Færsluflokkur: Mannréttindi

Jón ver dóna

Í vikunni fjallaði Kastljós á RÚV um hatursfull og orðljót ummæli á netmiðlum. Tekin voru viðtöl við þrjá einstaklinga sem lent hafa í að fá yfir sig skæðadrífu af slíku og svo var hringt í tvo einstaklinga sem skrifað höfðu svona netdónakomment. Annar einstaklingurinn vildi alls ekki gangast við ummælunum, hinn gerði það en hún gat ekki svarað því hvort hún myndi vera tilbúin að segja orð sín augliti til auglitis við þann sem hún skrifaði um.

Sú sem mestu haturs- og ónotakommentin mátti þola af viðmælendum Kastljóss er Sema Erla Serdar, sem tekur virkan þátt í stjórnmálum og samfélagsumræðu og hefur m.a. skrifað og tjáð sig um fjölmenningu og fordóma. 

Velflestum sjónvarpsáhorfendum hefur vafalaust blöskrað dónaskapurinn, heiftin og illskan sem mátti sjá í kommentum sem rúlluðu yfir skjáinn. En ekki bloggaranum og lögmanninum Jón Magnússyni. Hann tekur upp hanskann fyrir netdónana og kallar ummæli þeirra meint hatursummæli. Fullyrðir svo að ógeðskomment séu bara viðbrögð þeirra „sem verði fyrir barðinu á hatursummælum Semu“. Jón tiltekur samt ekki eitt einasta dæmi sem stenst skoðun um eitthvað sem gæti mögulega kallast hatursummæli frá Semu Erlu. 

Ég sendi inn komment við pistil Jóns en hann er gunga og birtir ekki komment sem varpa skugga á hans auma málstað. Svona var komment mitt, þið getið dæmt um það hvort það sé ókurteist eða ómálefnalegt:

 

Þannig að þegar bandarískir hvalverndurnarsinnar hvetja neytendur vestra til að sniðganga íslenskar afurðir þá eru þeir í „hatursherferð“ gegn Íslendingum svipaðri og herferð nasista gegn gyðingum?  Eða þegar Vesturlönd, mörg hver, settu viðskiptabann á Apartheid-stjórn Suður-Afríku fyrir 30 árum þá var það líka hatursherferð í anda nasista? Það er jú það sem þú ert að segja, að sniðganga og viðskiptaþvinganir af slíkum toga séu „hatursheferðir“ í anda nasista. 

Þetta er hroðalegt bull í þér Jón.

Og ENGIN af þeim ummælum sem Kastljós birti sem beindust gegn Semu Erlu voru eitthvað sambærileg því sem þú vísar til af ummælum hennar. Sem  ÞÚ hikar ekki við að kalla hatursummæli.

Með von um að þessi athugasemd fái að birtast.

 

Mogginn sá svo ástæðu til að vekja sérstaka athygli á rasistasleikjuboðskap Jóns 'Ísland fyrir Íslendinga' Magnússonar á forsíðu mbl.is.

Af hverju er Jón svona viljugur að gerast talsmaður netdóna og rasista?  Kannski vonast hann eftir endurkomu í pólitík undir fána nýstofnaðs flokks, Íslensku þjóðfylkingarinnar, sem virðist vera svar Íslands við vaxandi stuðningi við sambærilega flokka í Evrópu sem gera út á útlendingaótta og múslimaafóbíu. 

 

Capture-mbl

 

 


Engin 110 ára regla um Icesave skjöl

Frekar er nú klaufaleg tilraun Framsóknarflokksins til að tala um eitthvað annað en aflandsfélög og hagsmunaárekstur forsætisráðherra. Það gildir engin sérstök 110 ára regla um þau trúnaðarskjöl sem þingmenn hafa haft aðgang að og varða endurreisn bankanna. 

Svokölluð 110 ára regla var í upplýsingalögum, nánar tiltekið grein sem varðaði lög um Þjóðskjalasafn, en þau lög voru afnumin 2014 og í þeirra stað komu lög um  opinber skjalasöfn nr. 77/2014, samþykkt af núverandi meirihluta, m.a. Vigdísi Hauksdóttur.

Þar stendur í 29. gr.:

„Þegar sérstaklega stendur á getur opinbert skjalasafn ákveðið að synja um aðgang að skjali sem er yngra en 110 ára, svo sem þegar það hefur að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklings sem enn er á lífi eða um almannahagsmuni er að ræða.“

Þarna hefur verið bætt inn klausu um „almannahagsmuni“. Hún er skýrð svo í skýringum með frumvarpi:

„Skjal sem varðar almannahagsmuni og getur talist vert að synja um aðgang að getur t.d. verið teikningar af húsum sem varða öryggi ríkisins (fangelsi, öryggisgeymslur o.s.frv.).“

Sem sagt, það er EKKERT sem gefur tilefni til að ætla að þessi skjöl sem Framsóknarlfokkurinn reynir nú að þyrla upp miklu moldviðri útaf verði leynileg í 110 ár. Og raunar virðast allir sammála um að aflétta leynd af sem flestum af þessum skjölum, svo fremi ekki sé verið að brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs.


mbl.is „Bara yfirgengileg þvæla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru fasistar? Svar til Jóns Magnússonar

Eftirfarandi komment birti ég á bloggsíðu Jóns Magnússonar, sem í nýjum pistli lýsir miklum áhyggjum af því að Donald Trump aflýsti kosningafundi sínum í Chicago, og kallaði andstæðinga Trump sem mættu og mótmæltu á boðuðum fundi hans "frjálslynda fasista". Ég skelli kommentinu inn hér líka, enda líða oft margir dagar þar til Jón M. samþykkir birtingu kommenta við bloggpistla sína.

= = = 

Sæll Jón.

Ertu nú að fara rétt með þegar þú segir "Í nótt kom hópur fólks í veg fyrir að Donald Trump gæti tjáð sig."

Þær fréttir sem ég hef lesið eru á þá lund að hópur andstæðinga Trump mættu á boðaðan kosningafund hans til að tjá andstöðu sína við hann. Það voru svo Trump og stuðningsmenn hans sem ákváðu svo að fella niður fundinn. Vissulega kom til slagsmála, ekki síst eftir að ljóst var að Trump myndi ekki láta sjá sig, en það var á báða bóga.

Voru andstæðingarnir að hefta tjáningarfrelsi Trump? Hann hefur nú tjáð sig mikið og víða bæði fyrir og eftir þennan fund svo það þarf nú tæplega að hafa áhyggjur af því að verið sé að þagga niður í Trump. Enda ENGINN forsetaframbjóðandi sem fengið hefur jafnmikla athygli fjölmiðla, bæði vestanhafs og hér á landi!

Það sem eflaust vakti fyrir andstæðingum Trump var að trufla boðaða Hallelúja-samkomu Trump.

Og veistu, ég skil það vel. Ef ég væri Chicago-búi af mexíkóskum uppruna, þá hefði ég alveg örugglega mætt niðrí bæ til að nýta MINN rétt til að tjá mig og til að trufla herferð Trump. Trump hefur jú, eins og þú eflaust veist kallað mexíkóska innflytjendur þjófa og nauðgara og vill senda þá alla "tilbaka" og byggja mikinn múr milli landanna. ÉG hefði talið það skyldu mína að leyfa ekki Trump að koma og óhindrað dreifa sínum skítaboðskap, gagnvart börnum mínum og barnabörnum.

Finnst þér nauðgara-málflutningur Trump boðlegur?

Ég skil vel Bandaríkjamenn af mexíkóskum uppruna séu óttaslegnir yfir velgengni Trump og finnst ekkert skrýtið og í sjálfu sér mjög skiljanlegt og eðlilegt að fólk tjái andstöðu sína við Trump og leyfi honum ekki óhindrað að koma ríðandi á hvítum hesti og halda fjölmenna fundi þar sem hann heldur áfram að kynda undir fordóma og hatur.

En þetta fólk kýst þú að kalla fasista. Það finnst mér sérstakt orðaval og segir sitt hvað um þína afstöðu til Trump og þeirra sem hann talar niður til.


Hatursáróður á Moggabloggi

Ég hef ákveðið að endurvekja a.m.k. um sinn þessa bloggsíðu úr dvala til að skrifa um mikilvægt mál.

Ég rakst hér á svo svæsinn hatursáróður að mér blöskraði og tel fulla ástæðu til vara við þeim málflutningi sem viðgengst hér á sumum bloggsíðum.

Þegar nasistar vildu afmennska gyðinga og magna upp andúð gegn þeim og hatur, kölluðu þeir þá andstyggilegum ókvæðisorðum eins og afætur og sníkla.

Þegar Hútú-leiðtogar vildu magna upp hatur gegn Tútsíum í Búrúndí og Rúanda voru notuð orð eins og afætur og sníklar.

OG þessi orð - afætur og sníklar - eru notuð nú fyrir nokkrum dögum í bloggpistli á síðu Valdimars Jóhannessonar, í grein sem hann þýddi og birti af amerískri hatursboðskapssíðu.  Á síðu Valdimars eru þessi orð notuð um múslima. Þau eru notuð til að kynda undir ótta og óvild. Þau eru notuð til að auka HATUR.

Ég reyndi að rökræða við Valdimar í athugasemdum við pistil hans en hann nennti ekki að ræða við mig og eyddi út athugasemdum frá mér. Svo gerist það að bloggarinn Halldór Jónsson endurbirti sömu ljótu greinina.

Valdimar Jóhannesson og Halldór Jónsson eru að nota bloggsíður sínar hér á Moggabloggi til að dreifa hreinum og ómenguðum hatursáróðri. Þetta eru bloggarar sem fleiri hundruð lesa á hverjum degi.

Valdimar og Halldór dreifa hatursáróðri. Þeir boða hatur. Skrif þeirra eru líklega brot á 233. grein hegningarlaga.

Ég vil ekki beita mér fyrir því að þagga niður í rasistum og hatursveitum, en slík skrif eiga heldur ekki að fá að birtast athugasemdalaust.

Morgunblaðið verður svo sjálft að gera upp við sig hvort slíkur hatursáróður sé í lagi á bloggsíðum mbl. 

valdimar

Valdimar H. Jóhannesson

 

halldor

Halldór Jónsson

 

 


Mótmæli í dag við bandaríska sendiráðið kl. 17


Útifundur við Bandaríska sendiráðið vegna Gaza - Hættið að vopna Ísraelsher til voðaverka, Stöðvið blóðbaðið tafarlaust!
 
Þúsundir Ísraela hafa mótmælt árásunum. Tökum höndum saman. Komum skilaboðunum beint til Bandaríkjastjórnar, bandaríks stjórnvöld halda uppi stríðsrekstri Ísraels og styðja voðaverk þeirra skilyrðislaust.
 
Í da klukkan 17 við Laufásveg. 

Biblían boðar handahöggningar kvenna

Þegar tveir menn lenda í áflogum og kona annars þeirra kemur til þeirra til að bjarga manni sínum úr greipum andstæðingsins og hún réttir út höndina og grípur um hreðjar honum, skaltu höggva af henni höndina og ekki sýna henni neina miskunn.

(Fimmta Mósebók, 25:11) 

Þetta er skýrt og skorinort boðorð, heilagt Guðs orð, samkvæmt kristnum kenningum og fjölmörg viðurkennd trúfélög ("sértrúarsafnaðir") sem styrkt eru af ríkissjóði trúa því að bæði gamla og nýja testamentið sé raunverulega boðskapur sem sé kominn frá æðri máttarvöldum, orðrétt, þar sé allt satt og rétt.

Sem betur fer gengur fylgismönnum slíkra trúarsafnaða þokkalega að samræma trú á bókstafinn og almennt nútíma siðgæði og almenn mannréttindi. Þeir viðurkenna að reglur mannlegs samfélags eru í praxis mikilvægari en Guðs orð, og engir vilja í alvöru fylgja þessari reglu Guðs um að höggva skuli hönd af konu sem grípur í pung andstæðings manns síns. En spyrjir þú þá, trúir þú að allt sem stendur í Biblíunni sé satt og rétt og frá Guði komið, þá væntanlega munu þeir játa því. 


Múslimar og trúleysingjar útsendarar Satans?

Því hefur verið haldið fram að Satan hafi búið til íslam og Kóraninn. Því hefur líka verið haldið fram að sá gjörningur verði til þess að villa trúleysingjum sýn á hinum eina sannleika.

Þetta komment kom frá frelsuðum kristnum bloggara í fjörugri umræðu við seinasta pistil: Eygló sýnir fordómum Sveinbjargar umburðarlyndi.

Þetta vekur upp forvitnilegar spurningar. Trúa kristnir á tilvist Satans?  Byggist andstaða við múslima og fyrirhugaða mosku þeirra á trúarlegum forsendum, að þeirra trú sé villutrú?

Í þessu samhengi vekur athygli að Sveinbjörg Birna nýkjörinn borgarfulltrúi Framsóknarflokksins situr í stjórn kristilegs trúfélags. En það kemur fram í greinargóðri samantekt í DV í dag, að Sveinbjörg er gjaldkeri sóknarnefndar Háteigssóknar, einnar af fjölmörgum sóknum Þjóðkirkjunnar.

Trúfélag Sveinbjargar nýtur margs konar forréttinda umfram önnur trúfélög.

Er það ekki sérstakt að stjórnarmaður í trúfélagi beiti sér í pólitík gegn öðru trúfélagi? 

Vill Framsóknarflokkurinn að hér á landi sé jafnræði á milli trúfélaga?

Eða ættum við að taka umræðuna skrefi lengra og koma á jafnræði trúfélaga og annarra félaga? Með núverandi fyrirkomulagi er ríkið að moka undir alla sértrúarsöfnuði, sama hvaða rugl og fordóma þeir boða. Þetta er gert til að reyna aðeins að "jafna" stöðu þeirra gagnvart ríkistrúfélaginu, sem fær 4-5 milljarða úr ríkissjóði á ári hverju.

Engir stjórnmálaflokkar nema þá Píratar hafa viljað hreyfa við slíkum hugmyndum, að afnema sérréttindi trúfélaga og sjálfvirka ríkisstyrki til þeirra. 

 

 


Sigmundur ósammála Sveinbjörgu?

Í þætt­in­um Eyj­unni á Stöð 2 sagði Sig­mund­ur að það að gera upp á milli trú­ar­bragða væri ekki í anda stefnu flokks­ins. 

En oddviti Framsóknarflokksins sagði 22. maí að hún teldi að það ætti ekki að úthluta lóð undir mosku á meðan hér væri Þjóðkirkja.

Oddvitinn sagði sem sagt mjög skýrt og greinilega að það skuli gera upp á milli kristinnar Þjóðkirkju og múslimasöfnuði Félags múslima.

Formaðurinn segist nú - 9 dögum síðar - vera þessu ósammála, en hann segir ekki hvað honum finnist um þessa skoðun oddvitans, sem var mjög afdráttarlaus. 

Hér er OPIÐ BRÉF til Sigmundar Davíðs. Með von um svar. 


mbl.is Sigmundi Davíð misboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Félagafrelsi og trúfrelsi

Ég er ekkert endilega hrifinn af íslam þannig séð. Ég er ekkert sérstaklega upprifinn af skipulögðum trúarbrögðum yfirleitt.

Mér finnst þessi náskyldu abrahamísku trúarbrögð (kristni, íslam, gyðingdómur) vera alltof mikið í því að draga fólk í dilka og dæma aðra. Saga Evrópu síðustu þúsund ár einkennist öðru fremur af deilum milli kaþólikka og mótmælenda, alla vega var trúin notuð til dilkadráttar og sem skálkaskjól fyrir ofbeldi og stríð, þó undir niðri snerust deilurnar sjálfsagt fyrst og fremst um völd og peninga.

Siðaskiptin íslensku þarf ekki að rifja upp, þar voru menn hálshöggnir og í kjölfarið varð Ísland eitt allra leiðinlegasta land Evrópu, þar sem íslenska lúterska kirkjan, fyrirrennari Þjóðkirkjunnar, hafði það sem meginmarkmið að drepa fólk úr leiðindum. Ekki mátt syngja og dansa, og helst ekki skemmta sér yfir höfuð, í hátt í 400 ár. Þetta hafði það í för með sér að þjóðdansaarfi landsins var hér um bil útrýmt og stórum hluta af tónlistararfi þjóðarinnar.

En þetta var nú bara smá formáli.

Hér á landi ríkir trúfrelsi. Margir virðast alls ekki skilja þetta hugtak, svo sem ekki skrýtið, þetta er til að gera nýtt í Íslandssögunni. Trúfrelsi þýðir að hver og einn getur kosið að aðhyllast þá trú sem hann kýs, eða að aðhyllast enga trú. Ríkisvaldið á ekkert að skipta sér af því.*

*(Það gerir það auðvitað í dag að vissu leyti, með því að ríkið rekur eitt trúfélag og styrkir sérstaklega.)

Hér ríkir líka félagafrelsi. Félagafrelsi þýðir að fólki er frjálst að stofna félög um sín áhuga- og/eða hagsmunamál.

Ríkið á ekki að setja frjálsum félögum neinar skorður, aðrar en þær að félag má ekki stofna beinlínis utanum eitthvað ólöglegt.

Ef félag vill byggja hús undir sína starfsemi þá að sjálfsögðu á sú almenna regla að gilda að öll félög skulu hafa til þess jafnan rétt og fá að gera það, í samræmi við skipulag og reglur og í samvinnu við skipulagsyfirvöld á hverjum stað. Rétt eins og einstaklingar og fyrirtæki mega byggja sér hús.

