22.9.2011 | 23:19
Eru Vestfirðingar málhaltir?
Horfði á frétt í vikunni í Kastljósi af reiðu suður-Vestfirðingunum sem gengu af fundi með innanríkisráðherra, af því hann vill ekki leggja veg eins og þeir vilja. Í fréttinni var svo talað við tvo bæjarstjóra héraðsins sem lýstu því hversu skelfilegt þetta yrði fyrir héraðið, íbúar sumra byggðakjarnanna þyrftu nú að fara yfir 8 heiðar á leið sinni suðu til höfuðborgarinnar. (Þeim myndi fækka niður í sex ef íbúarnir fengju draumaveginn sinn.) Fram kom líka að framkvæmdir og skipulag hafi tafist vegna málaferla við landeigendur, svo tafir eru alls ekki eingöngu stjórnvöldum að kenna. Samt er nú látið eins og ráðherrann ætli eins síns liðs að flæma alla íbúa af svæðinu með handónýtum vegi.
Margt var ekki sagt í fréttinni. Ekki var minnst á hversu hátt þessir umræddu "hálendisvegir" liggja yfir sjávarmáli. (Þeir fara víst upp í 160 metra hæð, svolítið láglent hálendi það.) Ekki var talað um hvernig fyrirhugað vegstæði nýs vegar yfir hálsana væri í samanburði við gamla veginn sem nú er, hvort komist verði hjá bröttum brekkum og kröppum beygjum, ekkert var minnst á vegalengdir, þ.e. hvort einhverju munar í nýjum vegi yfir hálsana tvo eða strandvegi, ekki var minnst á snjóalög á svæðinu og hvort gamli vegurinn sem nú er sé oft ófær á veturna. Sem sagt, engar upplýsingar sem gætu hjálpað manni að taka afstöðu í málinu!
Hvað varð um það að menn færi rök fyrir máli sínu? Tíni til upplýsingar, staðreyndir og röksemdir. En grenji ekki bara og berjist fyrir sínu með frekjunni einni saman. Eru Vestfirðingar nokkuð málhaltir? Eða voru þeir bara TÁKNMYND Íslendinga í dag, sem kunna ekki að hlusta og tala saman og komast að skynsamlegri og málefnalegri niðurstöðu.
Horft út Djúpafjörð, af Hjallahálsi.
Meginflokkur: Umhverfismál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.