Maríus og móðursýkin

Giraffe 

 Merkilegt að skoða ofsafengin viðbrögð úti í heimi við fréttum af því þegar gíraffinn Maríus var felldur í Kaupmannahöfn og gert að skrokknum fyrir framan áhugasama gesti. Dýragarðsyfirvöld hafa gefið mjög góð rök fyrir því af hverju dýrið var fellt, það var einfaldlega eðlilegt viðhald á stofninum, gíraffar eiga auðvelt með að fjölga sér, það er takmarkað pláss í garðinum og hindra verður of mikla skyldleikarækt.

Mörgum finnst viðbrögðin sýna firringu nútíma vesturlandabúa, sem halda að kjöt verði til út í búð og hafa sko ekki alist upp í sveit, þar sem heimalningnum var slátrað að hausti og kýrnar voru felldar áður en þær hættu að mjólka.

EN - - er þetta svona einfalt? Er reiði og hneykslun mjög margra bara móðursýki?

Búum til smá dæmi, segjum að ég ætti gullfallegan hund, tveggja ára Border collie, hana Trýnu. 

collie

Trýna 

Svo þegar vinnufélagarnir spyrja mig einn mánudag um Trýnu, segi ég "Nei, við sko vorum að kaupa lúxusíbúð í Skuggahverfinu, það var ekki pláss fyrir hana svo ég fór með hana út í garð og skaut hana."

Svolítið kaldranalegt eða hvað?

Ég held að mörgum (í útlöndum) finnist að Maríusarmálið hafi verið í áttina að einhverju svona. Maríus hafi verið meira eins og gæludýr, svo hafi hann, enn ungur og fullfrískur, verið skotinn í hausinn og brytjaður sundur fyrir framan forvitin skólabörn. Svona eins og ef ég hefði brytjað niður Trýnu og gefið krummunum sem halda til hér úti við leikskólann.

Ég er ekki að reyna að ganga fram af fólki. Ég er bara að reyna að sýna að við öll, amerísk borgarbörn og veraldarvanir Íslendingar sem voru í sveit sem krakkar, flokkum dýr, og gefum þeim mismikinn rétt til að lifa og til að njóta sín. Sú flokkun er sjaldnast fullkomlega skynsöm eða lógísk. Við myndum til að mynda ekki samþykkja að hundar (hér á landi) þyrftu að búa við sömu aðstæður og svín þurfa að þola. Samt eru svín ekkert vitlausari eða minni tilfinningaverur en hundar. 

Auðvitað er afstaða okkar lituð af okkar reynslu og af tilfinningum. Sumir Íslendingar hneykslast yfir því að starfsfólk Húsdýragarðsins borði sem veislumat kjöt af dýrum sem fella þarf í garðinum. Aðrir hneykslar á því að hinir hneykslast og að þetta skyldi yfirhöfuð teljast frétt. Fannst blaðamanninum að það væri óeðlilegt að starfsfólk Húsdýragarðsins væri sjálft að njóta kjötsins af dýrum sem það hafði fóðrað, umgengist og þekkt? 

Sjálfsagt er það svo að einmitt fólk sem mest umgengst dýr, bændur, dýraræktendur, starfsfólk í dýragörðum verður að temja sér jarðbundna afstöðu til dýranna.

Það sem ég vildi segja er að við ættum kannski ekki að hneykslast svo voðalega á fólkinu sem hneykslaðist á sýningarslátruninni á Maríusi.  Okkar húsbóndavald yfir öðrum skepnum jarðar er alltaf heimspekilega pínu vandmeðfarið, og aldrei hægt að útiloka tilfinningalega afstöðu, og ekkert endilega eðlilegt að gera þá kröfu.

Það er hvorki rétt eða rangt að finnast það óviðeigandi (eða viðeigandi) að gera að fræðslu- og fjölmiðlasýningu uppskurð og vinnslu á skrokki gíraffans Maríusar. Sumum einfaldlega finnst það óviðeigandi, líkt og verið væri að gera fjölmiðlasýningu á kjötvinnslu á hundinum Trýnu. Nú eða Maríusi frænda.

 

bodies.

Maríus hugsi. Úr sýningunni 'Bodies' (mjög svo umdeildri). 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er ekki svo flókið

Um leið og búið er að gefa dýri mannanafn þá fær það aðra stöðu í huga fólks

 Karíus og Baktus eru jú krúttlegir þó þú burstir þá burt á hverjum degi

Grímur (IP-tala skráð) 13.2.2014 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband