Systur, mæður og dætur

Erna og Hulda eru systur. Erna á tvö börn. Hulda gat ekki eignast börn án aðstoðar. Hún fékk gjafaegg frá systur sinni. Eggið var frjóvgað í glasafrjóvgun með sæðisfrumum frá Hrafni, manni Huldu. Hulda er nú ólétt af sínu fyrsta barni. Hún og Hrafn eru að vonum himinlifandi enda búin að reyna lengi að eignast barn og nú gat systir hennar hjálpað þeim að láta drauminn rætast. Líffræðilega verður barnið barn Ernu og Hrafns, en auðvitað er barnið hennar Huldu. Þær systur ræddu þetta vel og vandlega og fengu ráðgjöf fagfólks.

 sisters2

Erna og Hulda 

 

Sigrún og Ragnheiður eru systur. Vegna sjúkdóms getur Sigrún ekki gengið með barn, en hún er með heilbrigðar eggfrumur. Ragnheiður bauðst til að gerast staðgöngumóðir fyrir systur sína. Egg úr Sigrúnu var frjóvgað með sæði Stefáns, manns Sigrúnar. Nú bíða Stefán og Sigrún spennt eftir sínu fyrsta barni. En það er Ragnheiður sem gengu með barnið.

 systur1

Sigrún og Ragnheiður 

 

Hulda og Ragnheiður eru sem sagt báðar óléttar. í hvorugu tilfelli er barnið orðið til úr þeirra eigin kynfrumu. Hulda gengur með barn sem er getið úr eggfrumu systur sinnar og Ragnheiður gengur líka með barn sem er getið úr eggfrumu systur sinnar. Bæði ófæddu börnin eru jafnskyld mæðrunum sem ganga með þau.

Barn Huldu er að sjálfsögðu barn hennar, þó hún hafi fengið kynfrumu annars staðar frá. Hún naut bara aðstoðar systur sinnar til að barnið yrði til.

En hvað með barnið sem Ragnheiður gengur með? Auðvitað verður það barn Sigrúnar og Stefáns, eftir að það fæðist. Um það eru þau öll sammála, Ragnheiður, Sigrún og Stefán. En þangað til? Getur það verið hluti af líkama Ragnheiðar, en samt ekki hennar barn? 

Ég vil meina að við getum ekki litið svo á að ófætt barn í móðurkviði sé ekki barn móðurinnar sem gengur með það. Uppruni kynfrumna breytir því ekki. 

Dæmin hér að ofan sýna að við lítum öðruvísi á kringumstæður, jafnvel þó svo tæknilega, þ.e. líffræðilega séu dæmin alveg eins. 

Er það þá huglægt hver sé móðir barns, þegar móðir gengur með barn sem er ekki úr hennar eigin kynfrumu?

Ég spurði konu, í umræðu um málefnið, hvort hún gæti hugsað sér að ganga með barn fyrir aðra konu, ef hún sjálf hefði getið barnið með manni sínum. Hún kvað það af og frá, fannst það satt að segja fráleit spurning. Henni fannst algjör grundvallarmunur á því að ganga með eigið barn og að ganga með annarrar konu barn.

Orðrétt sagði viðmælandi minn:

 

Snýst ekki umræðan um að egg og sæði sem staðgöngumóðirin á ekkert í séu sett saman í glasi og komið fyrir í legi hennar og hún afhendi síðan kynforeldrum barnið aftur þegar hún er búin að baka það? [...]
það er engin ástæða til að flækja umræðuna með einhverjum hugleyðingum um hvort maður geti pantað eina frænku frá systur sinni til að eiga sjálf eða hvað það var... það er ekki staðgöngumæðrun, það er ættleiðing... og MILLJÓN sinnum flóknara...

 

Er þessi munur fyrir hendi? Er hann jafn mikill og við höldum? Er hann milljón-faldur??

Fyrstu staðgöngumæður lögðu til eigin egg, voru bæði egggjafar og staðgöngumæður. Svo líffræðilega voru þær að ganga með eigið barn. (Þetta er kallað traditional surrogacy, en er miklu óalgengara nú en hinsegin staðganga, gestational surrogacy.) Og eins og lýst er í dæmunum hér að ofan, þá er barn sem staðgöngumóðir gengur með úr annarrar konu eggi tæknilega (líffræðilega) alveg eins og barn sem kona gengur með, sem þegið hefur gjafaegg. Í fyrra tilvikinu líta margir svo á að móðirin, sú sem gengur með barnið sé alls ekki móðir þess, heldur "bara" staðgöngumóðir, sem sé eitthvað allt annað.

Ég er sjálfur mjög hugsi yfir þessu sjónarmiði, sem ég held reyndar að sé algengt og þessi ofangreindi viðmælandi sem ég vitna í er alls ekki ein um að halda á lofti, að það sé grundvallarmunur á því að búa til og ganga með eigið barn, og að "hýsa" annarra manna barn. Ég vona að dæmin hér að ofan sýni fólki að munurinn er kannski fyrst og fremst í huganum á okkur.

Ég sé t.d. alls ekki að það sé neinn grundvallarmunur á staðgöngu-meðgöngu og því þegar kona sem verður óviljandi ólétt ákveður að halda meðgöngu áfram til að gefa frá sér barnið til ættleiðingar. Í báðum tilvikum veit konan, á seinni helming meðgöngunnar að hún muni ekki ala barnið eftir fæðingu. Barnið verður ekki hennar. En ég held því fram að það sé hennar á meðgöngunni, óháð uppruna eggfrumunnar. (þetta sjónarmið útilokar ekki staðgöngumeðgöngur og er raunar lagt til grundvallar t.d. í Bretlandi, þar sem staðgöngumóðirin getur ekki endanlega gefið frá sér barnið, lagalega, fyrr en eftir fæðingu. Hún er að gefa frá sér sitt barn.)

Ég held að við eigum að velta þessum málum vel fyrir okkur í umræðu um fyrirbærið staðgöngumæðrun.

newborn

Hennar eigið barn? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon


Hahaha já jæja... ég hljóma eins og tilfinningalaust kvikindi "...þegar hún er búin að baka það"... kæruleysislega sett fram á facebook spjalli með húmor í huga en lítur verr út sem orðrétt ummæli manneskju með "rangt" sjónarmið útfrá höfundi greinar...jæja...
En já...það er eins og þú segir: móðurhlutverkið er huglægt. Og ég get ekki að því gert að hafa það kvenrembulega sjónarmið að vegna stöðu minnar sem kona sem hefur fætt tvö börn séu skoðanir mínar, ja, ekki merkilegri, en með sterkari undirstöðu allavega... einfaldlega af því að ég veit hvernig það er að finna fyrir börnum inní mér - mínum eigin - og langflestar tilfinningar sem ég bar til þeirra á meðgöngunni voru byggðar á eftirvæntinu um það sem kæmi eftir á, pælingar um hverjum barnið muni líkjast, áhyggjur af brjóstagjöf og uppeldi og öllu því húllumhæi...og bara sú staðreynd að mig bráðlangaði að eignast barn og þess vegna gekk ég með það... og ef þessi börn mín hefðu verið búin til með gjafaeggi en ég gengið með þau, hefðu tilfinningar mínar verið NÁKVÆMLEGA þær sömu. EN MUNURINN ER AÐ ÉG MYNDI EKKI VILJA ÞEKKJA KYNMÓÐURINA!! Og ef ég þyrfti að láta einhvern annan ganga með barn fyrir mig, myndi ég aldrei biðja konu að nota sitt eigið egg og svo bara VONA að hún vilji ekki eiga það sjálf. Það er lagaleg martröð! Það er fáránleg flækja sem er ekki eitthvað sem maður þarf að díla við ef maður vill það ekki og það á ekki að stöðva "eðlilega" staðgöngumæðrun, semsagt gestational!
Svo er svakalegur munur á því hvort kona sé búin að eignast öll þau börn sem hún vill, eða hvort hún sé sjálf að reyna að verða ólétt. Ég gæti mjög auðveldlega gerst staðgöngumóðir núna (með eggi annara) þar sem að ég er búin með mínar barneignir og þætti æðisleg tilfinning að geta afhent barnlausu fólki barn sem ég hefði BAKAÐ handa þeim (yeah, I said it, what what?? ;) ) Ef ég hefði verið beðin um það áður en börnin mín fæddust, jafnvel áður en seinna barnið mitt fæddist, hefði staða mín verið mun veilli og sálfræðingur hefði örugglega ekki leyft mér að taka sénsinn og ég hefði tekið undir það. Ekki að ég hefði reynt að halda barninu, meðgöngu- og fæðingarhormónin væru bara líklegri til að fara illa í mig og valda mér sársauka :/

En konur eru sko langoftast búnar til úr meira en hormónum, eins og t.d. skynsemi, hjálpsemi og óeigingirni og engin ástæða til að banna öllum konum að gera þetta útaf einhverjum undarlegum gráum svæðum :/

Jódís (IP-tala skráð) 12.10.2013 kl. 09:20

2 identicon

Var samt að taka eftir því núna að þú setur núna ekki fram scenarioið sem varð fyrst til þess að ég stökk uppá nef mér á facebook... :
"Myndir þú biðja systur þína og manninn hennar að geta barn (með hefðbundnum hætti) handa þér og konu þinni? (Ef við gefum okkur að þið gætuð ekki eignast barn)."

Ummælin mín að ofan voru meira tengd því, semsagt að ég færi aktívt útí það að eignast barn, ganga með það og skuldbinda bæði mig til að gefa það frá mér að meðgöngu lokinni, OG systur mína til að taka við því - sá partur þyrfti að vera á hreinu löglega helst ÁÐUR en ég verð ólétt því ef ég vil ekki eignast annað barn til að ala upp sjálf, verð ég að vera 100% viss um að hún vilji gangast við því... ef ég er ekki viss um það, verð ég að vera opin fyrir tilhugsuninni að þetta verði mögulega mitt barn og öll tengsl fara í fokk). Það var eftir að þú settir ÞETTA scenario fram sem ég "kvað það af og frá, fannst það satt að segja fráleit spurning." (Orðrétt sagði ég: "Ég myndi aldrei nokkurn tíman EVER EVER EVER ganga með mitt eigið barn fyrir einhvern annan. Að ákveða það fyrirfram að ég VERÐI að láta barnið frá mér við fæðingu: ALDREI og ég held að ég sé ekki ein um það og ég held að það sé nánast ómögulegt að setja það í lög.")

Mér finnst það sem Erna og Hulda gera ekki fáránlegt. ÉG SJÁLF gæti aldrei gert það sem þær gera, enda á ég hvorki systur né vinkonu sem er mér það náin að ég gæti hugsað tilfellið til enda... en ég get svosem alveg séð að fólk sem treystir sér í svoleiðis og hafa, eins og þú segir, rætt málin vel og fengið aðstoð fagfólks (og lögfræðinga í massavís svo lagalega hliðin sé ekki að flækjast fyrir) geti skipst svona á eggfrumum án þess að það fari illa... og aldrei myndi ég setja mig gegn því fyrir aðra þó ég gæti þetta ekki sjálf...

Allavega, ekki nota þetta mjög svo einhæfa, borderline-strawman tilfelli, til að flegja burt hugmyndinni um ALLAR staðgöngumeðgöngur :/

Jódís (IP-tala skráð) 12.10.2013 kl. 09:55

3 Smámynd: Einar Karl

Takk fyrir kommentin, Jódís.

Já ég gengst við því að það er ekki alveg sanngjarnt að taka ummæli þín orðrétt upp sem fjölluðu eins og þú segir um aðeins öðruvísi dæmi.

En ég vona að þú skiljir hvert ég er að fara. Og ég tek það fram að ég er EKKI með þesum pistli að taka afstöðu gegn staðgöngumæðrun (en heldur ekki með), heldur benda á sjónarmið sem mér finnst skipta mjög miklu máli.

Ég veit líka mætavel að ég bý ekki að þeirri reynslu að hafa gengið með barn og mun aldrei gera :) Þess vegna er mjög ganlegt og forvitnilegt að heyra sjónarmið þeirra sem hafa þá reynslu.

Varðandi dæmið sem ég nefni hér að ofan (um Ernu sem gefur systur sinni egg) þá er þetta í sjálfu sér ekki svo framandi, og kemur fyrir, hér á landi og annars staðar. Konur sem þurfa gjafaegg (hér á Íslandi, eins og staðan er í dag) hafa tvo valkosti:

(a) finna eigin gjafa, oftast náinn ættingja (systur, frænku) eða vinkonu. Það hefur auðvitað vissa kosti að fá egg frá nánum ættingja, því þá er barnið blóðskylt þér, þó það sé ekki þinn erfðafræðilegi afkomandi í beinan kvenlegg.

(b) setja sig á biðlista, og bíða eftir gjafaeggi frá óþekktum gjafa. Í dag hefur sá biðlisti sem betur fer styst, eins koma fram í forsíðu frétt í Fréttablaðinu í vikunni, en hefur stundum verð upp undir 1 ár.

Varðandi (a), þá bætast auðvitað við ákveðin tilfinningaleg sjónarmið, gjafinn mun ávallt þekkja barnið og fylgjast með því, og vita að barnið er erfðafræðilega "sitt", en ég hef lesið frásagnir kvenna í þessari stöðu sem lýsa því að þær venjast því einfaldlega að líta á barnið sem frænku/frænda, því auðvitað erum við jú tengd okkar systkinabörnum nánar en öðrum börnum.

Lagalega er dæmið ekkert öðruvísi, þ.e. (a) eða (b), eftir að þú gefur egg hefur þú alls ekkert "tilkall" til þess, eða þess barns seum úr því kann að verða. Egggjafi er EKKI móðir barns.

Því má bæta við að langflestir "óþekktir" gjafar (eins og í (b)) gefa samt með rekjanlegum hætti, þannig að þegar barnið er 18 ára getur það fengið að vita nafn gjafans. Það finnst mér mjög jákvætt.

Einar Karl, 12.10.2013 kl. 11:22

4 Smámynd: Einar Karl

Jódís,

bara til að halda því til haga, ég lýsi í pistlinum nákvæmlega því dæmi sem umræður okkar snerust um:

Ég spurði konu, í umræðu um málefnið, hvort hún gæti hugsað sér að ganga með barn fyrir aðra konu, ef hún sjálf hefði getið barnið með manni sínum.

Einar Karl, 12.10.2013 kl. 11:45

5 identicon

"Því má bæta við að langflestir "óþekktir" gjafar (eins og í (b)) gefa samt með rekjanlegum hætti, þannig að þegar barnið er 18 ára getur það fengið að vita nafn gjafans. Það finnst mér mjög jákvætt." Þetta er SVAKALEGA jákvætt... ég hef velt þessu mikið fyrir mér þar sem vinkona mín gaf egg fyrir ekki svo löngu.... og málið er að dóttir sem hún á fyrir er svoleiðis nákvæmlega eins og mamma sín að það er varla hægt að greina á milli :P Hugsa sér svo að ef dóttirin og barn komið af þessu eggi hittast útí bæ og líta út eins og tvíburar :P Gæti verið soldið ruglingslegt :P Fyrir utan að íslendingar eru allt of fáir og maður vill nú vita hverjir gætu verið hálfsystkini manns ;)

Og já, ég veit að þú varst ekki að klína neinu uppá mig, ég var bara að benda á að ég gerði feil þegar ég las greinina fyrst af því að mér fannst tilfelli Ernu og Huldu vera það sama og tilfellið sem ég aldrei-aldrei-aldrei-aði yfir þarna á facebook og vildi vera viss um að aðrir gerðu ekki sömu villu... mér fannst það eitthvað ekki alveg nógu augljóst þó það stæði þarna orðrétt.. eitthvað stress í mér bara, ég HATA að rökræða á netinu, hef ekki gert það í mörg ár, ég verð bara veik þegar ég reyni :P

Jódís (IP-tala skráð) 12.10.2013 kl. 13:49

6 identicon

Það skiptir bara ekki nokkru einasta máli hvernig þú, ég eða samfélagið lítur á þetta. Það eina sem skiptir máli er hvernig tilvonandi foreldrar og staðgöngumóðirin líta á málið. Ef þau eru öll sammála um að staðgöngumóðirin sé aðeins fóstra, þá er það niðurstaðan.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 13.10.2013 kl. 22:41

7 Smámynd: Einar Karl

Ég er ósammála Evu Hauksdóttur.

Það skiptir heilmiklu máli hvernig samfélagið (heilbrigðiskerfið, dómskerfið o.fl.) líta á þetta samband.

Einar Karl, 14.10.2013 kl. 09:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband