Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Þjóðkirkjan, sértrúarsöfnuðir og bókstafstrú

Þjóðkirkjan hefur heldur betur lent í mótvindi vegna þess að hún (ýmsir söfnuðir hennar og prestar) er í samkrulli með öðrum trúfélögum að halda trúarhátíð í næsta mánuði þar sem aðalgestur er bókstafstrúaður bandarískur predikari sem hefur talað oft og mikið gegn mannréttindum samkynhneigðra.

Ameríkaninn, og margir íslenskir sértrúarsöfnuðir, byggja afstöðu sína til samkynhneigðar og margvíslegra annarra mála á tvöþúsund ára gömlum fornritum frá botni Miðjarðarhafs. 

Sértrúarsöfnuðirnir trúa því að fornritin, Biblían, sé heilagur óskeikull sannleikur, orð Guðs almáttugs, tjáð í gegnum þá sem rituðu biblíuna.

Biblían í heild sinni er hins vegar kolómögulegur leiðarvísir fyrir líf okkar og lélegur kompás fyrir margvísleg siðferðisleg mál. Það er hægt að finna í Biblíunni alls konar vitleysu, strangar reglur um hitt og þetta, og boðorð um að dauðarefsingar skuli fylgja ýmsum yfirsjónum sem okkur þykja ekki tiltökumál í dag. Enda þurfa prestar Þjóðkirkjunnar fimm ára háskólanám til að geta skilið og túlkað Biblíuna fyrir okkur óbreytta.

En Þjóðkirkjan getur ekki komið hreint fram og sagt, "Þetta er vitleysa! Það Á EKKI að taka Biblíuna bókstaflega! Það er vitlaust, það er órökrétt, og það getur verið beinlínis hættulegt."

Því samkvæmt kenningum þeim sem Þjóðkirkjan aðhyllist og játningum hennar er Biblían annað og meira en fornrit, hún er "heilagt orð", orð Guðs

Þess vegna er Þjóðkirkjan í eilífum vanda þegar kemur að sértrúarsöfnuðum, því hún á í basli með að lýsa því yfir skýrt og skorinort að bókstafstrúaðir sértrúarsöfnuðir séu á villigötum.

Ég skil satt að segja ekki HVAÐ það er sem Þjóðkirkjan sér jákvætt við þetta samstarf við sértrúarsöfnuði. Aðhyllist Þjóðkirkjan sömu grunngildi til mannlegs samfélags og þessir söfnuðir?

Ekki hefur Þjóðkirkjan mér vitanlega tekið þátt í íslensku trúboðs-sjónvarpsstöðinni Ómega. Á þeirri stöð eru oft og iðulega sýndir svona bandarískir sjónvarpspredikarar, eins og Franklin Graham. Svona predikanir ganga út á einskonar múgsefjun, að ná fólki helst í einhverskonar trans. Er það andlega heilbrigt og hollt?

Þetta sagði einn gestur á fyrri svona hátíð á Íslandi:

... við hjónin fórum á þessa hátíð Vonar fyrir ca. 20 árum síðan þegar við vorum í Kristkirkjunni. Það sem var mjög áberandi var þessi múgsefjun sem minnti einna helst á rokktónleika og peningaplokkið í kjölfarið. Eftir á að hyggja held ég að svona samkomur séu vel útfærð viðskiptahugmynd.

(komment við þennan pistil)

 

Til hvers er leikurinn gerður?  Hvert er Þjóðkirkjan að fara með þessu?

Kannski er tími kominn til að Þjókirkjan endurskoði kenningar sínar, ef hún vill kalla sig ÞJÓÐ-kirkju. Kannski ætti hún að gerast almenn andleg heilsubótarstofnun þar sem hægt að sækja frið og ró og næra sálina, en sleppa því að boða einhverja tiltekna trú á heimsendaspá, syndafórn og guðleg fornrit.

Hinn valkosturinn er að Þjóðkirkjan gerist sjálfstætt trúfélag, eins og hún segist vera en er ekki, og að ríkisrekstri Þjóðkirkjunnar verði hætt.

 


Lagalegu rökin eru alls ekki öll okkar megin!

"Okkur ber engin lagaskylda til að borga"

segja Advice.

Þetta er óskhyggja. Það eru alls ekki öll lögfræðileg rök í þessu máli okkar megin. Fullyrðing Advice manna byggir á lögfræðilegri túlkun, túlkun þar sem horft er fram hjá ýmsum mikilvægum atriðum.

Allt eins má segja:

Okkur ber lagaleg skyld til að borga

Sú fullyrðing er alveg jafn "rétt".

Svokölluð dómstólaleið er feigðarflan og margra ára ganga í kviksyndi. Innistæðueigendum var mismunað við stofnun Nýja Landsbankans. Það vita Advice menn, þó þeir láti eins og það skipti ekki máli. Íslenskar innstæður í Landsbankanum voru ekki tryggðar með skattpeningum, eins og Frosti Sigurjónsson ranglega sagði í Sjónvarpinu í gærkvöldi, heldur voru eignir færðar (með ríflegum afslætti) úr gamla bankanum í þann nýja til að dekka okkar innistæður.

Af þessum ástæðum er mín bjargfasta trú að um þetta mál skuli semja.

Sá samningur sem nú liggur fyrir er vel ásættanlegur og dreifir ábyrgð og kostnaði vegna innistæðna þeirra bresku og hollensku sparifjáreigenda, sem trúðu íslenskum banka fyrir peningum sínum.

Segjum .

 

ja_logo_1071983.jpg

Virðing

Ég á þó nokkra trúrækna vini og kunningja, fólk sem starfar í kirkjum, sem organistar, í kirkjukór, í sóknarnefndum og æskulýðsstarfi. Ég kynntist líka í námi mínu í Bandaríkjunum góðum vinum og vinnufélögum sem sóttu kirkju flesta sunnudaga. Ég ber virðingu fyrir trúarlegum gildum alls þessa góða fólks. Trúarleg viðhorf og gildi getur verið erfitt að skýra eða skilgreina, en þau geta skipt okkur miklu máli. Þau eru persónuleg, eitthvað sem við eigum ekkert að þurfa að flíka, frekar en við kjósum.

Þú verður að passa að stuða ekki fólk með þessu trúartali“, sagði trúnaðarvinur við mig. Ég vona svo sannarlega að ég hafi ekki gert það, með pistlum hér, eða kommentum og gagnrýni á Þjóðkirkju og þjóna hennar annars staðar. Það er mér ekkert gamanmál að opinbera mig með þessum hætti, mínar skoðanir og lífsviðhorf um viðkvæm mál. En í mínum huga snýst umræðan um virðingu. Ég fer einungis fram á að mínum grundvallarlífsviðhorfum sé sýnd sama virðing og ég sýni slíkum viðhorfum annarra. “Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra” sagði vitur og góður maður.

Meira HÉR


Mín Reykjavík

Eins og vanalega náði ég ekki að sjá nema lítinn hluta alls þess sem ég hafði krossað við og prentað út á lista mínum yfir atburði Menningarnætur. Skemmti mér þó prýðilega og sá og upplifði heilmargt. Einhvern veginn fannst mér borgin öll í góðu skapi.

Dagurinn byrjaði á því að við kona mín röltum í regnstökkum út að Kirkjusandi til að hvetja áfram hlaupara og klappa fyrir þeim. Ég hef tekið þátt sjálfur nokkrum sinnum og veit hvað það er gaman og gefur mikið að fá hvatningarorð áhorfenda og það stóð heima, þau sem við kölluðum eftir og klöppuðum fyrir brostu út að eyrum og veifuðu tilbaka. Ég mæli eindregið með þessu fyrir þá sem ekki vilja eða geta hlaupið með sjálfir! Við misstum af þeim fljótustu en fylgdumst með töluvert hálfmaraþonhlaupurum á meðaltempói. Viðskiptaráðherrann Gylfi Magnússon var einn þeirra sem fór framhjá, ég þekki hann ekki persónulega en var feykilega ánægður með að fá hann í ríkisstjórn í janúar og hvatti opinberlega til þess hér á þessari síðu og Facebook vefnum að hann yrði áfram í stjórn eftir kosningar.

Um hádegisbilið var farið á kóræfingu en kórinn minn Söngsveitin Fílharmónía steig fyrstur á svið við gafl Söngskólans og ræsti mikla söngskemmtun sem þar var haldin nú í þriðja sinn á Menningarnótt, með fjölda kóra og milli atriða stjórnaði Garðar Cortes fjöldasöng áheyrenda.

Við röltum svo yfir í Utanríkisráðuneyti þar sem ég heilsaði upp á góða vinkonu og fyrrum skólasystur sem var að segja frá og kynna störf ráðuneytisins á sviði kynningarmála og fjölmiðlatengsla. Fyrr en varði vorum við svo komin inn á skrifstofu ráðherra þar sem Össur sjálfur tók á móti okkur. Ég var óviðbúinn þessu skyndilega "ráðherraviðtali" og sagði mest lítið, fannst  ég ætti að segja eitthvað mjög merkilegt um öll þau stóru og miklu mál sem ráðherrann þarf að glíma við og ég rausa stundum um hér fyrst þetta tækifæri gafst. Hann lék þó á alls oddi, gaf okkur konfekt, sýndi gestum forláta útskorna taflmenn og leyfðu yngismeyjum tveimur að prufa ráðherrastólinn.

Við þræddum svo Grettisgötuna, þar sem gömul og falleg hús voru kynnt og komum upp á Skólavörðustíg. Þar fórum við á fallega málverkasýningu hjá vinkonu og fyrrum kórfélaga Margréti Brynjólfsdóttur en skömmu seinna hófust þar ljúfir og skemmtilegir tónleikar söngkonu, píanista og sellista. Þetta voru þau Sólveig Unnur, Hilmar Örn og Victoria og fór þetta fram í penni stofu í heimahúsi og bauð húsfreyjan gestum og gangandi kaffi og hafði fyrr um daginn borið fram stafla af vöfflum.

Tónleikar á Skólavörðustíg 25 á Menningarnótt

Tónleikar á Skólavörðustíg og myndlistarsýning Margrétar.

Úti fyrir á Skólavörðustígnum var margt um manninn, fjölmargir sem ég þekkti, gamlir skólafélagar og nágrannar, fólk sem ég unnið fyrir í starfi mínu og fólk tengt mér ýmsum fjölskyldu- og vinaböndum. Niðri á Laugaveg rakst ég fyrir einskæra tilviljun á góðan vin sem er búsettur í útlöndum og gátum við sest og spjallað í portinu við Lækjarbrekku.

Eftir stutt hlé þar sem farið var heim og snætt og bætt á nokkrum lögum af hlýjum fötum var haldið aftur út. Við fórum í Dómkirkjuna og hlýddum á hreint út sagt frábæra tónleika fjögurra ungra og hæfileikra söngvara og píanista, sungu óperuaríur og söngleikjaperlur af mikilli list og með heilmiklum leikrænum tilþrifum! (Takk fyrir mig, Hallveig, Gissur Páll, Sólveig, Jón Svavar og Hrönn!) 

Við héldum út í myrkrið og á Ingólfstorg og hlýddum á Hjaltalín og Hjálma. Torgið fullt af fólki og skemmtileg og glaðvær stemmning. Um meter aftan við mig stóð formaður fjárlaganefndar og naut tónlistarinnar sem barst frá sviðinu. Sá þar lögreglustjórann Stefán Eiríksson á vaktinni með tveimur lögregluþjónum. Stefáni kynntist ég í menntaskóla þegar leiðir okkar lágu saman í málfundafélaginu. Hann var einn af skærum stjörnum sigursæls ræðuliðs MH en ég hélt mig meira bakvið tjöldin í stjórn málfundafélagsins. Mér finnst virkilega flott af Stefáni að taka virkan þátt í störfum lögregluliðsins og ganga vaktir úti á götu meðal fólksins. Hann fær prik fyrir það!

Flugeldasýningin setti lokapunktinn á skemmtilegan og vel heppnaðan dag. Flott að vanda, gaman að heyra þúsundir fólks á öllum aldri breytast í hrifnæm börn og stara hugfangin á litadýrð þessarar ævagömlu efnafræði og segja Váááá í kór! Um 100.000 manns voru víst í bænum um þetta leyti eða tæplega þriðjungur allra landsmanna. Má geta þess, fyrir þá sem sjá á eftir peningum sem fara í flugelda sem fuðra upp, að sú fína skemmtun kostaði nú ekki nema 25 krónur á hvern haus sem á horfði.

Þetta var góður dagur. Ég var stoltur af borginni minni og glaður að sjá hversu margir eru tilbúnir að leggja á sig svo aðrir geta notið. Á svona degi hittast ráðherrar, þingmenn, skólakrakkar og popparar og heilsast og skemmta sér saman og ýta til hliðar áhyggjum og erli dagsins. Þrátt fyrir það hvað við erum ófullkomin, óþolinmóð og amatörar í svo mörgu og að hér er allt í skralli og er þetta mitt galna samfélag. Hér vil ég búa áfram, en ekki stinga af til Noregs eða annað útí heim og fara á nýjan byrjunarreit, fjarri vinum, kunnuglegum andlitum og götum. Ég vona innilega að sem fæstum finnist þau tilneydd að hverfa á brott.

Ég vil leyfa mér að vona að með svona jákvæðu hugarfari og samstöðu á öllum dögum, eins og við sýndum á laugardag, hljótum við að komast í gegnum hremmingarnar framundan.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband