12.9.2009 | 17:51
Karlar þurfa ekki að ómaka sig?
Afar forvitnilegt viðtal er að finna í aukablaði um börn og uppeldi sem fylgdi Morgunblaðinu í gær, föstudag, undir fyrirsögninni Einhleypar konur í tæknisæðingu. Rætt er við Þórð Óskarsson, lækni hjá fyrirtækinu Art Medica sem býður upp á þessa þjónustu. Þetta er víst ný þjónusta, fyrst leyfð í fyrra, svo það er eðlilegt að fyrirtækið vilji auglýsa og upplýsa um þennan möguleika. Á heimasíðu þess stendur raunar að markmið fyrirtækisins sé að hjálpa pörum að eignast barn, en þetta er kannski fyrst og fremst aukabúgrein að aðstoða einhleypar konur.
Tæknisæðing er það þegar sprautað er sæði í leg konu, sem sé sæðing án samfara. Þetta er oft gert til að hjálpa pörum sem eiga í erfiðleikum með að geta barn en eru ekki ófrjó, til að auka líkur á getnaði. Gervifrjóvgun er flóknari aðgerð, en þá er egg tekið úr konu og frjóvgað i tilraunaglasi.
Þórður upplýsir að á annan tug einhleypra kvenna komi í svona meðferð í hverjum mánuði. sem sé á bilinu 140-200 konur á ári. Sæðið kemur utan úr Evrópu, hægt er að panta sæði úr "þekktum" gjafa, þannig að væntanlegt barn geti eftir 18 ára aldur fengið uppgefið nafn blóðföður síns. Þeir gjafar sem heimila slíkt eru þó færri en hinir sem kjósa fulla nafnleynd og þekkta sæðið er dýrara. Flest börn sem fæðast eftir gjafasæðingu fá því aldrei að vita um faðerni sitt, nema hvað ávallt fylgja sæðisskammti upplýsingar um háralit, augnlit, hæð, þyngd og starf.
Mér finnst þetta ansi hreint merkileg þróun. Ég hygg að móðureðlið sé ansi ríkt í hverri konu og skil vel konur sem komnar eru vel yfir þrítugt að vilja ekki missa af þeim möguleika að eignast börn. Hitt er á að líta að það hefur aldrei beinlínis þótt eftirsóknarvert að vera einstætt foreldri. En sumar konur kjósa það greinlega, frekar en að verða ekki foreldri.
Þetta hlýtur samt að vekja alls konar spurningar og heimspekilegar vangaveltur. Ég lít sjálfur hikstalaust á mig sem feminista, en hlýt líka stundum að líta á samfélagið út frá sjónarhóli karls. Ég veit ekki, mér finnst á einhvern hátt svolítið skrýtin tilhugsun að það geti verið algjört einkamál konu að eignast og ala upp barn. Barn sem ekki á nema eitt foreldri (þó síðar geti komið til stjúp- eða fósturforeldri) - lagalega séð nánast eingetið.
Kannski er þetta bara óþarfa minnimáttarkennd. Flestar konur vilja vonandi áfram geta börn með okkur körlum, í eigin persónu, en ekki bara sem sýni í glasi. Því ekki gefst okkur strákunum kostur á að eignast börn nema við nælum okkur í konu fyrst.
Er þessi í bankanum?
Meginflokkur: Heimspeki | Aukaflokkar: Lífstíll, Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 18:09 | Facebook
Athugasemdir
Það er víst alveg rétt hjá þér, Einar Karl, að flestar konur vilja helst, eftir sem áður, halda áfram að geta börn með ykkur körlunum -svona prívat og persónulega. Lítil hætta á að þið verðið óþarfir !
Hins vegar er samfélagsgerðin orðin þannig á okkar dögum, að orðið fjölskylda á ekki lengur eingöngu við um staðalmyndina "Pabbi, mamma, 2 og 1/2 barn og bíll".
Það þarf ekki annað en að líta á eitt stk. grunnskólabekk til að sannfærast um fjölbreytni fjölskyldna.
Ekki búa heldur allir við sjálfvalið fjölskyldumódel. Þannig er lífið nú bara ekki. Þá er bara að spila sem best úr hendinni.
Ef börnin eru hamingjusöm, örugg og vel um þau hugsað, ættu öll fjölskylduform að vera jafn rétthá og virt.
Hildur Helga Sigurðardóttir, 12.9.2009 kl. 18:35
Skynsamlegt svar hjá Hildi Helgu. Ég held hinsvegar að mörgum sé að verða það æ ljósar að barn þarf tvo foreldra, karl og konu til að fá gott uppeldi og heilbrigða sjálfsmynd. Drengjum farnast td. betur hafi þeir karlímynd til að leiðbeina sér. Til dæmis að læra á innbyggðar árásarhneigðir, læra þol og karlmennsku ( já og hananú) læra sanngjörn skipti, læra trygglyndi, læra að tapa og svo mætti lengi telja. Þetta allt hefur sérstakan blæ í heimi okkar karlmanna og er ekki hægt að læra af mömmu. Og svo læra börnin á samspil kynjanna af foreldrum sínum. Til dæmis hvernig á að deila, stundum að sigra og stundum að gefa eftir. Allt þetta gengur vitanlega úr greipum þessarra einstæðu barna.
Tölfræðin sýnir okkur einnig að börn sem hafa báða foreldra í uppeldishlutverki eru líklegri til að standa sig á lífsleiðinni, lenda síður í óreglu, gengur betur á menntabrautinni, síður í glæpum osfv. Það er mikilvægt að treysta fjölskylduna. Þetta segi ég bæði sem faðir og heimilislæknir.
Guðmundur Pálsson, 12.9.2009 kl. 21:49
Jamm, því færri foreldra sem fólk á, því meiri hætta er á að það leiðist út í alls kyns óknytti, glæpi og ósvinnu af öllu tagi.
Sjáið bara Oliver Twist. Hann er munaðarlaus.
Þannig er það nú í pottinn búið.
Og fólk á að ómaka sig við að maka sig. Það hef ég alltaf sagt.
Þorsteinn Briem, 12.9.2009 kl. 22:59
Hver borgar meðlagið? Ríkið! hélt að ætti að spara.
ee (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 11:31
Takk fyrir kommentin.
Hildur Helga: jú satt segirðu, það hvort barn elst upp hjá einu foreldri eða tveimur ræður sannanlega ekki úrslitum um það hvort barn sé hamingjusamt og fái gott veganesti út í lífið. Aðstæður einstæðra foreldra eru líka misjafnar, svona almennt hygg ég nú að það sé auðveldara að vera tvö um þetta mikilvæga verkefni, en Þær konur sem kjósa þessa leið eru þó altént vel meðvitaðar um þær aðstæður sem þær kjósa sér og gera þetta væntanlega að vel ígrunduðu ráði. Sem er meira en hægt er að segja um margan getnaðinn.
Guðmundur: Það eru vissulega sjónarmið að við karlarnir höfum einhverju að miðla til barna okkar úr okkar reynsluheimni, held þó að konur sé alveg jafn færar og við að miðla þol, sanngjörn skipti og trygglyndi. Ekki eru þetta sérstakir karllægir eiginleikar!
Um tölfræði sem þú minnist á veit ég ekki, en hygg að þú takir of djúpt í árinni með fullyrðingunni að barn þurfi "tvo foreldra, karl og konu til að fá gott uppeldi og heilbrigða sjálfsmynd". Fullt af fólki alið af upp af einstæðu foreldri, í flestum tilvikum móður, hefur fengið gott uppeldi og heilbrigða sjálfsmynd.
Í athugasemdum með frumvarpinu að þeim lögum sem heimilaði tæknisæðingar einhleypra kvenna má lesa eftirfarandi:
[...]
Mér finnst þó heldur skautað léttilega framhjá faðernisvandanum:
Steini: Það er oft þrautinni þyngri að finna rétta maka, en þó ómaksins vert!
ee: Mér skilst raunar að konur sem ekki geta eða vilja feðrað börn sín fái ekkert meðlag. Hið sama gildir væntanlega um umræddar einhleypar mæður.
Einar Karl, 13.9.2009 kl. 17:49
Þess má svo geta að þetta forvitnilega mál var rætt á Alþingi í fáeinar mínútur um hánótt, á síðustu viku vorþings 2008.
Einar Karl, 13.9.2009 kl. 17:49
Þessi áróður gegn fjölskyldunni eins og kemur fram í ofangreindum texta er séríslenskt fyrirbæri. Maður sér þetta hvergi nokkurs staðar nema hér á landi og ég er efins um að við eigum að vera stolt af þessu, enda farnast okkur ekkert alltof vel í fjölskyldumálum. Ég þekki allvel til á norðurlöndunum og opinn áróður fyrir því að einstæð móðir geti upp á eigin spítur stofnað fjölskyldu á annarra kostnað er fáheyrður. Allir vita að það er vafasöm lífsstefna þó menn geti svo sem lent i ýmsu.
Okkur ber að sjá og rýna vandlega í þá staðreynd að ákveðnir hagsmunhópar hafa mikinn hag í því að láta líta svo út að þetta sé ekki bara hægt heldur æskilegt og jafngilt. Þetta er að mínu áliti fásinna og opinbert skrök. Ávallt er gangurinn sá í þessum málum að viðtekinn hópur telur sig fórnarlömb óréttlætis en eftir ákveðinn tíma tekur ríkið sig til og gengur erinda þessa sama hóps. Og skiptir þá litlu á hvers rétt er gengið.
Hvers vegna er hægt að skrökva svo að þjóðinni? Það er leikur einn. Menn tyggja tugguna nógu oft og slengja fram dómgreindarlausum gervirannsóknum. Það virðist nóg af þeim og menn telja fram sannanir í gríð og erg á því sem þeim sjálfum er í hag.
Ég get sagt þér Einar að ég er hættur að taka mark á þessari tegund af nýtísku afbökun og ég er hissa á því að þú látir blekkjast í þessu efni.
Guðmundur Pálsson, 15.9.2009 kl. 10:06
Guðmundur,
ég límdi textann inn úr lögskýringargögnunum ekki af því ég sjálfur endilega skrifa uppá allt sem þar er sagt heldur fyrst og fremst til að sýna sjónarmið löggjafans, sem stangast á við þín orð og ótilgreinda tölfræði. Látum mínar skoðanir liggja á milli hluta, ég tel þó hikstalaust málefnið þess virði að ræða það betur en gert var á Alþingi fyrir rúmu ári.
Ég stend þó við að mér finnst þú taka of djúpt í árinni þegar þú segir:
Ég þekki sjálfur börn sem fá gott uppeldi og heilbrigða sjálfsmynd, í umsjá eins foreldri, svo byggt á þeirri reynslu minni tel ég fullyrðinguna ranga. Það er er þó ekki hið sama og að segja að eitt foreldri sé ávallt jafngott og tvö foreldri.
Eitt gott og ástríkt foreldri er án nokkurs vafa mun betra en tvö slæm eða áhugalítil foreldri.
En tvö góð foreldri er ábyggilega enn betra en eitt.
Einar Karl, 15.9.2009 kl. 21:25
...í umsjá eins foreldris, vildi ég sagt hafa.
Einar Karl, 15.9.2009 kl. 21:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.