Jan Dismas Zelenka

Dresden var um aldir höfuðborg Saxlands og mikil menningarmiðstöð. Borgin skartaði einstaklega glæsilegum borgarkjarna í barokk- og rokkokóstíl, þar sátu kjörfurstar og síðar konungar Saxlands sem studdu dyggilega við menningarlíf borgarinnar. Frá tímum Ágústusar I kjörfursta höfðu laðast til borgarinnar framúrskarandi tónlistarmenn, arkitektar og málarar og borgin var miðstöð æðri menntunar og verkfræði auk lista.

Þangað kom Jan Zelenka, um það bil þrítugur að aldri, sem bassaleikari við konunglegu hljómsveit borgarinnar. Hann var fæddur og uppalinn í litlu sveitaþorpi í Bæheimi, Louňovice (nú í Tékklandi), sonur organista og skólameistara. Lítið er vitað um æsku hans, en ætlað er að hann hafi numið tónlist í Jesúítaskóla í Prag fyrir komuna til Dresden. Í Dresden var hann í háborg tónlistar þessa tíma. Þar starfaði ein allra fremsta hljómsveit Evrópu, tónlist gerjaðist og þaðan bárust um álfuna straumar og stefnur. Zelenka ávann sér virðingu, hann aðstoðaði um árabil hoftónlistarstjórann, en hlaut sjálfur ekki þá stöðu. Hins vegar var hann skipaður kirkjutónlistarstjóri hirðarinnar 1735. Johann Sebastian Bach var skipaður í sömu stöðu ári síðar við hlið Zelenka, Bach og hann þekktust og var Zelenka eitt af uppáhaldstónskáldum Bach. Sjálfur bjó Bach í Leipzig, sem ekki er langt frá Dresden og var einnig í ríki Saxlandskonungs. Aðdáendur Bach ættu hiklaust að kynna sér verk Zelenka, sem gefa þeim ríkari sýn í tónlistararf þessa tíma.

Zelenka kvæntist ekki og lítið vitað um hans persónulega líf. Tónlist hans er fyrst og fremst kirkjuleg og hann hefur verið trúaður. Hann var skírður millinafni guðspjallamanns, Lúkas, en tók sjálfur upp þess í stað nafnið Dismas. Dismas er óvenjulegt biblíunafn en það nafn er í síðari tíma guðspjöllum gefið öðrum ræningjanna tveggja sem dæmdir voru og krossfestir með Jesú. Barrabas var hinn, en Dismas var sá sem iðraðist. Engar heimildir höfum við fyrir því af hverju Jan Lukas tók þessa óvenjulegu ákvörðun. Engin mynd er heldur varðveitt af tónskáldinu, svo vitað sé. Trúarvissu tónskáldsins má skynja í tónlist hans. Eitt sitt stærsta og glæsilegasta verk, Missa Votiva, samdi hann 1739, eftir áralöng erfið veikindi, hann hafði heitið sér því að semja stórbrotna messu ef hann skyldi ná heilsu. Ýmsir hafa borið verkið saman við Sálumessu Mozarts, þar sem þau bæði bera vitni hverfulleika lífs og í verkunum báðum skiptast á dularfullir kaflar þrungnir trega við lotningarfulla lofsöngva. Á meðan greina má vissa örvæntingu í verki Mozarts virðist Zelenka hins vegar leggja meira traust á almættið. Það er meira sem er heillandi við tónlist Zelenka, hún líkist vissulega á margan hátt verkum samtímamannanna Bach og Handel, en er samt öðruvísi og sérstök, annar hrynjandi, sem kannski endurspeglar tékkneska upprunan, ekki sams konar formfesta og hjá þýsku meisturunum en tónmálið svo einstaklega ljóðrænt og hrífandi. Ýmsir lýsa því sem svo að hann noti tónmyndir af svipaðri sköpunar- og frásagnargleði eins og synfónisk tónskáld löngu síðar. Zelenka lést 1745, 66 ára að aldri. Hann hafði á seinustu árum sínum, sem betur fer, safnað saman og skipulagt nótnasafn sitt, sem var varðveitt tryggilega eftir hans daga. Einum of tryggilega næstum því, því fáir komust til að skoða verkin næstu 200 árin. Á seinustu árum hafa menn uppgötvað þennan fjársjóð og heillast af meistaraverkum Jan Zelenka. Eitt það glæsilegasta, áðurnefnd Missa Votiva, verður flutt í fyrsta sinn á Íslandi næsta sunnudag 20. mars og miðvikudag 23. mars í Fella- og Hólakirkju, af Söngsveitinni Fílharmóníu og Bachsveitinni í Skálholti. Komið með í tímaferðalag og kynnist af eigin raun verðskulduðum meistara!

dresden


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband