19.4.2009 | 09:23
Góð hugmynd í boði xB - 20% afsláttur til allra
Framsóknarflokkurinn veit að það skiptir þjóðina miklu næstu misserin að halda andlegri heilsu og viðhalda orku og jákvæðu hugarfari. Flokkurinn lofar því fyrir þessar kosningar að allir landsmenn fái 20% AFSLÁTT af öllum sólarlandaferðum* næstu árin.
Þetta loforð mun ekki kosta skattgreiðendur neitt, því kostnaðurinn lendir allur á ferðaskrifstofum landsins. Þær munu hvort eð er þurfa að horfa uppá mikinn samdrátt í sölu og verulega rýrnun tekna, og því mjög líklegt að þær samþykki þessa snjöllu hugmynd. Með því að gefa öllum 20% afslátt munu fleiri en ella kaupa sér sólarlandaferðir og því er hugsanlegt að þetta muni, þegar upp er staðið, ekki kosta ferðaskrifstofurnar neitt.
x-B Flokkur sem lofar ekki upp í ermina á sér -
heldur upp í ermina á öðrum.
*Þessi færsla er ádeila á eitt helsta "kosningaloforð" Framsóknarflokksins og sett fram í háðskum stíl. Flokkurinn lofar ekki í alvörunni 20% afslætti á sólarlandaferðum, en hins vegar lofar hann 20% afslætti á öllum húsnæðisskuldum Íslendinga og raunar öllum bankaskuldum íslenskra fyrirtækja. Þessi afskrift muni ekki kosta skattgreiðendur neitt, því afföllin lendi alfarið á erlendum kröfuhöfum.
Það er alls ekki búið að ganga frá 50% afskriftum af heildarlánasafni gömlu bankanna, enda geta auðvitað ekki skilanefndir gömlu bankanna ákveðið það upp á sitt eindæmi, það hafa Framsóknarmenn viðurkennt. En Framsóknarflokkurinn telur líklegt að kröfuhafar fallist á þetta, því þeir þurfi hvort eð er að sætta sig við afskriftir af kröfum sínum, sbr. skýringar þeirra:
Eru einhverjar líkur á að erlendir kröfuhafar samþykki þessa niðurfærslu?
Fjármagnseigendur, þar með taldir kröfuhafa íslensku bankanna, hafa þurft að sætta sig við það á síðustu misserum að eignir þeirra hafa rýrnað mjög í verði og svo er komið að sumar eignir hafa hreinlega ekkert verð þar sem það eru engir kaupendur. Kröfuhafar verða því að sætta sig við einhverjar afskriftir af sínum kröfum.
Meginflokkur: Kjaramál | Aukaflokkar: Spaugilegt, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:57 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Einar Karl. Framsóknarflokkurinn er ekki að lofa einhverju upp í ermina, hvorki hjá sé né öðrum. X-B vildi að þegar yrði farið í að vinda ofan af þeim skuldahluta sem lagst hefur á höfðuðstól lána eftir að verðbólgan fór hér á algjört flug.
Það á ekki að greiða þetta úr ríkissjóði heldur er þetta háð því að samningar náist við þá kröfuhafa sem eru í gömlu bönkunum um að láta niðurfellingu krafna ganga alla leið til skuldara en ekki stöðvast í nýju bönkunum og þeir haldi síðan áfram að rukka skuldara 100%. Því eru þetta ekki peningar í umferð, heldur bókhaldslegt eins og gert er þegar fyrirtæki fara í nauðasamninga til að forðast gjaldþrot. Fyrirtækið á þá meiri möguleika að lifa af og haldið áfram að borga skuldir sínar sem þá eftir standa, í stað þess að kröfuhafar fá kannski 1-2% af kröfum úr þrotabúinu við þrot fyrirtækisins. Heimili er ekkert annað en fyrirtæki fjölskyldu.
Alla vega finnst mér dæmið það augljóst og eins og maður lærði í barnaskóla á sínum tíma. Því skil ég ekki að Jóhanna og Steingrímur fatti þetta ekki, en þeim hefur kannski alltaf leiðst í reikningstímunum
Soffía (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 09:48
Ef lánin úr gömlu bönkunum eru metin sem svo að afskrifa þurfi 50% þá reyna auðvitað nýju bankarnir samt sem áður að rukka "skuldara um 100%", en gera ráð fyrir að fá 50% tilbaka, sé afskriftarþörfin réttilega metin. Ef þeir reyna að rukka skuldara bara um 80% er nú líklegast að þeir fái um 40% tilbaka.
Af hverju heldur Framsókn að kröfuhafar fáist til að "gefa" 10% í viðbót ofan á 50% tap?
Einar Karl, 19.4.2009 kl. 13:06
Nei, ekki 40%. Líkurnar á endurgreiðslum til bankans aukast og því væri nær að tala um að þeir fengju 55%-60% til baka í stað 50%. Það gerist þegar nauðasamningar takast og virka eins og til var ætlast.
Soffía (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 13:54
Um þetta erum við ósammála Soffía. Ég kaupi engan veginn svona stuttaraleg og í raun órökstudd rök, án þess að sjá nánari greiningu á skuldunum og stöðu skuldarana.Slíkt er ekki að finna á heimasíður Framsóknar, sem þó dælir út kosningaauglýsingum um að þetta sé raunhæft og nánast borðleggjandi.
Stærstu skuldararnir eru með risavaxnar skuldir, t.d. voru skuldir Moggans á fimmta miljarð, Baugsfyrirtækið Teymi, sem nú er í greiðslustöðvun skuldar yfir 40 milljarða. Svona skuldir vega þungt í fyrirséðum afskriftum allra lána til íslenskra heimila og fyrirtækja. Það innheimtist ekkert meira upp í svona vonlausar skuldir við það að veita afslátt af öllum skuldum allra fyrirtækja. Að halda slíku fram er bull og barnaskapur. Að halda því fram að erlendur kröfuhafar gleypi við síku er í mínum huga bara lýðskrum.
Einar Karl, 19.4.2009 kl. 14:30
Því léttari bíla sem ekið er yfir brú aukast líkurnar á að brúin haldi lengur. Veikbyggð brú og það er vitað að hún er veikbyggð, reynir maður að létta á þeim bílum sem aka yfir svo brúin haldi.
Þetta er í raun ekkert öðruvísi. Banki sem á mikið af þungum og erfiðum skuldabréfum, og er í mjög erfiðu landi viðskiptalega séð og veit að stór hluti skulda fæst aldrei greiddur og þarf að afskrifa og er þegar byrjaður að afskrifa. Því ekki að létta á skuldunum svo fleiri geti greitt til baka skuldirnar við bankann. Ég veit að þú kannt að reikna og hefur trúlega lært líkindareikning, þú ert verkfræðingur er það ekki svo þú ættir alveg að skilja það sem um er að ræða? Þannig að það þarf ekkert að vera með útúrsnúninga sem ég er ekki með og þú vonandi ekki heldur
Soffía (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 16:58
Soffía,
Jú við getum hent 20% af farmi hvers bíls, breytir því ekki að sumir vörubílarnir eru með margfaldan öxulþunga miðað við þol brúarinnar og sumir sitja fastir í drullusvaði og komast ekki upp hallan að brúarsporðinum! Svo ég er hræddum um að sá sem bíður hinum megin árinnar eftir farmi sínum fái minna í sinn hlut, eftir 20% allsherjar affermingu allra bíla, þó svo einhverjir vörubílar komist yfir sem ella hefðu ekki komist.
Það má reyna að sannfæra eigandann - erlenda lánadrottna - um að þetta sé heppileg leið, að með að henda 20% af farmi allra bíla fái hann jafnmikið eða meira í sinn hlut en ella, því það sé of tímafrekt að vigta hvern bíl. Held samt að hann vilji einfaldlega að hver bíll beri sem mest hann getur.
Ég myndi alla vega ekki þora að heyja kosningabaráttu á jafn hæpnum loforðum! En það er gagnlegt og gaman að skiptast á skoðunum um þessi mál sem vissulega skipta okkur miklu. Og ég þakka þér málefnaleg og vinsamleg viðbrögð við skrifum mínum.
Einar Karl, 19.4.2009 kl. 18:03
Þetta átti ekki að verða kosningaloforð, heldur leið til að fá fólk til að tala í lausnum, að mér skilst. Þetta er það sem gengur upp í mínum huga og eftir að hafa kynnst fjölskyldum sem hafa farið í þrot og þeim sársauka og niðurlægingu sem því fylgir, er allt til reynandi að hindra að það gerist í massavís. Þess vegna verðum við að finna lausnir.
Takk sömuleiðis Einar minn
Soffía (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 18:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.