Lítil saga úr kosningum - mikið lagt á sig til að kjósa

Kosningadagur er ávallt stór dagur. Hver kjósandi hefur jafn mikið að segja , Bjarni, Jóhanna, Steingrímur og öll þau hin eru bara eitt atkvæði hvert, venjulegir kjósendur rétt eins og við hin.

Á námsárunum erlendis reyndum við námsmennirnir oft að koma atkvæðum okkartil skila og fá að vera með, en það gat verið örðugt uppi í miðju New York ríki ("Upstate" New york, eins og sagt er), langt frá næsta ræðismanni. Sumir skipulögðu heimsóknir til vinafólks í stórborgunum vikurnar fyrir kosningar, og slógu þannig tvær flugur í einu höggi.

Fyrir kosningarnar '99 vorum við nokkrir félagarnir í Íþöku sem endilega vildum vera með og kjósa. Ég var að ljúka námi og á heimleið aðeins fáeinum mánuðum síðar og skiljanlega farinn að hafa meiri áhuga á þjóðmálunum heima. Netmiðlar voru komnir til sögunnar, en langt í frá eins öflugir og nú, t.d. var ekki hægt að fylgjast með sjónvarpskappræðum á netinu. Námsbærinn Íþaka hafði þó þann kost umfram marga aðra staði, aðallega vegna Fiske safnsins fræga, að þangað kom Morgunblaðið aðeins nokkurra daga gamalt, það þótti mikill lúxus þegar ég fyrst kom á staðinn 1994! Alþingi var þó komið með fína heimasíðu og man ég eftir að hafa setið nokkur kvöld og lesið þingræður til að kynna mér betur störf og skoðanir þingmanna og flokka.

Holiday Inn kjörstaðurEn þarna um vorið '99 hafði einn okkar haft samband við ræðismann Íslands í Pennsylvaníu til að forvitnast um utankjörstaðaatkvæðagreiðslu. Við vorum á báðum áttum, því um fjögurra tíma akstur var að ræðismannaskrifstofunni. Ræðismaðurinn tók hins vegar svo vel í erindi okkar að hann bauðst til að koma og mæta okkur á miðri leið. Og það varð úr að við hittum ræðismanninn á Holiday Inn hóteli á tilteknu 'Exit' á hraðbrautinni suður frá Binghampton til Pennsylvaníu, sem var ekki nema rúma tvo tíma frá okkur! Þarna var settur upp bráðabirgðakjörstaður og eftir kosninguna drukkið kaffi með ræðismanninum. Hann hafði brennandi áhuga á Íslandi og naut þess að spjalla við okkur og ræða hugmyndir sínar um að flest orð á ensku væru upprunnin úr íslensku (sem málvísindaneminn og forníslenskukennarinn í hópnum hlustaði á af kurteisi!), innflutning á íslensku vatni og margt fleira.

Tímanum var alls ekki illa varið á leiðinni, á suðurleiðinni var mikið skeggrætt um pólitík og þá flokka sem voru í boði, kosti þeirra og galla og reyndu ýmsir farþegar að sannfæra þá sem enn voru í einhverjum vafa. Heimleiðin var rólegri, en enginn okkar sá eftir þessum fjögurra tíma bíltúr um fögur skógarhéröð á Toyotunni minni gömlu sem rúllað hafði 130 þúsund mílur þegar þarna var komið.

   -----  ooo  -----

Nýtum þennan dýrmæta lýðræðislega rétt okkar. Hvert atkvæði skiptir máli.  Um það má lesa t.d. í þessari færslu frá Marinó: Reynslan frá 2007: Hvert atkvæði skiptir máli

 

Cornell háskóli

Mynd af hluta af háskólasvæði Cornell háskóla, í Íþöku í New york ríki.


mbl.is Bjarni Ben kaus fyrstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að rifja þetta upp. Þetta var skemmtileg ferð. Bestu kveðjur.

Ellert (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband