Greiðvikni Bjarni

DV greinir frá því að öðlingurinn Bjarni Ármannsson hafi heldur betur verið óheppinn í viðskiptum við gamla bankann sinn. Afskrifa þurfi rúmlega 800 milljónir króna vegna láns til eignarhaldsfélags Bjarna, sem keypti hlut í fasteignafélagi bankans - af bankanum - rétt fyrir áramót 2007-08.

ba_jpg_280x800_q95Bjarni var svo hundheppinn að vera rekinn úr stóli bankastjóra áður en fór að halla ískyggilega undan fæti, lán í óláni fyrir hann heldur betur! Bjarni sigldi til Noregs með allt sitt gull - 7 milljarða ISK að sögn DV - þar sem hann hefur eflaust skipt milljörðunum í klingjandi norskar krónur og geymt í öruggum banka.

Morgunblaðið hefur að ég best veit ekki séð ástæðu til að segja sérstaklega frá þessu, í fréttinni í DV segir Bjarni fjárfestinguna vera "sorgarsögu" og bætir því við að það væri óábyrgt af honum að greiða skuldina við Glitni til baka með sínu eigin fé!

Hann er jú ekki lagalega persónulega ábyrgur.

Svo þannig lagað er þetta engin sorgarsaga fyrir Bjarna, hann tók sáralitla áhættu og veltir tapinu af fjárfestingu sinni yfir á þá sem voru nógu vitlausir til að lána bankanum.

Kíkjum aðeins betur á fréttina:

Bjarni segir að lánið hafi verið tekið hjá Glitni í lok árs 2007 til að fjármagna kaup Imagine [eignarhaldsfélag í 100% eigu Bjarna] á 12 prósenta hlut í Glitni Property Holding, fasteignafélagi sem skráð var í Noregi, fyrir 970 milljónir króna

- „Illu heilli tók Imagine lán hjá Glitni um áramótin 2007-2008 til að kaupa 12 prósenta hlut í Glitni Property Holding. Lánið var í norskum krónum og voru bréfin keypt af bankanum. Um þetta leyti var markaðurinn að byrja að hrynja hjá félaginu. Til að gera langa sögu stutta þá gekk þetta bara illa og tekjurnar hrundu,“ segir Bjarni en Glitnir Property Holding var að tæplega 50 prósent leyti í eigu Glitnis eftir að Bjarni keypti í félaginu.

 

Bjarni hefur sjálfsagt verið síhikstandi í allan dag því fúkyrði og hneykslunarorð hafa flogið um netið. Skiljanlega. En missum ekki sjónar á því sem fréttin í raun og veru lýsir. Aðalatriðið er ekki það að Bjarni skuli sleppa með skrekkinn og fá afskrifað lán.

Fréttin lýsir dæmigerðum loftbóluviðskiptum í aðdraganda hrunsins; höfum í huga að Glitnir var pottþétt kominn í vandræði í lok árs 2007, hlutabréfaverð var búið að lækka nokkuð hressilega um haustið, en bankar og víkingar þoldu það illa, því allt var jú svo gírað.

Hvað er þá til ráða? Jú, grípa má til þess ráðs að selja áhættufjárfestingar - svo sem fasteignafélög - þegar nánast allir fasteignamarkaðir heims voru í þann mund að frjósa! Er einhver nógu vitlaus til að kaup aslíkt? Jú, ef hann fær lán fyrir því án nokkurrar áhættu. Með þessum gjörningi var hægt að koma fallandi bréfum úr viðkvæmu eignasafni bankans, en fá í staðinn skuld Bjarna við bankann sem á pappírnum leit miklu betri út, a.m.k. þar til einhver færi að spá í hvort traust veð væri fyrir skuldinni!

M.ö.o. Bjarni tók yfir fallandi bréf og bankinn fékk 800 milljóna skuld upp í lánasafnið sitt! Hvort Bjarni myndi greiða tilbaka lánið skipti í sjálfu sér ekki máli, þetta var 2007-kúlulán, þau greiðast ekki tilbaka fyrr en löngu seinna og bara ef kúlufjárfestingin skili arði.

Bjarni var að gera bankanum greiða. Verðið skipti hann litlu máli en þeim mun meira máli fyrir bankann, sem enn var skráður fyrir tæpum helming í fasteignafélaginu. Þeim mun meira sem Bjarni "greiddi" þeim mun meira virði var hlutur bankans og stærri skuldin í lánasafni bankans. Fyrir utan svo þóknun bankans fyrir svona lánaviðskipti, hvað skyldi vera, 1 eða 2% umsýslugjald, 16 milljónir?

Allir bankarnir voru á fullu í einmitt svona brelluviðskiptum, til að reyna að blása út eignasaöfn og búa til sýndargróða.  Með þessum hætti tókst þeim líka að blekkja fólk og sýna flottan árangur nánast allt fram að hruni.

Við skulum vona að rannsóknarnefndin, sérstakur saksóknari og FME rannsaki svona gjörninga í kjölinn. Ekki veit ég hvort akkúrat þessi umræddu viðskipti falli innan eða utan laga. Fyrir leikmann lítur út eins og verið sé að villa um fyrir markaðnum og bæta bókhald bankans með brellum.

Sjáum hvað rannsókn leiðir í ljós. Kannski Bjarni hafi rétt fyrir sér, að þetta endi sem raunveruleg sorgarsaga fyrir hann.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Jamm, sá hlær best sem síðast hlær.

Hann hlítur að glotta vel við, þegar hann hugsar til fyrrum viðskiptafélaga sinna, er boluðu honum úr bankanum.

Ég væri ekki hissa á, að hann hugi að því, að fjárfesta hérlendis á ný, en eftir allt saman, snúast viðskipti víst um að selja dýrt og kaupa ódýrt.

Nú er mikið af ódýrum fyrirtækjum.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 10.9.2009 kl. 02:07

2 Smámynd: Einar Karl

Sæll nafni.

Já Bólu-Bjarni kann vonandi eitthvað fyrir sér líka í alvöru viðskiptum, ekki bara bóluviðskiptum. Í bóluviðskiptum geturðu leyft þér að kaupa dýrt, þú færð hvort eð er lán fyrir öllu saman, og treystir á að selja enn dýrar, því næsti maður fær bara enn hærra lán. Þegar lánahringekjan stöðvast hrynur allt saman því verðið var löngu komið upp fyrir raunverulegt verðmæti.

Einar Karl, 10.9.2009 kl. 08:49

3 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

Hann er nú þegar búinn að kaupa nokkur fyrirtæki hér heima, bæði stór og smá

Jón Snæbjörnsson, 10.9.2009 kl. 10:34

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Eins og þú sagðir, nafni, bólu viðskipti eru ekki alvöru, og hvað kom fyrir viðskiptafélaga hans, ætti að vera öflug áminning, ef hann hefur eitthvað verið farinn að misskilja hvað bissness gengur í raun út á.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 10.9.2009 kl. 11:54

5 Smámynd: Katrín Linda Óskarsdóttir

Þar sem maður er farinn að hugsa töluvert um hvert maður beinir viðskiptum sínum, væri gott að fá að vita hvaða fyrirtæki Bjarni er búinn að kaupa hér heima skv. Jóni hér að ofan

Katrín Linda Óskarsdóttir, 10.9.2009 kl. 12:27

6 identicon

Já dúkkuhausnum Bjarna Ármannssyni er ekki fisjað saman. Hann telur það óábyrgt að borga sínar skuldir. það er að vísu sjónarmið út af fyrir sig. Gott að vita af því ef manni dytti í hug að kaupa sér rauðan ópal af honum úti í sjoppu. Þá gæti maður einfaldlega sagt við kassadömuna að ópallinn væri svo óhollur, það væri ekki á það bætandi að borga líka fyrir hann. Slíkt væri hreint og beint óábyrgt.

Annars var það Bjarni Ármannsson sem hvarf úr stóli bankastjóra upp á meðgjöf. Hann fékk einhvern starfslokasamning. Fékk að selja bréfin sem hann átti á mun hærra gengi en markaðsverð. Ekki það að stjórn bankans hafi samþykkt það, heldur var það sjálfur Corleone bankans, sjálfur Jón Ásgeir sem gaf grænt á að hann fengi einhverja extra premíu ofan á markaðsverðið fyrir bréfin sín. Gott að eiga góða að.

Mætti ég biðja um mann á borð við Bjarna Ármannsson í næstu samninganefndir í staðin fyrir tréhausana Svavar Gestsson og ráðuneytisstjórann í fjármálaráðuneytinu, sem ég kýs að muna ekki nafnið á, þegar samið verður um hluti eins og Icesave? Þá verður sjónarmiðið ekki að borga allt sem farið er fram á. Það hefur verið stefna stjórnvalda undanfarið. Í staðin mun Bjarni koma með þetta sjónarmið að það sé beinlínis óábyrgt að borga þessar skuldbindingar. Bretar og Hollendingar hljóta að skilja svona athugasemdir frá sínum skuldurum?

joi (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 12:58

7 identicon

Við ofangreindar athugasemdir má bæta áhugaverðu atriði: Bjarni hefur sjálfur viðurkennt að hann samdi um starfslokasamning sinn við Jón Ásgeir.

Þetta kemur mönnum að sjálfsögðu ekki á óvart, nema fyrst sé athugað að á þeim tíma sem þetta gerðist sat Jón Ásgeir ekki í bankaráði Glitnis. Því átti hann ekkert með að semja um starfslokasamninginn.

En svona kónar eins og Jón Ásgeir og Björgólfur Thor passa sig á að sitja ekki í mikilvægum stjórnum á krítískum stundum, því þá er heldur ekki hægt að gera þá lagalega ábyrga fyrir ákvörðunum stjórna. Þó stjórna þeir þeim ákvörðunum á bak við tjöldin og í gegn um leppa. Það sannast af þessu dæmi.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 13:48

8 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

" í fréttinni í DV segir Bjarni fjárfestinguna vera "sorgarsögu" og bætir því við að það væri óábyrgt af honum að greiða skuldina við Glitni til baka með sínu eigin fé!"

Ef eitthvað væri óabyrgt að Bjarna þá héld ég að það væri að láta sjá sig hér á landi næsta mansaldur. Þetta er ekki hótun af minni hálfu heldur ótti það sem að ég óttast er það hvenær bólan sem að myndaðist í hruninu springur hún gerir það fyrir rest því ekkert hefur verið gert til að laga hana og þegar hún springur þá verða ritaðir kaflar í landssöguna sem lengi munu í minnum hafðir.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 10.9.2009 kl. 14:31

9 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Með bólunni sem myndaðist í hruninu á ég við reiði bóluna sem nú kraumar af meiri hita en nokkuð eldfjall

Jón Aðalsteinn Jónsson, 10.9.2009 kl. 14:32

10 identicon

Auðvita væri það óábyrgt af sléttakúk að greiða bóluna hann þekkir ekkert annað en að taka við.Skuldarbréf,hlutabréf,,séreignasjóði,lífeyrissjóði,viðbótarlífelrisparnaði,fjárval, umsjónarlaun,eignastýringarkostnaður,innheimtu-og vörslukostnaður,upphafskostnaður,gengismunur,sölulaun,úttektarkostnaður,kostnaður við að flytja inneign,vörslukostaður.Fáum Bjarna til að stofna nýjan einkabanka hann þekkir rekstrarkostnað og veltukostnað hvað þá efnahagsreikninga manna best og veitti ríkisbönkunum harða samkeppni,hann er ekki meiri krimmi en fjórflokkaklíkan.

Ludvik (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband