðhvort ekki heilt andlega eða trúir á þetta og spáir fyrir því um framtíð og peninga og tekur fúlgur fjár fyrir.Gleymum því fólki ekki.Mín afstaða er að allir megi hafa sína trú í friði ef þeir eru ekki að misnota hana gegn öðru fólki og borgi fyrir sig sjálft.En að sjálfsögðu eru mannréttindi fólks hafin yfir trúarskoðanir og eiga að koma fyrst.Ég er ekki trúaður í dag en vil reyna að passa mig í því að virða aðra og þeirra skoðanir.Tekst það misjafnlega ,en samt.

Jósef Smári Ásmundsson, 11.8.2013 kl. 09:07

4 Smámynd: Einar Karl

Takk fyrir kommentið Jósef Smári,

já mér fannst komment þitt sem ég vitna í gott og þarft innlegg í umræðuna um þessa hátíð.

Trúin blessuð, ég las grein fyrir skemmstu í New York Times um bænir. Mannfræðingar höfðu rannsakað efnið og töldu að bænir gæti gert fólki gott, hjálpað því að halda ákveðnum fókus í lífinu og finna vissa jarðtengingu. Sagt var frá yfirlýstum trúleysinga sem bjó sér til sinn eigin guð, til að geta talað við í einrúmi um ýmis vandamál sem hann var að takast á við. En svo sögðu þeir líka að hjá þeim sem sogast of mikið inn í trúarhitann getur trúarþörfin og bænirnar orðið meira eins og andleg fíkn. Mér finnst sjónvarpspredikararnir halda sig voða mikið á því sviði.

Áhugaverð pæling, sem ég ætti kannski að blogga um næst!

Einar Karl, 11.8.2013 kl. 09:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband