Færsluflokkur: Bækur

Ayn Rand: 'Undirstaðan' - FRAMHALD

Róttæki einstaklingshyggjusinninn Ayn Rand skrifaði skáldsöguna 'Undirstaðan' (Atlas shrugged), sem þýdd hefur verið á íslensku og fjallar um að hinir ríku sem bera samfélagið á herðum sér (eins og gríski guðinn Atlas forðum) segja STOPP og stinga af, til að þurfa ekki að halda uppi alls konar aumingjum og sníkjudýrum samfélagsins.

Ýmsir frjálshyggjumenn hafa mikið dálæti á þessari bók, og telja hana einskonar framtíðarspá um það sem gæti gerst ef vestrænar ríkisstjórnir hætta ekki geigvænlegri skattpíningu á ríka fólkinu, fólkinu sem "skapar verðmætin". (Þetta með að ríkasta fólkið skapi verðmæti samfélagsins eru ekki mín orð, heldur stjórnmálafræðiprófessors við Háskóla Íslands, svo þeim ætti að mega treysta.)

Í framhaldsbókinni, 'Undirstaðan II' (sem Ayn Ran náði ekki sjálf að klára) snýr hins vegar ríka fólkið aftur tilbaka.

Í útópíska ríkafólks-landinu var nefnilega enginn til að þrífa klósett, enginn til að gera við bíla, enginn til að hirða garða og slá gras, enginn til að byggja hús, enginn til að leggja vegi, enginn til að afgreiða á kassa í matvöruverslunum, enginn til að fylla á hyllurnar, enginn til að keyra vörubíla, enginn til að vinna í verksmiðjum, enginn til að rækta korn eða slátra nautgripum, enginn til sauma föt, enginn til að setja saman iPad tölvur, enginn til að steikja hamborgara og þjóna á veitingastöðum, enginn til að keyra ruslabíl.

Það er nefnilega ekki þannig að bara ríka fólkið haldi samfélaginu gangandi og geri allt.

Farmworkers

Farandverkamenn í Bandaríkjunum. 


Heimsljósi gríðarvel tekið! Ekki missa af í kvöld!

'Bravó' hróp fylltu kirkjuna eftir lokatóninn í Heimsljósi Tryggva M. Baldvinssonar, sem við frumfluttum sl. sunnudagskvöld. Yndislegt tónverk sem greinilega hitti tónleikagesti í hjartastað!

Kórinn stóð sig bara held ég mjög vel sem og hljómsveit og einsöngvarar.  Tónleikarnir verða endurteknir í kvöld, þriðjudagskvöld, kl. 20. Miðar seldir við innganginn. Ekki missa af einstöku tónverki!


Eins og músikölsk upplifun af að fljúga yfir Eyjafjallajökul!

jokull6

Þar sem jökulinn ber við loft

 

Þetta eru upphafslínur í alveg hreint mögnuðu tónverki eftir Tryggva M. Baldvinsson sem kórinn minn Söngsveitin Fílharmónía frumflytur á tónleikum um helgina. Línurnar eru líkast til kunnuglegar, þetta eru fleyg orð úr Heimsljósi Halldórs Laxness, en Tryggvi semur verk sitt við texta úr bókmenntaverki Nóbelskáldsins. Satt best að segja tekst honum alveg frábærlega vel að fanga fegurðina og ljóðrænar tilfinningar úr sögunni og varpa í nýja vídd tónlistarinnar.

Kórinn leitaði til Tryggva fyrir meir en tveimur árum síðan, til að falast eftir nýju verki að flytja á afmælisári kórsins sem fagnar nú 50 ára afmæli. Hann hefur unnið að þesu verkefni jafnt og þétt og hefur verið gaman að fá fregnir af því hvernig það þróaðist. Afraksturinn liggur nú fyrir, 45 mínútna verk í sex köflum sem við flytjum sem sagt á sunnudagskvöld og þriðjudagskvöld í Langholtskirkju.

Fyrsta æfing með 30 manna hljómsveit í gærkvöldi var mikil upplifun fyrir alla þátttakendur, að heyra í fyrsta skipti allt smella saman, 70 manna kór, einsöngvarana tvo og 30 manna hljómsveit sem Tryggvi leikur sér listilega að. Þetta er ýkjulaust með því skemmtilegasta sem ég hef gert með kór og allur hópurinn fullur eftirvæntingar. Var mikið klappað fyrir tónskáldinu, þegar lokatóninn var sleginn af, en hann sat spenntur út í sal að upplifa verk sitt lifna við.

Ýmsir vinir virðast smeykir við að fara á tónleika og hlusta á "nútímaverk". "Er þetta ekkert þungt?" er spurt. Ég vil nú fullyrða að allir hrífist með sem sitjast og hlusta! Ef þú nýtur þess að lesa fallegar bækur, að horfa á jökul baðaðan í sólskini, að hlusta á brimrót, horfa á sólsetrið, liggja uppá Esju og fylgjast með skýjunum, m.ö.o. ef þú nýtur fegurðarinnar í kringum okkur, þá mun þetta verk smjúga inn í hug og hjarta! Eins og ég skrifaði vinnufélögum: "Íslenska verkið er ekkert svona nútíma-torf, heldur meira eins og músikölsk upplifun af að fljúga yfir Eyjafjallajökul!"

Sem bónus flytjum við fyrir hlé valda kafla úr nokkrum af okkar uppáhaldsverkum, úr þeim aragrúa stórra kórverka sem kórinn hefur flutt á ferli sínum. Þetta er svona 'Best of' konfektblanda, gæsahúðarframkallandi kórkaflar eftir stóru meistarana, sem hrífa alla með, m.a. upphafið úr Carmina Burana, Hallelúja-kaflinn úr Messias og kafli úr Þýsku sálumessunni eftir Brahms. Að hlusta á öflugan gæðakór flytja þessi stykki í frábærri akústík Langholtskirkju er betra en nokkuð THX Surround bíókerfi!

plakat_700 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband