14.12.2013 | 19:01
Ómakið tekið af Brynjari Níelssyni
'Markaðsmisnotkun' er það þegar menn "plata" markaðinn með röngum og villandi upplýsingum.
'Umboðssvik' er það kallað þegar menn gera eitthvað án umboðs, svo sem að lána út mjög háar upphæðir úr fyrirtæki, án þess að hafa til þess bærar heimildir.
Vona að lesendur þreyttust ekki á að lesa þetta. Það er ekkert voða flókið að útskýra hugtökin í grófum dráttum, þó svo Brynjar Níelsson hafi ekki viljað ómaka sig til þess, í harðorðum pistli um 'Al Thani' dóminn. Kannski var Brynjar svona mikið að flýta sér, alla vega hafði hann varla tíma til að lesa, hvað þá gaumgæfa dóminn, sem er mjög langur og ítarlegur og var birtur á netinu rétt áður en Brynjar birti pistil sinn. (Dómurinn var kveðinn upp kl. 15 og birtur á netinu nokkru síðar, en Brynjar birtir pistil sinn kl. 16:30.)
Dómurinn var kveðinn upp af fjölskipuðum héraðsdómi. Þar er rökstutt að hinir dæmdu hafi gerst sekir um þetta tvennt ofangreint, annars vegar gefið rangar og mjög villandi upplýsingar sem höfðu áhrif á markað, og hins vegar lánað mjög háar fjárhæðir út úr bankanum án þess að hafa til þess heimildir, til vafasamra viðskipta sem einn hinna dæmdu var beinn aðili að.
Það er mjög sérstakt að þingmaður á löggjafarþingi gagnrýni nýfallinn dóm svo harkalega sem Brynjar gerir. Ekki er hægt að túlka orð hans öðruvísi en svo að dómararnir kunni ekki skil á lögunum sem dæmt var eftir, og að ekki sé lengur óhætt að starfa í banka.
Það sem ekki síður vekur athygli við gagnrýni Brynjars er ekki hversu hrokafull hún er, hann skrifar yfirleitt ekki öðruvísi, heldur að hann rökstyður ekki með einu orði þessa harkalegu gagnrýni sína á Héraðsdóm Reykjavíkur.
Mér finnst að löglærður Alþingismaður sem ræðst með þessum hætti á dómstóla verði að skýra mál sitt.
Meginflokkur: Löggæsla | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.