1.9.2010 | 09:10
Blekkjandi orðalag á eyðublaði Þjóðskrár
Á eyðublaði til að breyta trúfélagsskráningu stendur þetta:
Hvert renna sóknargjöld?
Þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög samkvæmt lögum um trúfélög skulu eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Þessi fjárhæð - sóknargjald - reiknast fyrir hvern þann sem orðinn er 16 ára 31. desember árið áður en gjaldár hefst.
Gjaldið miðast við skráningu í þjóðskrá 1. desember árið áður en gjaldár hefst og skiptist þannig:
1. Gjald einstaklings, sem skráður er í þjóðkirkjuna, rennur til þess safnaðar sem hann tilheyrir.
2. Gjald einstaklings, sem tilheyrir skráðu trúfélagi, rennur til hlutaðeigandi trúfélags.
3. Gjald einstaklings, sem hvorki er í þjóðkirkjunni né skráðu trúfélagi, hefur verið afnumið.
Nú spyr ég lesendur: Hvað haldið þið að orðalag í 3. lið þýði?
Lesið þetta hægt og rólega yfir, ég bíð með að skrifa á meðan.
...
Búin að lesa aftur?
Lítum fyrst á fyrstu tvo liðina: Þar er talað mjög skýrt um að gjald einstaklings, renni til trúfélags hans. Sem sagt, yfirvaldið, sem býr til þennan texta, lítur svo á að þetta sé tiltekið gjald - hluti af tekjuskatti - eyrnamerkt trúfélagi sérhvers einstaklings.
Svo kemur að þriðja liðnum, þar sem sagt er að þetta eyrnamerkta trúfélagsgjald hvers einstaklings hefur verið "afnumið" fyrir þá einstaklinga sem ekki eru í neinu trúfélagi. "Meikar sens", eins og sagt er, til hvers að rukka einstaklinga um félagsgjald í trúfélag, sem ekki eru í neinu trúfélagi?
En viti menn, haldi nú einhver að þetta þýði að viðkomandi einstaklingar þurfi ekki að greiða þetta gjald, er það regin-misskilningur!
Takið eftir, enginn er rukkaður um þetta gjald, þetta er jú bara "hlutdeild" í tekjuskatti. Og raunar grunar mig sterklega að trúfélög fái þetta gjald greitt úr ríkissjóði fyrir sérhvern skráðan félaga, óháð því hvort hann eða hún raunverulega greiði nokkurn tekjuskatt.
Þegar sagt er að gjald trúfélagslausra hefur verið "afnumið", er átt við að búið er að afnema það fyrirkomulag að greiða sóknargjald trúfélagslausra til Háskóla Íslands, eins og var til miðs árs 2009. Og hvað verður þá um það? Jú, það situr eftir í Ríkissjóði.
Sem sagt, ríkið innheimtir félagsgjald, eyrnamerkt trúfélögum, en heldur því eftir, fyrir þá sem ekki eru skráðir í neitt trúfélag.
Af hverju þora yfirvöld ekki að segja þetta á eyðublaði Þjóðskrár?
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Mannréttindi, Stjórnmál og samfélag, Kjaramál | Breytt 5.9.2010 kl. 20:30 | Facebook
Athugasemdir
Já hér virðist eitthvað vera rotið !
Morten Lange, 6.9.2010 kl. 16:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.