1.9.2013 | 09:27
Það er nóg pláss í Reykjavík
Skipulagssaga Reykjavíkur eftir seinna stríð er svolítið sérstök. Hverfi voru byggð eins og litlar eyjar í holtum austantil í bænum. Væntanlega réð miklu að gott væri að grafa fyrir húsgrunnum. Mýrlendi var skilið eftir. Þannig eru eldri hverfi frá eftirstríðsárunum í Teigum, Laugarásholti, Sundum, Vogum, Gerðum, en á milli þessara hverfa voru heilmikil landflæmi, sem svo hægt og rólega voru numin. Þannig var t.d. Kringlan ekki fullbyggð fyrr en 1987. Allt svæðið sem fer undir hana, Borgarleikhúsið, Versló, Ofanleiti, Útvarpshúsgímaldið, var bara mýri og móar, fyrir innan við 30 árum. Nánast í miðri borginni.
Enn er verið að fylla uppí vannýtt svæði í borgarlandslaginu. Blokkirnar allar meðfram Skúlagötu eru innan við 20 ára og enn eru þar óbyggð flæmi. Stórt hverfi hefur risið á síðustu árum í túnunum (Sóltún), bakvið Borgartún og vestan Kringlumýrarbrautar, og það svæði er ekki klárað.
Svo fram á þennan dag virðist hafa verið nóg byggingarland miðsvæðis í Reykjavík.
Þess vegna á ég bágt með að skilja þann málflutning að ekki sé pláss fyrir flugvöll í Reykjavik.
Það hefur hingað til verið meira en nóg pláss í Reykjavík undir byggð. Meira að segja allt í kringum flugvöllinn. Þar var reistur heill háskóli (HR) fyrir fáum árum. Og HÍ virðist hafa meira en nóg pláss til að stækka, t.d. er mjög rúmt um Öskju, og stúdentagörðum hefur jafnt og þétt fjölgað, nú síðast er verið að byggja veglegar byggingar við Oddagötu. Íslensk erfðagreining byggði stórt og glæslegt hús á háskólasvæðinu fyrir um áratug.
Marga dreymir um að sjá nýtt og öðruvísi hverfi rísa í Vatnsmýri. Með þéttri byggð og miðbæjarbrag. Ég er efins. Af hverju er ekki fyrst prófað slíkt skipulag annars staðar, þar sem ekki þarf að fórna flugvelli?
Ég sé ekki að þau rök haldi að það vanti pláss í Reykjavík, og að þess vegna eigi að leggja niður flugvöll á höfuðborgarsvæðinu.
Meginflokkur: Samgöngur | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Sveitarstjórnarkosningar, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Sæll Einar
Það er blátt áfram þægilegt og afslappandi að að heyra þessi ágætu og reyndar augljósu rök þín
Jónatan Karlsson, 1.9.2013 kl. 10:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.