Hús fer á uppboð

Ég hef einu sinni verið viðstaddur nauðungaruppboð. Þetta var snemma árs 2003, í fallegu húsi í Hafnarfirði. Eigendurnir höfðu reynt að selja húsið, en það gekk ekki út af ýmsum lagaflækjum og erfiðri skuldastöðu þeirra. Skömmu fyrir boðaðan tíma þyrptust innheimtulögfræðingar inn í stofu á skónum, heilsuðust og göntuðust, fyrir þeim var þetta allt ósköp hversdagslegt. Þeir voru flestir í svörtum leðurjökkum, eins konar einkennisklæðnaður innheimtulögfræðinga greinilega. Fulltrúi sýslumanns hlammaði sér niður í heimilissófann og opnaði gerðarbókina á stofuborðinu. Heimilisfaðirinn reyndi að bera sig mannalega og týndi til stóla til að fólk gæti sér tyllt sér. Í eldhúsinu sat húsmóðirin með tárvot augu, hún vann heima sem dagmóðir og sátu börnin sem hún gætti í kringum hana. Hún sá fram á að missa ekki bara heimili sitt heldur líka atvinnuaðstöðu. Uppboðið gekk hratt fyrir sig og húsið slegið hæstbjóðanda með hamarshöggi.

Hin hliðin:

En það eru tvær hliðar á flestum málum. Svo er einnig með þessa sögu. Húsráðendurnir höfðu búið í húsinu fína í rúm tvö og hálft ár. Þau höfðu í rauninni aldrei haft efni á að kaupa þetta hús, en fasteignasali gaf þeim gott verðmat á fyrri íbúð og á grundvelli þess sýndi greiðslumat að kaupin væru viðráðanleg. Fyrri íbúðin þeirra seldist svo á 5 milljónum lægra verði en matið sýndi. Fasteignasalinn sem mat íbúðina svo skakkt var sá sami og seldi þeim húsið, tilviljun.

Dæmið gekk aldrei upp, það vantaði jú alltaf fimm milljónir. Íbúarnir skulduðu seljandanum enn nokkrar milljónir, þau höfðu aldrei greitt fasteignagjöld og sama og ekkert borgað af neinu þeirra lána sem hvíldu á húsinu.  Maðurinn rak lítið fyrirtæki sem greinilega skilaði litlu, og fjármálin öll í ólestri svo vægt sé til orða tekið. Með öðrum orðum var óhjákvæmilegt að fólkið myndi fyrr eða síðar hrökklast úr húsinu. Annað hefði í rauninni verið óeðlilegt. Engu að síður var þetta auðvitað sorgarsaga og leiðindamál.

Nýrri saga um húsmissi

bilde?Site=XZ&Date=20090617&Category=FRETTIR01&ArtNo=96616515&Ref=AR&MaxW=260&MaxH=260&NoBorder=1Í vikunni vakti mikla athygli frétt af manni sem misst hafði hús sitt. Í kjölfarið gjöreyðilagði hann svo húsið, á þjóðhátíðardaginn, 17. júní. Bloggarar spöruðu ekki stóru orðin, þetta var táknrænt um ástandið í samfélaginu, maðurinn sannkölluð hetja, skyldi fá fálkaorðu sagði einhver. Maðurinn var að "tjá örvæntingu sína og vekja athygli á hvernig farið er með varnarlausar fjölskyldur sem lentu í klónum á siðlausum bankamönnum", sagði einn mest lesni bloggari landsins, sem undirritaður almennt hefur miklar mætur á.

Fáir töldu þörf á að vita nokkuð um forsögu þessa tiltekna máls áður en þeir tjáðu sig fjálglega. Þingmaðurinn Þór Saari mætti á staðinn (býr sjálfur á Álftanesi) og sótti brak úr húsinu til að færa forsætisráðherra að gjöf.

husbrot2

Hvað vitum við um forsögu málsins? Jú, maðurinn byggði sjálfur húsið, innflutt einingahús, árið 2003. Fréttir herma að maðurinn sé smiður og hafi sjálfur sett húsið saman. Það hefur þá kostað hann á þeim tíma vel innan við 20 milljónir, líklega 17-18. Fullbúin timbureinbýlishús kostuðu á þessum tíma á bilinu 20-24 milljónir. Þess má geta að árið 2003 voru engin myntkörfulán í boði.

Seinna var svo tekið 34 milljón króna erlent lán, m.ö.o. maðurinn notfærði sér, eins og raunar fleiri, að fasteignaverð hækkaði. Hann hefur endurfjármagnað lán á húsinu og veðsett upp í topp, langt umfram það sem hann upphaflega greiddi fyrir húsið. Til hvers þetta lán var vitum ekki, eða af hverju maðurinn veðsetti húsið svo hressilega. Húsið var raunar ekki skráð á hann, heldur fyrirtæki hans sem flutti inn einingahús, og sem hefur komið í ljós að tók við stórum greiðslum frá fólki fyrir hús sem svo aldrei komu til landsins.

Við vitum raunar fleira. Húsið var slegið á uppboði í nóvember 2008. Það vita allir þeir sem til þekkja að nauðungaruppboð er ekki haldið fyrr en venjulega rúmu ári eftir að lán eru komin í vanskil, það má því álykta að maðurinn hafi verið kominn í fjárhagsvandræði löngu áður en gengi féll sem hraðast um vorið 2008, líklega fyrir áramót '07-'08. En auðvitað snarversnaði staðan eftir því sem gengið varð óhagstæðara.

Í ljósi alls þessa tel ég óskaplega vanhugsað að lyfta manninum á stall og líta á sem hetju,og fordæma sjálfkrafa aðgerðir bankans. Eða eru nú allir sem misst hafa tök á fjármálum sínum á síðustu tveimur árum sjálfkrafa píslarvottar bankahrunsins?

Fullt af fólki á virkilega um sárt að binda vegna banka- og gengishrunsins. Ég held að þessi maður sé ekki góður fulltrúi fyrir það fólk.

 

Þess má geta í lokin að Frjálsi Fjárfestingabankinn, sem átti húsið sem var rústað, var dótturfélag SPRON sem FME tók yfir og lokaði. Frjálsi er því væntanlega beint eða óbeint undir forræði FME og eigur þess og skuldir í rauninni eigur ríkisins - okkar skattgreiðenda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg sammála.

ASE (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband