28.10.2010 | 21:56
"Deilt um hvað skyldi kalla trúboð"
Það er vissulega deilt um það, hvað skuli kalla trúboð. Ég og fleiri köllum það trúboð þegar prestar heimsækja leikskóla mánaðarlega og segja frá Jesú og kenna börnum að syngja sálma og biðja bænir. Man eftir baksíðumynd aftan á Mogga fyrir fáeinum misserum þar sem 3-5 ára leikskólabörn sátu með spenntar greipar og lokuð augu og báðu ákaft. Í opinberum leikskóla. Það er líka trúboð þegar félagasamtök fá að koma í tíma og dreifa biblíum, eða þegar allir skólabekkir fara í jólamessu á skólatíma, nema foreldrar sæki sérstaklega um leyfi.
Samt hef ég ekki séð einn einasta prest viðurkenna að trúboð sé stundað í leik- og grunnskólum.
Bloggpresturinn Þórhallur Heimsson sagði meðal annars þetta um málið:
Þetta er nú orðið dulítið þreytandi þegar endurtaka þarf allt 100 sinnum.
Trúboð er ekki stundað í skólum Valgerður.
Enginn vill trúboð í skólum.
Ég spurði hann kurteislega hvort hann undanskyldi leikskóla, eða hvort formaður Reykjavíkurdeildar Félags leikskólakennara færi með staðlausa stafi þegar hún sagði í viðtali "þetta er náttúrulega trúboð. Það er ekki hægt að kalla þetta annað".Ég ítrekaði líka spurningu til Þórhalls sem hann hafði ekki gefið sér tíma til að svara, hvort honum finndist að ég mætti predika mínar skoðanir um trúmál í leikskóla barna hans.
En séra Þórhallur heimilaði ekki birtingu athugasemdarinnar.
Áfram samstarf kirkju og skóla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Lífstíll, Mannréttindi, Menntun og skóli | Breytt 29.10.2010 kl. 09:48 | Facebook
Athugasemdir
Markmið Gídeonfélagsins af heimasíðu þess.
"Markmið starfsins er að ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist. Dreifing Heilagrar ritningar og einstakra hluta hennar er aðferð til að ná því marki. Þessa dreifingu kannast margir við en persónulegir vitnisburðir og fyrirbænastarfið er almenningi ekki jafn kunnugt."
Það er a.m.k. klárt að þetta er trúboð.
Jóhanna Magnúsdóttir, 29.10.2010 kl. 00:22
það komu einhverjir rugludallar í minn skóla þegar að ég var lítil, gáfu okkur bók sem prédikaði "auga fyrir auga" og blöðruðu eitthvað. Mamma varð alveg brjál þegar að ég kom heim og henti bókinni í ruslið. Ég man að ég var leið yfir að bókinni væri hent í ruslið án þess að ég gæti klárað að lesa hana en man að mér fannst mjög furðulegir hlutir sem bókin fjallaði um um og hreint ekki eins og ég hafði lært.
Ég er á móti trúboði í skólum (ekki litlu jólunum og svona eins og svo margir vilja bulla að við séum til að eyðileggja málstað okkar og skapa histeríu). Skólarnir eru opinber stofnun, það er skólaskylda og þá á ekki að vera að gera einni trú hærra undir höfði heldur en hinum. Læra um öll trúarbrögð en sleppa öllu trúboði og kirkjuferðum!
Iris (IP-tala skráð) 29.10.2010 kl. 08:52
Það hefur því miður gengið mjög illa að fá upp úr þeim Þjóðkirkjuprestum sem hafa tekið þátt í umræðunni haldgóða skilgreiningu á því hvað Þjóðkirkjan skilgreinir sem trúboð. Sjálf get ég ekki annað en skilgreint allt starf prests Þjóðkirkjunnar þar sem sá prestur er ekki yfirlýst í öðru hlutverki en prestshlutverkinu, t.d. í hlutverki kennarans, sem trúboð. Einkunnarorð Þjóðkirkjunnar á Íslandi eru "biðjandi, boðandi, þjónandi" og það er yfirlýst stefna hennar að boða trú og hvetja til trúariðkunar, sbr. þetta af vefsíðu hennar (leturbr. mínar):
Með helgihaldi sínu, fræðslu og kærleiksþjónustu vill þjóðkirkjan stuðla að uppeldi í trú og bæn, greiða veg kærleika í verki, veita leiðsögn kristninnar trúar og siðar á daglegri för...
Mér finnst þetta einfalt: þegar prestur kemur inn í skólann sem prestur finnst mér ástæðulaust til að ætla annað en að hann/hún komi til að stunda trúboð í einhverri mynd. Það er í starfslýsingu hans/hennar og það væri vanræksla í starfi ef presturinn sinnti ekki þeirri starfsskyldu. Þegar presturinn er í skólastofunni sem kennari, eins og stundum getur gerst þar sem dæmi eru um að prestur hafi kennara- eða leiðbeinandaréttindi og starfi bæði sem prestur og sem kennari, ætlast ég til að hann/hún sinni fræðsluskyldu sinni á hlutlausan hátt eins og hæfir því hlutverki, hvort sem kennslustundin er í kristnifræði, trúarbragðafræði, líffræði, stærðfræði eða einhverju enn öðru. Geri hann/hún það ekki og geti ekki sjálf/ur gert greinarmun á kennaranum/ fræðaranum og prestinum/trúboðanum vil ég hins vegar hafa skýrar reglur í handraðanum þegar ég þarf að kvarta!
Halla Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 29.10.2010 kl. 09:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.