Ef Jón Jónsson fær til umráða lóð til að byggja á hús, þá höldum við EKKI atkvæðagreiðslu um það hvort HANN megi byggja á lóðinni. Fólk getur haft á því skoðun hvort lóð Jóns sé hentug undir hús sem hann hyggst byggja, en við förum ekki að greiða atkvæði um það hvort HANN eða EINHVER ANNAR megi byggja á lóðinni!

Hið sama gildir í aðalatriðum um FÉLÖG. Fjölmörg félög hafa byggt hús undir sína starfsemi, svo sem hjálparsveitir, frímúrarar, Kiwanis, Lions, íþróttafélög, verkalýðsfélög, o.fl. o.fl.

Ef trúfélög, líkt og hver önnur félög, vilja byggja sér hús, og fara löglega leið við það, þá er það EKKI OKKAR að segja hvort þau mega það eða ekki! Það skiptir ekki máli hvort ÞÉR EÐA MÉR finnst að Lions, Frímúrarar, Kiwanis, nú eða Framsóknarflokkurinn, eigi að byggja sér hús eða ekki. 

Mér finnst t.d. Vottar Jehóva óttalega vitlaust félag. Þau eiga þetta fína hús kyrfilega merkt, sem einmitt blasir við öllum vegfarendum sem keyra í borgina niður Ártúnsbrekku. Það er ekki mitt að mótmæla því að þeir eigi sitt hús, þó ég megi auðvitað hafa mína skoðun á félaginu. En þetta er LÖGLEGT FÉLAG og þau eiga að mega gera það sem þau vilja, innan ramma laga og reglna, svo fremi sem það truflar ekki aðra. 

Í sumum tilvikum styðja yfirvöld byggingar félaga, miklir peningar fara úr sjóðum sveitarfélaga til bygginga íþróttafélaga og vafalítið styrkja sveitarfélög ýmis önnur félög, svo sem hjálparsveitir, t.d. með því að leggja þeim til lóðir undir starfsemi sína.

Um trúfélög gilda svo sérreglur, samkvæmt lögum settum af Alþingi, að sveitarfélög skulu láta þeim í té lóðir undir kirkjur og bænahús endurgjaldslaust. EF á annað borð á að vera trúfrelsi í landinu, þá geta ekki sveitarfélög gert upp á milli löglegra viðurkenndra trúfélaga þegar að þessu kemur. Þetta hljóta allir að skilja, sem á annað borð hugsa málið. 

Vissulega orka þessi lög tvímælis, að trúfélög skuli njóta þessara sérréttinda umfram önnur félög, en þá skulum við ræða það á almennum nótum, um ÖLL trúfélög, líka Þjóðkirkjuna, og taka fyrir öll sérréttindi trúfélaga, til dæmis að þau fái "félagsgjöld" beint úr ríkissjóði í formi sóknargjalda.

Ef trúfélög, líkt og önnur félög, vilja byggja sér hús, og fara löglega leið við það, þá er það EKKI OKKAR eða tiltekinna pólitíkusa að segja hvort þau megi það eða ekki! Það skiptir ekki máli hvort ÞÉR EÐA MÉR finnst að Lions, Frímúrarar, Kiwanis, nú eða Framsóknarflokkurinn, eigi að  byggja sér hús eða ekki. 

Hér á að ríkja trúfrelsi og félagafrelsi, og þá hlýtur almenna reglan að vera sú að félög mega byggja sér hús yfir sína starfsemi, og að ríki og sveitarfélög geri ekki upp á milli viðurkenndra trúarbragða og trúfélaga.

Eru virkilega einhverjir ósammála þessu?

Á ég að trúa því að næststærsti stjórnmálaflokkur landsins, flokkur forsætisráðherra, sem nú fer með stjórn landsins í tveggja flokka stjórn, sé ekki með algjört svona grundvallaratriði frjáls samfélags á hreinu?  


Spurning til Sigmundar Davíðs

Finnst forsætisráðherra í lagi að oddviti flokksins í höfuðborg landsins í sveitarstjórnarkosningum sé á móti almennum mannréttindum og trúfrelsi?

 

Úr stefnu Framsóknarflokksins:

II. Mannréttindi

Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

http://www.framsokn.is/stefnan/ 


mbl.is Kosið verði um lóð undir mosku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband