Hvað kostar að reykja?

Eftir skattahækkun á áfengi og tóbak verður algeng bjórdós komin upp í 287 kr. Það þýðir að sá sem drekkur kippu á dag þarf að greiða fyrir mjöðinn ríflega 628.000 krónur.

Þessi tala finnst kannski flestum litlu máli skipta. Hver þarf að þamba heila kippu af bjór á hverjum degi ársins? En þegar kemur að tóbaki bregður svo við að fjölmiðlar reikna út og segja frá því hversu mikið kosti að reykja heilan pakka af sígarettum á hverjum einasta degi. Kostnaður af því er sannanlega skuggalega hár, eða um 290.000 kr á ári. Það þarf sem sagt ein þokkaleg mánaðarlaun, eftir skatta, til að standa undir  slíkri tóbaksneyslu.

reykingamaðurÞað þykir greinilega ofureðlilegt að reykja 20 sígarettur á sólarhring, meira en eina á hverri einustu vakandi klukkustund, allan ársins hring. Hvernig stendur á því að slík óhófsneysla sé talin eðlilegt viðmið fyrir tóbaksneyslu? Á meðan er sá sem drekkur bjórkippu á dag talinn illa haldinn af alkóhólisma og í bráðri þörf á aðstoð.

Er eðlilegt að vera svo illa haldinn af tóbaksfíkn að maður þurfi að reykja á hverri klukkustund, alla daga vikunnar, allan ársins hring?

Nú skilst mér að eftir skattahækkunina kosti hver sígaretta 40-45 kr. stykkið.  Veit ekki alveg hvort mér finnist það mikið eða lítið. Helmingi ódýrara en lítið súkkulaðistykki. Miklu ódýrara en 700 kr bjórglas á krá.

Þeir sem reykja öðru hvoru 1-2 sígarettur að kvöldi til, eða sem svarar 2 til 3 pakka á mánuði, eyða þannig um 24.000 kr yfir árið, 2.000 kr á mánuði.

Er ekki einfaldlega málið að með frábærri markaðssetningu alla 20. öldina hafa tóbaksfyrirtæki komið því í kollinn á okkur að það sé bara eðlilegt að vera haldin tóbaksfíkn, og selt tóbakið í handhægum umbúðum sem hægt er að ganga með á sér til að svala fíkninni öllum stundum, bókstaflega?

Ég held bara að það sé alls ekki eðlilegt, frekar en gengdarlaust óhóf í öðrum lífsnautnum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hannes

Hvað er að því að reykja pakka á dag þó að þeir séu fleiri?

Það er val fólks að reykja og það á að lækka skatta af áfengi og tóbaki.

Hannes, 30.5.2009 kl. 19:28

2 Smámynd: Einar Karl

Það er einmitt spurningin, Hannes.

Er eitthvað að því að reykja 20, 30 eða 40 sígarettur á dag?  Er það eðlilegt?  Er það eðlilegra en að t.d. borða 20, 30, 40 fílakaramellur á dag, á hverjum degi ársins?

Einar Karl, 31.5.2009 kl. 01:03

3 identicon

20-30 sígarettur á dag er að mínu mati mjög hæfilegur skammtur, ef að maður vill vera sæmilegur.

Annars á ég von á tóbaksplöntufræjum frá Skotlandi  og reikna með að hefja ræktunartilraunir fljótlega. Stefni að því að ræktunin verði algjörlega lífræn og neysla mín á tóbaki verði sjálfbær þegar fram líða stundir.

magnus (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 14:31

4 Smámynd: Einar Karl

Sæll Magnús. Hvað meinarðu með að vera "sæmilegur"? Er ósæmilegt að reykja mikið minna?

Einar Karl, 31.5.2009 kl. 16:14

5 identicon

Nei nei. Ég átti við svona þokkalegur.

magnus (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 17:58

6 Smámynd: Einar Karl

Jú jú, ég skil alveg hvað þú meinar, Magnús. Dagskammtur af 20-30 sígarettum þykir einfaldlega "hæfilegur", "sæmilegur", "þokkalegur", eða hvað við nú viljum kalla það. En ég held því fram í pistli mínum að hann sé það í raun alls ekki. Okkur finnst það, af því búið er að innprenta það í okkur að það sé ofur eðlilegt að reykja öllum stundum dagsins. Þannig miðast "eðlileg" neysla við að helst líði ekki klukkustund á milli sígaretta. Hvaða önnur neysluafurð hefur slík viðmið? Þætti sá ekki skrýtinn sem væri japlandi á tyggjó öllum stundum dagsins, bókstaflega, alla daga, tvo tyggjópakka á dag??

Tóbak hefur verið notað um aldir, en indjánar nýttu það hóflega og riðu ekki um gresjur Ameríku með tóbakið í brjóstvasanum, takandi pásu á vísundaveiðum á klukkutímafresti til að totta pípu.

En gangi þér vel með tóbaksræktina. Þú þarft þó töluverð afköst til að framleiða 20-30 rettur á dag!

Einar Karl, 31.5.2009 kl. 22:43

7 identicon

Ég þekki nú ekki vel reykingavenjur indjána, las hins vegar einhversstaðar að þeir að þeir noti kröftugt tóbak, okkur íslendingum er hins vegar boðið uppá sígarettur í sérstökum stöðluðum og samræmdum euro-styrkleika, sem er heldur dauflegur.

Varðandi væntanlegt umfang ræktunaráætlunarinnar, reiknast mér að ekki muni veita af ca 40 plöntum og tveimur uppskerum á ári.

Það er mikið til í því sem þú spekúlerar um fjölda reyktra sígarettna pr. dag, en kannski mætti fækka þeim verulega með öflugra tóbaki og ef til vill stærri sígarettum.

Þó er ljóst að þær geta ekki með góðu móti orðið af svipaðri stærð og bjórdósir, svo dæmi sé tekið.

magnus (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 17:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband