Afar forvitnilegt viðtal er að finna í aukablaði um börn og uppeldi sem fylgdi Morgunblaðinu í gær, föstudag, undir fyrirsögninni Einhleypar konur í tæknisæðingu. Rætt er við Þórð Óskarsson, lækni hjá fyrirtækinu Art Medica sem býður upp á þessa þjónustu. Þetta er víst ný þjónusta, fyrst leyfð í fyrra, svo það er eðlilegt að fyrirtækið vilji auglýsa og upplýsa um þennan möguleika. Á heimasíðu þess stendur raunar að markmið fyrirtækisins sé að hjálpa pörum að eignast barn, en þetta er kannski fyrst og fremst aukabúgrein að aðstoða einhleypar konur.
Tæknisæðing er það þegar sprautað er sæði í leg konu, sem sé sæðing án samfara. Þetta er oft gert til að hjálpa pörum sem eiga í erfiðleikum með að geta barn en eru ekki ófrjó, til að auka líkur á getnaði. Gervifrjóvgun er flóknari aðgerð, en þá er egg tekið úr konu og frjóvgað i tilraunaglasi.
Þórður upplýsir að á annan tug einhleypra kvenna komi í svona meðferð í hverjum mánuði. sem sé á bilinu 140-200 konur á ári. Sæðið kemur utan úr Evrópu, hægt er að panta sæði úr "þekktum" gjafa, þannig að væntanlegt barn geti eftir 18 ára aldur fengið uppgefið nafn blóðföður síns. Þeir gjafar sem heimila slíkt eru þó færri en hinir sem kjósa fulla nafnleynd og þekkta sæðið er dýrara. Flest börn sem fæðast eftir gjafasæðingu fá því aldrei að vita um faðerni sitt, nema hvað ávallt fylgja sæðisskammti upplýsingar um háralit, augnlit, hæð, þyngd og starf.
Mér finnst þetta ansi hreint merkileg þróun. Ég hygg að móðureðlið sé ansi ríkt í hverri konu og skil vel konur sem komnar eru vel yfir þrítugt að vilja ekki missa af þeim möguleika að eignast börn. Hitt er á að líta að það hefur aldrei beinlínis þótt eftirsóknarvert að vera einstætt foreldri. En sumar konur kjósa það greinlega, frekar en að verða ekki foreldri.
Þetta hlýtur samt að vekja alls konar spurningar og heimspekilegar vangaveltur. Ég lít sjálfur hikstalaust á mig sem feminista, en hlýt líka stundum að líta á samfélagið út frá sjónarhóli karls. Ég veit ekki, mér finnst á einhvern hátt svolítið skrýtin tilhugsun að það geti verið algjört einkamál konu að eignast og ala upp barn. Barn sem ekki á nema eitt foreldri (þó síðar geti komið til stjúp- eða fósturforeldri) - lagalega séð nánast eingetið.
Kannski er þetta bara óþarfa minnimáttarkennd. Flestar konur vilja vonandi áfram geta börn með okkur körlum, í eigin persónu, en ekki bara sem sýni í glasi. Því ekki gefst okkur strákunum kostur á að eignast börn nema við nælum okkur í konu fyrst.
Er þessi í bankanum?