Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Eigandi RÚV kvartar undan bjórauglýsingum

Ekkert Grolsch léttöl fæst út í búð og hefur ekki fengist lengi. Þetta er staðfest í frétt í Fréttablaðinu í morgun og á visir.is. Eins og ég skrifaði um í nýlegri færslu er þetta öl auglýst grimmt í þætti á Rás 2 Ríkisútvarpsins, Litlu hafmeyjunni, sem sérstaklega virðist ætlað að höfða til ungs fólks.

Framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar, sem flytur inn ölið og áfengan bjór undir sama nafni og í nákvæmlega eins umbúðum, segir í fréttinni í morgun að léttölið eigi að vera til í búðunum en "það gæti verið uppselt", bætir svo við "Grolsch-léttöl hefur ekki verið til í mjög langan tíma [!] og síðan bjuggum við til léttöl og eigum von á meiru".

Þetta gæti ekki verið skýrara... eða þannig. Hvenær var Grolsch léttöl síðast til? Er það hvergi til í heiminum nema á Íslandi, þar sem Ölgerðarmenn bjuggu til nokkrar flöskur?

Það er svo sem ekki nema von að framkvæmdastjóranum verði orða vant, ölgerðarmenn og heildsalar hafa stundað þennan leik árum saman án þess að mikið sé fett útí það fingur, að auglýsa bjór og klína svo léttölsstimpli á auglýsinguna, þó svo allir átti sig á hvaða hugrenningar auglýsingarnar eigi að vekja.

Látum vera að Ölgerðin reyni öll trix í bókinni til að selja vöru sína sem mest. En að RÚV skuli gagnrýnislaust taka þátt í slíkum leik er dapurt.

RÚV hefur undanfarið hamrað á því í auglýsingum að við öll 330.000 Íslendingar séum eigendur Ríkisútvarpsins. Ég undirritaður eigandi RÚV vill mótmæla því að bjór sé auglýstur í útvarpinu og sérstaklega finnst mér miður að það sé gert í útvarpsþáttum fyrir unglinga.

Ég á jafn mikið í RÚV og þú, Audi-Palli!


Frétt af þyrlu-Manga og spekileki frá fjölmiðlum

Forsíðufrétt DV um meintar fyrirhugaðar afskriftir skulda Magnúsar Kristinssonar og tengdra félaga hans vakti að vonum mikil viðbrögð, ekki síst í netmiðlum og bloggheimum.

Fjölmiðlafulltrúi skilanefndar Landsbankans Páll Benediktsson bar hins vegar samdægurs þessa frétt tilbaka. DV menn voru þó kokhraustir, lýstu því á vef sínum að það sé Páll sem sé í vanda og vilja þakka sér það, ef skuldirnar verði svo þrátt fyrir allt ekki felldar niður.

Spurningin stendur þó eftir hvort fréttin var yfir höfuð á rökum reist. Látum liggja á milli hluta ónákvæma framsetningu blaðsins þegar þeir oðrétt tala um 50 milljarða skuldir Magnúsar og eiga við skuldir ýmissa félaga sem hann átti að meira eða minna leyti. Skuldir félaganna eru ekki sami hlutir og skuldir hans sjálfs. Ef svo væri gætum við auðvitað heimtað að Björgólfur Thor greiddi sjálfur IceSave skuldir Landsbankans sáluga. (Sem hann mætti þó sjá sóma sinn í að gera, að svo miklu leyti sem hann á einhverja alvöru peninga!)

Óneitanlega kemur upp í hugann fréttin á Stöð 2 frá því fyrir nokkrum vikum um meintar risa-millifærslur nafngreindra auðmanna frá Straumi til aflandsreikninga í kringum bankahrunið. Þeir báru af sér allar sakir og fréttin gufaði svo upp, reyndist byggð á munnlegum heimildum eins manns sem hafði engin gögn undir höndum. Mætti kalla kjaftasögufrétt.

Það er ekki gott ef fréttamenn þessara miðla kunna ekki undirstöðuatriði í fréttamennsku og þekkja ekki muninn á fréttum og gróusögum.

Kannski hafa of margir reyndir fréttamenn eins og áðurnefndur Páll Benediktsson spekilekið frá fréttastofunum. Páll var um árabil sjónvarpsfréttamaður, ritstýrði meðal annars skemmtilegum frétttaaukaþáttum, Í brennidepli. Í þeirri röð voru tveir áhugaverðir þættir um útrásina, eins og hún birtist 2004. (Ég minntist á þá í færslu frá apríl sl.)

