Draumalandið mitt

Sá Draumalandið fyrir skemmstu. Mögnuð ádeila. Rifjaði upp dýrmætar minningar úr ferð minni á virkjunarsvæði Kárahnjúka sumarið 2006. Við ferðafélagarnir gáfum okkur góðan tíma til að skoða svæðið, gistum tvær nætur í bændagistingu í Hrafnkelsdal og höfðum þannig heilan dag til að fara um, bæði keyrandi og gangandi, og kynnast með eigin augum þessum tröllauknu framkvæmdum og ekki síst svæðinu sem fórnað var.

Fyrst lá leiðin að virkjunarsvæðinu. Mannvirkin voru á sama tíma heillandi og ógnvænleg. Þetta er óumdeilanlega verkfræðilegt stórvirki, manngert landslag í sjálfu sér.

Kárahnjúkastífla

Þetta var um verslunarmannahelgi og fjöldi fólks lagði leið sína á svæðið, en flestir létu sér nægja að stoppa á útsýnisstæði sem útbúið var austan við stífluna, en þar voru upplýsingaskilti og sást vel yfir nyrsta hluta svæðisins sem átti eftir að verða lónið. 

upplýsingaskilti

En við höfðum meiri áhuga á svæðinu sunnar, nær jöklinum, svæðinu sem ekki sást frá útsýnisstæðinu. Við keyrðum aftur yfir brúnna frægu (þá sem hafði farið á bólakaf dagana áður) og héldum suður eftir grófum slóða. Lögðum svo og gengum í átt að Kringilsánni, en við vildum sjá Kringilsárfoss, sem einnig var nefndur Töfrafoss, og jafnvel komast yfir í Kringilsárrana.

Þetta var sérstök tilfinning að upplifa svæðið. Hátt uppi, nálægt jökulrönd Vatnajökuls í þvílíkri gróðursæld, sól og bliðskaparveðri. Vitandi að þetta land átti eftir að hverfa. Land, sem sumir stjórnmálamenn létu hafa eftir sér að væri nú "ekkert sérstakt", eins og rifjað er upp í kvikmyndinni.

Lækur

Á leið okkar í leit að Kringilsárfossi. Þetta land er nú undir Hálslóni.

Við fundum fossinn og áðum. Þetta var tilkomumikill foss og allt landlagið um kring. Eitt sem vakti athygli var hvað gróðurinn í fossúðanum var grálitaður, en fossinn úðaði fíngerðum leirúða yfir lyngið, sem sýndi þvílíkt magn af aur berst með jökulsánum og fyllir nú hægt og rólega botn lónsins.

Kringilsá

Kringilsá neðan við Töfrafoss. Horfið.

Töfrafoss

Við gengum niður með ánni, að kláfnum yfir í Kringilsárrana, sem hagleiksmaðurinn Guðmundur á Vaði setti upp, vitandi að hann myndi aðeins gagnast í fáein ár, en nú er hann á 50-75 metra dýpi að ég hygg (fer eftir árstíð og yfirborðshæð lónsins).

klafur2

kláfur

 

Þetta var ógleymanleg ferð og sérstök tilfinning að ganga um land sem yrði ekki til ári síðar, og er nú, tæpum þremur árum síðar, horfið. Var þessi fórn þess virði?  (Fyrir umdeilanlegan ágóða, sem okkur tókst svo á síðasta ári að tapa margfalt í efnahagshruninu.) Mín skoðun var staðföst eftir þessa ferð og hefur ekki breyst.

Ég hvet alla til að sjá kvikmyndina Draumalandið og munum að baráttunni fyrir landinu okkar er langt í frá lokið.

Lítill foss sem rennur í Kringilsá

í Kringilsárrana

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Draumalandið er stórkostlegt framlag til baráttunnar fyrir því að afstýrt verði því að okkar kynslóð verði einhver hin fyrirlitnasta í Íslandssögunni.

Ef myndin "Örkin" verður sýnd, hvort sem það verður að mér lifandi eða dauðum, munu loks sjást mestu umhverfisspjöll sem unnin hafa verið og verða unnin á Íslandi, svo margfalt meiri en nokkurn gat órað fyrir, enda öllu afl ráðamanna þjóðarinnar beitt til þöggunar og yfirhilmingar í þessu máli.

Ómar Ragnarsson, 12.4.2009 kl. 17:56

2 Smámynd: Einar Karl

SVo sannarlega vona ég að við fáum að sjá mynd þína, Ómar.

Einar Karl, 13.4.2009 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband