Sigmundur á að biðjast afsökunar

Mér finnst rétt að við stöldrum við og veltum fyrir okkur orðum og gjörðum okkar unga forsætisráðherra. Margir höfðu nokkrar efasemdir um að hann hefði það sem þarf til að leiða ríkisstjórn landsins. Hann er ungur, með mjög litla reynslu úr stjórnmálum og ekki reynslu af stjórnarstörfum annars staðar frá. Reyndar hefur hann litla reynslu af atvinnulífi almennt. Hann starfaði nokkur misseri sem fréttamaður í hlutastarfi, kom svo í fjölmiðla nokkrum sinnum fyrir fáum árum og tjáði sig af áhuga og einhverri kunnáttu um skipulagsmál. Hann hefur setið lengi á skólabekk, lauk grunnnámi í viðskiptafræði á 10 árum, hefur svo lært áfram eitthvað í stjórnmálafræði og skipulagsfræðum, en ekki lokið gráðu eða ritgerð, að mér skilst. Þar með er hans ferilskrá upptalin, að viðbættu starfinu sem Alþingismaður og flokksformaður síðasta kjörtímabil.

Hvernig er svo reynsla þessa hálfa árs af Sigmundi Davíð í stól forsætisráðherra? 

Því miður held ég að Sigmundur sé ekki rétti maðurinn í þetta starf.

Ég efa það í sjálfu sér ekki að hann búi yfir ýmsum kostum og að hann vilji vel, sé greindur og geti verið skemmtilegur.

En hann er vondur forsætisráðherra. Eiginlega afleitur.

Vinnubrögð og samskipti í stjórnarmeirihlutanum og ríkisstjórn virðast ekki heilbrigð og skilvirk. Verkstjórnin virðist á köflum ekki vera til staðar. Samskipti við fjölmiðla og almenning eru óskýr, misvísandi og á köflum hrokafull. Sigmundur talar stundum eins og kjáni. 

Vissulega er Alþingi sérstakur vinnustaður. Það þarf styrk, traustan karakter og ákveðið innra jafnvægi til að láta ekki neikvæða umræðu, sífellda togstreitu og mikið álag draga sig niður á plan skætings og virðingarleysis. Alþingi getur haft slæm áhrif á a.m.k. suma sem þar sitja. Ég held að Sigmundur Davíð höndli þetta ekki vel.

Tökum tvö dæmi:

Í aðdraganda þess að ríkisstjórnin kynnti stóra "skuldaleiðréttingarpakkann" varaði forsætisráðherra við því að stjórnarandstaðan myndi ráðast á tillögurnar og myndu eiga eftir að ljúga í gagnrýni sinni á tillögurnar.

Forsætisráðherra landsins sakaði menn og konur fyrirfram um að ætla að ljúga.

Mér vitanlega gekk þessi hrakdómsspá alls ekki eftir. Margir hafa auðvitað rýnt í tillögurnar og gagnrýnt, ekki bara stjórnarandstæðingar heldur velflestir hagfræðingar sem á annað boð hafa tjáð sig um málið,  enda er um að ræða stórkostlega dýra efnahagsaðgerð svo það væri mjög óeðlilegt ef þessar tillögur væru ekki vandlega rýndar með gagnrýnu hugarfari. (Gagnrýni á "stóru skuldaleiðréttinguna# er svo efni í annan pistil. Ég tel þessar tillögur glórulausar.)

En sem sagt, forsætisráðherra réðst á stjórnarandstæðinga áður en tillögurnar voru kynntar og ásakaði þá um að ætla að ljúga.

Mér finnst þetta mjög merkilegt, þess vegna tvítek ég þetta og feitletra. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé nýjung í íslenskri stjórnmálasögu. En þetta er ekki bara óvenjulegt og sérstakt, þetta er einstaklega ódrengilegt og dónalegt. Þetta sýnir vænisýki og pólitískan vanþroska, að tala svona.

Minnst var á þetta í viðtali við forsætisráðherra í gær. Hverju skyldi hann svara, jú hann segir brosandi

.. ég talaði ekki um að ljúga. Ég talaði um að menn myndu segja ósatt ... 

og bætir svo við:

... ég tel að það hafi síðan komið á daginn 

 

Stöldrum við. Hér bætir Sigmundur við fyrri ásakanir sínar um að menn og konur myndu ætla að ljúga, nú beinlínis ásakar hann pólitíska andstæðinga sína um að hafa logið.

Nefnir hann DÆMI?

Nei.

Forsætisráðherra landsins ásakar stjórnarandstæðinga um að ljúga án þess að tilgreina hver laug eða hverju var logið. Slær því svo upp í kæruleysi að hann hafi ekki talað um lygar heldur um að "tala ósatt".

Mér blöskrar. Mér finnst ótækt að forsætisráðherra tala svona til annarra stjórnmálamanna. Það er alvarleg ásökun að saka menn um að ljúga.

 

En tölum áfram um lygar. Hitt dæmið sem ég vildi minnast á er þetta:

Fulltrúar ríkistjórnarflokkana sögðu skýrt og skilmerkilega frá því í fjölmiðlum að barnabætur yrðu lækkaðar í fjárlagafrumvarpinu. Stjórnarandstæðingar gagnrýndu þetta en forsætisráðherrann sakaði menn um að vera að æsa sig út af einhverjum getgátum. ("áhyggjur þingmanna eru algerlega áhyggjulausar. [...] Það eina sem hefur gerst hér er að hv. þingmönnum hefur verið bent á að einhverjar getgátur þeirra hafi ekki reynst réttar"#)

Svo kom í ljós að skýrar og klárar tillögur höfðu vissulega verið samþykktar ríkisstjórn í þessa veru og hafa fjölmiðlar staðfest það. Baðst ráðherrann afsökunar? Nei. Hann hins vegar þverneitaði því að hafa talað um að stjórnarandstæðingarnir höfðu byggt á getgátum! ("Það að halda því fram að ég hafi sagt að skerðing barnabóta væri eingöngu getgátur er hins vegar alrangt."#)

Forsætisráðherrann fór í tvígang á svig við sannleikann í einu og sama máli í sömu vikunni, fyrst neitaði hann því að tilteknar skýrar tillögur lægju fyrir sem sannanlega lágu fyrir og sagði að gagnrýni á þær væri byggð á getgátum, svo neitaði hann því einum eða tveimur dögum seinna að hafa talað um getgátur í þessu samhengi.

Þessi tvö dæmi eru kannski ekki stórvægileg sem slík. En þau sýna að eitthvað mikið er að. Forsætisráðherrann verður að temja sér að tala við bæði stjórnarandstæðinga og þjóðina af virðingu og hætta svona bulli og lágkúru.

Forsætisráðherrann á að sjálfsögðu að draga tilbaka órökstuddar ásakanir um lygar og biðjast afsökunar. 

En helst af öllu vona ég að hann finni sér annað starf á nýju ári, starf þar sem mannkostir hans og hæfileikar fái notið sín.

 

sdg

Ekki réttur maður á réttum stað. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: rhansen

það er sorglegt að einhver finni sig i að setja slikt á blað sem þennann pistil .............guð blessi þig og gefi þer gleðileg jól !

rhansen, 21.12.2013 kl. 23:03

2 identicon

rhansen hvað er að þessum pistli? Eru þarna lygar? ýkjur? ósannindi? rætni?

Hildigunnur Rúnarsdóttir (IP-tala skráð) 21.12.2013 kl. 23:29

3 identicon

Það væri gaman að vita hvaða niðurstöðu þú kæmist að ef þú settir þessa sömu mælikvarða á síðustu ríkisstjórn og Jóhönnu Sig. Eitt dæmi þú segir að Sigmundur Davíð hafi litla reynslu af atvinnulífi en ef við skoðum síðustu ríkisstjórn þá hafði engin ráðherra nokkra reynslu af atvinnulífi eða nokkra menntun á eða reynslu á sviði efnahagsmála almennt. Það held ég að hafi aldrei komið fyrir áður að ríkisstjórn sem heild hafi verið þannig skipuð. Enda var það nokkuð augljóst í öllum hennar gerðum hversu alla tilfinningu fyrir þörfum atvinnu- og efnahagslífs vantaði. Sigm. Davíð er hagfræðingur sem hefur sterka tilfinningu fyrir gildi verðmætasköpunar og atvinnulífs og það á sama við flesta í þessari ríkisstjórn og í því felst von þjóðarinnar um bjartari framtíð sem mun birtast í hægum en öruggum skrefum.

Þá eru þessar örvæntingafullu tilraunir vinstri manna til að gera ósannindamann í Sigmundi sorglegar og standast engar hlutlægar skoðanir.(skora á þig að hlusta á viðtalið aftur og minnast þess að Sigmundur var að svara fleiru en einu) Virka sem einhverskonar óskhyggja. Ef við förum aðeins aftur í tímann eða ca tveimur dögum áður en fyrstu samningsdrögin um Icesave komu og Steingrímur var spurður hvort eitthvað væri að frétta og hann svaraði úr pontu Alþingis að ekkert væri að frétta. Hvað var það? Lygi? Eða ljúga vinstri menn ekki?

Stefán Örn valdimarsson (IP-tala skráð) 21.12.2013 kl. 23:53

4 Smámynd: Einar Karl

Stefán Örn:

Ég skil ekki hvað þú átt við með "örvæntingarfullar tilraunir". Dæmin tvö sem ég nefni um ótæk vinnubrögð og samskipti liggja fyrir svart-á-hvítu. Ég er ekkert að fylla í eyðurnar, þetta er allt dókumenterað af fjölmiðlum og í ræðu Alþingis. Ef einhver hefur eitthvað við þessi dæmi ða athuga þá skýrið það.

Ég hlustaði á allt viðtalið við Sigmund Davíð. Hann ásakar fólk um að ljúga, án nokkurs rökstuðnings, segir það bara "hafa komið á daginn".

Þetta eru óvönduð og óásættanleg vinnubrögð.

Þessi gagnrýni mín snýst ekki um hægri eða vinstri og hefur ekkert að gera með síðustu ríkisstjórn eða forsætisráðherra þeirrar stjórnar.

Einar Karl, 22.12.2013 kl. 00:27

5 Smámynd: Hrafn Arnarson

Því miður er allt rétt í þessum pistli. Þetta er niðurstaðan ef menn hafa óbrenglaða skynjun og heilbrigða skynsemi. Ýmislegt kemur í veg fyrir að menn sjái það sem augljóst er. Eitt er flokkshollusta sem getur leitt menn út í ótrúlegar ógöngur eins og dæmin sanna.

Hrafn Arnarson, 23.12.2013 kl. 17:08

6 identicon

Hann segir því miður að vissu leyti satt. Stjórnmál nútímans eru að stærstu leyti heimskulegur barbarismi gersneyddur allri vitglóru, þar sem menn þykjast ætla að "byggja upp samfélagið" með því að kljúfa sig í fylkingar, yfirleitt tvær (eiginlega að óeiginlega, vinstri og hægri), sem síðan rífast og skammast og takast á um allt, reyna að skemma fyrir hver öðrum og kasta rýrð á allt það góða sem "andstæðingurinn" gerir, taka ekki góðum ábendingum komi þær frá "vitlausum stað", en heimskulegum ábendingum frá "sínum manni". Þetta er úreltur, stórheimskulegur tribalismi, hættulegur þjóðfélaginu öllu og getur komið því á vonarvöl, nú þegar við erum komin á annan stað í þróun siðmenningarinnar, og þurfum öðruvísi tæki til að stýra þjóðfélaginu en svona steinaldar"stjórnmál", sem eru ekkert nema óstjórn. Hvort Sigmundur lýgur eitthvað minna en aðrir stjórnmálamenn almennt, sneyddir af siðferði sem þeir eru, takandi þátt í leik þar sem menn keppast um "völdin" sama hvað, og selja fyrir þau samvisku sína og drengskap, tja, kjósendur hans telja kannski svo sumir hverjir? Ég hef engar sannanir fyrir því og kaus hann enda ekki, heldur þann kost sem liggur beinast við ef maður vantreystir öllum stjórnmálamönnum og öllum stjórnmálaflokkum og vonar að einhver sé alla vega nógu heiðarlegur að láta mann vita áður en alþingi svíkur kjósendur sínar.

V. (IP-tala skráð) 24.12.2013 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband