Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Ólafur Ragnar telur þrásetu í forsetaembætti ekki réttlætanlega

Í mjög mörgum ríkjum sem kjósa sér þjóðhöfðingja eru reglur um hámarkstíma sem sami einstaklingur getur gegnt embættinu. Þetta er almennt talið í anda lýðræðis og á að koma í veg fyrir að þjóðhöfðingjaembætti verði of nátengt einum tilteknum einstaklingi heldur skuli það vera í eðli slíks embættis að menn gegni því tímabundið. Tveggja kjörtímabila hámark Bandaríkjanna þekkja flestir, en líka í ríkjum nær okkur þar sem forsetaembætti eru líkari okkar eru slíkar reglur í gildi.  Þannig má sami maður sitja að hámarki tvö sex ára kjörtímabil í embætti Forseta Finnlands, alls 12 ár, og á Írlandi situr sami forseti að hámarki í tvö sjö ára kjörtímabil, eða 14 ár.

Þeir sem vilja skilja betur ástæður og sjónarmið að baki svona reglum geta lesið sig til í fræðibókum eða spurt þá sem þekkja vel til, eins og t.d. fræðimenn á sviði stjórnmálafræða.

Forseti Íslands sem jafnframt er virtur fræðimaður í stjórnmálafræði og var prófessor við Háskóla Íslands um tíma, var spurður árið 2011 í sjónvarpsþætti Egils Helgasonar, þegar hann átti rúmt ár eftir af sínu fjórða kjörtímabili, hvort hann myndi telja það í lagi eða eðlilegt að forseti sæti í fimm kjörtímabil.

Svar hans var eftirfarandi:

„Ja, ef að ég … þú spyrð mig svona akademískt þá myndi ég nú kannski segja að það væri ekki réttlætanlegt nema kannski við einhverjar mjög sérstakar aðstæður ...“

 

Þannig liggur það fyrir að stjórnmálafræðingurinn Ólafur Ragnar Grímsson telur það ekki réttlætanlegt að sami einstaklingur sitji 20 ár í embætti forseta, nema kannski við einhverjar mjög sérstakar aðstæður. Fræðimaðurinn telur væntanlega enn síður réttlætanlegt að sami maðurinn sitji 24 eða 28 ár í embætti forseta, sem gæti hæglega gerst hér á landi.

Svo má velta því fyrir sér hvort hér ríki slíkar mjög sérstakar aðstæður akkúrat nú - og fyrir fjórum árum síðan - að víkja þurfi þeim sjónarmiðum til hliðar, sem Ólafur Ragnar Grímsson almennt aðhyllist. Ég tel fráleitt að svo sé.

 

 


Hverjir eru fasistar? Svar til Jóns Magnússonar

Eftirfarandi komment birti ég á bloggsíðu Jóns Magnússonar, sem í nýjum pistli lýsir miklum áhyggjum af því að Donald Trump aflýsti kosningafundi sínum í Chicago, og kallaði andstæðinga Trump sem mættu og mótmæltu á boðuðum fundi hans "frjálslynda fasista". Ég skelli kommentinu inn hér líka, enda líða oft margir dagar þar til Jón M. samþykkir birtingu kommenta við bloggpistla sína.

= = = 

Sæll Jón.

Ertu nú að fara rétt með þegar þú segir "Í nótt kom hópur fólks í veg fyrir að Donald Trump gæti tjáð sig."

Þær fréttir sem ég hef lesið eru á þá lund að hópur andstæðinga Trump mættu á boðaðan kosningafund hans til að tjá andstöðu sína við hann. Það voru svo Trump og stuðningsmenn hans sem ákváðu svo að fella niður fundinn. Vissulega kom til slagsmála, ekki síst eftir að ljóst var að Trump myndi ekki láta sjá sig, en það var á báða bóga.

Voru andstæðingarnir að hefta tjáningarfrelsi Trump? Hann hefur nú tjáð sig mikið og víða bæði fyrir og eftir þennan fund svo það þarf nú tæplega að hafa áhyggjur af því að verið sé að þagga niður í Trump. Enda ENGINN forsetaframbjóðandi sem fengið hefur jafnmikla athygli fjölmiðla, bæði vestanhafs og hér á landi!

Það sem eflaust vakti fyrir andstæðingum Trump var að trufla boðaða Hallelúja-samkomu Trump.

Og veistu, ég skil það vel. Ef ég væri Chicago-búi af mexíkóskum uppruna, þá hefði ég alveg örugglega mætt niðrí bæ til að nýta MINN rétt til að tjá mig og til að trufla herferð Trump. Trump hefur jú, eins og þú eflaust veist kallað mexíkóska innflytjendur þjófa og nauðgara og vill senda þá alla "tilbaka" og byggja mikinn múr milli landanna. ÉG hefði talið það skyldu mína að leyfa ekki Trump að koma og óhindrað dreifa sínum skítaboðskap, gagnvart börnum mínum og barnabörnum.

Finnst þér nauðgara-málflutningur Trump boðlegur?

Ég skil vel Bandaríkjamenn af mexíkóskum uppruna séu óttaslegnir yfir velgengni Trump og finnst ekkert skrýtið og í sjálfu sér mjög skiljanlegt og eðlilegt að fólk tjái andstöðu sína við Trump og leyfi honum ekki óhindrað að koma ríðandi á hvítum hesti og halda fjölmenna fundi þar sem hann heldur áfram að kynda undir fordóma og hatur.

En þetta fólk kýst þú að kalla fasista. Það finnst mér sérstakt orðaval og segir sitt hvað um þína afstöðu til Trump og þeirra sem hann talar niður til.


Hatursáróður á Moggabloggi

Ég hef ákveðið að endurvekja a.m.k. um sinn þessa bloggsíðu úr dvala til að skrifa um mikilvægt mál.

Ég rakst hér á svo svæsinn hatursáróður að mér blöskraði og tel fulla ástæðu til vara við þeim málflutningi sem viðgengst hér á sumum bloggsíðum.

Þegar nasistar vildu afmennska gyðinga og magna upp andúð gegn þeim og hatur, kölluðu þeir þá andstyggilegum ókvæðisorðum eins og afætur og sníkla.

Þegar Hútú-leiðtogar vildu magna upp hatur gegn Tútsíum í Búrúndí og Rúanda voru notuð orð eins og afætur og sníklar.

OG þessi orð - afætur og sníklar - eru notuð nú fyrir nokkrum dögum í bloggpistli á síðu Valdimars Jóhannessonar, í grein sem hann þýddi og birti af amerískri hatursboðskapssíðu.  Á síðu Valdimars eru þessi orð notuð um múslima. Þau eru notuð til að kynda undir ótta og óvild. Þau eru notuð til að auka HATUR.

Ég reyndi að rökræða við Valdimar í athugasemdum við pistil hans en hann nennti ekki að ræða við mig og eyddi út athugasemdum frá mér. Svo gerist það að bloggarinn Halldór Jónsson endurbirti sömu ljótu greinina.

Valdimar Jóhannesson og Halldór Jónsson eru að nota bloggsíður sínar hér á Moggabloggi til að dreifa hreinum og ómenguðum hatursáróðri. Þetta eru bloggarar sem fleiri hundruð lesa á hverjum degi.

Valdimar og Halldór dreifa hatursáróðri. Þeir boða hatur. Skrif þeirra eru líklega brot á 233. grein hegningarlaga.

Ég vil ekki beita mér fyrir því að þagga niður í rasistum og hatursveitum, en slík skrif eiga heldur ekki að fá að birtast athugasemdalaust.

Morgunblaðið verður svo sjálft að gera upp við sig hvort slíkur hatursáróður sé í lagi á bloggsíðum mbl. 

valdimar

Valdimar H. Jóhannesson

 

halldor

Halldór Jónsson

 

 


Bandaríkjastjórn viðurkennir HRYÐJUVERK ÍSRAELA

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV:

Talsmaður Barack Obama Bandaríkjaforseta segir að ekkert geti réttlætt árás Ísraelsmanna á neyðarskýli Sameinuðu þjóðanna þar sem minnst sextán fórust og hundrað særðust. 

Þetta er ekki tilbúningur RÚV, sömu fréttir eru staðfestar um heim allan. Þetta má lesa á síðu BBC:

The US has said the shelling of a UN shelter in Gaza is "totally unacceptable and totally indefensible". 

Hvað er það þegar ráðist er á óbreytta borgara með sprengjuárás, á skóla þangað sem þúsundir höfðu leitað skjóls undan sprengjuregni, og bandamenn sprengjumannanna staðfesta að EKKERT geti réttlætt árásina, hún sé algjörlega óásættanleg og óverjandi með öllu - 

Er þetta nokkuð annað en hryðjuverk

Hvað segir Ísraelsvinakórinn hér á Moggabloggi? Er Bandaríkjastjórn gengin til liðs við vinstri-áróðursmaskínu Hamas? 

 

Screen Shot 2014-07-31 at 21.25.10

Samkvæmt rasista-Moggabloggkórnum sýnir þessi mynd "sjálfsvarnarárás" Ísraelshers, eða eyðileggingu á neðanjarðargöngum ... 


Mótmæli í dag við bandaríska sendiráðið kl. 17


Útifundur við Bandaríska sendiráðið vegna Gaza - Hættið að vopna Ísraelsher til voðaverka, Stöðvið blóðbaðið tafarlaust!
 
Þúsundir Ísraela hafa mótmælt árásunum. Tökum höndum saman. Komum skilaboðunum beint til Bandaríkjastjórnar, bandaríks stjórnvöld halda uppi stríðsrekstri Ísraels og styðja voðaverk þeirra skilyrðislaust.
 
Í da klukkan 17 við Laufásveg. 

Hugrakkt blað og íslenskur hægripopúlismi

Það eru ekki allir rússneskir fjölmiðlar sem taka þátt í áróðursfarsa Pútinveldisins. Blaðið Novaya Gazeta birti á forsíðu sinni í dag stóra ljósmynd af líkfylgd nokkurra hollensku fórnarlamba árásarinnar á farþegaflugvél Malaysian Airlines yfir Úkraínu, undir fyrirsögninni, Fyrirgefið okkur, Holland. Á hollensku.

NovayaGazeta 

Ritstjórn blaðsins horfist í augu við þann raunveruleika að rússnesk stjórnvöld bera verulega ábyrgð á þessu ódæði, og það sem meira er um vert ÞORA að segja frá því. Ritstjórarnir fá vafalítið að finna fyrir því, því Rússland er ekki frjálst ríki og fjölmiðlum er síður en svo óhætt að tjá skoðanir og segja fréttir sem er stjórnvöldum ekki að skapi. Yfir stærsta fjölmiðlabatteríi ríkisins hefur Pútín sett orðljótan og fordómafullan pópúlista, hálfgerður trúður ef ekki væri fyrir hatursfull ummæli hans t.d. í garð homma, og eru fjölmiðlar nú uppfullir af snarklikkuðum samsæriskenningum og öfgabulli. Um áróðurskenndan og ólíkindalegan fréttaflutning af árásinni flugvélina ritaði Egill Helgason í pistli fyrr í vikunni.

Ansi sérstakt í þessu ljósi að lesa nýlegan pistil eftir Jón Magnússon þar sem hann tekur upp hanskann fyrir Pútín. Jón er einn sá íslenski stjórnmálamaður sem einna lengst hefur gengið í daðri við hægripopúlisma, andúð gegn innflytjendum og þjóðrembu. En að hann styðji fasisma Pútíns kemur mér samt á óvart.

Jón-"Ísland fyrir Íslendinga"-Magnússon, þú ert gjörsamlega úti á túni, eins og svo oft í þínum málflutningi.

 


Obama ítrekar stuðning við innrás og manndráp Ísraelsmanna

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag að hann hefði rætt við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, um ástandið á Gaza. Lagði hann áherslu á stuðning Bandaríkjanna við Ísrael um rétt þjóðarinnar til að myrða óbreytta Palestínumenn, konur og börn.

Fundurinn var haldinn vegna harmleiksins í Úkraínu. Í lok fundarins minntist hann hins vegar á ástandið á Gaza. Obama sagði að Bandaríkin hefðu litlar áhyggjur af lífum saklausra borgara á Gaza. 

„Við erum vongóð um að Ísrael muni áfram nálgast ástandið á þann veg að drepa ekki alltof marga almennra borgara,“ sagði Obama við blaðamenn. Viðbrögð forsetans koma í kjölfar aukinna manndrápa á Gaza. Sagði Obama að sírenur hefðu heyrst á meðan á símtali þeirra stóð.

Samkvæmt tilkynningu frá forsætisráðherranum eru þetta þær aðstæður sem milljónir Ísraela þurfi að búa við, þ.e.a.s. gagnárásir frá hernumdu svæðunum. 

Talið er að a.m.k. 274 Palestínumenn hafi verið drepnir og yfir 2000 særst í loftárásum Ísraela á Gaza undanfarna ellefu daga. Talið er að 28 manns hafi verið drepnir undanfarinn sólarhring skv. frétt Guardian.

Byggt á frett visir.is

 

AR-140719009

 


46 þúsund manns!!

Nú hafa yfir fjörtíu og sex þúsund manns undirritað áskorun til Alþingis um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald ESB-viðræðna á þjóð.is.

Þetta eru 19% kosningabærra manna á Íslandi! 

Þetta myndi jafngilda undirskriftum 800.000 Dana, eða 1.36 milljón Svía, eða 11.4 milljón Þjóðverja

Myndu ríkisstjórnir og þjóðþing þessara landa hunsa slíka lýðræðislega kröfu frá þegnum sínum, um að uppfylla gefin kosningaloforð? 

Hvað gerir Alþingi Íslendinga?

 

Óttast Alþingi lýðræði og þjóðarvilja?? 

 

althingi 

 


Pólitískur ómöguleiki

Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins telur það "pólitískan ómöguleika" að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stórmál, ef niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu myndi ganga í berhögg við stefnu sitjandi ríkisstjórnar. (Jafnvel þó stjórnarflokkar hafi lofað einmitt slíkri arkvæðagreiðslu fyrir kosningar.)

Þjóðaratkvæðagreiðslur skulu ekki haldnar nema tryggt sé að útkoma þeirra sé í samræmi við vilja og stefnu ráðandi stjórnvalda.

Með öðrum orðum:

Ef þjóðin og ríkisstjórnin eru ekki sammála, þá verður ríkisstjórnin að fá að ráða.

Það er pólitískur ómöguleiki ráðherrans að ríkisstjórn þurfi að beygja sig undir vald fólksins.  

Það má ekki taka valdið af stjórnvöldum.

Þjóðin fær bara "vald" til að kjósa á fjögurra ára fresti, en þá er líka allt í lagi að ljúga að kjósendum. Til að tryggja völd



mbl.is Sakaði Bjarna um pólitísk umboðssvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfir 10.000 undirskriftir á fyrsta degi!

Frábær árangur! Greinilegt að mjög mörgum finnst alltof mikill asi í stjórnvöldum og vilja alls ekki draga umsóknina endanlega tilbaka með formlegum hætti.

Ég vona að utanríkisráðherra, ríkisstjórnin og allir Alþingismenn hugsi sig vandlega um, áður en afdrífarík ákvörðun eru tekin sem við vitum ekki hvað þýðir en gæti bundið hendur þjóðarinnar um ókomna tíð.

Báðir stjórnarflokkar höfðu á orði fyrir og eftir kosningar að um þetta mál skyldi kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort aðildarviðræðum skyldi haldið áfram. Með boðuðu skrefi nú, formlegri afturköllun umsóknarinnar, virðist það loforð í uppnámi, enda væri þá ekki í höndum íslenskra stjórnvalda lengur hvort og hvenær sé hægt að taka upp þráðinn að nýju.

Ég tel sjálfur að réttara væri, í ljósi stefnu núverandi ríkisstjórnar, að boða formlegt viðræðuhlé gagnvart sambandinu, en ég sé alls ekki hvað er unnið með formlegri afturköllun umsóknarinnar. Mér finnst það svolítið eins og að gefa frá sér forkaupsrétt að húsi, af því bara, til að gefa eitthvert 'statement'.

Ég tek fram að ég er ekki talsmaður allra þeirra sem kvitta undir eða túlka skoðanir þeirra. En við sem skrifum undir erum sammála um þessa skýru og einföldu áskorun og viljum koma þeim skilaboðum til stjórnvalda.

Ég vona að sem flestir leggi nafn sitt við áskorunina. Þetta er söfnun af einföldustu gerð, enda er ég ekki tölvusérfræðingur, heldur bara venjulegur maður og vil leggja mitt af mörkum í umræðu og ákvarðanatöku sem snertir framtíð þjóðarinnar um ókomin ár. Ég er ekki flokksbundinn og hvorki heitur stuðningsmaður né andstæðingur ESB-aðildar

Ég vona að þetta verði skýr og ákveðin skilaboð til stjórnvalda um að taka ekki ákvarðanir sem binda hendur þjóðarinnar um ókomna tíð, að óþörfu. 

Hér er slóðin:

http://www.petitions24.com/signatures/ekki_draga_umsoknina_tilbaka/ 

= = = = = = = = = =  = = = = = =

Ég vil benda á að í gærkvöld fór af stað ÖNNUR undirskriftasöfnun, með mjög svipaðri áskorun, sem hafði verið í undirbúningi nú um helgina. Ég vil eindregið hvetja ykkur öll til að fara á þá slóð og setja nafn ykkar LÍKA þar, ef þið eruð sammála þeirri áskorun.Slóðin er: http://thjod.is/

Sú söfnun er samkeyrð með þjóðskrá, þannig að kvittað er undir með því að slá inn kennitölu.

Aðstandendur þeirrar söfnunar hafa fleira fólk og fé til að kynna sína söfnun og fylgja henni á eftir og umgjörðin um söfnunina er enn traustari en ég get staðið fyrir. Þar er orðuð spurning sem lagt er til að greitt sé atkvæði um.

Söfnun mín er óháð öllum samtökum og ég er ekki "talsmaður" þeirra sem skrifað hafa undir. Ég sjálfur styð síðara framtakið á thjod.is, en ég mun áfram halda upphafssöfnuninni opinni, halda utan um undirskriftir og koma áskorun okkar til skila til stjórnvalda. 


mbl.is Undirskriftum safnað gegn afturköllun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband