10.4.2011 | 09:22
Upplýst lýðræði?
Hvernig væri, í komandi þjóðaratkvæðagreiðslum um svona flókin mál, að á kjöseðlinum væri höfð með ein eða fleiri einfaldar spurningar, til að kanna hvort kjósandinn skilji málið sem um er kosið.
Ein spurning á kjörseðlinum í gær hefði geta verið:
Veist þú hvernig Íslendingar tryggðu íslenskar innstæður 100% þegar Landsbankinn féll?
a) Þær voru tryggðar af því Geir Haarde sagði það.
b) Þær voru ekki tryggðar, það stendur ekki í Neyðarlögunum.
c) Þær voru tryggðar með skattpeningum úr ríkssjóði.
d) Þær voru tryggðar með því að færa peningalegar eignir út úr þrotabúi gamla Landsbankans yfir í nýja Landsbankann.
Aðeins þeir kjörseðlar sem gæfu rétt svar væru teknir gildir. Þá held ég að niðurstaðan hefði orðið önnur. Ég er þess fullviss að mikill meirihluti þeirra sem svöruðu Nei í gær hafi ekki skilið ýmis grundvallaratriði málsins.
PS Rétt svar er (d), innistæður Íslendinga voru tryggðar, með því að eignir voru teknar úr þrotabúinu til að dekka innistæðurnar. Sem þýðir að það er minna til skiptanna fyrir aðra kröfuhafa, svo sem Icesave innistæðueigendur.
Til hamingju með sigurinn, Davíð Oddsson!
Afgerandi nei við Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Löggæsla | Aukaflokkar: Mannréttindi, Sveitarstjórnarkosningar, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Þú veist fullvel að þetta mál snýst ekki um tæknileg atriði. Þetta er miklu einfaldara. Fólk vill sjá skítuga glæpamenn á borð við Björgólf Thor á bak við lás og slá og að allt þeirra fé og allar þeirra eignir fari til Breta og Hollendinga. Það er hvatinn á bak við nei-ið. Þú hlýtur að gera þér grein fyrir því.
Jón Flón (IP-tala skráð) 10.4.2011 kl. 09:41
Hárrétt! Þessar kosningar snerust ekki um tæknileg atriði (svo sem lögfræðileg atriði, hagfræðileg atriði eða yfirveguð sanngirnisrök á báða) heldur tilfinningar.
Þess vegna fór sem fór.
Einar Karl, 10.4.2011 kl. 09:57
Vel sagt!
Sorglegt hve fáir nenntu að koma sér inn í málið heldur hlustuðu bara á einhverja frasa sem áttu ekki við nein rök að styðjast.
Ingvar Linnet (IP-tala skráð) 10.4.2011 kl. 10:48
Því miður þá held ég að þú hafir rétt fyrir þér í þessu máli. Kosningarnar snérust um allt annað en það sem kosið var um. Sennilega má segja um okkur að við séum algjör fífl.
Sævar Geir (IP-tala skráð) 10.4.2011 kl. 11:03
Einar þú gefur í skyn að einhverju hafi verið stolið. Það er firra.
Björn Ragnar Björnsson, 10.4.2011 kl. 11:12
Ath. ég er að tala um dílinn milli þrotabúsins og nýja bankans. Auðvitað er ljóst að miklu hefur verið og er stolið í þessum nær ólýsanlegu hremmingum sem við höfum verið og erum enn í.
Björn Ragnar Björnsson, 10.4.2011 kl. 11:21
Ég er ekkert að gefa eitt eða neitt í skyn. Bara að segja frá hlutunum nákvæmlega eins og þeir voru gerðir.
Þetta segir í grein á vef Advice:
"Hitt atriðið er svo stofnun nýju bankanna. Þar var neyðarlögunum beitt og greiðslumiðlun innanlands tryggð. Þá voru innlendar innstæður upp á 431 milljarð fluttar yfir í nýja Landsbankann ásamt innlendum eignum upp á 431 milljarð en Icesave innstæður upp á 1.319 milljarða skildar eftir í þrotabúinu og eignir upp á 1.175 milljarða.
Miðað við ofangreindar tölur mætti í fyrstu álykta að ef nýi Landsbankinn hefði ekki verið stofnaður hefðu endurheimtur vegna Icesave verið 3% hærri, að hámarki. Sem sagt um 93% í stað þeirra 90% sem skilanefndin hefur áætlað. Hinsvegar er mikilvægt að hafa í huga að þessi aðgerð var framkvæmd til að koma í veg fyrir kerfishrun ..."
Svo það vissulega orða það þannig, að við höfum stolið frá Icesave sparifjáreigendum, til að stofna Nýja Landsbankann.
Einar Karl, 10.4.2011 kl. 12:11
Sæll Einar Karl. Þín hugmynd er að setja inntökuskilyrði fyrir þáttöku í lýðræðinu. En hversu strangt á inntökuprófið að vera og hver á skilgreina það? Hver hefur leyfi til að skera úr um hvað er "rétt" svar í umdeildu máli sem er verið að kjósa um. Ég er ekki viss um að ég treysti neinum af þeim sem stóðu gegn því að fengjum að kjósa, til að ákveða þessi inntökuskilyrði.
Nú er alls ekki að segja að fólk eigi bara að kjósa út í bláinn eftir því hernig vindurinn blæs. Að sjálfsögðu fygir atkvæðinu ábyrgð og fólk ætti að taka upplýsta afstöðu. Hinsvegar efast ég um að skynsamlegt sé að neyða fólk beinlínis til þess. Þeir sem ekki hafa upplýsta afstöðu ættu frekar að bera sjálfir ábyrgð á því hvort þeir sitji hjá við atkvæðagreiðsluna eða skili auðu. Ég treysti kjósendum fyrir þeirri ábyrgð.
Varðandi svarmöguleikana fjóra hjá þér þá er d) vissulega sá sem er "réttastur". En það er samt röng hugtakanotkun að tala um að eitthvað sé eða hafi verið "tryggt" þegar Landsbankinn er annarsvegar, þar sem allt bendir til þess að hann hafi verið og sé einmitt frekar ótryggur. Innstæðurnar voru ekki tryggðar og ekki greiddar út heldur var þeim bjargað með lögleiðingu á kennitöluflakki. Það var gert gagnert til þess að koma í veg fyrir að myndi reyna á greiðslugetu eða tryggingar að baki innstæðum, því hvorutveggja var og er ófullnægjandi nema á rólegum degi.
Varðandi síðustu athugasemd þína og tilvitnun í Advice langar mig að benda þér á að þegar innlendu innstæðurnar voru fluttar yfir voru Bretar búnir að frysta erlenda hluta þrotabúsins. Hvernig áttu íslensk stjórnöld þá að fara að því að veita þeim innstæðum sömu meðferð? Það var einfaldlega ekki hægt, og ekki við íslenskan almenning að sakast um það.
Með þessu var engu stolið, því þó þessi viðskipti hafi líklega verið nauðsynleg voru þau langt frá því að vera hagkvæm fyrir íslenska ríkið. Eins og ég hef rakið í ítarlegum greinaskrifum um málefni Landsbankans þá mun kostnaður íslenskra skattgreiðenda vegna hruns og endurreisnar hans þegar upp er staðið verða á bilinu 500-600 milljarðar. Til samanburðar var hann seldur á sínum tíma fyrir 25 milljarða.
Ertu ennþá viss um að það sé rétt að leggja inntökupróf fyrir kjósendur?
Guðmundur Ásgeirsson, 10.4.2011 kl. 21:15
Sæll Guðmundur.
Skyldi það kannski vera að það hafi verið til bóta að Bretar frystu eignir bankans?? Kannski tryggðu þeir þar með betri heimtur úr búinu?
Hvort sem þessi frysting hefði komið til eða ekki, er harla ólíklegt að íslensk yfirvöld hefðu haft ráðrúm og bolmagn til að búa til nýjan banka fyrir Icesave reikningana, og því var það ill nauðsyn á þessum tíma að mismuna þeim. En sem betur fer komu bresk og hollensk yfirvöld til bjargar, og tryggðu 300.000 manns sitja ekki enn að bíðaeftir að fá peninga sína.
En þó að það hafi reynst ill nauðsyn, er ekki þar með sagt að það sé bara í himnalagi. Mín skoðun er enn sú, að réttara væri að semja um lyktir málsins.
Þú getur lent í aðstæðum þar sem þú þarft að taka bíl nágrannans ófrjálsri hendi af illri nauðsyn, t.d. til að koma barninu þínu undir læknishendur eða bjarga þér úr háska. En þú þarft engu að síður að bæta fyrir það, með einum eða öðrum hætti. Þú segir ekki bara nágrannanum að fara í mál!
Hugmyndin um próf til að mega kjósa er nú kannski ekki sett fram í fullri alvöru, ég er meira að benda á að fjölmargir hafi ekki skilið þetta tiltekna lykilatriði málsins, og t.d. sagði Frosti Sigurjónsson í sjónvarpi sl. fimmtudagskvöld að íslenskar innstæður hefðu verið tryggðar með skattfé.
Einar Karl, 10.4.2011 kl. 22:53
Snýst ekki um tæknileg atriði, nei, og skoðanir og kosningar íslendinga snúast ekki heldur um réttlæti, og að fara eftir boðorðunum 10..
Jonsi (IP-tala skráð) 11.4.2011 kl. 00:29
btw. flott hjá þér Karl, þetta vissu óttalega fáir Íslendingar.
Nú er spurningin, hverjir áttu svona rosalega mikinn pening inn á innnlánsreikningum, að við þurftum endilega að bjarga þeim? Ég átti varla meira en launaseðillinn minn upp á 250 þ.kr.
Jonsi (IP-tala skráð) 11.4.2011 kl. 00:32
Jú jú, auðvitað var stórum upphæðum bjargað hjá ríkisbubbum, Baldri Guðlaugs, Sigmundi Davíð, og öðrum heitum Nei-mönnum.
En gleymum því ekki, að tékkareikningum fyrirtækja var líka bjargað, svo þú gast fengið launin þín greidd út, Jónsi.
Einar Karl, 11.4.2011 kl. 08:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.