16.6.2012 | 11:50
Utanríkisstefna forseta?
Samkvæmt Stjórnarskrá Íslands fer ríkisstjórn með æðsta framkvæmdavald í landinu. Ríkisstjórnin er samkvæmt þingræðishefð íslenskrar stjórnskipunar studd meirihluta Alþingis, löggjafarþings Íslendinga. Alþingi markar utanríkistefnu þjóðarinnar, sem ríkisstjórn vinnur eftir.
Bara eitt lítið dæmi er t.d. þegar Alþingi samþykkti með miklum meirihluta að viðurkenna Palestínsku sjálfstjórnarsvæðin sem sjálfstætt ríki. Slíkt hefði aldrei utanríkisráðherra getað gert á eigin spýtur. Hvað þá Forseti. Það er Alþingis að samþykkja alþjóðasamninga og taka afstöðu í stórmálum. Annað dæmi er að það eru flestir sammála um að það hafi verið vítaverð mistök Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að samþykkja að setja Ísland á lista "viljugra þjóða" sem studdu innrás Bandaríkjanna í Írak. Slíka alvarlega ákvörðun og yfirlýsingu um stuðning við árásarstríð (sem ekki naut stuðnings Sameinuðu Þjóðanna) gegn sjálfstæðu ríki hefði tvímælalaust átt að bera undir Alþingi.
Þriðja dæmið sem við getum nefnt snýr að beiðni Kínverja um að fá áheyrnarfulltrúa í Norðurheimskautssráðið. Það eru fulltrúar ríkisstjórna þeirra ríkja sem í ráðinu sitja sem því ráða hvort Kínverjar fái þar áheyrn, þó svo einstaka þjóðhöfðingjar geti vissulega talað fyrir auknum samskiptum við ríkið stóra í austri. (Kína er raunar mjög langt frá Norðurheimsskautinu og þverneitar að ræða við eitt helst ríkið í Norðurheimskautsráðinu, Noreg, vegna þess að Norðmenn, ekki samt norska ríkisstjórnin, veittu kínverskum baráttumanni fyrir mannréttindum friðarverðlaun Nóbels.).
Það dettur því fáum í hug að það sé hlutverk forseta Íslands að ákveða utanríkistefnu Íslands, eða pólitíska stefnu að öðru leyti. Enda myndu þá frambjóðendur til forseta væntanlega kynna pólitíska stefnuskrá sína, ef svo væri. Það er skýrt í stjórnarskrá að forseti "lætur ráðherra framkvæma vald sitt" (13. gr.), þar með talið vald í utanríkismálum. Forsetinn er "ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum" (11. gr.), "Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum." (14. gr.)
Þetta er allt frekar skýrt. Þess vegna vekur það athygli að einn núverandi forsetaframbjóðenda skuli tala um þetta með mjög sérstökum hætti og á skjön við alla aðra frambjóðendur og alla lagaspekinga landsins. Sá frambjóðandi segir að forsetinn ekki bara geti markað sér sjálfstæða utanríkisstefnu, alveg óháð stefnu ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis, heldur að það sé "hættuleg kenning" að telja að forsetinn skuli fylgja utanríkisstefnu stjórnvalda!
Það vekur furðu að sá frambjóðandi sem svo talar sé núverandi forseti og fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði. Er ekki eðlileg krafa kjósenda að frambjóðandinn upplýsi um utanríkisstefnu sína, fyrst hann telur sig algjörlega óbundinn af þeirri stefnu sem Alþingi og ríkisstjórn markar? Hvaða stefnu ætlar Ólafur Ragnar Grímsson að fylgja næstu 4, 8 eða 12 ár, ef hann verður kjörinn forseti áfram?
Þetta sagði Ólafur Ragnar 13. maí sl.:
Það alvarlegasta er, að þessi fullyrðing hennar [Þóru Arnórsdóttur] um að forsetinn hafi, það sé skylda hans að fylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar, maður heyrir þetta svona hjá ýmsum ráðherrum og fulltrúum ríkistjórnar á hverjum tíma, er alröng og af mörgum ástæðum. [...]Það hefur verið óskaforseti kannski sérhverrar ríkisstjórnar og óskaforseti núverandi forsætisráðherra, það væri forseti sem teldi það skyldu sína að fylgja bara línunni úr stjórnarráðinu. En þetta er bara stórhættuleg kenning. En hún er líka kolröng. [...] Það er auðvitað alvarlegt ef sá sem er að bjóða sig fram til þess að gegna forsetaembættinu lýsi því skýrt yfir í viðtali að hún telji það skyldu forsetans að fylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnar. Og af hverju er þetta rangt. Þetta er í fyrsta lagi rangt stjórnskipulega séð vegna þess að það er ekkert í stjórnarskránni eða lögum sem segir að forseti eigi að fylgja stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum enda hafa þær tekið miklum breytingum.
Ég komst ekki í að pikka inn meira. Þið getið hlustað á þetta hér, í upptöku af þættinum Sprengisandi frá 13.5., ca. 85. mínútu.
Ég skil ekki hvað forseta gangi til að tala svona. Ég held raunar að þarna tali hann þvert gegn betri vitund. Af því að hann heldur að þetta gangi vel í kjósendur, að stilla sér upp sem sjálfstæðu stjórnmálalegu valdi, gegn sitjandi óvinsællri ríkisstjórn og meirihluta Alþingis. Hann ætti að vita betur.
Þrátt fyrir ásýnd Alþingis þessi misseri þá tel ég það hættulegt, að frambjóðandi til forsetaembættis telji sig geta valsað um heiminn sem talsmaður okkar, án þess að fylgja stefnu löggjafarþings Íslands. Við lögum ekki Alþingi með því að kjósa forseta sem telur sig óháðan Alþingi og ríkisstjórn og heldur að það sé á valdsviði sínu, forsetaembættisins, að marka pólitíska stefnu Íslands.
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.