14.12.2013 | 09:49
Mandarínuréttlæti
Hún er ansi kostuleg umræðan sem kemur upp á hverju ári, umræðan um að krakkar fá misflottar gjafir frá jólasveininum í skóinn. Sögur fara á kreik að sumir krakkar fá Playstation leik meðan aðrir fá mandarínu, og enn einn fær iPad.
Ef við ætlum ekki að sitja stífar reglur um að jólasveininn gefi alltaf nákvæmlega það sama þá munu krakkar fá ólíkar gjafir í skóinn. Einn fær mandarínu meðan önnur fær Playmókall. Eigum við að skamma fólk fyrir að gefa dót í skóinn? Eða setja samræmdar reglur, mandarína 12. desember, límmiða 13. desember. Pez-kall 14. desember o.s.fr.
Foreldrar sem segja barni sínu að jólasveinn komi með dót í skóinn hljóta að geta útskýrt af hverju hann gefi ekki öllum nákvæmlega það sama (sem væri auðvitað ósköp eðlilegt, ef einn og sami maðurinn kæmi með allar gjafirnar á hverri nóttu!) Segið bara að hann sé með alls konar dót í pokanum og þetta sé svolítið happadrætti, hver fær hvað. Rétt eins og lífið er.
Playmókall er auðvitað miklu flottari gjöf en mandarína. En ég held að það séu fyrst og fremst við fullorðnu sem hneykslumst á (ímynduðum) iPödum í skóinn. 7 ára krakkar eru ekki með jafn nákvæmlega línulegan kvarða á verðmæti gjafa, eftir því hvað þær kosta úti í búð.
Eitt af því sem við þurfum að kenna börnunum okkar er að allir fá ekki alltaf nákvæmlega það sama, alltaf, í þessu lífi.
Sumir hafa ekki vaxið upp úr svoleiðis kökuskiptingarréttlætisprinsippum. "Stóra millifærslan" virðist að miklu leyti snúast um einhverskonar svoleiðis réttlæti. Nú eiga hinir að fá, sem eru ekkert búnir að "fá".
eitt að því sem þessi leiðrétting gengur út á er að jafna hlut þeirra sem voru með verðtryggð lán á þessum tíma í samræmi við þá leiðréttingu sem fólk með gengistryggð lán fékk í gegnum dómstóla.
svo segir orðrétt í kommenti við þessa grein. (En var það ekki þannig með gengistryggð myntkörfulán sem voru "leiðrétt" skv. dómi, að þeim var breytt í verðtryggð lán, með tilheyrandi háum vöxtum?) Enn aðrir tala um að þessi fyrirhugaða aðgerð sé réttlæti fyrir þau sem fengu ekki afskrift í gegnum 110% leið.
En 110% leiðin var annað. það var einmitt afskrift. (Flettið upp orðinu ef þið skiljið það ekki.) Það var verið að stinga á skuldabólu, afskrifa ósjálfbærar íþyngjandi skuldir. Sú afskrift, rétt eins og leiðrétting á gengislánum skv. dómi, var á kostnað lánveitendanna, ekki ríkissjóðs. Fyrirhugaða stóra millifærslan verður óhjákvæmilega á kostnað ríkissjóðs/skattgreiðenda. Og munið að fólkið sem fékk 110% afgreiðslu situr enn uppi með verulega skuldsetningu og er í sjálfu sér ekkert öfundsvert.
En nú á sem sé að láta hina fá líka. Af því þeim líður eins og börnunum sem fengu mandarínu í skóinn. Og herrarnir sem stjórna landinu eru búnir að hugsa út leið sem kostar ekki neitt, rétt eins og þegar jólasveinninn kemur færandi hendi með gjafir.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjármál, Viðskipti og fjármál | Breytt 16.12.2013 kl. 16:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.