21.9.2013 | 08:31
Flugvöllur - nr. 1
Það vill einkenna þjóðmálaumræðu um hin ýmsu mál að menn ræða ekki saman, heldur henda fram sínum sjónarmiðum en hlusta ekki á andstæð sjónarmið. Úr verður kappræða en ekki samræða, sem verður oft persónuleg og heiftúðug. Þetta er ekki góð leið til að taka ákvörðun og svona ræðum við ekki erfið og flókin mál heima hjá okkur eða í vinnunni. Ég ætla að reyna að ræða hér hin ýmsu sjónarmið í umræðunni um Reykjavíkurflugvöll, því mér finnst sjálfum ekkert auðvelt eða augljóst að taka einarða afstöðu með eða á móti flugvellinum.
Landsbyggðin þarf flugvöll vegna alls sem bara er í Reykjavík
Þessi rök heyrast oft, að á meðan margskonar stjórnsýsla, aðalsjúkrahúsið, o.fl. er einungis í Reykjavík, þá sé sjálfsagt og eðlilegt að allir landsmenn eigi greiða leið í borgina. Þetta er alveg gilt sjónarmið. En hitt skiptir líka máli að langflestir landsmenn nota flugið mjög sjaldan til að komast til Reykjavíkur. Fólk sem býr á Snæfellsnesi, Húnavatnssýslum, öllu Suðurlandi *(meginlandi), sunnanverðum Vestfjörðum*, sunnanverðum Austfjörðum* og Skagafirði, notar innanlandsflug sárasjaldan. Það er ekki flogið reglulega frá Blönduósi, Sauðárkróki*, Höfn*, Vík í Mýrdal, og fleiri stöðum. Flugfélag Íslands er með áætlunarflug á þessa staði: Akureyri, Ísafjörð, Egilsstaði, Þórshöfn, Vopnafjörð, og Grímsey.
*(Viðbót: Flugfélagið Ernir er líka með áætlunar flug frá Reykjavík á nokkra staði á landinu: Bíldudal, Gjögur, Húsavík, Höfn og Vestmannaeyjar. Eyjaflug flýgur reglulega milli Reykjavíkur og Sauðárkróks, en þess er ekki getið á heimasíðu Reykjvíkurflugvölls.)
Íbúar á Akureyri og Ísafirði, þangað sem er flogið, keyra samt miklu oftar til Reykjavíkur en þeir fljúga. Langflestar fólksferðir milli Akureyrar og Reykjavikur eru farnar með bíl en ekki flugi.
Niðurstaða: flugvöllurinn er ekki mikið notaður, flestir nota hann aldrei eða sjaldan. Ísland er einfaldlega ekki svo stórt land. En það er samt skiljanlegt og málefnalegt sjónarmið að fólk vilji eiga möguleika á að fljúga til Reykjavíkur. Málið er að ef sá möguleiki er sjaldan nýttur, er það nokkuð sem við hljótum að taka tillit til í umræðu og ákvarðanatöku. Fyrst flugvöllurinn er lítið notaður af meginþorra landsmanna hljótum við frekar að geta gert málamiðlanir um framtíðarstarfsemi hans.
Heildarfarþegafjöldi sem fer um Reykjavíkurflugvöll hefur sl. 10 ár verið um 380.000 á ári. Það þýðir að að meðaltali fer hver Íslendingur rétt ríflega einu sinni í innanlandsflug á ári, en raunin er sú að flestir fara sjaldan eða aldrei, og nokkuð fámennur hópur fer þá ansi oft. Ég vil alls ekki gera lítið úr þeim ferðum, og þær geta skipt máli fyrir mun fleiri en bara þessa sem fljúga.
En þetta er samt sem áður ekki há tala í heildina. Um Hvalfjarðargöngin fóru t.d. 1.84 milljón bílar á síðasta ári. Ef við gefum okkur að 1.3 sitji að meðaltali í hverjum bíl þýðir það að 2.4 milljónir farþega fóru um Hvalfjarðargöng, eða u.þ.b. 5 sinnum fleiri en fara um Reykjavíkurflugvöll.
Þetta eru ekki góð rök fyrir því að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Við sem samfélag viljum að hér séu samgöngur sem greiðastar, jafnvel til fámennra staða. En samgöngur og samgöngumannvirki mega heldur ekki kosta um of. Þess vegna er í dag flogið á mjög fáa staði á landinu, flugrekstur á minni staði er ekki arðbær og þyrfti verulegar niðurgreiðslur til að halda uppi slíku flugi.
Næst ætla ég að ræða hvort Reykjavík (og ekki bara Reykjavík heldur landið allt) hafi af því svo mikinn hag að nýta landið í Vatnsmýri undir annað, að réttlætanlegt væri að leggja niður flugvöllinn. Í því samhengi þarf líka að skoða hvað kæmi í staðinn, annar flugvöllur nálægt borginni, eða að flugið færi til Keflavíkur.
Meginflokkur: Samgöngur | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 21:53 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Einar
Í næsta bloggi þínu þarft þú vart að spá í annan flugvöll nærri Reykjavík, fluginu mun verða ætlað að flytjast til Keflavíkur.
Ástæða þessarar fullyrðingar er einföld. Einungis er rætt um nýjann flugvöll á Hólmsheið, aðrir möguleikar hafa verið teknir af borðinu.
Flugvöllur á Hólmsheiði er vart kostur, veðurfarslega. Nýtingahlutfall vallarins er töluvert neðan þess sem talið er skynsamlegt til uppbygginu slíkra mannvirkja.
Þá er ljóst að enginn raunveruleg ætlun er að setja flugvöll þar efra. Hið nýja lúxushótel sem byrjað er að byggja á heiðinni er staðsett við enda annarar hugsanlegrar flugbrautar þar. Væri einhver meining að færa flugvöllinn upp til heiða, hefði staðsetnig þessa hótels væntanlega verið önnur.
Því er ljóst að þú þarft einungis að skoa áhrif af flutningi flugstarfseminnar til Keflavíkur. Aðrar pælingar eru óþarfar.
Gunnar Heiðarsson, 21.9.2013 kl. 09:52
Sæll Gunnar,
það er hárrétt að það skiptir miklu máli HVAÐA valkostir standa raunverulega til boða, eigi að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Ég er sammála þér að Hólmsheiði er tæpast raunverulegar valkostur og því finnst mér það miður að fólk vilji flýta lokun flugvallarins sem mest og noti sem eina röksemd að Hólmsheiði sé raunhæfur valkostur. Umræðu um valkosti þarf að ljúka áður en við getum (eða a.m.k. ég) tekið afstöðu til lokun flugvallarins.
Ég ætla að taka það fyrir síðar! :)
Einar Karl, 21.9.2013 kl. 10:24
Þessi hugmynd lítur vel út á korti, þar myndi aðflugið færast frá miðborginni, þetta væri miklu betri kostur en hólmsheiði. Ef þessi kostur yrði upp á borðinu þá yrði óhjákvæmilegt að tryggja það að byggð færðist ekki að honum og bolaði í síðan í burtu.
Það má geta þess að fyrir allmörgum árum áður en Álftanesið byggðist þá vildu nokkrir af helstu flugmönnum þess tima flytja flugvöllinn á Álftanes en það er önnur saga.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 22.9.2013 kl. 18:22
Ég villtist óvart hingað en ætlaði að seja inn athugasemd við flugvöllur 2 Bessastaðanes.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 22.9.2013 kl. 18:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.