Nokkru síðar fór þó Páll að vinna fyrir mafíuna útrásarfyrirtækið Landic Properties. Lái honum hver sem vill. Menn ráða því hvar þeir vinna, það er ekki þegnskylda að vinna ævina á enda á fjölmiðlum og launin hjá fréttastofu sjónvarps voru eflaust snöggtum lægri en laun spunameistara útrásardela. Eftir eitt og hálft ár hjá Landic fór svo Páll til skilanefndar Landsbankans snemma í vor.

Fleiri góðir fréttamenn urðu talsmenn útrásardólga, til að mynda Kristján Kristjánsson fyrrum Kastljósstjórnandi sem fór til FL Group. 'Þar fór góður biti í hundskjaft' myndu sumir segja. Kristján hefur skiljanlega fært sig um set aftur og starfar nú sem fjölmiðlafulltrúi forsætisráðherra, hvorki meira né minna. Svo ekki missa menn alfarið æruna eftir tímabundin störf sem málpípur óheilbrigðra útrásarfyrirtækja.

Fréttamenn hafa svo sem flutt sig í fjölmiðlafulltrúastörf á öðrum vettvangi en í útrásargeiranum, má nefna að fyrrum fréttamenn starfa eða hafa starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu, Flugmálastjórn, Vegagerðinni svo nokkur dæmi séu nefnd. (Hef reyndar aldrei skilið af hverju Flugmálastjórn og Vegagerðin þurfa fjölmiðlafulltrúa í fullu starfi?! Þarf fréttafulltrúa í fullu starfi til að tilkynna hvar sé verið að leggja bundið slitlag á vegum úti?!)

Fjölmiðlar geta þó huggað sig við að varla spekileka fleiri góðir fréttamenn í þessa áttina, þ.e. í útrásarfyrirtækin, í kjölfar þess að sú bóla sprakk.


Hvar fæst Grolsch léttöl??

Grolsch léttölHlustaði á skemmtilegan þátt á Rás 2 Ríkisútvarpsins í hringferð minni um landinu, Litlu hafmeyjuna. Endurtekið var kynnt að þátturinn er í boði Grolsch léttöls. Það er þakkarvert, annars væri væntanlega bara þögn í útvarpinu ef ekki kæmi til gæska ölsalans.

Í þakklætisskyni langaði mig að kaupa þetta góða léttöl sem býður upp á útvarpsþáttinn, en ég hef hvergi komið auga á það í búðum. Vita einhverjir blogglesendur hvar kaupa má Grolsch léttöl?  (Samkvæmt heildsala er það flutt inn.)

Kannski kaupi ég bara áfengan Grolsch bjór í staðinn, þó svo það hafi ábyggilega ekki verið meiningin með kostun þáttanna í ríkisfjölmiðlinum, enda með öllu óheimilt að auglýsa áfengi í útvarpi. 

Ekki færi ríkisfjölmiðillinn að fara í kringum þau lög, allra síst í þætti sem virðist beint til unglinga??


Bjarni Ben og Villta vestrið

Fréttablaðið birtir í morgun ummæli Bjarna Benediktssonar um birtingu upplýsinganna úr lánabók Kaupþings undir fyrirsögninni "Við viljum ekki villta vestrið".

Í fljótu bragði gætu lesendur haldið að fyrirsögnin vísaði til hneykslan Bjarna á því sem fram kemur í upplýsingunum, ofurlán til eigenda bankans, en fjöldi virtra erlendra fjölmiðla hefur fjallað um málið (sjá t.d. þessa fétt RÚV) og eru samdóma í mati sínu á upplýsingunum og hvað þær segja um gamla Kaupþing. (Sigurður Einarsson reynir vissulega í grein í dag að skýra að ekkert óeðlilegt komi fram í þessum upplýsingunum, en ég tek meira mark á Financial Times, Berlingske, Svenska Dagbladet, Dagens Nyheter o.fl. o.fl)

Bankar Íslands fyrir hrun voru sannkallað Villta vestur, þar sem glaðbeittir fjármálakúrekar gerðu það sem þeim sýndist.

En Bjarni var alls ekki að gagnrýna það. Hann virðist samkvæmt frétt Fréttablaðsins hafa miklu meiri áhyggjur af birtingu upplýsinganna og segir að það "getur aldrei verið ásættanlegt að menn brjóti lög" og honum finnist "óskiljanlegt með öllu að menn séu að bera i bætifláka fyrir það þegar slíkt gerist".

Með öðrum orðum er greinilegt að Bjarni telur að ekkert af þessum upplýsingum eða öðrum sem lekið hefur verið úr bönkunum hafi átt að koma fyrir sjónir almennings.

Það er nefnilega það.

Óttast Bjarni fleiri leka úr öðrum bönkum?

Bankamenn

Villta vestrið - íslenskir bankakúrekar


mbl.is Stórskuldug aflandsfélög í eigu hluthafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Karlar sem hata konur' og stóra millifærslumálið

***WARNING: THIS POST MAY CONTAIN A SPOILER***

 

Sérkennilegt þetta tiltekna mál. Stöð 2 kemur með þessa svaka hasarfrétt, þrír stórlaxar nafngreindir, aflandseyjar, hundruð reikninga, og margar risa-millifærslur.

Stórlaxarnir bregðast hinir verstu við, sárir og svekktir, þetta sé allt haugalygi og standi ekki steinn yfir steini. Hóta málaferlum og allt hvað eina.

Fréttin sú arna raunar mjög ónákvæm eins og hún birtist á visir.is, lítið um konkret upplýsingar og í raun ekkert sagt hver nákvæmlega gerði hvað. Eins og einhver einn heimildamaður hafi sagt frá eða sýnt upplýsingar, en ekki látið neitt efni í té.

Eitthvað virðist svo frekar hafa fjarað undan þessari frétt, skiptastjóri Samson kannaðist ekki við millifærslurnar eða FME. Forsvarsmenn Straums neita sömuleiðis öllu.

Ég las í vor sænsku spennusöguna Karlar sem hata konur, hörkufínn reyfari. Á eftir að sjá myndina sem nú er sýnd. Nú vil ég ekki spilla fyrir þeim sem eiga eftir að fara í bíó eða lesa bókina, en get þó greint frá einu atriði sem ekki spillir fyrir spennunni. Í upphafi bókarinnar er önnur söguhetjan, viðskiptablaðamaður, í mikilli kreppu, því hann var mataður á röngum fölsuðum upplýsingum um meinta spillingu mikils viðskiptajöfurs, sá kærði hann fyrir meiðyrði og blaðamaðurinn skíttapaði málinu og trúverðugleika sínum.

Þetta eru  bara svona sakleysislegar hugrenningar... en stundum er raunveruleikinn lygilegri en skáldskapur.

2504262197

 


mbl.is Yfirlýsing frá Karli Wernerssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðufjölmiðillinn Viðskiptablaðið

Forsíða Viðskiptablaðsins Viðskiptablaðið er lesið fyrst og fremst af fólki í viðskiptalífinu,  forsvarsmönnum og stjórnendum fyrirtækja, bankafólki og fræðingum ýmiskonar sem hafa gagn og áhuga á viðskiptafréttum og hagtölum. Fólki sem í könnunum undanfarin ár hefur með miklum meirihluta stutt aðild að ESB, ef frá eru taldir forsvarsmenn sjávarútvegsfyrirtækja.

Því mætti ætla að lesendur blaðsins hafi glaðst yfir ákvörðun Alþingis um að sækja um aðild að ESB, og að blaðið myndi hella sér af fullum krafti í umræðu og analýsu á möguleg áhrif aðildar á viðskiptalífið - meginviðfangsefni blaðsins.

En blaðið hefur greinilega líka áhuga á pólitík og birtir í liðinni viku forsíðumynd þar sem þingmenn VG eru sýndir í skrúfstykki, íklæddir fangabúningum með hlekki um háls og fætur.

Er þetta það sem ritstjórarnir halda að lesendur blaðsins í viðskiptalífinu hafi mestan áhuga á í vikunni eftir að Ísland sótti um ESB aðild?

Ekki getur það verið að nein flokkspólitísk slagsíða sé á ritstjórn Viðskiptablaðsins??

Hvað ætli ritstjórninni finnist um afstöðu nánast allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í málinu? Svona faglega séð, með hagsmuni og áhugasvið viðskiptalífsins að leiðarljósi?

Væri ekki forvitnilegt að sjá Viðskiptablaðið rýna í hvernig standi á því að sá flokkur, sem er í miklum og góðum tengslum við viðskiptalíf og atvinnurekstur, skuli taka afstöðu í þessu máli sem virðist ganga í berhögg við flesta hagsmunaaðila í viðskiptalífinu, sem ætla mætti að kjósi þann flokk umfram aðra?

 


Staða Moggans veikist

... með svona hjákátlegum fréttaskýringum.

Auðvitað er staða varaformannsins síður en svo sterk, en það er útaf allt öðru. Þó svo einhverjir þingmenn kunna að hafa verið í fýlu í gær útí hana trúi ég því ekki að þessi atkvæðagreiðsla hafi veikt stöðu hennar, alla vega ekki í augum kjósenda flokksins, sem ég hygg að kunni að meta þingmenn sem fylgja sannfæringu sinni.

Ekki eru allir kjósendur Sjálfstæðisflokksins á móti Evrópusambandsaðildarumsókn?

Takið ykkur tak, Moggi, og nýtið þann mannskap sem ekki er í fríi til að skrifa alvöru fréttir og fréttaskýringar.

kráka í vörn

Í vörn fyrir sitt lið


mbl.is Staða Þorgerðar Katrínar veikist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús fer á uppboð

Ég hef einu sinni verið viðstaddur nauðungaruppboð. Þetta var snemma árs 2003, í fallegu húsi í Hafnarfirði. Eigendurnir höfðu reynt að selja húsið, en það gekk ekki út af ýmsum lagaflækjum og erfiðri skuldastöðu þeirra. Skömmu fyrir boðaðan tíma þyrptust innheimtulögfræðingar inn í stofu á skónum, heilsuðust og göntuðust, fyrir þeim var þetta allt ósköp hversdagslegt. Þeir voru flestir í svörtum leðurjökkum, eins konar einkennisklæðnaður innheimtulögfræðinga greinilega. Fulltrúi sýslumanns hlammaði sér niður í heimilissófann og opnaði gerðarbókina á stofuborðinu. Heimilisfaðirinn reyndi að bera sig mannalega og týndi til stóla til að fólk gæti sér tyllt sér. Í eldhúsinu sat húsmóðirin með tárvot augu, hún vann heima sem dagmóðir og sátu börnin sem hún gætti í kringum hana. Hún sá fram á að missa ekki bara heimili sitt heldur líka atvinnuaðstöðu. Uppboðið gekk hratt fyrir sig og húsið slegið hæstbjóðanda með hamarshöggi.

Hin hliðin:

En það eru tvær hliðar á flestum málum. Svo er einnig með þessa sögu. Húsráðendurnir höfðu búið í húsinu fína í rúm tvö og hálft ár. Þau höfðu í rauninni aldrei haft efni á að kaupa þetta hús, en fasteignasali gaf þeim gott verðmat á fyrri íbúð og á grundvelli þess sýndi greiðslumat að kaupin væru viðráðanleg. Fyrri íbúðin þeirra seldist svo á 5 milljónum lægra verði en matið sýndi. Fasteignasalinn sem mat íbúðina svo skakkt var sá sami og seldi þeim húsið, tilviljun.

Dæmið gekk aldrei upp, það vantaði jú alltaf fimm milljónir. Íbúarnir skulduðu seljandanum enn nokkrar milljónir, þau höfðu aldrei greitt fasteignagjöld og sama og ekkert borgað af neinu þeirra lána sem hvíldu á húsinu.  Maðurinn rak lítið fyrirtæki sem greinilega skilaði litlu, og fjármálin öll í ólestri svo vægt sé til orða tekið. Með öðrum orðum var óhjákvæmilegt að fólkið myndi fyrr eða síðar hrökklast úr húsinu. Annað hefði í rauninni verið óeðlilegt. Engu að síður var þetta auðvitað sorgarsaga og leiðindamál.

Nýrri saga um húsmissi

bilde?Site=XZ&Date=20090617&Category=FRETTIR01&ArtNo=96616515&Ref=AR&MaxW=260&MaxH=260&NoBorder=1Í vikunni vakti mikla athygli frétt af manni sem misst hafði hús sitt. Í kjölfarið gjöreyðilagði hann svo húsið, á þjóðhátíðardaginn, 17. júní. Bloggarar spöruðu ekki stóru orðin, þetta var táknrænt um ástandið í samfélaginu, maðurinn sannkölluð hetja, skyldi fá fálkaorðu sagði einhver. Maðurinn var að "tjá örvæntingu sína og vekja athygli á hvernig farið er með varnarlausar fjölskyldur sem lentu í klónum á siðlausum bankamönnum", sagði einn mest lesni bloggari landsins, sem undirritaður almennt hefur miklar mætur á.

Fáir töldu þörf á að vita nokkuð um forsögu þessa tiltekna máls áður en þeir tjáðu sig fjálglega. Þingmaðurinn Þór Saari mætti á staðinn (býr sjálfur á Álftanesi) og sótti brak úr húsinu til að færa forsætisráðherra að gjöf.

husbrot2

Hvað vitum við um forsögu málsins? Jú, maðurinn byggði sjálfur húsið, innflutt einingahús, árið 2003. Fréttir herma að maðurinn sé smiður og hafi sjálfur sett húsið saman. Það hefur þá kostað hann á þeim tíma vel innan við 20 milljónir, líklega 17-18. Fullbúin timbureinbýlishús kostuðu á þessum tíma á bilinu 20-24 milljónir. Þess má geta að árið 2003 voru engin myntkörfulán í boði.

Seinna var svo tekið 34 milljón króna erlent lán, m.ö.o. maðurinn notfærði sér, eins og raunar fleiri, að fasteignaverð hækkaði. Hann hefur endurfjármagnað lán á húsinu og veðsett upp í topp, langt umfram það sem hann upphaflega greiddi fyrir húsið. Til hvers þetta lán var vitum ekki, eða af hverju maðurinn veðsetti húsið svo hressilega. Húsið var raunar ekki skráð á hann, heldur fyrirtæki hans sem flutti inn einingahús, og sem hefur komið í ljós að tók við stórum greiðslum frá fólki fyrir hús sem svo aldrei komu til landsins.

Við vitum raunar fleira. Húsið var slegið á uppboði í nóvember 2008. Það vita allir þeir sem til þekkja að nauðungaruppboð er ekki haldið fyrr en venjulega rúmu ári eftir að lán eru komin í vanskil, það má því álykta að maðurinn hafi verið kominn í fjárhagsvandræði löngu áður en gengi féll sem hraðast um vorið 2008, líklega fyrir áramót '07-'08. En auðvitað snarversnaði staðan eftir því sem gengið varð óhagstæðara.

Í ljósi alls þessa tel ég óskaplega vanhugsað að lyfta manninum á stall og líta á sem hetju,og fordæma sjálfkrafa aðgerðir bankans. Eða eru nú allir sem misst hafa tök á fjármálum sínum á síðustu tveimur árum sjálfkrafa píslarvottar bankahrunsins?

Fullt af fólki á virkilega um sárt að binda vegna banka- og gengishrunsins. Ég held að þessi maður sé ekki góður fulltrúi fyrir það fólk.

 

Þess má geta í lokin að Frjálsi Fjárfestingabankinn, sem átti húsið sem var rústað, var dótturfélag SPRON sem FME tók yfir og lokaði. Frjálsi er því væntanlega beint eða óbeint undir forræði FME og eigur þess og skuldir í rauninni eigur ríkisins - okkar skattgreiðenda.


100% heimska - gervivísindi og peningaplokk

Veit ekki með ykkur, ég gat ekki annað en brosað að viðtali við knattspyrnukappa úr KR í Fréttablaðinu sem nota sk. "Lifewave" plástra. Þar má lesa eftirfarandi:

Þetta er í rauninni bara vísindi og ekkert annað. Þetta byggir á gömlu austurlensku fræðunum um nálastungupunkta og orkubrautir líkamans. Með því að setja plástrana á ákveðna punkta er verið að örva rafsegulsvið líkamans. Þetta er ný tækni og plástrarnir koma í staðinn fyrir nálarnar.

Þetta er lokað kerfi. Það eru engin efni, krem eða lyf sem fara inn í líkamann sjálfan heldur eingöngu tíðni. Þessi tíðni verður til við sambland sykurs, súrefnis og blöndu af amínósýrum sem eru inni í plástrinum. Það er í raun og veru bara hómópata-remedíur. Þetta eru náttúruleg efni.

Þessi speki vellur upp úr fyrirliða KR og kynningarfulltrúa Lifewave-plástrana. Af tillitsemi við þá nafngreini ég þá ekki hér. Á vefnum má enn fremur lesa að plástrarnir byggja að auki á nanótækni.

Ef það reynist arða af vitglóru í þessu skal ég borða borðstofuborðið mitt.

Lifwave


Hvað hugsuðu gestirnir??

Er ekki fullt af fólki á Kjarvalsstöðum klukkan tvö á laugardegi? Það er eiginlega óhugsandi annað en að nokkur fjöldi fólks hafi tekið eftir því að eitthvert "skuggalegt" par taki niður málverk og labbi með það út?!  (Það skal þó tekið fram að myndin er bara 61x41,5 cm, en þó stærri en svo að maður feli hana undir kápufaldinum.)

Hugsa allir "það hlýtur einhver annar að eiga að sinna þessu". 

Voru þetta ekki háskólanemar í félagsfræði að gera tilraun og kanna afskiptaleysi fólks og hæfileikann til að horfa fram hjá óþægilegum og undarlegum atvikum? 

Á Hulduströnd

Myndin Á Hulduströnd eftir Jóhannes Kjarval


mbl.is Stálu verki eftir Kjarval
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband