8.10.2011 | 10:44
Á ekki meirihlutinn að fá að ráða?
Í einbýlishúsahverfinu Arnarnesi í ímyndaða svefnbænum Arfabæ býr gott og fallegt fólk í glæsilegum húsum. Um 78% íbúa á Arnarnesi eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn. Það er með öðrum orðum norm á Arnarnesi í Arfabæ að vera í Sjálfstæðisflokknum og styðja hann.
Fyrir því er löng hefð að skrifstofustjóri hverfafélags flokksins komi í skólann og sinni kennslu í samfélagsfræði. Í þeirri kennslu er stefnu Sjálfstæðisflokksins hampað og saga helstu máttarstólpa hans sögð í fögru ljósi. Nemendur fá myndir, svipaðar fótboltaspjöldum, af þeim Ólafi Thors, Bjarna Ben og Jóni Þorlákssyni. Yngri bekkirnir lita myndir af Perlunni, Viðeyjarstofu og Þingvöllum sem kynntir eru sem helgir staðir og þeim er kennt að traust og gott siðferði Arfbæinga, og í raun allt gott siðferði, sé sprottið frá Sjálfstæðisflokknum.
Fáeinar fjölskyldur hafa mótmælt þessu, það eru helst kommafjölskyldurnar í litlu dönsku 180 fm timbureinbýlishúsunum. Komið hefur verið til móts við þessar vandræðafjölskyldur með því leyfa börnum þeirra að fara á skólabókasafnið og horfa á sænskar heimildamyndir meðan hin börnin sitja og nema í samfélagsfræðitímunum.
Í áttunda bekk fara flestir nemendur á tveggja daga ræðu- og leiknámskeið flokksins úti á landi og fá frí frá kennslu á meðan. Flokkskennarinn spyr öll börnin, Ætlar þú að koma með á ræðunámskeið? Af hverju ekki? spyr hann þau sem svara neitandi. Trúir þú ekki á stefnu Sjálfstæðisflokksins?? Þau sem ekki fara með í ferðalagið mæta í skólann og dunda sér eitthvað, til að fara ekki fram úr hinum krökkunum.
Ný fjölskylda í hverfinu hefur verð með hávær mótmæli og kvartað til skólayfirvalda. Hún vill úthýsa flokknum alfarið úr skólastofunum. Þetta finnst flestum Arfbæingum ansi langt gengið, ekki síst íhaldssama ritstjóranum Ólafi Arnlufsen, sem spyr "Hvernig væri að meirihlutinn léti nú í sér heyra?" Löng hefð sé fyrir þessu fyrirkomulagi og ótækt að umbylta góðum gildum útaf einhverju ofstækisfullu umburðarlyndi. Þrátt fyrir allt sé meirihlutinn sáttur við að hafa þetta svona áfram.
Á meirihlutinn að beygja sig fyrir háværum minnihluta?
Loftmynd af Arnarnesi í Arfabæ.
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Heimspeki, Mannréttindi, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Fussumsvei!
Jói (IP-tala skráð) 11.10.2011 kl. 09:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.