Færsluflokkur: Fjölmiðlar

'La Familia'

Rakst á pistil á pólitíska vefritinu amx.is, sem af einskærri hógværð titlar sig sem "fremsta fréttaskýringavef landsins". Pistillinn er bitur ásökun á Benedikt Jóhannesson fyrir að hafa spillt fyrir flokki sínum og náfrænda, Bjarna Benediktssyni, með Morgunsblaðsgrein sinni skömmu fyrir kosningar um bráða nauðsyn þess fyrir Ísland að ganga í ESB, og þátttöku í herferðinni sammala.is.

I pistlinum segir:

Margir sjálfstæðismenn eru reiðir og sárir út í félaga sína sem tóku þátt í auglýsingaherferð sammala.is, þar sem aðild að Evrópusambandinu var boðuð. Telja þeir að með þessu hafi verið unnið gegn hagsmunum Sjálfstæðisflokknum [sic] í aðdraganda kosninga.

Smáfuglarnir hvísla um að í þessu efni hafi hið fornkveðja sannast að frændur séu frændum verstir. Benedikt Jóhannesson, frændi Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, fór fremstur í flokki þeirra sem boðuðu aðild að Evrópusambandinu. Hann ritaði langa grein í Morgunblaðið nokkrum dögum fyrir kosningar og þar var því haldið fram að annað hrun blasi við landinu ef ekki verði gengið til viðræðna við Evrópusambandið um aðild. Síðan sat hann fyrir í auglýsingum sammala.is þar sem aðild var boðuð. Þeir smáfuglar sem stutt hafa Sjálfstæðisflokkinn, telja að með þessu hafi Benedikt komið í bakið á frænda sínum á viðkvæmum tíma. Hið sama á við um Þorstein Pálsson, fyrrverandi formann flokksins, sem einnig tók þátt í auglýsingaherferð sammala.is.

Margir sjálfstæðismenn hugsa þeim Benedikt og Þorsteini þegjandi þörfina og þá ekki síst þeir sjálfstæðismenn sem hafa verið hallir undir aðild að Evrópusambandinu. Tala þeir um pólitísk skemmdarverk Benedikts og Þorsteins.

Hvað eru þessir smá-ránfuglar að hvísla? Benedikt var kominn á þá skoðun að það væri beinlínis stórhættulegt fyrir þjóðina að leita ekki til Evrópusambandsins um aðstoð og inngöngu. Flokkurinn hafði fjarlægst ESB á landsfundi og kokkað upp ótrúverðuga og að margra mati algjörlega óraunhæfa kosningabrelluhugmynd um einhliða upptöku Evru.

Átti hann að þegja þunnu hljóði, til að skaða ekki flokkinn?!

Ég tek ofan af fyrir Benedikt, fyrir að koma fram - einmitt í aðdraganda kosninga þegar orð hafa áhrif og menn hlusta - og segja sína skoðun umbúðalaust. Greinilegt er að þar fer maður sem hugsar sjálfstætt og tekur þjóðarhagsmuni framar flokkshagsmunum.

Ég trúi og treysti því - þar til annað sannast - að flokksformaðurinn nýji virði rétt frænda síns til sjálfstæðra skoðana, og að félagar í þessum gamla flokki láti af þeim ljóta sið að hugsa mönnum þegjandi þörfina sem ganga ekki í takt og svíkja "fjölskylduna". Formaðurinn er ekki Guðföðurinn og fjölskyldan er ekki framar öllu öðru - ekki lengur, vonandi.

Guðföðurinn

 


Byr í Undralandi

Það blæs ekki byrlega fyrir sparisjóðnum BYR. Búið að eyða þvílíkt í flotta auglýsingaherferð með einum vinsælasta söngvara landsins, sem gengur út á fólk sýni ráðdeild og sparsemi - fjárhagslega heilsu. Væntanlega á undirliggjandi boðskapurinn að vera að BYR sé ábyrg stofnun.

En ekki sýndi bankastjórinn mikil merki um slíka heilsu þegar hann reyndi í Kastljósi í gærkvöldi af veikum mætti að skýra af hverju greiddur var út í apríl 2008 arður fyrir árið 2007 sem var tæplega helmingi hærri en hagnaður þess árs.

aliceSkildi einhver hvað maðurinn var að fara? Þetta var pínlegt. Maðurinn nefndi tvær ástæður, önnur var sú að þetta væri löglegt, en hin var sú að stofnfjáreigendur höfðu bætt við svo miklu stofnfé, sem þeir inntu af hendi nokkrum mánuðum áður en stór hluti fjárins var svo aftur greiddur út sem "arður"!

Minnti mig á Lísu í Undralandi. Eða góðan þátt í 'Já Ráðherra'. Svona öfugmælaorðræða, þar sem svarað er út í hött.


Nei - alvöru fjölmiðill

Vefritið Nei er ferskur andblær í íslenska fjölmiðlaflóru. Það fór af stað um miðjan október og hefur haldið góðum dampi, hefur að skipa vel ritfæru fólki sem leggur sig fram. Þetta er ekkert hálfkák. Blaðið fer ekkert í grafgötur með pólitískar skoðanir ritstjórnar en gerir það heiðarlega og er ekki fast í neinum flokkadráttum.

Vefritið er á slóðinni this.is/nei

Ég mæli til dæmis með viðtali við Forsætisráðherra frá því í gær, miðvikudaginn 11.2., "Dauði rökræðunnar". Viðtalið er ítarlegt, skemmtilegt og fróðlegt. Og svona spyrja alvöru blaðamenn:

Þannig að við munum fá að vita allt sem stendur í þessari aðgerðaráætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins? 

SJS: „Já, ég held að ég geti lofa því að við munum gera allt …“ 

Heldurðu að þú getir lofað því eða lofarðu því? 

 

Fyrir skemmstu birtist á síðunni mjög skemmtileg og flott greining á forsíðum Morgunblaðsins í kringum bankahrunið. Gæða blaðamennska hjá Nei!


Björguðu Kastljósinu

Það lyftist á manni brúnin við að hlusta á Gylfa og Jón í Kastljósinu, eitthvað bitastætt, eftir rýra pólitíska málsvörn Sveins Andra Sveinssonar. Sveinn Andri er náttúrulega vanur þessu hlutverki, að verja mjöög óvinsæla skjólstæðinga, jafnvel vita vonlaus 'case'! Oftar en ekki fær hann svo að láta ljós sitt skína sem helsti lögfræðilegi álitsgjafi Kastljóssins, eða eins og nú, sem málpípa flokksins síns.

Ég velti fyrir mér, af hverju fannst Kastljósinu ástæða til að vera með svona dæmigert 'með og á-móti' "setup" um þetta nánast dapurlega mál? Ástæðan fyrir því að ekki skyldu fleiri mæta fyrir utan Seðlabankann í morgun er ekki sú að langflestu fólki finnist ekki tímabært að senda Davíð í frí, heldur sú að fólk vill helst ekki þurfa að hugsa um hann.

Ég ætla að lesa skýrslu Gylfa og Jóns spjaldanna á milli. Hvet Davíð Oddsson til að gera það líka.


mbl.is Vítahringur í peningamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræðukeppni í Kastljósi, forðast að minnast á staðreyndir

Ósköp fannst mér dapurlegt að fylgjast með þingmönnunum tveimur í Kastljósinu ræða hugmyndir Indriða H. Þorlákssonar um skattahækkanir. Það vakti sérstakan kjánahroll að hlusta á barnalegan málflutning Sigurðar Kára Kristjánssonar sem talaði eins og í Morfís keppni - ertu með eða á móti sköttum?

Hann sagði að það kæmi "engan veginn til greina" að hækka skatta og að hugmyndir Indriða væru "í besta falli fjarstæðukenndar". En bíðum nú við, var ekki síðasta ríkisstjórn að gera einmitt þetta, þó í minna mæli, að hækka skatta á umtalsverðan hluta fólks - þeirra sem hærri tekjur hafa - nú um síðustu áramót?! En þá var Sigurður Kári náttúrulega ekki í stjórnarandstöðu og gat ekki blaðrað út loftið.

Hvernig vill þingmaðurinn ná niður halla á ríkisrekstri? Jú, með því að "skera verulega niður", "lækka laun að minnsta kost sumra hópa í ríkiskerfinu", "leggja niður og fækka stofnunum". Sjálfstæðismenn hafa setið í ríkisstjórn í 17 ár. Hafa þeir á þeim tíma verið að reka fjöldann allan af óþörfum stofnunum? Þingmaðurinn viðurkenndi að það þyrfti að láta enda ná saman. Ef hann skyldi ekki muna það, því ekki var minnst á það í þættinum, þá er fyrirséður halli ríkisins á þessu ári 153 milljarðar. Ég birti rekstraryfirlit fjárlaganna í færslu fyrir tveimur vikum. Sigurður Kári og aðrir þeir sem telja alls ekki koma til greina að hækka skatta geta dundað sér við að finna út hvar megi skera niður útgjöld ríkisins um 153 milljarða. (Þeir sem t.d. vilja leggja niður sendiráð geta séð að heildarútgjöld Utanríkisráðuneytis eru um 12 milljarðar, eða  tæp 8% af hallanum.)

Ég ætla ekkert að hæla frammistöðu Árna Páls Árnasonar, sem ræddi um að "færa til byrðar", en kom sér fimlega undan því að ræða það sem Indriði var að segja, að hér væri ekki hægt að komast undan því að hækka skatta, útaf því hvernig komið er fyrir íslenska ríkinu, þökk sé meðal annars þeim sem því hafa stýrt.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband