8.10.2013 | 18:31
Með annars barn í móðurkviði??
Nokkur umræða hefur nú aftur sprottið upp um staðgöngumæðrun. Greinar um málið hafa birst á vefritunum knuz.is og skodun.is:
Að leigja leg eins og geymsluskápa
Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni
Að gefa líffæri eins og varahluti - hugleiðing um staðgöngumæðrun
Mér finnst þó besta greinin um málið sem ég hef rekist á á íslensku þessi hér, sem er næstum þriggja ára, eftir Ástríði Stefánsdóttur:
Álitamál tengd staðgöngumæðrun
Eins og ég skrifaði um í síðasta pistli hefur mér fundist rökstuðningur gegn staðgöngumæðrun á köflum ósannfærandi. En þetta er engu að síður vandasamt og viðkvæmt umfjöllunarefni, sem ég er ekki reiðubúinn að styðja skilyrðislaust.
Í Bretlandi hefur staðgöngumæðrun verið leyfð. Bretar hafa þó gætt vel að einu mikilvægu skilyrði sem ekki hefur verið nægilega rætt hér: Staðgöngumóðirin hefur full yfirráð yfir sínum líkama meðan á meðgöngunni stendur. Dómstólar taka ekki til greina bindandi samninga um að staðgöngumóður beri að afhenda barn. (Sjá t.d. hér: www.gov.uk/rights-for-surrogate-mothers)
Þetta fyrirkomulag gerir staðgöngumæðrun alls ekki ómögulega. Það er mjög fátítt að staðgöngumóðir skiptir um skoðun. (Það gæti líka gest en er alveg örugglega mjög fátítt, að þegarnir sem bíða eftir ófæddu barninu snúist hugur. Við komum aldrei algjörlega í veg fyrir þess háttar vanda, ekki frekar en þegar börn verða til með hefðbundnum hætti. Það þarf bara að vera klárt hver er réttur hvers, og að réttur barnsins sé í fyrirrúmi.)
Í mínum huga er þetta algjört lykilatriði - ófætt barn ER barn þeirrar móður sem gengur með það. Annað er að mínu mati siðferðislega óverjandi.
Sumir hafa líkt staðgöngumæðrun við líffæragjöf. Þetta eru þó eðlísólík fyrirbæri þó sumt sé svipað. EN jafnvel þó ég hafi samþykkt að gefa annað nýrað úr mér til náins ættingja, þá er það mitt nýra alveg þangað til læknar hafa fjarlægt það. Ef mér snýst hugur daginn fyrir fyrirhugaða aðgerð þá er það vissulega mjög bagalegt fyrir marga en ég hef til þess óumdeildan rétt, það kæmi aldrei lögregla heim til mín til að taka mig með valdi uppá spítala í nýrnabrottnám.
Ég ræð yfir mínum líkama. Punktur.
Fóstur er hluti af líkama konu. Uppruni kynfrumna breytir því ekki neitt. Þetta skilyrði verður að liggja til grundvallar allri umræðu um staðgöngumæðrun. Annars erum við komin á háskalegar brautir.
Meginflokkur: Heilbrigðismál | Aukaflokkar: Heimspeki, Mannréttindi, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:18 | Facebook
Athugasemdir
Sammála. En aðalmálið er að gera ættleiðingarferlið auðveldara og leggja eitthvað af mörkum til að breyta viðmóti til ættleiðinga. Margir grípa til þessa ráðs; staðgöngumæðrun, afþví það er þrátt fyrir allt einfaldara en ættleiðinga, og líka af samfélagslegri innrætingu um að þú verðir að eignast þitt eigið líffræðilega barn, og ættleitt barn sé á einhvern hátt ekki jafn mikið þitt eigið barn. Það eru milljónir barna út um allan heim sem vantar foreldra akkurat núna. Og það er langt því frá rétt að það bráðvanti fleiri manneskjur í heiminn. Fólk getur valið betri og göfugri kostinn, sem mun gera samfélagið betra, ef kerfið hjálpar því og viðmót samfélagsins.
* (IP-tala skráð) 9.10.2013 kl. 02:28
Eins og staðan er í dag mismuna lög um ættleiðingar einhleypum og samkynhneigðum. Að afnema mismun gagnvart samkynhneigðum er ekki réttlæting fyrir að halda mismun gegn einstæðum áfram. Mismunurinn gagnvart einstæðingum er holdtekning vanvirðingar ríkisins gagnvart einstaklingnum yfirhöfuð og rétti hans, hvort sem er yfir eigin líkama eða einhverju öðru. Þessi vanvirðing er rót flest ills í heiminum. Að halda því fram það sé virkilega verra að alast upp hjá einstæðri kennslukonu en lifa á munaðarleysingjahæli, og því verði ríkið að koma í veg fyrir hún megi ættleiða, það er auðvitað hreinn og tær viðbjóður og siðferðilega óréttlætanlegur með öllu, og leyfar frá þeim tímum þegar konur voru aðeins metnar að verðleikum eftir hjónabandinu. Að geta líka metið þær til fjár, og því leyft hálauna lögfræðingi að ættleiða barn, en ekki kennslukonu, það er ekkert skárra misrétti.
* (IP-tala skráð) 9.10.2013 kl. 02:32
Ef þú værir lítið barn að deyja úr hungri á munaðarleysingjahæli í Kína eða Rússlandi, hvort myndir þú þá heldur vilja alast upp hjá góðhjartaðri fiskverkakonu á Íslandi eða drepast? Ráðamenn virðast ekki spyrja sig þessarar spurningar. Og þýðir það að einhver sé einstæð fiskverkakona að hún megi ekki eiga barn? Hvernig erum við þá betri en á dögum trúríkis og feðraveldis? Erum við ekki bara alveg eins, bara búin að sveipa gamla mannhatrið helgislepju og þar með orðin hræsnarar í þokkabót?
* (IP-tala skráð) 9.10.2013 kl. 02:34
Ég held að við ættum ekki teyma umræðuna of mikið útí ættleiðingar. Þær eru vissulega flóknar, en það er góð ástæða fyrir því, engin lönd vilja afhenda börn ókunnugu fólki sí svona. Helstu ástæður þess að æ erfiðara er að ættleiða er að þau lönd sem Íslendingar hafa ættleitt börn frá hafa sett stífari reglur og orðið tregari til að ættleiða börn út fyrir sína landsteina.
Einar Karl, 9.10.2013 kl. 19:34
Það er tómt mál að tala um ættleiðingar í þessu sambandi. Ekkert land sem Ísland er í ættleiðingarsambandi við ættleiðir börn til samkynhneigðra para og þau lönd sem ættleiða til einhleypra eru flest með kvóta, þannig að það þarf að ættleiða x mörg börn til hjóna áður en einstaklingur frá sama landi fær að ættleiða. Ættleiðingar eru tímafrekar og erfiðar fyrst og fremst af því að löndin sem börnin eru ættleidd frá setja stíf skilyrði og því breytum við Íslendingar ekki.
Anna (IP-tala skráð) 10.10.2013 kl. 01:13
"Engin lönd vilja afhenda börn ókunnugu fólki sí svona".
"Löndum" er nákvæmlega sama um börn. Ríkisstjórnir hafa ekki hjarta og tilfinningar. Þjóð er huglægt fyrirbæri sem þú tilheyrir ekki með því að fæðast einhvers staðar. Þjóðin sem þú ert ættleiddur til verður þín raunverulega þjóð.
Þessi sömu lönd og setja "ströngu skilyrðin" láta börnin veslast upp og deyja á þessum hælum mörg hver. Og íslenska ríkið setur sjálft ströng skilyrði. Til dæmis þarf einstæð kona að uppfylla þau skilyrði að vera yfir meðaltekjum á Íslandi, sem þýðir margfallt ríkari en meðalmaðurinn í mörgum þessum löndum. Nema hún sé gift auðvitað, eða gamla feðraveldismismununin. Þjóð sem er ekki siðferðilega þróðari en þetta hefur ekki andlega eða vitsmunalega burði til að takast á við flókið málefni eins og staðgöngumæðrun. Það eru til þjóðir í dag sem ráða við slíkt. Við þurfum fyrst að koma hér á lágmarksmannréttindum og hætta að mismuna fólki eftir hjúskapastöðu.
7 (IP-tala skráð) 12.10.2013 kl. 12:44
Sá sem heldur að þjóðirnar vilji af umhyggjusemi sinni ekki láta börnin frá sér "sí svona" þarf aðeins að vakna. Rannsóknir á Kínverskum munaðarleysingjahælum, sem hafa verið teknar upp á myndband sýna að þau eru í raun mörg aðeins biðstöðvar eftir dauðanum. Sums staðar í Kína fær starfsfólk ströng fyrirmæli um að taka viðkomandi barn ekki upp þó það gráti, og gefa þeim hvorki mat né vatn. Börnin á skárri hælum eru bundin niður svo þau séu ekki að þvælast fyrir og fá hvorki líkamlega né andlega aðhlynningu og geta því ekki þroskast eðlilega. Skoðið þessa mynd. Hún er á spænsku, en myndirnar tala sínu máli. Þessi myndskeið eru frá Kína. Myndin heitir "Hýbíli dauðans" á spænsku og er réttnefni yfir þessi hæli http://www.youtube.com/watch?v=90Rn4LNiWaY Og þið haldið ríkisstjórnir vilji ekki láta börnin frá sér "sí svona". Ríkisstjórnir hafa ekki hjarta, ekki sál og varla heila. Íslenska ríkisstjórnin hefur heldur ekki stærra hjarta en íslenska þjóðin, hvers hjarta fer minnkandi með hverju ári eins og sést á meðferð á flóttamönnum, og þeim fjölda löglegra innflytjenda hér á landi sem er meinað að hafa sín eigin börn hjá sér og erum við þá að tala um börn á grunnskólaaldri oft á tíðum.
7 (IP-tala skráð) 12.10.2013 kl. 12:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.