Lýður um blogglýð

Lýður Guðmundsson er ósáttur við íslenska fjölmiðla og ekki síst bloggheima sem hann tilgreindi sérstaklega í ræðu á aðalfundi Exista. Hann sagði orðrétt í Kastljósi að "þjóðfélagið stjórnast af miklu leyti af því sem ekki er flutt undir nafni", m.ö.o. nafnlausum bloggurum og þeim sem tjá sig á netmiðlum. Lýð var tíðrætt um nornaveiðar.

Það er rétt hjá Lýð að það er mjög mikið af upphrópunum og orðljótum athugasemdum á netinu. Ég les t.d. sjaldan athugasemdir við fréttir á Eyjunni þar sem vitrænar ábendingar og viðbótarupplýsingar við fréttirnar týnast í upphrópununum og orðljótum vaðli.

Ég bendi Lýð á að nota Blogggáttina www.blogg.gattin.com, þar getur maður auðveldlega valið  bloggara til að fylgjast með og búið til sinn eigin lista með uppáhaldsbloggurum og losnað við "blogglýðinn"! Vissulega finnast skemmtilegir og vitrænir bloggarar, þó þeir týnist svolítið innan um aragrúa hömlulausra rausara.

En ég held nú að það sé mjög orðum aukið hjá Lýð að samfélagið stjórnist af nafnleysingjum. Hitt er að mörgu leyti rétt að íslenskir fjölmiðlar eru veikburða og ná alls ekki alltaf að kryfja flókin mál af fagþekkingu. Þetta var þó enn meira vandamál á árunum 2004-2008, þegar bólan blés út sem hraðast og fjölmiðlar sváfu á verðinum. Ekki bætti úr skák að auðmenn áttu flesta fjölmiðla. Bakkabræður voru þar ekki undanskildir, en Exista átti Viðskiptablaðið, sem steyptist lóðrétt á hausinn eftir bankahrun, enda held ég það hafi nú aldrei verið rekið með hagnaði frekar en önnur dagblöð. Og við getum svo velt fyrir okkur af hverju auðmenn höfðu samt svona mikinn áhuga á að kaupa upp fjölmiðla!

Lýður má heldur ekki gleyma því að erlendir fjölmiðlar hafa líka fjallað um Exista og Kaupþing. Ekki stjórnast þeir af íslenskum bloggurum.  Fjölmargir virtir fjölmiðlar ráku upp stór augu þegar þeir rýndu í lánabók Kaupþings sem lekið var á netið. Ég skrifaði um það færslu og þar geta lesendur rifjað upp hvað Svenska Dagbladet hafði um útlán Kaupþings að segja undir fyrirsögninni "Afhjúpaðir af skjölunum", í stuttu máli að þar var um að ræða ósjálfbæra lánahringekju þar sem Exista bræðurnir tveir voru í miðju vefsins og fengu óheyrileg lán, ekki bara til kaupa á fyrirtækjum heldur líka í rándýrar lúxusíbúðir úti í heimi.

Í Kastljósi dagsins kom svo annar virtur útlendingur og talaði um hversu óheilbrigt íslenska bankakerfið var. Ómar Ragnarsson gerir þessu góð skil á sinni síðu.

Ég dæmi ekki Lýð fyrir glæpi, en ég fullyrði að hann átti stóran þátt í að byggja upp mjög sjúkt bankakerfi og hagkerfi og hrun þess hefur valdi íslensku þjóðinni gífurlegum vandamálum sem ekki sér fyrir endann á. (Og sem viðskiptavinur bæði Símans og VÍS hef ég takmarkaðan áhuga á að standa undir þeim mikla arði sem til þarf, til að Exista planið gangi upp.)

Hrun Kaupþings var ekki vegna alþjóða fjármálakreppunnar - Kaupþing var þáttur og birtingarmynd alþjóða fjármálakreppunnar, sem var vegna glórulausra útlána og ofveðsetningar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Vel mælt. Takk fyrir þetta. Skrifað undir nafni af hófsemi og stillingu :) Og án ofstækis "nafnlausra bloggara" eða hvað sem Lýður kallaði þetta. Ég skildi alveg hvað hann var að meina, hef sjálfur firrst yfir ömurlegum fullyrðingum fjölmiðla á stundum. En eftir stendur að hann Lýður og bróðir hans eru báðir vel "sekir" um hrunið.

Held að þessi mynd Halldórs á Mogganum lýsi þessu vel.

Sigurjón Sveinsson, 27.8.2009 kl. 22:57

2 Smámynd: Einar Karl

Halldór Baldurs stendur fyrir sínu!  Myndin í gær af trúboðanum HHG einmanna í kirkjunni sinni er líka óborganleg

Einar Karl, 27.8.2009 kl. 23:41

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Hélt að þjóðfélagið hefði til skamms tíma stjórnast að gjörðun Lýðs og hans nóta -ekki bloggurum.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 28.8.2009 kl. 01:46

4 Smámynd: Einar Karl

Hárrétt hjá þér Hidur Helga, lýðurinn réð ekki miklu en Lýður þeim mun meira!

Einar Karl, 28.8.2009 kl. 07:17

5 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Í viðtalinu við kastljós fanst mér eins og hann hafði vitnað í gagnríni Vilhjálms Bjarnasonar og talið hann hafa sloppið gagnrínislaust frá þeim fullyrðingum að það væri búið að mergsjúga öll verðmæti úr íslenska fjármálakerfinu. Reyndar nefndi hann aldrei vilhjálm á nafn og fannst mér að það hefði mátt vera aðgangsharðari við hann. Mér fanst hann sleppa of byrlega frá þessu viðtali.

Mér finnst nú samt fáranlegt að hann kveinki sér eitthvað sérstaklega undan þessu þegar horft er til þess að núverandi ríkisstjórn er að standa í gríðarlega miklum ólgusjó vegna bankahrunsins á sínum tíma og þurfa þá margir að heyra ansi grófan róg um sjálfan sig og þá sérstaklega steingrímur J og Jóhanna sig.

En jú jú .... þetta er rétt hjá honum engin er sekur uns sekt er sönnuð og mikið væri ég til í að þessari rannsókn væri lokið og það væri hægt að fá það á hreint hvort einhverjir af þessum 20 kapitalistum hafi gert eitthvað sakhæft og mögulega sé hægt að draga einhvern stóran lærdóm af því sem raunverulega gerðist. Eitt er ljóst að laun bankastjóra og þeirra sem stjórnuðu þessum bönkum voru svíviirðilega há og miklu hærri en ætti að teljast sæmandi.  

Brynjar Jóhannsson, 28.8.2009 kl. 13:26

6 Smámynd: Þorvaldur Geirsson

Æ æ það var nú leiðinlegt að þetta hentaði ekki Lýð, ég sef samt fullkomlega á nóttinni þótt þetta trufli hann svona mikið og ég hef engar áhyggjur þótt siðlausir fjárglæframenn fái barnaleg frekjuköst yfir því að fá ekki að hafa þetta eins og þeir vilja.

Þorvaldur Geirsson, 28.8.2009 kl. 16:40

7 Smámynd: Kama Sutra

He he.  Já, erum við nafnlausu gungurnar og bleyðurnar orðnar svona áhrifamiklar og hættulegar - að við séum að leggja í rúst blauta framtíðardrauma saklausra útnáradólga?

Skamm bara!

Kama Sutra, 28.8.2009 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband