24.4.2016 | 22:48
Ólafur Ragnar telur þrásetu í forsetaembætti ekki réttlætanlega
Í mjög mörgum ríkjum sem kjósa sér þjóðhöfðingja eru reglur um hámarkstíma sem sami einstaklingur getur gegnt embættinu. Þetta er almennt talið í anda lýðræðis og á að koma í veg fyrir að þjóðhöfðingjaembætti verði of nátengt einum tilteknum einstaklingi heldur skuli það vera í eðli slíks embættis að menn gegni því tímabundið. Tveggja kjörtímabila hámark Bandaríkjanna þekkja flestir, en líka í ríkjum nær okkur þar sem forsetaembætti eru líkari okkar eru slíkar reglur í gildi. Þannig má sami maður sitja að hámarki tvö sex ára kjörtímabil í embætti Forseta Finnlands, alls 12 ár, og á Írlandi situr sami forseti að hámarki í tvö sjö ára kjörtímabil, eða 14 ár.
Þeir sem vilja skilja betur ástæður og sjónarmið að baki svona reglum geta lesið sig til í fræðibókum eða spurt þá sem þekkja vel til, eins og t.d. fræðimenn á sviði stjórnmálafræða.
Forseti Íslands sem jafnframt er virtur fræðimaður í stjórnmálafræði og var prófessor við Háskóla Íslands um tíma, var spurður árið 2011 í sjónvarpsþætti Egils Helgasonar, þegar hann átti rúmt ár eftir af sínu fjórða kjörtímabili, hvort hann myndi telja það í lagi eða eðlilegt að forseti sæti í fimm kjörtímabil.
Svar hans var eftirfarandi:
Ja, ef að ég þú spyrð mig svona akademískt þá myndi ég nú kannski segja að það væri ekki réttlætanlegt nema kannski við einhverjar mjög sérstakar aðstæður ...
Þannig liggur það fyrir að stjórnmálafræðingurinn Ólafur Ragnar Grímsson telur það ekki réttlætanlegt að sami einstaklingur sitji 20 ár í embætti forseta, nema kannski við einhverjar mjög sérstakar aðstæður. Fræðimaðurinn telur væntanlega enn síður réttlætanlegt að sami maðurinn sitji 24 eða 28 ár í embætti forseta, sem gæti hæglega gerst hér á landi.
Svo má velta því fyrir sér hvort hér ríki slíkar mjög sérstakar aðstæður akkúrat nú - og fyrir fjórum árum síðan - að víkja þurfi þeim sjónarmiðum til hliðar, sem Ólafur Ragnar Grímsson almennt aðhyllist. Ég tel fráleitt að svo sé.
21.4.2016 | 00:10
Fórnfúsa fórnarlambið
Ef Ólafur Ragnar nær endurkjöri sér hann fram á 24 ár í embætti. Hann var spurður að því í Morgunútvarpinu hvort það væri þráseta í embætti. Auðvitað er það óheppilegt að ástandið sé þannig að sá [ég] sem kjörinn er til þessa embættis telji sig tilknúinn að gefa kost á sér í svo langan tíma og það er ekki heldur það sem við ætluðum okkur og það er ekki auðveld ákvörðun að snúa við á þeirri för í átt að frelsinu sem við vorum hér á undanförnum mánuðum og ákveða að gefa kost á sér og þar með að taka á sig skuldbindingar næstu árin og afsala sér því frelsi sem í því felst að bera ekki lengur þessa daglegu ábyrgð. Það er ekki vottur af einhverri viðleitni af minni hálfu til þess að vera með þrásetu af þessu tagi.
http://www.ruv.is/frett/forseti-thurfi-ad-hafa-djupstaeda-thekkingu
1.4.2016 | 23:01
Jón ver dóna
Í vikunni fjallaði Kastljós á RÚV um hatursfull og orðljót ummæli á netmiðlum. Tekin voru viðtöl við þrjá einstaklinga sem lent hafa í að fá yfir sig skæðadrífu af slíku og svo var hringt í tvo einstaklinga sem skrifað höfðu svona netdónakomment. Annar einstaklingurinn vildi alls ekki gangast við ummælunum, hinn gerði það en hún gat ekki svarað því hvort hún myndi vera tilbúin að segja orð sín augliti til auglitis við þann sem hún skrifaði um.
Sú sem mestu haturs- og ónotakommentin mátti þola af viðmælendum Kastljóss er Sema Erla Serdar, sem tekur virkan þátt í stjórnmálum og samfélagsumræðu og hefur m.a. skrifað og tjáð sig um fjölmenningu og fordóma.
Velflestum sjónvarpsáhorfendum hefur vafalaust blöskrað dónaskapurinn, heiftin og illskan sem mátti sjá í kommentum sem rúlluðu yfir skjáinn. En ekki bloggaranum og lögmanninum Jón Magnússyni. Hann tekur upp hanskann fyrir netdónana og kallar ummæli þeirra meint hatursummæli. Fullyrðir svo að ógeðskomment séu bara viðbrögð þeirra sem verði fyrir barðinu á hatursummælum Semu. Jón tiltekur samt ekki eitt einasta dæmi sem stenst skoðun um eitthvað sem gæti mögulega kallast hatursummæli frá Semu Erlu.
Ég sendi inn komment við pistil Jóns en hann er gunga og birtir ekki komment sem varpa skugga á hans auma málstað. Svona var komment mitt, þið getið dæmt um það hvort það sé ókurteist eða ómálefnalegt:
Þannig að þegar bandarískir hvalverndurnarsinnar hvetja neytendur vestra til að sniðganga íslenskar afurðir þá eru þeir í hatursherferð gegn Íslendingum svipaðri og herferð nasista gegn gyðingum? Eða þegar Vesturlönd, mörg hver, settu viðskiptabann á Apartheid-stjórn Suður-Afríku fyrir 30 árum þá var það líka hatursherferð í anda nasista? Það er jú það sem þú ert að segja, að sniðganga og viðskiptaþvinganir af slíkum toga séu hatursheferðir í anda nasista.
Þetta er hroðalegt bull í þér Jón.
Og ENGIN af þeim ummælum sem Kastljós birti sem beindust gegn Semu Erlu voru eitthvað sambærileg því sem þú vísar til af ummælum hennar. Sem ÞÚ hikar ekki við að kalla hatursummæli.
Með von um að þessi athugasemd fái að birtast.
Mogginn sá svo ástæðu til að vekja sérstaka athygli á rasistasleikjuboðskap Jóns 'Ísland fyrir Íslendinga' Magnússonar á forsíðu mbl.is.
Af hverju er Jón svona viljugur að gerast talsmaður netdóna og rasista? Kannski vonast hann eftir endurkomu í pólitík undir fána nýstofnaðs flokks, Íslensku þjóðfylkingarinnar, sem virðist vera svar Íslands við vaxandi stuðningi við sambærilega flokka í Evrópu sem gera út á útlendingaótta og múslimaafóbíu.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)