11.2.2018 | 21:33
"Fólkið hefur valið bílinn"
Þegar heimilis-ruslatunnur fyrst komu til sögunnar þóttu þær mikið þarfaþing og merki um siðmenningu og nútímaþægindi. Allt drasl sem féll til á heimilinu fór beint út í tunnu og þurfti svo ekkert að hugsa meira um það. Það "hvarf" strax úr huga þess sem henti. Eini vandinn var ef tunnan fylltist yfir jólin. Í fínum sérhæðum og einbýlishúsum byggðum svona 1955-65 voru settar ruslalúgur upp á vegg í eldhúsinu og varð enn auðveldara að fleygja ruslinu, opna - henda - loka - farið!
Ruslatunnur voru við hvert einasta heimili og enginn velti vöngum yfir þeim eða efaðist um réttmæti þeirra. Sumir gætu sagt að neytendur höfðu valið ruslatunnuna.
En í aðeins víðara samhengi var það auðvitað ekki svo að ruslið væri algjörlega horfið um leið og lúgunni var lokað. Því var ekið á ruslahauga þar sem öllu ægði saman, óflokkuðu heimilis- og iðnaðarsorpi, þessu var ýtt í hrauka eða reynt að grafa ofan i dældir og eftir fáeina áratugi þurfti svo að finna nýtt haugstæði.
Með vaxandi velmegun stórjókst ruslamagnið. En samfélagið varð smám saman meðvitaðra, en samt 20 árum seinna en á meginlandi Evrópu, um að það væri beinlínis óábyrgt og skaðlegt umhverfinu, að fleygja hverju sem er í tunnuna og bara ætlast svo til að einhver annar sæi um restina. Enn hendum við þó mörg hver eins og enginn sé morgundagurinn.
Margir reyna þó að lágmarka það sem fer í tunnuna og flokka það sem hægt er að endurvinna með einhverjum hætti. Enn fellur samt til gríðarlegt magn af rusli, sem hér á höfuðborgarsvæðinu er komið fyrir á Álfsnesi, en þar mun allt fyllast innan ekkert mjög margra ára. (Að grafa rusl með þessum hætti er víða búið að banna, í löndum sem við berum okkur saman við.)
Hvernig tengist þessi saga fólksbílum?
Jú, ruslatunnur og ruslalúgur voru og eru mjög þægilegar í daglegu lífi en það er beinlínis óábyrgt að hrúga bara í tunnuna rusli ÁN ÞESS að hugsa aðeins í víðara samhengi hvaða afleiðingar það hefur.
Alveg það sama gildir um einkabílinn. Bíllinn er hið mesta þarfaþing. Ég á einn slíkan og nota flesta daga. En að stoppa bara þar og hugsa ekkert lengra, að segja að fólk hafi "valið bílinn" og ÞESS VEGNA eigi samfélagið að gjöra svo vel og aðlaga sig að því með öllu móti, er einfeldningslegt viðhorf, bara hálf hugsun. Við getum ekki bara hugsað um hvað sé þægilegt fyrir okkur sjálf. Við eigum og verðum að huga um hvaða áhrif á AÐRA - á samfélagið og umhverfið - val okkar sem einstaklinga hefur.
Sorpfjallið í Álfsnesi
Meginflokkur: Umhverfismál | Aukaflokkar: Samgöngur, Stjórnmál og samfélag, Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 21:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.