Færsluflokkur: Mannréttindi

Með annars barn í móðurkviði??

Nokkur umræða hefur nú aftur sprottið upp um staðgöngumæðrun. Greinar um málið hafa birst á vefritunum knuz.is og skodun.is:

Að leigja leg eins og geymsluskápa

Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni

Að gefa líffæri eins og varahluti - hugleiðing um staðgöngumæðrun

Mér finnst þó besta greinin um málið sem ég hef rekist á á íslensku þessi hér, sem er næstum þriggja ára, eftir Ástríði Stefánsdóttur:

Álitamál tengd staðgöngumæðrun

Eins og ég skrifaði um í síðasta pistli hefur mér fundist rökstuðningur gegn staðgöngumæðrun á köflum ósannfærandi. En þetta er engu að síður vandasamt og viðkvæmt umfjöllunarefni, sem ég er ekki reiðubúinn að styðja skilyrðislaust.

Í Bretlandi hefur staðgöngumæðrun verið leyfð. Bretar hafa þó gætt vel að einu mikilvægu skilyrði sem ekki hefur verið nægilega rætt hér: Staðgöngumóðirin hefur full yfirráð yfir sínum líkama meðan á meðgöngunni stendur. Dómstólar taka ekki til greina bindandi samninga um að staðgöngumóður beri að afhenda barn. (Sjá t.d. hér: www.gov.uk/rights-for-surrogate-mothers)

Þetta fyrirkomulag gerir staðgöngumæðrun alls ekki ómögulega. Það er mjög fátítt að staðgöngumóðir skiptir um skoðun. (Það gæti líka gest en er alveg örugglega mjög fátítt, að þegarnir sem bíða eftir ófæddu barninu snúist hugur. Við komum aldrei algjörlega í veg fyrir þess háttar vanda, ekki frekar en þegar börn verða til með hefðbundnum hætti. Það þarf bara að vera klárt hver er réttur hvers, og að réttur barnsins sé í fyrirrúmi.)

Í mínum huga er þetta algjört lykilatriði - ófætt barn ER barn þeirrar móður sem gengur með það. Annað er að mínu mati siðferðislega óverjandi.

Sumir hafa líkt staðgöngumæðrun við líffæragjöf. Þetta eru þó eðlísólík fyrirbæri þó sumt sé svipað. EN jafnvel þó ég hafi samþykkt að gefa annað nýrað úr mér til náins ættingja, þá er það mitt nýra alveg þangað til læknar hafa fjarlægt það. Ef mér snýst hugur daginn fyrir fyrirhugaða aðgerð þá er það vissulega mjög bagalegt fyrir marga en ég hef til þess óumdeildan rétt, það kæmi aldrei lögregla heim til mín til að taka mig með valdi uppá spítala í nýrnabrottnám.

Ég ræð yfir mínum líkama. Punktur.

Fóstur er hluti af líkama konu. Uppruni kynfrumna breytir því ekki neitt. Þetta skilyrði verður að liggja til grundvallar allri umræðu um staðgöngumæðrun. Annars erum við komin á háskalegar brautir. 

 

baby 


Veik "þrýstings"rök gegn staðgöngumæðrun

Þau rök heyrast furðulega oft sem ein helstu rök gegn staðgöngumæðrun, að ef staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni yrði leyfð þá gætu konur orðið fyrir svo miklum þrýstingi að gerast staðgöngumæður fyrir systur eða nánar vinkonur sem óskuðu eftir slíkri þjónustu. Rökin eru sem sé að vegna þessa þrýstings myndu kannski sumar konur taka slíkt að sér án þess að vera raunverulega sáttar við það.

Þetta er ekki sterk rök.

Konur  (og karlar) verða fyrir alls konar þrýstingi. Kona sem á kærasta verður fyrir miklum þrýsting ef hann biður hana að giftast sér. Er víst að hún geti staðist þann þrýsting? Segir hún 'já' bara til að þóknast kærastanum?

Kona sem á mann sem langar í börn getur orðið fyrir miklum þrýstingi frá honum að eignast barn. Getur verið að hún láti undan þeim þrýstingi og verði ólétt vegna óska mannsins?

Hvað með konu sem á systur sem er um það bil að verða gjaldþrota og missa íbúðina sína og biður systurina um aðstoð, verður sú kona fyrir miklum þrýstingi?

Kona sem yrði spurð hvort hún gæti gerst staðgöngumóðir yrði ekkert fyrir meiri þrýstingi en í fólk í ýmsum öðrum aðstæðum sem spurt er um erfiða hluti. Það eru ekki alvöru rök gegn staðgöngumæðrun, að þessi "þrýstingur" yrði svo óbærilegur að konur myndu samþykkja slíka bón gegn eigin sannfæringu. 

Ég tel sjálfur önnur rök miklu veigameiri. Þau helstu eru þau, að það er að mínu mati ekki hægt að aðskilja (lögfræðilega, siðferðilega) fóstur í móðurkviði og móður þess. Við lítum svo á flest að fóstur sé ekki orðið að sjálfstæðum einstaklingi snemma á meðgöngu, móðir og fóstur er ein manneskja, einn líkami, með vísi að öðrum einstaklingi.

Umræða um staðgöngumæðrun og undirbúningur að hugsanlegri löggjöf um slíkt ætti að taka mið af því.

 


Þjóðkirkjan hefur EKKI tekið skýra afstöðu með hjónabandi samkynhneigðra

Ótal sinnum síðustu daga og vikur hef ég séð Biskup Íslands endurtaka þau orð, að Þjóðkirkjan hafi tekið "skýra afstöðu með samkynhneigðum, réttindabaráttu þeirra, fjölskyldum og hjónabandi" (t.d. hér á heimasíðu Biskupsstofu.)

Þjóðkirkjan sem stofnun hefur alls ekki tekið "skýra afstöðu" með hjónabandi samkynhneigðra. Þjóðkirkjan leyfir starfsmönnum sínum, prestum kirkjunnar, að vera á móti hjónaböndum samkynhneigðra og heimilar prestunum að sýna slíka andstöðu í verki í starfi sínu með því að neita samkynhneigðum um hjónavígslu.  

Þetta er kallað að prestar hafi "samviskufrelsi" til að vera mótfallnir hjónabandi samkynhneigðra.

Það er í mínum huga Orwellskt "Newspeak" - öfugmæli - hjá Biskupi, að segja að kirkjan hafi tekið skýra afstöðu með hjónabandi samkynhneigðra, þegar sannleikurinn er sá að kirkjan hefur alls ekki gert það!

Franklin Graham gæti eflaust orðið fínasti Þjóðkirkjuprestur. Maðurinn er elskulegur, sanntrúaður og góður predikari. Hann er vissulega mikið á móti hjónabandi samkynhneigðra, en það er engin fyrirstaða gegn því að vera Þjóðkirkjuprestur. Þjóðkirkjuprestar mega vera á móti hjónaböndum samkynhneigðra og mega neita samkynhneigðum um þjónustu.

Þetta er svona pínu svipað eins og ef bandarískt rútufyrirtæki árið 1963 hefði sagt: "Við höfum tekið skýra afstöðu með blökkumönnum og réttindabaráttu þeirra", en gefið bílstjórum sínum "samviskufrelsi" til að neita að aka með svarta farþega.


mbl.is „Hver einstaklingur er dýrmætur í augum Guðs“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brynjar Níelsson fer með rangt mál

Þingmaðurinn Brynjar Níelsson skrifar pistil á bloggi sínu um ríkisrekstur og almannaþjónustu, sem kemur inn á Þjóðkirkjuna og tengsl hennar við ríkið: Formaður Vantrúar og frjálshyggjan.

Margt er að athuga við grein Brynjars. Ég vil sérstaklega staldra við þessi orð Brynjars:

Til að koma í veg fyrir allan misskilning innheimtir ríkið sóknargjöld fyrir þjóðkirkjuna eins og önnur trúfélög. 

Þetta er rangt.

Það vita þeir sem kynnt hafa sér málið. Ég skrifaði grein um þetta sem birtist fyrir rúmri viku í Fréttablaðinu og visir.is: Ríkið innheimtir ekki sóknargjöld.

Það kemur ekki á óvart að Brynjar haldi þessu fram, líkast til gegn betri vitund. Það hafa fleiri gert á undan honum og margir munu halda því áfram.

Upplýstur þingmaður á að vita hvernig þessum málum er háttað.  


Var Jesús örvhentur?

Borgarstjóri ónefndrar borgar kastaði fram þeirri spurningu hvort Jesús Kristur hefði mögulega verið örvhentur. Og viti menn, hópur fólks brást hinn versti við, ásakaði borgarstjórann fyrir að niðurlægja kristindóm og kirkjuna, sögðu jafnvel að orð hans væru guðlast og brot á stjórnarskrá!

Eða hvað?

Hvað er svona hræðilegt við að vera örvhentur?

Ef einhverjum finnst það svona hræðilegt að velta því upp hvort Jesús hafi verið örvhentur, segir það ekki bara meira um viðkomandi, að hann eða hún sé með óheilbrigð og fordómafull viðhorf?

Hvaða spurningar finnst þér niðurlægjandi og niðrandi? 

  • Var Jesús rauðhærður?
  • Var Jesús lesblindur? 
  • Var Jesús blökkumaður?
  • Var Jesús arabi?
  • Var Jesús vöðvastæltur snöggklipptur Litái með tattú?
  • Var Jesús vinstrisinni?
  • Bjó Jesús í Asparfelli?
  • Var Jesús ESB-andstæðingur?
  • Var Jesús hommi? 

 

 


HALLÓ Moggi !!!

Þegar lögmaður er sækjandi í hvorki fleiri né færri en þremur ærumeiðingarmálum fyrir hönd mjög frægrar og umdeildrar "celeb" fjölmiðlafígúru (skv. 8. mest lesnu frétt mbl.is) þá er sá lögmaður ekki hlutlaus og heppilegur til að tjá sig á sama tíma almennt um slík mál.

 "lögin eru alveg skýr" segir fjölmiðlavæni lögfræðingurinn. Já auðvitað segir hann það. Það hentar hans málflutningi fyrir sinn skjólstæðing að presentera málin sem svo að allt sé þetta kýrskýrt, skýr lög og skýr brot.

Ekki veit ég hvort þessi lög sé góð eða slæm en ef lögin eru í lagi þá er eitthvað meira en lítið í ólagi hjá dómurum og dómstólum landsins, því meiðyrðadómar sem fallið hafa undanfarin misseri eru beinlínis ógnvekjandi og varpa skugga á málfrelsi í landinu.

Mogginn mætti gjarnan ræða það vil HLUTLAUSAN lögfræðing. 


mbl.is „Vettvangurinn skiptir engu máli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstætt trúfélag eða ríkisstofnun? - Eða hvoru tveggja?

Þjóðkirkjan skilgreinir sig með mismunandi hætti allt eftir tilefni og samhengi. Þegar gagnrýnt er að kirkjan njóti óeðlilegs stuðnings frá ríkinu og talað fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju leggja talsmenn kirkjunnar áherslu á að Þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag, nánast eins og hvert annað trúfélag, nema með sérstaka samninga við ríkið.

En þegar talið berst að því hvort ekki skuli klippa alveg á tengsl ríkis og kirkju og gagnrýnt að eitt trúfélag - í trúfrjálsi ríki - hafi sérstök tengsl við ríkið og njóti verndar og stuðnings ríkisvaldsins, þá er gert lítið úr trúfélagshlutverkinu og talað um kirkjuna sem einhverskonar þjónustustofnun. Hvað er Þjóðkirkjan, í eigin augum?

 

Þjóðkirkjan er opin, lýðræðisleg almannahreyfing sem heldur uppi þjónustu og mannræktarstarfi um land allt.

 

(úr ályktun aukakirkjuþings í gær, 1. september. Í ályktuninni er hvorki minnst á að kirkjan sé sjálfstæð né trúfélag.)

 

Þjóðkirkjan er frjálst og sjálfstætt trúfélag.

 

(Frá heimasíðu Þjóðkirkjunnar, undir fyrirsögninni 'Hvað er Þjóðkirkjan'?)

Þjóðkirkjan er stofnun sem hefur á að skipa vel menntuðu fagfólki um land allt, sem er til þjónustu reiðubúið hvenær sem er, fyrir allan landslýð hverrar trúar eða trúfélags sem hann telst til.

 

(Agnes Sigurðardóttir, í bréfi til kjörmanna fyrir biskupskosningar 2012) 

 

Kirkjan er sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu ... Þegar nær er skoðað, þá er kirkjan sjálfstætt trúfélag að lögum, en með samninga við ríkið á ýmsum sviðum eins og gildir um fjölmörg frjáls félög. Spurningin um aðskilnað ríkis og kirkju er því tímaskekkja ...

(úr pistli séra Gunnlaugs Stefánssonar á tru.is frá 19.10.2010)  

 

Gengur þetta tvennt upp, annars vegar að vera trúfélag sem er grundvallað á mjög ákveðnum trúarkenningum, ritum og trúarjátningum, og að vera ríkisrekin þjónustustofnun sem býður öllum þjónustu, óháð trú og trúfélagsaðilld? Nú vil ég alls ekki gera lítið úr þessari þjónustu kirkjunnar, en minni á að fjölmargir vilja ekki þiggja slíka þjónustu trúfélags eða greiða fyrir hana með sköttum.   

 

Þjóðkirkjan - sjálfstætt trúfélag, ríkisstofnun, eða hvoru tveggja?

 
mbl.is Ákvæði um þjóðkirkju verði í stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig eru kirkjuheimsóknir í Hafnarfirði?

Af því Hafnarfjarðarklerkur fussar og sveiar hér yfir reglum Reykjavíkurborgar um heimsóknir skólanemenda með skólum sínum í kirkjur og aðra helgistaði trúfélaga er rétt að spyrja:

Hvernig fara slíkar heimsóknir fram í Hafnarfirði? Eru nemendurnir látnir spenna greipar og biðja til Guðs almáttugs?


mbl.is Bannað að fara með faðirvorið á aðventu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ekki meirihlutinn að fá að ráða?

Í einbýlishúsahverfinu Arnarnesi í ímyndaða svefnbænum Arfabæ býr gott og fallegt fólk í glæsilegum húsum. Um 78% íbúa á Arnarnesi eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn. Það er með öðrum orðum “norm” á Arnarnesi í Arfabæ að vera í Sjálfstæðisflokknum og styðja hann.

Fyrir því er löng hefð að skrifstofustjóri hverfafélags flokksins komi í skólann og sinni kennslu í samfélagsfræði. Í þeirri kennslu er stefnu Sjálfstæðisflokksins hampað og saga helstu máttarstólpa hans sögð í fögru ljósi. Nemendur fá myndir, svipaðar fótboltaspjöldum, af þeim Ólafi Thors, Bjarna Ben og Jóni Þorlákssyni. Yngri bekkirnir lita myndir af Perlunni, Viðeyjarstofu og Þingvöllum sem kynntir eru sem helgir staðir og þeim er kennt að traust og gott siðferði Arfbæinga, og í raun allt gott siðferði, sé sprottið frá Sjálfstæðisflokknum.

Fáeinar fjölskyldur hafa mótmælt þessu, það eru helst “kommafjölskyldurnar” í litlu dönsku 180 fm timbureinbýlishúsunum. Komið hefur verið til móts við þessar vandræðafjölskyldur með því leyfa börnum þeirra að fara á skólabókasafnið og horfa á sænskar heimildamyndir meðan hin börnin sitja og nema í samfélagsfræðitímunum.

Í áttunda bekk fara flestir nemendur á tveggja daga ræðu- og leiknámskeið flokksins úti á landi og fá frí frá kennslu á meðan. Flokkskennarinn spyr öll börnin, “Ætlar þú að koma með á ræðunámskeið?” ”Af hverju ekki?” spyr hann þau sem svara neitandi. “Trúir þú ekki á stefnu Sjálfstæðisflokksins??” Þau sem ekki fara með í ferðalagið mæta í skólann og dunda sér eitthvað, til að fara ekki fram úr hinum krökkunum.

Ný fjölskylda í hverfinu hefur verð með hávær mótmæli og kvartað til skólayfirvalda. Hún vill úthýsa flokknum alfarið úr skólastofunum. Þetta finnst flestum Arfbæingum ansi langt gengið, ekki síst íhaldssama ritstjóranum Ólafi Arnlufsen, sem spyr "Hvernig væri að meirihlutinn léti nú í sér heyra?" Löng hefð sé fyrir þessu fyrirkomulagi og ótækt að umbylta góðum gildum útaf einhverju ofstækisfullu umburðarlyndi. Þrátt fyrir allt sé meirihlutinn sáttur við að hafa þetta svona áfram.

Á meirihlutinn að beygja sig fyrir háværum minnihluta?

 

Loftmynd af Arnarnesi í Arfabæ.


Um sóknargjöld

Gott mál að innanríkisráðherra sé að skoða þetta sjálfsagða sanngirnismál. Fólki er frjálst að trúa - eða trúa ekki. Það getur ekki talist eðlilegt í nútímasamfélagi að ríkið styrki í stórum stíl tiltekna trú á yfirnáttúruleg fyrirbæri, jafnvel þó svo í nafni þeirrar trúar sé rekin ýmiskonar falleg og gagnleg samfélagsþjónust

 Í svari ráðherra við fyrirspurn varaþingmannsins segir m.a.

stjórnvöld styrki enn fremur eiginleg trúfélög beint með innheimtu sóknargjalda en veraldleg lífsskoðunarfélög, sem vilja veita sömu þjónustu til sinna félagsmanna, fái engan stuðning.

Blessuð sóknargjöldin já. Þau eru jú ekki innheimt sem slík, heldur hluti tekjuskatts og hafa verið síðan staðgreiðslukerfi var komið á. Það er ekki innheimt sérstakt sóknargjald, trúfélög fá einfaldlega greidd sóknargjöld úr ríkissjóði í hlutfalli við sóknarbörn, án tillits til þess hvort þau sóknarbörn greiði tekjuskatt eða ekki.Nú má vera að þegar tekjuskattsprósentan var ákvörðuð við innleiðingu staðgreiðslukerfisins hafi tiltekinn hluti hennar verið hugsaður sem sóknargjöldin, en það breytir því ekki að sóknargjöldin eru einfaldlega greidd úr rikissjóði. Með sama hætti mætti segja að greidd séu skólagjöld í grunnskóla, þau séu einfaldlega innheimt sem hluti tekjuskatts.

Ef ríkið vill áfram veita trúfélögum þessa þjónustu, að "innheimta" sóknargjöld í gegnum skattkerfið má það svo sem gera það, en í guðanna bænum, ekki innheimta líka sóknargjöld af þeim sem ekki eru í neinni sókn og standa utan allra trúfélaga.

Meira um þetta hér: Ég styð Krossinn


mbl.is Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband