Ólafur Ragnar telur þrásetu í forsetaembætti ekki réttlætanlega

Í mjög mörgum ríkjum sem kjósa sér þjóðhöfðingja eru reglur um hámarkstíma sem sami einstaklingur getur gegnt embættinu. Þetta er almennt talið í anda lýðræðis og á að koma í veg fyrir að þjóðhöfðingjaembætti verði of nátengt einum tilteknum einstaklingi heldur skuli það vera í eðli slíks embættis að menn gegni því tímabundið. Tveggja kjörtímabila hámark Bandaríkjanna þekkja flestir, en líka í ríkjum nær okkur þar sem forsetaembætti eru líkari okkar eru slíkar reglur í gildi.  Þannig má sami maður sitja að hámarki tvö sex ára kjörtímabil í embætti Forseta Finnlands, alls 12 ár, og á Írlandi situr sami forseti að hámarki í tvö sjö ára kjörtímabil, eða 14 ár.

Þeir sem vilja skilja betur ástæður og sjónarmið að baki svona reglum geta lesið sig til í fræðibókum eða spurt þá sem þekkja vel til, eins og t.d. fræðimenn á sviði stjórnmálafræða.

Forseti Íslands sem jafnframt er virtur fræðimaður í stjórnmálafræði og var prófessor við Háskóla Íslands um tíma, var spurður árið 2011 í sjónvarpsþætti Egils Helgasonar, þegar hann átti rúmt ár eftir af sínu fjórða kjörtímabili, hvort hann myndi telja það í lagi eða eðlilegt að forseti sæti í fimm kjörtímabil.

Svar hans var eftirfarandi:

„Ja, ef að ég … þú spyrð mig svona akademískt þá myndi ég nú kannski segja að það væri ekki réttlætanlegt nema kannski við einhverjar mjög sérstakar aðstæður ...“

 

Þannig liggur það fyrir að stjórnmálafræðingurinn Ólafur Ragnar Grímsson telur það ekki réttlætanlegt að sami einstaklingur sitji 20 ár í embætti forseta, nema kannski við einhverjar mjög sérstakar aðstæður. Fræðimaðurinn telur væntanlega enn síður réttlætanlegt að sami maðurinn sitji 24 eða 28 ár í embætti forseta, sem gæti hæglega gerst hér á landi.

Svo má velta því fyrir sér hvort hér ríki slíkar mjög sérstakar aðstæður akkúrat nú - og fyrir fjórum árum síðan - að víkja þurfi þeim sjónarmiðum til hliðar, sem Ólafur Ragnar Grímsson almennt aðhyllist. Ég tel fráleitt að svo sé.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband