Færsluflokkur: Kvikmyndir

Hobbittinn, LOTR, stríðs-"glorification"?

Horfði á Hobbitann í gær og fór svona að velta fyrir mér, eru þessar Tolkien-myndir ekki voðalegar stríðsupphafningamyndir? Þær hverfast um bardaga og stríð, söguhetjur sýna hugrekki með því að handleika glansandi fögur sverð og ráðast að óvini með öskrum og látum undir hetjulegri tónlist, óvinurinn er ómennskur, alvondur og réttdræpur.

Ef ég væri að þjálfa upp hermenn fyrir stríð myndi ég sýna þeim LOTR myndirnar, segja þeim að óvinurinn væru Orcar og að við værum góðu gæjarnir. Því þannig er það alltaf í stríði.

lotr3-battle 


Magma Energy Ltd.

... hljómar svona eins og frontur fyrir vonda kallinn í James Bond mynd, lítt þekkt fyrirtæki sem kaupir upp auðlindir smáríkis og breytir svo með leynibruggi neðanjarðastraumum heita vatnsins svo allt vatn renni inn á svæði fyrirtækisins og okrar svo á íbúum sem fatta ekkert hvað hefur gerst. Myndin gæti heitið "Under High Pressure" eða eitthvað álíka.

Dominic Greene

Segi bara svona...

Þetta er örugglega bara heiðvirt venjulegt fyrirtæki sem sér góðan fjárfestingarkost og vill bara græða pening. Orkuauðlindir eiga bara eftir að verða verðmætari. Í raunveruleikanum er heldur ekki til neinn James Bond sem flettir ofan af svona ráðabruggi.


'Karlar sem hata konur' og stóra millifærslumálið

***WARNING: THIS POST MAY CONTAIN A SPOILER***

 

Sérkennilegt þetta tiltekna mál. Stöð 2 kemur með þessa svaka hasarfrétt, þrír stórlaxar nafngreindir, aflandseyjar, hundruð reikninga, og margar risa-millifærslur.

Stórlaxarnir bregðast hinir verstu við, sárir og svekktir, þetta sé allt haugalygi og standi ekki steinn yfir steini. Hóta málaferlum og allt hvað eina.

Fréttin sú arna raunar mjög ónákvæm eins og hún birtist á visir.is, lítið um konkret upplýsingar og í raun ekkert sagt hver nákvæmlega gerði hvað. Eins og einhver einn heimildamaður hafi sagt frá eða sýnt upplýsingar, en ekki látið neitt efni í té.

Eitthvað virðist svo frekar hafa fjarað undan þessari frétt, skiptastjóri Samson kannaðist ekki við millifærslurnar eða FME. Forsvarsmenn Straums neita sömuleiðis öllu.

Ég las í vor sænsku spennusöguna Karlar sem hata konur, hörkufínn reyfari. Á eftir að sjá myndina sem nú er sýnd. Nú vil ég ekki spilla fyrir þeim sem eiga eftir að fara í bíó eða lesa bókina, en get þó greint frá einu atriði sem ekki spillir fyrir spennunni. Í upphafi bókarinnar er önnur söguhetjan, viðskiptablaðamaður, í mikilli kreppu, því hann var mataður á röngum fölsuðum upplýsingum um meinta spillingu mikils viðskiptajöfurs, sá kærði hann fyrir meiðyrði og blaðamaðurinn skíttapaði málinu og trúverðugleika sínum.

Þetta eru  bara svona sakleysislegar hugrenningar... en stundum er raunveruleikinn lygilegri en skáldskapur.

2504262197

 


mbl.is Yfirlýsing frá Karli Wernerssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumalandið mitt

Sá Draumalandið fyrir skemmstu. Mögnuð ádeila. Rifjaði upp dýrmætar minningar úr ferð minni á virkjunarsvæði Kárahnjúka sumarið 2006. Við ferðafélagarnir gáfum okkur góðan tíma til að skoða svæðið, gistum tvær nætur í bændagistingu í Hrafnkelsdal og höfðum þannig heilan dag til að fara um, bæði keyrandi og gangandi, og kynnast með eigin augum þessum tröllauknu framkvæmdum og ekki síst svæðinu sem fórnað var.

Fyrst lá leiðin að virkjunarsvæðinu. Mannvirkin voru á sama tíma heillandi og ógnvænleg. Þetta er óumdeilanlega verkfræðilegt stórvirki, manngert landslag í sjálfu sér.

Kárahnjúkastífla

Þetta var um verslunarmannahelgi og fjöldi fólks lagði leið sína á svæðið, en flestir létu sér nægja að stoppa á útsýnisstæði sem útbúið var austan við stífluna, en þar voru upplýsingaskilti og sást vel yfir nyrsta hluta svæðisins sem átti eftir að verða lónið. 

upplýsingaskilti

En við höfðum meiri áhuga á svæðinu sunnar, nær jöklinum, svæðinu sem ekki sást frá útsýnisstæðinu. Við keyrðum aftur yfir brúnna frægu (þá sem hafði farið á bólakaf dagana áður) og héldum suður eftir grófum slóða. Lögðum svo og gengum í átt að Kringilsánni, en við vildum sjá Kringilsárfoss, sem einnig var nefndur Töfrafoss, og jafnvel komast yfir í Kringilsárrana.

Þetta var sérstök tilfinning að upplifa svæðið. Hátt uppi, nálægt jökulrönd Vatnajökuls í þvílíkri gróðursæld, sól og bliðskaparveðri. Vitandi að þetta land átti eftir að hverfa. Land, sem sumir stjórnmálamenn létu hafa eftir sér að væri nú "ekkert sérstakt", eins og rifjað er upp í kvikmyndinni.

Lækur

Á leið okkar í leit að Kringilsárfossi. Þetta land er nú undir Hálslóni.

Við fundum fossinn og áðum. Þetta var tilkomumikill foss og allt landlagið um kring. Eitt sem vakti athygli var hvað gróðurinn í fossúðanum var grálitaður, en fossinn úðaði fíngerðum leirúða yfir lyngið, sem sýndi þvílíkt magn af aur berst með jökulsánum og fyllir nú hægt og rólega botn lónsins.

Kringilsá

Kringilsá neðan við Töfrafoss. Horfið.

Töfrafoss

Við gengum niður með ánni, að kláfnum yfir í Kringilsárrana, sem hagleiksmaðurinn Guðmundur á Vaði setti upp, vitandi að hann myndi aðeins gagnast í fáein ár, en nú er hann á 50-75 metra dýpi að ég hygg (fer eftir árstíð og yfirborðshæð lónsins).

klafur2

kláfur

 

Þetta var ógleymanleg ferð og sérstök tilfinning að ganga um land sem yrði ekki til ári síðar, og er nú, tæpum þremur árum síðar, horfið. Var þessi fórn þess virði?  (Fyrir umdeilanlegan ágóða, sem okkur tókst svo á síðasta ári að tapa margfalt í efnahagshruninu.) Mín skoðun var staðföst eftir þessa ferð og hefur ekki breyst.

Ég hvet alla til að sjá kvikmyndina Draumalandið og munum að baráttunni fyrir landinu okkar er langt í frá lokið.

Lítill foss sem rennur í Kringilsá

í Kringilsárrana

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband