Leikur að eldi í Kastljósi - stíum ekki þjóðinni í sundur

Horfði á umræður í Kastljósi kvöldsins milli viðskiptaráðherra Gylfa Magnússonar, Björns Þorra Viktorssonar fasteignasala og lögmanns og Þórðar Björns Sigurðssonar frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Skiljanlega heitar umræður enda um mjög erfið mál að ræða.

Eitt sló mig illa, þegar Björn Þorri andmælti þeim orðum ráðherrans mjög ákveðið að kreppan væri að lenda á okkur öllum. Ekki væri það svo meinti Björn Þorri, fjármagnseigendur væru sko með allt sitt á þurru og tiltók sérstaklega að ríkið hefði sett 200 milljarða af "fersku fé" í peningamarkaðssjóði.

Fyrst aðeins um tölurnar, það er vissulega svo að keypt voru út léleg bréf úr sjóðunum í kringum og eftir hrun og er það umdeilt, en alls ekki fyrir 200 milljarða. Þessari tölu er vissulega búið að klifa á lengi en hún verður ekki sannari fyrir vikið. 200 milljarðar var heildarupphæðin sem var greidd úr peningamarkaðssjóðunum. 

En nóg um það. Hitt fannst mér verra að Björn Þorri vildi stilla upp tveimur hópum þjóðarinnar hvorum á móti hinum, samkvæmt honum er annar hlutinn - þeir sem bera fasteignalán - að bera allan þunga af bankahruni og peningakreppu, en hinn - þeir sem eiga peninga - væri á grænni grein.

Var Björn Orri að vísa til þeirra sem áttu sparifé í peningamarkaðssjóðum Landsbanka og töpuðu um 35% af sínu fé? Eða til þeirra sem settu hluta af sparifé sínu í hlutabréf og missti 90-100% af því sparifé?

Eða hvað með þá sparifjáreigendur - sem er hugsanlega stærsti hópurinn - sem tapaði hluta af sparifé sínu og er líka með fasteignaskuldir á bakinu??

Í guðanna bænum förum ekki að stía í sundur þjóðinni í andstæðar fylkingar, "við" sem töpum, og "þið hin" sem sleppið. Nógu erfitt er ástandið nú samt.

Slagsmál víkinga


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Halldór Eiríksson

Góður punktur.  Takk.

Jón Halldór Eiríksson, 4.5.2009 kl. 23:50

2 identicon

Sammála

ASE (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 23:53

3 identicon

Sammála. Það er komið nóg af þessu. Þarf að fara að bretta upp ermar og skapa atvinnu, en ekki væla yfir lánum. Þau eiga eftir að ganga til baka og lækka, þ.e. ef við náum efnahag landsins í gang á ný. Það skiptir mestu, en ekki hvort gefinn er einhver ein afsláttargreiðsla af láni.

Auðvitað er rétt hjá Gylfa að kreppan er að lenda á okkur öllum. Misjafnlega mikið, auðvitað, en þannig er það bara.

Svo má alveg hafa í huga að Björn Þorri er fasteignasali, sem hefur eðli málsins samkvæmt lítið að gera um þessar mundir. Þegar hann segist hafa "hag heimilanna" að leiðarljósi, er hann þá ekki að óska þess að fasteignamarkaðurinn fari í gang aftur, þannig að hans eigin sala fari af stað?

Evreka (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 00:00

4 identicon

Hefur "ríkið" efni á því að tryggja sparifjáreigendum 600 milljarða, sumir ræða um 700 milljarða.  Ég sleppi nú að ræða "áhættusjóðina".

Er líklegt að þær þúsundir af fjölskyldum sem nú eru að nálgast gjaldþrot eigi mikið af þeim sparnaði.  Ég á við fjölskyldur sem keyptu íbúðarhúsnæði í góðri trú um að ráðleggingar bankamanna stæðust.  Ég hefði verið sáttur við að halda bara mínum 3 milljónum sem ríkisábyrgðin hljóðaði uppá í fyrstu. 

"Snjall" leikur hjá þeim að hækka ríkisábyrgðina í ótakmarkað, er líklegt að þeir "efnameiri og skuldlausu" hafi haft einhver áhrif þar.  Er ekki verið að mismuna þegnum þessa lands.  Er ekki einmitt verið að stía þjóðinni í sundur með þessum vinnubrögðum sem sumir lögfróðir menn segja að standist ekki lög. 

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 00:21

5 identicon

Getur ekki einmitt verið að það sé búið að stía henni í sundur sbr. síðustu færslu?

Solveig (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 01:20

6 Smámynd: Einar Karl

Páll:

Neyðarlögin eru vissulega umdeilanleg. Með þeim var breytt forgangsröð krafna og almennar innistæður gerðar að forgangskröfum. Aðrar eignir, m.a. skuldabréf í peningamarkaðssjóðum og skuldabréf erlendra lánadrottna rýrnuðu því meira en ella. Ef einhverjir eru að leggja sparif´jareigendum til peninga vegna 100% tryggingar eru það þessir aðilar en alls ekki ríkissjóður.

Ég held að þetta hafi verið eina færa leiðin til að viðhalda bankakerfi gangandi í landinu. Menn geta hugsað upp sk. "Gedankenexperiment", reynt að ímynda sér röð atburða ef innistæður hefðu ekki verið tryggðar, sem hefði leitt beint til stórtæks bankaáhlaups,og ekki ólíklegt að peningakerfi landsins hafði algjörlega rústast.

Um neyðarlögin má lesa meira í ágætri færslu Vilhjálms Þorsteinssonar.

Einar Karl, 5.5.2009 kl. 21:06

7 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Einar Karl þetta er frekar þunnt hjá þér. Það er vel þekkt að í stórum dráttum á minni hluti þjóðarinnar miklar peningaeignir sem var verið að bjarga með aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Á hinn bóginn er fjölskyldufólk sem er að reyna að koma yfir sig húsnæði og skuldar mikið og á engar peningaeignir. Þetta fólk er miklum órétti beitt þegar það er knúið til þess að fjármagna tap hinna.

Fyrri hópurinn vill auðvitað ekki að sá síðari komi auga á þetta mynstur

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 5.5.2009 kl. 21:23

8 Smámynd: Einar Karl

Jakobína:

Í hvorn hópinn falla sjötugu hjónin sem búa í skuldlausu litlu raðhúsi í Fellunum sem þau byggðu með eigin hendi fyrir 30 árum síðan, og hafa lifað sparlega og lagt fyrir og áttu varasjóð uppá 15 milljónir fyrir hrun, sem rýrnaði í 8 milljónir vegna þess að hluti peninganna lá á peningamarkaðssjóði hjá Landsbankanum og hluti var í blönduðum hlutabréfasjóði sem rýrnaði um 95%?

Auðvitað er fullt af fólki sem á engan pening, en það er líka stór hópur fólks, venjulegt fólk milli fertugs og sextugs sérstaklega, sem er með töluverðar húsnæðisskuldir en hefur líka lagt fyrir sparifé. Vissulega á flest það fólk minna nú en fyrir hrun, margir urðu fyrir beinni rýrnun og margir hafa tekið úr sínum varasjóði og greitt inn á lánin sín.

Einar Karl, 5.5.2009 kl. 21:45

9 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Einar Karl vilt þú útskýra fyrir mér hvað réttlæti það að börn gangi svöng og búið við óöruggar heimilisaðstæður svo að foreldrar þeirra geti bætt þessu gamla fólki upp tap sitt. Þessu gamla fólki sem verðbólgan át upp skuldirnar hjá og þetta gamla fólk sem hafði alltaf nóg fyrir á borðum fyrir sín börn.

Ég tilheyri þessum hóp fólks milli fertugs og sextugs og ég sé enga ástæðu fyrir því að aðrar fjölskyldur beri mitt tap.

Ég hefði tapað nokkrum milljónum ef bankarnir hefðu verið látnir rúlla en mér finnst samt að það hefði verið eðlilegra.

Ég vil einnig benda á að Tryggingasjóður innistæðna bætir innistæður upp af þremur milljónum þannig að fólk hefði ekki verið að lenda á vonarvöl.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 5.5.2009 kl. 22:28

10 Smámynd: Einar Karl

Í mínu ímyndaða dæmi töpuðu hjón tæpum helmingi af sínu sparifé, 7 milljónum af 15. Ég er ekki að leggja til að einn né neinn borgi þeim þessar 7 milljónir sem hurfu.

Það er jafn fráleitt að halda því fram að þær 8 milljónir sem eftir sátu hafi verði teknar beint úr vasa ríkisins/skattborgara - bankarnir voru ekki galtómir.

Hafi verið gengið á rétt einhvers með því að gera innistæður að forgangskröfum er það á rétt annarra kröfuhafa bankanna, þ.e. erlendra lánadrottna, eins og ég minntist á hér að ofan.

Einar Karl, 5.5.2009 kl. 22:47

11 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Einar Karl bankarnir voru galtómir og rúmlega það. eitthvað um 

      -10.000.000.000.000

Einar Karl ég held að þú hugsir of mikið í peningabunkum. Þetta er reikningsdæmi.

Ég vil líka benda þér á að þessi ágætu gömlu hjón hefður fengið 6.000.000 út úr Tryggingarsjóð. Það hefðu verið þeir stöndugri sem hefðu tapað og þeir hefðu líka mátt við því í flestum tilfellum. Það hefði alla vega ekki skilað af sér svöngum börnum og samfélgsvandamálum sem við förum nú að horfa upp á.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 5.5.2009 kl. 23:08

12 Smámynd: Einar Karl

Í bönkunum voru eignir þ.e. lán, m.a. húsnæðislán, og skuldir - m.a. innlán.

Skuldir bankanna voru langt umfram eignir, rétt er það, þess vegna fá stærstu kröfuhafarnir bara brot upp í sínar skuldir. En almennum íslenskum innistæðum var lyft fram fyrir aðrar innistæður einmitt í þeim tilgangi að það væri til peningur í bönkunum fyrir þeim!

Ég hygg, Jakobína, að við getum verið sammála um mjög margt, m.a. að það sé nauðsyn á svona tímum að öll börn fái frían heitan hádegismat í skólum, að fjölskyldum beri að hjálpa að halda húsnæði sínu, og margt margt fleira mætti telja, til að lina skæðustu áhrif kreppurnar.

En um annað verðum við bara að vera ósammála, eins og það að sparifjáreigendur hafi í rauninni tapað öllu sínu sparifé en fengið það svo aftur gefins frá ríkinu eða foreldrum fátækra barna, í bankahruni. Það er bara ekki þannig, og ég hef reynt að útskýra það.

Einar Karl, 5.5.2009 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband