30.6.2009 | 22:26
Bankar reknir með 8 milljarða tapi á mánuði?!
Ansi ítarlegt og gott viðtal birtist við bankaráðgjafann sænska Mats Josefsson í Fréttablaðinu fyrir helgi, nánar tiltekið fimmtudaginn síðasta 25. júní, eftir Jón Aðalstein Bergsveinsson. Þetta er fróðleg lesning og Mats er ekkert feiminn að gagnrýna bæði núverandi og fyrrverandi stjórnvöld fyrir seinagang. Þarna segir m.a.:
Frá upphafi hefur legið fyrir að unnið verði eftir hugmynd um að sett verði á fót eignaumsýslufélag á vegum ríkisins sem veiti bönkunum ráðgjöf vegna mikilvægra fyrirtækja sem eiga í miklum rekstrarerfiðleikum. Þá hafi verið stefnt að því að eignarhaldsfélag verði sett á laggirnar sem haldi utan um hlut ríkisins í bönkunum. [...]
Mats reiknar með að félagið geti litið dagsins ljós á næstu vikum: "Ég skil ekki hvers vegna þetta hefur tekið svona langan tíma. [...] Síðastliðnar tvær til þrjár vikur hafa verið stigin jákvæð skref. Þetta eru stór og mikilvæg skref í rétta átt."
"Í mínum augum er það samt ráðgáta hvers vegna fjármálaráðuneytið vann ekki hraðar í málinu."
Ofangreint er svo sem ekki nýtt. Fjöldamörg stór fyrirtæki eru komin í fangið á bönkum eða bíða svara frá bönkunum um örlög sín, og alls óvíst hvaða stefnu bankarnir skulu fylgja.
En það var þó þetta sem mér fannst mest sláandi:
Mats Josefsson segir varasamt að reka bankana í núverandi mynd. Misvægi á eignastöðu þeirra gömlu og nýju sem myndaðist við uppskiptingu þeirra valdi því að þeir séu reknir með miklu tapi í hverjum mánuði. Spurður hvort tap þeirra þriggja liggi nálægt átta milljörðum króna á mánuði segir hann það ekki fjarri lagi.
"Þetta verður að stöðva. Það er ekki flókið enda verður annað hvort að auka tekjur eða draga úr útgjöldum. Það var nauðsynlegt að gera þetta þegar ríkið tók bankana yfir en var ekki gert," og bætir við að enn sé ekki búið að ákveða í þaula hvernig bankakerfi muni verða hér í framtíðinni.
Ég tek heils hugar undir orð Mats.
Það kostar um 13-14 milljarða að klára tónlistarhúsið, en samkvæmt ofangreindu tapast sú upphæð í rekstri bankanna þriggja á 6 vikum. 8 milljarða tap er um 25.000 krónur á hvern Íslending - á mánuði - kornabörn jafnt sem atvinnulausa. Á þetta að rúlla svona áfram út árið? Þetta er væntanlega aðallega munur á inn- og útvöxtum, sparifjáreigendur liggja með sitt fé í bönkunum (enginn á lengur hlutabréf!) og fengu himinháa innlánsvexti allt haustið og framan af árinu sem hafa þó snöggtum lækkað, en enginn þiggur ný útlán hjá bönkunum á enn hærri útlánsvöxtum.
Hvar lendir svo tapið? Þetta eru jú ríkisbankar!
Peningar okkar halda áfram að flögra í burtu.
Meginflokkur: Fjármál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 1.7.2009 kl. 00:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.