Iðnaðarbærinn Akureyri, EFTA og ESB

Ég var staddur á Akureyri síðustu helgi á safnadeginum og brá mér í Iðnaðarsafnið þar í bæ. Bráðskemmtilegt safn með fjölda muna og segir merkilega sögu íslensks iðnaðar og ekki síst sögu Akureyrar sem iðnaðarbæjar á síðustu öld. Þegar iðnaðurinn stóð í sem mestum blóma var þar fjöldi fyrirtækja sem framleiddi úlpur, jakkaföt, gallabuxur, gæruskinnsfatnað, kuldaskó, sælgæti, húsgögn, eldhúsinnréttingar, málningu, þvottaefni, dömubindi, matvæli, skip, veiðarfæri og margt fleira.

Jakkaföt og gallabuxur frá Akureyri.Á safninu er rifjuð upp saga þessara fyrirtækja, sagt frá fjölda starfsfólks og lifitíma þeirra. Maður tekur eftir að ótrúleg mörg lögðu upp laupana á árunum 1981-87. Þetta gerist skömmu eftir að Ísland gekk með í EFTA og varð að leggja af allra handa verndartolla á innfluttar vörur. Þær voru ódýrari og mörg íslensku fyrirtækin urðu undir í þeirri auknu samkeppni.

Væntanlega hefur EFTA aðildin haft marga kosti í för sér, svo sem betra aðgengi og lægri tolla fyrir okkar útflutningsvörur. M.ö.o. þá hefur þurft að vega og meta kosti og galla aðildar, og þar sem hagsmunir vógust á, að verja stærri hagsmuni umfram smærri.

Þannig má segja að stórum hluta af merkum iðnaði fyrir norðan hafi verið fórnað fyrir aðra viðskiptahagsmuni okkar, alla vega verður maður að ætla að stjórnmálamenn þess tíma hafi unnið slíkt hagsmunamat af bestu getu.

Með nákvæmlega sama hætti snýst möguleg innganga í ESB að miklu leyti um hagsmuni. Það liggur í augum uppi að landbúnaður mun eiga erfiðari uppdráttar, líkt og iðnaðurinn á Akureyri fyrir þremur áratugum. Um það verður að ræða opinskátt. Kostir þess að vera með verða að vega upp slíka ókosti til að aðild sé fýsileg.

Innganga í ESB snýst ekki um grundvallarbreytingu á Íslandi, hér verður flest með líkum hætti og áður, ekki síst daglegt líf, líkt og Danmörk er enn í aðalatriðum sama Danmörk. Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðingur lýsti þessu í Speglinum í dag og sagði frá vini sínum á Möltu, sá hafði lýst fyrir honum hvernig bæði ESB-sinnar og andstæðingar höfðu haft uppi stór orð um áhrif ESB aðildar og miklar breytingar á öllu samfélagi sem aðildin myndi hafa í för með sér, til hins verra eða betra allt eftir því hver talaði. Malta gekk í ESB árið 2004 og raunin var sú að landið er í öllum aðalatriðum hið sama.


mbl.is Yfirlýsing forsætisráðherra um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband