Veik "þrýstings"rök gegn staðgöngumæðrun

Þau rök heyrast furðulega oft sem ein helstu rök gegn staðgöngumæðrun, að ef staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni yrði leyfð þá gætu konur orðið fyrir svo miklum þrýstingi að gerast staðgöngumæður fyrir systur eða nánar vinkonur sem óskuðu eftir slíkri þjónustu. Rökin eru sem sé að vegna þessa þrýstings myndu kannski sumar konur taka slíkt að sér án þess að vera raunverulega sáttar við það.

Þetta er ekki sterk rök.

Konur  (og karlar) verða fyrir alls konar þrýstingi. Kona sem á kærasta verður fyrir miklum þrýsting ef hann biður hana að giftast sér. Er víst að hún geti staðist þann þrýsting? Segir hún 'já' bara til að þóknast kærastanum?

Kona sem á mann sem langar í börn getur orðið fyrir miklum þrýstingi frá honum að eignast barn. Getur verið að hún láti undan þeim þrýstingi og verði ólétt vegna óska mannsins?

Hvað með konu sem á systur sem er um það bil að verða gjaldþrota og missa íbúðina sína og biður systurina um aðstoð, verður sú kona fyrir miklum þrýstingi?

Kona sem yrði spurð hvort hún gæti gerst staðgöngumóðir yrði ekkert fyrir meiri þrýstingi en í fólk í ýmsum öðrum aðstæðum sem spurt er um erfiða hluti. Það eru ekki alvöru rök gegn staðgöngumæðrun, að þessi "þrýstingur" yrði svo óbærilegur að konur myndu samþykkja slíka bón gegn eigin sannfæringu. 

Ég tel sjálfur önnur rök miklu veigameiri. Þau helstu eru þau, að það er að mínu mati ekki hægt að aðskilja (lögfræðilega, siðferðilega) fóstur í móðurkviði og móður þess. Við lítum svo á flest að fóstur sé ekki orðið að sjálfstæðum einstaklingi snemma á meðgöngu, móðir og fóstur er ein manneskja, einn líkami, með vísi að öðrum einstaklingi.

Umræða um staðgöngumæðrun og undirbúningur að hugsanlegri löggjöf um slíkt ætti að taka mið af því.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það þarf að auðvelda fólki að fara aðrar leiðir. Ríkisstjórn Ísraels niðurgreiðir allar frjósemisaðgerðir/tæknifrjóvganir/aðstoð við að eignast börn niður í mun meira mæli en á sér stað hér á landi. Þar á sér ekki heldur stað nein mismunun gagnvart þegnum og einhleypar, einstæðar konur, sem og lesbískar njóta sama réttar og pör og giftir við að þiggja þessa þjónustu af ríkinu. Því þess konar mismunun þykir siðlaus í Ísrael. Jafn yfirvöld strangtrúaðra gyðinga þar í landi leggja algjöra blessun sína yfir þessa konar þjónustu, svo sem tæknifrjógvanir líka þá sem einhleypar konur sem ætla sér að ala börnin upp einar fá. Píratar hafa lagt til að svipað verði tekið upp hér á landi, og er það ekki slæm hugmynd hjá þeim. Þetta myndi valda því að aðrar leiðir yrðu fullreyndar áður en örþrifaráð eins og staðgöngumæðrum ætti sér stað. Annað sem við gætum lært af Ísraelum er ókeypis erfðafræðileg þjónusta. Í engum tveimur löndum öðrum en Íslandi og Ísrael er að finna jafn miklar erfðafræðilegar rannsóknir um íbúa landsins, og Ísrael stendur Íslandi framar hvað varðar erfðarannsóknir. En munurinn er sá að allar þessar upplýsingar eru nýttar þegnunum í hag í Ísrael, hver sem er getur fengið gríðarlega ýtarlega erfðarannsókn sem kostar hann EKKI EINA EINUSTU KRÓNU, á meðan sama þjónusta er rándýr á Íslandi, og jafn dýr fyrir Íslendinga og útlendinga, þrátt fyrir að Íslendingar hafi allir lagt henni lið með að veita Decode upplýsingar um sig. Þess konar upplýsingar eru nýttar af Ísraelskum þegnum á fyrstu dögum sambandsins til að fólki sem líst vel á hvert annað en ber með sér sama arfgenga erfðasjúkdóm geti hætt við að eiga í sambandi áður en ástin tekur völdin. Þessi þjónusta sem Ísraelska ríkið veitir er á góðri leið með að útrýma alveg sjúkdómum eins og Tay Sachs. Það væri ólíkt auðveldara fyrir íslenska ríkið, minna og viðráðanlegra sem það er og hærra á listanum yfir ríkustu þjóðir heims, að veita þessa þjónustu en Ísrael, en gamla íslenska græðgin og einkennileg forgangsröðun kemur í veg fyrir að við fullnýtum okkur tæknina í mannúðarskyni. Oft er nefnilega ástæða þess pör geta ekki eignast börn einfaldlega að þau passa ekki nógu vel saman erfðafræðilega séð, og því mikilvægt upp á framtíðina að rannsaka slíkt betur og bjóða upp á alla slíka þjónustu ókeypis. Og það þriðja og mikilvægasta er að gera ættleiðingaferlið mun auðveldara og ódýrara. Það er svo fáránlega dýrt í dag, að halda mætti það væri einhver ákveðin stefna að vernda "íslenska stofninn" rétt eins og kindur og kýr. Margir bregða á ráð eins og staðgöngumæðrun einfaldlega afþví þrátt fyrir allt er það ódýrara ráð, fljótvirkara og sennilegra til árangurs en ættleiðing. Og hver sem er getur farið til Indlands og fundið konu og beðið hana um hjálp, en á Íslandi viðgengst sú siðlausa og villimannslega stefna að einungis pör í talsvert góðum efnum og einstæðar konur með langt yfir meðaltekjum mega ættleiða barn. Þetta er svívirðileg mismunun á borgunum og til skammar fyrir íslenska þjóð. Þangað til við leiðréttum þessa hluti er ekki tímabært að ræða um staðgöngumæðrun á Íslandi. Íslendingar verða fyrst að sýna þeir séu siðferðilega séð nógu þroskuð þjóð til að ráða við slíkt með að koma sér upp mannsæmandi, framsæknu og viturlegu heilbrigðiskerfi sem hefur heill allra þegnanna að leiðarljósi, og virðir jafnt frelsi þeirra allra til að eignast afkvæmi.

X (IP-tala skráð) 6.10.2013 kl. 01:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband