Sala til MAGMA vegna flopp laga?

Af hverju er verið að selja erlendu fyrirtæki hlut í jarðorkufyrirtæki? Jú, eins og margoft hefur verið sagt frá var Samkeppnisstofnun búin að kveða upp úr um að það væri brot á Samkeppnislögum að OR ætti svo stóran hlut í HS Orku.

Auðvitað vakna fullt af spurningum. Af hverju keypti OR þennan hlut sem hún má ekki eiga? Hvenær fóru þessi kaup fram? Við hverja er OR í samkeppni?

En umfram allt vaknar spurningin, af hverju er orkusala viðfangsefni Samkeppnisstofnunar? Er vit í því?

Þetta á sér skýringu í í lagabreytingum frá árinu 2003, en þá voru samþykkt ný raforkulög. Markmið þeirra var að "stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu". Í því skyni áttu lögin að:

     1. Skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna.
   2. Stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku.
   3. Tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda.
   4. Stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og taka tillit til umhverfissjónarmiða að öðru leyti.

 

Þeir sem uxu úr grasi fyrir 2003 héldu kannski að raforkukerfið hefði verið þjóðhagslega hagkvæmt fyrir árið 2003. Alla vega er ekki auðséð hvort raforkukerfið hafi orðir meira þjóðhagslega hagkvæmt síðan lögin tóku gildi.

Á heimasíðu Orkustofnunar má lesa um þessi markmið laganna:

Rafveiturnar hafa til þessa annast framleiðslu, sölu og dreifingu rafmagns til notenda. Frá byrjun ársins 2005 hafa stærstu notendur getað valið sér raforkusala en frá ársbyrjun 2006 gildir þetta valfrelsi um alla raforkunotendur.

Samkeppni á raforkumarkaðinum nær einungis til framleiðslu og sölu rafmagns en dreifing þess verður áfram sérleyfisstarfsemi en undir eftirliti Orkustofnunar. Þannig sér dreifiveita hvers svæðis um dreifingu raforku til notenda, en kostnaður við dreifinguna getur verið breytilegur eftir landsvæðum eins og verið hefur.

 

Skemmst er frá því að segja að hvað vaðar almenna raforkuneytendur hefur þetta verið algjört flopp, en einungis einhver örfá prósent hafa skipt um "raforkusala". (Hægt er gera verðkönnun á síðu Orkustofnunar og gat ég t.d. séð að ég gæti raunar sparað ríflega þrjúhundruð krónur á ári með því að kaupa rafmagnið mitt frá Orkubúi Vestfjarða. En rafeindirnar eru víst þær sömu.) 

Lögin eru ekta dæmi um ritsnilld samviskusamra embættismanna, þar má t.d. lesa:

Orkustofnun skal setja flutningsfyrirtækinu tekjumörk vegna kostnaðar við flutning á raforku til dreifiveitna annars vegar og vegna flutnings til stórnotenda hins vegar. Við setningu tekjumarka skal taka tillit til þess hvort tenging stórnotenda leiði eða hafi leitt til hagkvæmari uppbyggingar og nýtingar flutningskerfisins en ella væri.
Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
   1. Kostnaði sem tengist starfsemi fyrirtækisins, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, leigukostnaði vegna flutningsvirkja, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun.
   2. Arðsemi flutningsfyrirtækisins skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna sem nauðsynlegir eru til reksturs kerfisins. Fastafjármunir þessir skulu vera þeir sem nýttir eru 31. desember 2004 og miðað við bókfært virði þann dag, ásamt nauðsynlegum nýjum fastafjármunum, sem síðar kunna að koma til.

 

 Ekki er sem sagt gert ráð fyrir meira frelsi en svo á þessum samkeppnismarkaði að mikið reglugerðarfargan þarf til að segja fyrir um leyfileg "tekjumörk", sem þarf svo að passa að farið sé eftir með eftirlitsstofnunum.

 Í athugasemdum með frumvarpinu að þessum lögum má lesa:

Frumvarp þetta byggist á nýjum viðhorfum í raforkumálum sem hafa verið að ryðja sér til rúms víða um heim á undanförnum árum. Meginefni þeirra felst í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins (flutning og dreifingu) og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið (vinnslu og sölu). Þannig hefur verið lagður grunnur að markaðsbúskap í raforkukerfi margra landa. Í ríkjum Evrópusambandsins hefur þróunin almennt grundvallast á tilskipun 96/92/EB um innri markað raforku. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 168/1999 frá 26. nóvember 1999 um breytingu á viðauka IV við EES-samninginn varð tilskipunin hluti af EES-samningnum. Ísland átti að innleiða efni tilskipunarinnar í íslenska löggjöf fyrir 1. júlí 2002.

En athugasemdirnar eru mjög ítarlegar og hef ég ekki getað gefið mér tíma til að fara gaumgæfilega í það plagg.

Hins vegar má ljóst vera þegar farið er yfir umræður á Alþingi um málið að þessi lög voru og eru óttalegur bastarður og í grunninn byggð á tilskipun Evrópusambandsins sem í upphafi var ljóst að ætti engan veginn við hér á landi. Var m.a. Einar Oddur Kristjánsson heitinn alfarið á móti þessari kerfisbreytingu, sem hann taldi ekki vera til neins gagns nema síður væri.

Hafa þessi lög verið til gagns?

Það væri gott að vita. Klárlega er það í huga flestra ferlegt að við nánast neyðumst nú til að selja úr landi hluta af orkuauðlindum vegna einhverra samkeppnisflækja, af völdum laga sem ekki er hægt að sjá að hafi neinu skilað.


mbl.is Samþykktu kauptilboð Magma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Já, maður myndi ætla að með því einfaldlega að hafa alla orkuvinnslu og sölu í eigu sveitarfélaga, með einhverjum almennum reglum, þá myndi heyrast kurr ef að verðið væri of hátt eða ef fyrirtækin væru illa rekinn. Boðleiðirnar væru stuttar og stutt á kjörstað. Nei, tökum frekar örsmáan markað og rekum hann eins og hann sé á stærð við OPEC.

Pétur Henry Petersen, 1.9.2009 kl. 08:55

2 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Sæll Einar Karl.
Þú nefnir að þú getir sparað þér 300 kr. á ári með því að skipta um orkusala. Hefur þú aldrei velt því fyrir þér hvort ekki sé í raun einokun og verðsamráð á rafmagni einmitt þessara aðila sem þú getur keypt rafmagn af? Af hverju, getur þú spurt þig að, kostar nærri því nákvæmlega rafmagnið þó virkjanir séu greinilega mismunandi, virkjanir sem rafmagnið er framleitt með? Af hverju kostar það sama að framleiða rafmagn með vatnsfallsvirkjun og gufuaflsvirkjun? Af hverju kostar það sama að kaupa rafmagn af vel skuldsettri veitu og svo gott sem skuldlausri veitu?

Dæmi:
Ef þú værir að kaupa olíu í dag, olíufélögin væru öll í eigu ríkisins eða sveitarfélaga, Olís væri að pumpa olíu úr Drekasvæðinu, N1 flytti hana inn frá Noregi og Skeljungur væri að kaupa hana frá Rússum, og verðið væri það sama hjá þeim öllum, svo munaði kannski 20 aurum, myndir þú spyrja þig spurninga? Kæmi "samráð" í huga við þá spurningu? Nei? Hvað þá ef eignaraðild olíufélaganna væri hjá einkaaðilum? Hmmmmm? 

Samkeppnislögin eiga við í rafmagnsgeiranum alveg eins og í hinum. Því það er augljóst samráð á rafmagni og þér er haldið í heimabyggð í orkukaupum með því að verðleggja svo fluttning rafmagnsins, ef þú kaupir annars staðar frá, þannig að þú gætir jafnvel tapað á því að skipta um orkusala, þó svo að um lægra orkuverð sé að ræða.

Þú getur sett þig í samband við Orkumiðlun ehf. ef þig langar að fræðast aðeins meira um þetta.

Sigurjón Sveinsson, 1.9.2009 kl. 13:50

3 Smámynd: Einar Karl

Sæll Sigurjón,

Olían er kannski ekki besta dæmið því bensínið kostar nokkurn veginn það sama alls staðar, hvort sem er meint samráð eða ekki!

Það sem þú ert annars að segja er að það geti verið samkeppni á rafmagnsmarkaði, en að hún það ekki í raun. Ég spyr einmitt þeirrar spurningar í færslunni, hverju hafa raforkulögin skilað? Væri t.d. forvitnilegt að heyra í forsvarsmönnum Orkumiðlunar ehf. um þetta.

Vegna eðli rafmagnsins verður raforkumarkaður alltaf flókinn og ólíkur markaði fyrir matvöru eða föt. Þau lög og reglur sem nú gilda virðast í fljótu bragði veruleg flækja. Skilar þetta nýja kerfi  raunverulegum ávinningi fyrir fólk og fyrirtæki?

Svo þarf hreinlega að skoða úrskurð Samkeppnisstofnunar og forsögu þessa sorglega HS Orku-máls. Í hvers konar samkeppni eru OR og HS Orka??

Einar Karl, 1.9.2009 kl. 22:44

4 identicon

eru ekki helstu rök sjálfstæðismanna(sem er reyndar öfugmæli) á móti inngöngu í ESB að þeir vilja halda auðlindum í eigu okkar og undir okkar yfirráðum?? á sama tíma eru þeir að selja auðlindirnar og ég segi bara þvílíkir andskotans drullusokkar og þvílíkir fábjánar sem íslendingar eru að láta svona kjaftavaðall ganga.

Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband