Færsluflokkur: Bloggar
29.4.2009 | 16:02
207 forstöðumenn - jafnmargar stofnanir?
Þegar tölurnar eru lagðar saman er þetta samanlagður fjöldi forstöðumanna. Er ekki einn forstöðumaður í hverri stofnun, sá/sú sem veitir henni forstöðu? Eru þá 207 ríkisstofnanir í landinu? Og þá eru "stofnanir utan framkvæmdavaldsins undanskildar þ.e. Alþingi, stofnanir þess sem og dómstólarnir".
Þetta eru margar ríkisstofnanir í fámennu ríki.
29% forstöðumanna ríkisstofnana konur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2009 | 11:49
Lítil saga úr kosningum - mikið lagt á sig til að kjósa
Kosningadagur er ávallt stór dagur. Hver kjósandi hefur jafn mikið að segja , Bjarni, Jóhanna, Steingrímur og öll þau hin eru bara eitt atkvæði hvert, venjulegir kjósendur rétt eins og við hin.
Á námsárunum erlendis reyndum við námsmennirnir oft að koma atkvæðum okkartil skila og fá að vera með, en það gat verið örðugt uppi í miðju New York ríki ("Upstate" New york, eins og sagt er), langt frá næsta ræðismanni. Sumir skipulögðu heimsóknir til vinafólks í stórborgunum vikurnar fyrir kosningar, og slógu þannig tvær flugur í einu höggi.
Fyrir kosningarnar '99 vorum við nokkrir félagarnir í Íþöku sem endilega vildum vera með og kjósa. Ég var að ljúka námi og á heimleið aðeins fáeinum mánuðum síðar og skiljanlega farinn að hafa meiri áhuga á þjóðmálunum heima. Netmiðlar voru komnir til sögunnar, en langt í frá eins öflugir og nú, t.d. var ekki hægt að fylgjast með sjónvarpskappræðum á netinu. Námsbærinn Íþaka hafði þó þann kost umfram marga aðra staði, aðallega vegna Fiske safnsins fræga, að þangað kom Morgunblaðið aðeins nokkurra daga gamalt, það þótti mikill lúxus þegar ég fyrst kom á staðinn 1994! Alþingi var þó komið með fína heimasíðu og man ég eftir að hafa setið nokkur kvöld og lesið þingræður til að kynna mér betur störf og skoðanir þingmanna og flokka.
En þarna um vorið '99 hafði einn okkar haft samband við ræðismann Íslands í Pennsylvaníu til að forvitnast um utankjörstaðaatkvæðagreiðslu. Við vorum á báðum áttum, því um fjögurra tíma akstur var að ræðismannaskrifstofunni. Ræðismaðurinn tók hins vegar svo vel í erindi okkar að hann bauðst til að koma og mæta okkur á miðri leið. Og það varð úr að við hittum ræðismanninn á Holiday Inn hóteli á tilteknu 'Exit' á hraðbrautinni suður frá Binghampton til Pennsylvaníu, sem var ekki nema rúma tvo tíma frá okkur! Þarna var settur upp bráðabirgðakjörstaður og eftir kosninguna drukkið kaffi með ræðismanninum. Hann hafði brennandi áhuga á Íslandi og naut þess að spjalla við okkur og ræða hugmyndir sínar um að flest orð á ensku væru upprunnin úr íslensku (sem málvísindaneminn og forníslenskukennarinn í hópnum hlustaði á af kurteisi!), innflutning á íslensku vatni og margt fleira.
Tímanum var alls ekki illa varið á leiðinni, á suðurleiðinni var mikið skeggrætt um pólitík og þá flokka sem voru í boði, kosti þeirra og galla og reyndu ýmsir farþegar að sannfæra þá sem enn voru í einhverjum vafa. Heimleiðin var rólegri, en enginn okkar sá eftir þessum fjögurra tíma bíltúr um fögur skógarhéröð á Toyotunni minni gömlu sem rúllað hafði 130 þúsund mílur þegar þarna var komið.
----- ooo -----
Nýtum þennan dýrmæta lýðræðislega rétt okkar. Hvert atkvæði skiptir máli. Um það má lesa t.d. í þessari færslu frá Marinó: Reynslan frá 2007: Hvert atkvæði skiptir máli.
Mynd af hluta af háskólasvæði Cornell háskóla, í Íþöku í New york ríki.
Bjarni Ben kaus fyrstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 27.4.2009 kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2009 | 18:20
"Sjálffæðandi maskínur"
Þetta hugtak, "sjálffæðandi maskína" kemur fyrir í kvikmyndinni Draumalandið, er notað um virkjunariðnaðinn, sem svo má kalla. Hlutverk virkjunariðnaðarins er ekki bara að búa til næga orku fyrir Íslendinga og íslenskt atvinnulíf heldur er eiginlegt hlutverk maskínunnar einmitt eins og nafnið gefur til kynna - að virkja. Maskínan heldur þannig ótrauð áfram að virkja meira og meira, annars stöðvast hún. Maskínan fæðir sjálfa sig því ekki vill hún svelta.
Stór hópur manna og kvenna hafa hlotið til þess góða menntun að finna og kanna nýja virkjunarkosti, hanna virkjanir og byggja virkjanir. Þetta eru skemmtileg, krefjandi og vel launuð störf. Skiljanlega vill þetta fólk halda störfum sínum, það viljum við öll.
Þess vegna segir ekki Landsvirkjun eftir Kárahnjúka, "Jæja, er þetta orðið gott?" og Orkuveitan segir ekki heldur, eftir opnun Hellisheiðarvirkjunar "Já nú skulum við aðeins kynna okkur betur undirstöðufræði um háhitasvæði og virkjanir þeirra", heldur er hafist handa og teiknuð drög að 3-4 háhitavirkjunum til viðbótar. "ÁFRAM - EKKERT STOPP, eins og einn flokkurinn orðaði það um árið.
En svona maskínur eru víðar. Nærtækasta dæmið er íslenski útrásar-bankaiðnaðurinn. Þetta myndskeið úr fréttaþætti RÚV 'Í brennidepli' er frá 2004 og lýsir hinum tápmiklu og duglegu útrásarmönnum sem þá höfðu þegar haslað sér völl í bestu og dýrustu hverfum Lundúna og flugu heim til eyjunnar á einkaþotum, sem átti eftir að fjölga.
Hvar stæðum við nú, ef menn hefðu hægt á ferðinni 2004? Staldrað við og hugsað:
"Ættum við kannski að einbeita okkur að þeim fyrirtækjum sem við erum nú búnir að kaupa, sjá til að þau skili raunverulegum arði og greiða niður þær miklu skuldir sem á okkur hvíla vegna kaupanna?"
Já hver veit. En þetta gerðist auðvitað ekki. Maskínan var alltof gráðug og hélt áfram, vildi meira og meira. Fleiri hundruð ungra og duglegra bankamanna, lögfræðinga og viðskiptajöfra átti allt sitt undir að haldið yrði áfram og keypt meira og meira. Það var beinlínis grundvöllurinn að þeim fáránlega arði sem bankarnir skiluðu ár eftir ár. Og hver vildi vera án þess?
Þriðju maskínuna mætti nefna, en það er verktaka-byggingamaskínan, sem óx hratt og dafnaði hér á síðustu árum. Þegar fasteignaverð rauk upp var orðið mjög arðbært að byggja. Byggingafyrirtæki stækkuðu og stækkuðu, þau þrýstu á að fá nýjar lóðir, ný hverfi og breytt skipulag - meira byggingarmagn, hærri hús, fleiri íbúðir. Maskínan mátti ekki svelta. Fáir spurðu, "Er þetta ekki nóg í bili?" "Þurfum við öll þessi hús?"
Stjórnmálamenn og skipulagsyfivöld voru þannig í mjög krefjandi hlutverki, að gæta þess að okkar nærsamfélag og skipulag byggðar væri eins og við teljum best, en ekki bara sem arðvænlegast fyrir byggingariðnaðinn.
Hið skuggalega var að sveitarfélögin voru í afar óeðlilegu samlífi með byggingamaskínunni, því sveitarfélögin höluðu inn milljarða á milljarða ofan á lóðasölu, og sveitarfélög fá aldrei nóg af peningum. (Íbúar sveitarfálaganna græddu hins vegar alls ekki á hinu háa lóðaverði, það bara hækkaði húsnæðisverð enn meira, sem íbúarnir þurftu á endanum að borga.)
Ef maskínurnar vaxa og stækka eftirlitslaust verða þær hálfgerð skrímsli. Það er meðal annars hlutverk stjórnmálamanna að gæta að heildarhagsmunum samfélagsins alls og halda maskínunum í skefjum.
Þess vegna viljum við ekki að stjórnmálamenn séu á spenanum hjá maskínunum. Hvernig getum við treyst því að þeir láti ekki undan frekum kröfum þeirra? Að þeir beiti eðlilegu aðhaldi og hugsi um heildarhagsmuni þegar þeir skarast á við hagsmuni maskínanna sem stutt hafa stjórnmálamennina? Getum við treyst stjórnmálamönnum til að taka ákvarðanir sem gætu skaðað hagsmuni maskínanna?
Útrásar-bankamaskínan styrkti Sjálfstæðisflokkinn mjög hraustlega, eins og altalað er.
Byggingarfyrirtækið Eykt var stærsti styrktaraðili Framsóknarflokksins 2006, með fimm milljóna styrk. Verkefnalisti Eyktar sýnir að fyrirtækið var mjög umsvifamikið og hefur unnið fjölda stórra framkvæmda fyrir hið opinbera. Eykt er með á sínum snærum eitt af fjölmörgum hálf- eða óbyggðum draugagötuhverfum stór-Reykjavíkursvæðisins, í hlíðum Helgafells í Mosfellsbæ. En slík hverfi eru æði mörg um allt höfuðborgarsvæðið og raunar víðar, sem sýnir að þessi maskína óx eftirlitslaust.
Framsókn opnar bókhaldið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 18.8.2013 kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2009 | 19:49
Fjármögnun stjórnmálabaráttu
Þessar fréttir eru með ólíkindum. Reiðarslag fyrir stjórnmálaflokk að fá svona fréttir skömmu fyrir kosningar, en ekki er nú hægt að vorkenna þeim. Þetta sýnir líka hvað stjórnmálamenn voru tilbúnir að dansa með í firringunni með víkingunum, 30 millur voru nú bara "smotterí" í þá gömlu góðu daga, árslok 2006, eins og ein góð árshátíð í London eða svo. Hörðustu stuðningsmenn eru á því að "Baugsflokkurinn" hafi örugglega fengið álíka styrki (sem gengur ekki upp, því allir styrkir samtals til Samfylkingarinnar 2006 eru 10 milljónum lægri en þessir tveir styrkir).
Kjósendur verða að gera upp við sig hvort uppgjör hins raunverulega Baugs-FLokks í þessu máli verði trúverðugt.
Allir flokkar ættu svo að birta lista yfir helstu stuðningsaðila á seinustu árum áður en lögin um fjármál flokka tóku gildi 1.1.2007. Einhvern veginn grunar mann að hinn stjórnarflokkurinn 2006 hafi haft ekki síður trausta stuðningsaðila, enda margir innmúraðir og innvígðir í þann söfnuð, sem högnuðust vel í einkavæðingu þessara tveggja flokka.
Við þurfum að halda áfram umræðu um fjármögnun stjórnmálabaráttu og hvernig koma skuli í veg fyrir að fjársterkir aðilar liðki fyrir fyrirgreiðslu/kaupi sér vináttu með fjárframlögum, t.d. í prófkjörum, þar sem alþekkt er að einstaklingar hafi hafi haft verulegan kostnað í slíkri baráttu, án þess að gerð grein fyrir fjármögnun.
Stjórnmálaflokkar eiga fyrst og fremst að sýna kjósendum og landsmönnum trúnað og heilindi, frekar en styrktaraðilum.
Guðlaugur Þór: Ég óskaði ekki eftir styrk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2009 | 21:15
Belgi kúkar
Efnin að skila sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.3.2009 | 10:14
Eru öll félög þekkingarfélög?
Nýsir er alþjóðlegt þekkingar- og fjárfestingarfélag,
Hmm... félagið byggði og rak fasteignir fyrir hið opinbera, með garanteraðar leigutekjur í 40 ár, en fór samt á höfuðið. Í hverju lá þekkingin?
Þetta er svolítil kaldhæðni vissulega. Ekki ætla ég að dæma um hvort rekstur félagsins hafi verið eðlilegur eða ekki, margt hefur skiljanlega farið úrskeiðis í hremmingum síðustu mánaða.
En stimpillinn "þekkingarfélag" er óneitanlega skondinn, hefur venjulega verið notað um starfsemi sem skapar nýja þekkingu. Að byggja og reka fasteignir og golfvöll hlýtur að teljast frekar hefðbundin starfsemi. Eða er t.d. Fönn fatahreinsun og Bílaverkstæði Badda líka þekkingarfélög? Þau hafa jú án nokkurs vafa heilmikla þekkingu á sínu sviði.
Nýsir fasteignir gjaldþrota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2009 | 23:12
Er munur á hagfræði og stærðfræði?
Horfði á Kastljós með athygli. Bæði Tryggvi Þór og Sigríður fá plús fyrir að vera málefnanleg og kurteis! En ég skil samt ekki alveg þessa leið. Tryggvi fullyrðir að hún kosti ekkert, því þegar sé búið að afskrifa lánasafnið um 50% og á því verði séu lánin keypt yfir í nýju bankana. Með því að afskrifa öll lán jafnt um 20% "batni lánasafnið".
En ef við nú tökum fullkomlega heilbrigt lán, sem lántakandi er í 100% skilum með, og afskrifum það um 20%, þá þarf greiðslugeta lántakanda annars láns að batna um sömu upphæð, til að aðferðin komi út á núlli, eins og Tryggvi Þór lofaði.
Mörg lán fyrirtækja og félaga eru með algjörlega handónýt veð, t.d. kúlulánið sem Tryggvi sjálfur fékk og var minnst á í síðustu færslu minni. Það lán er alveg jafn ónýtt þó við afskrifum það fyrst um 20%, greiðslugeta eignarhaldsfélagsins með hin verðlitlu hlutabréf batnar ekkert við það.
Kristinn Pétursson setur upp tölur í færslu sinni. Hann talar um að lánasafn innlendu lánanna sé 7.000 milljarðar. Ef helmingur þess hefur verið afskrifaður standa eftir 3.500 milljarðar sem vænst er að skili sér. Ef við tökum þennan betri helming og afskrifum hann um 20%, eða 700 milljarða, á þá skyndilega að fást 700 milljarðar uppí ónýta helminginn, hina 3.500 milljarðana sem búið er að afskrifa? Hvernig getur greiðslugeta að baki þessa "ónýtu" lána batnað, við það að við afskrifum þau fyrst úr 3.500 milljörðum niður í 2.800 milljarða? Eru þessi lán ekki jafn ónýt eftir sem áður?
Endilega komið með athugasemdir við þessar talnahugleiðingar.
Tryggvi Þór: 20% af skuldum heimilanna verði felldar niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.2.2009 | 21:31
Björguðu Kastljósinu
Það lyftist á manni brúnin við að hlusta á Gylfa og Jón í Kastljósinu, eitthvað bitastætt, eftir rýra pólitíska málsvörn Sveins Andra Sveinssonar. Sveinn Andri er náttúrulega vanur þessu hlutverki, að verja mjöög óvinsæla skjólstæðinga, jafnvel vita vonlaus 'case'! Oftar en ekki fær hann svo að láta ljós sitt skína sem helsti lögfræðilegi álitsgjafi Kastljóssins, eða eins og nú, sem málpípa flokksins síns.
Ég velti fyrir mér, af hverju fannst Kastljósinu ástæða til að vera með svona dæmigert 'með og á-móti' "setup" um þetta nánast dapurlega mál? Ástæðan fyrir því að ekki skyldu fleiri mæta fyrir utan Seðlabankann í morgun er ekki sú að langflestu fólki finnist ekki tímabært að senda Davíð í frí, heldur sú að fólk vill helst ekki þurfa að hugsa um hann.
Ég ætla að lesa skýrslu Gylfa og Jóns spjaldanna á milli. Hvet Davíð Oddsson til að gera það líka.
Vítahringur í peningamálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 10.2.2009 kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.2.2009 | 23:37
Er hægt að ýta á 'IGNORE' ?
Það væri nú líkt þjóðinni að láta þetta mál fá alla athygli og umræðu næstu vikuna eða vikurnar. Þetta verður svona hálf-vandræðaleg og alltof langdregin lokaorrusta, eins og í 'Lord of the Rings II' eða 'Highlander' myndunum með Christopher Lambert. Þar var söguhetjan líka ódauðleg.
Í fyllstu alvöru, það má ekki láta umræðuna næstu daga snúast bara um þetta, fjölmörg erfið verkefni krefjast athygli og orku. Peningamálastefnunni er hvort eð er stýrt af IMF, svo hvort Kölski fái að sitja áfram í sínu fallna hásæti einhverjum mánuðum lengur eða skemur skiptir ekki öllu máli.
Lýsir miklum vonbrigðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 10.2.2009 kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2009 | 11:48
Björgvin - ef þú bara hefðir gert þetta fjórum dögum fyrr...
þá hefði enginn getað ásakað þig um að vera að undirbúa komandi kosningar, enginn hefði getað sagt að þú værir bara að hætta störfum sem ráðherra nokkrum mánuðum fyrr en ella.
Afsalar sér rétti til biðlauna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)